Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Það er til lausn

Spilafíkn er ekki einungis slæmur ávani, heldur mjög erfiður og skæður sjúkdómur. Á svipaðan hátt og fólk verður háð áfengi eða fíkniefnum verða spilafíklar haldnir óstjórnlegri löngun til að leggja undir fé í ýmis konar fjárhættuspilum. Fjárhættuspil snúast um spennuna og hasarinn sem fylgir fjárhættuspilum er eins og að taka róandi lyf eða örvandi til að koma spilarnum í rétta stuðið og líðanina.

Þessi áhrif hverfa svo aftur þegar fjárhættuspilarinn þarf að horfast í augu við raunveruleikann, tapaða peninga og tíma. Eftir sem stressið og álagið eykst finnst fjárhættuspilaranum að hann verði að leita sér fróunar í enn meiri spilamennsku. Afleiðingin verður stigversnandi tilfinningalegt og fjárhagslegt öngþveiti sem getur leitt til hruns bæði fjárhættuspilarans og fjölskyldu hans. Spilafíkn getur þjakað fólk á öllum aldri jafnt unga sem aldna af báðum kynum, sama hver staða þeirra er eða fjárhagsgeta.

Þegar talað er um úrræði við spilafíkn er átt við hvers konar samstarf spilasjúklingsins við einhvern meðferðaraðila, hver svo sem það er. Hentugasta formið er stuðningshópvinna, þar sem spilafíklar vinna saman í hóp undir handleiðslu ráðgjafa. Umræða á stuðningshópfundinum og áætlanir þátttakendanna þurfa að snúast ákveðin verkefni sem við vinnum. Hugsanlegt er að skipuleggja samvinnu í viðtalsmeðferð á þessum grundvelli, en þeir sem reynsluna hafa mæla eindregið með stuðningshópvinnunni.


Sjálfsvirðing

Sjálfsvirðing er manninum frumnauðsyn.  Sjálfsvirðing segir til um hvernig okkur líður sem manneskjum á hverjum tíma, þ.e.a.s. í nútíð. 

Stundum spyrjum við einhvern hvernig líðan hans sé og okkur er svarað á þessa leið : Ég ætla ekki að segja þér hvernig mér leið þegar ég kom of seint í kirkjuna á brúðkaupsdaginn minn,  slíkt svar er ekki svar frekar en þetta : Ég skal segja þér hvernig mér líður þegar ég er búin að vera án víns í eitt ár.  Það er heldur ekki svar, að spá fram í tímann. 

Svara ber hér og nú ef nokkurt gagn á að vera í því.  Okkur líður nefnilega vel eða illa og jafnvel einhvers staðar þar á milli.

Við höfum yfirleitt fundið tilfinningum okkar nöfn, þannig að við getum merkt þær.  Ef við segjum að okkur líði vel, þá getur það merkt t.d. að við séum ánægð, södd, glöð, kát og margt fleira.  Ef við segjum að okkur líði illa, þá getur það þýtt að við séum taugaóstyrk, kvíðin, þunglynd, einmana, sakbitin, reið, hefnigjörn eða í heimsins mestu fýlu.

Of margir unglingar sjá sjálfan sig ekki í réttu ljósi og eru með sjálfsmynd í molum.  Þú glímir við ýmislegt í lífinu en mikilvægasta verkefnið í lífinu er að móta sjálfan þig og styrkja sjálfsmynd þína og það verkefni tekur alla ævi.  Oft erum við óánægð með ljósmynd af okkur, við erum of feit, of grönn, of hvít, horfum asnalega, brosum asnalega, með skrýtinn munnsvip, með lokuð augun og svona mætti lengi telja. 

Það sama á við um sjálfsmynd, við erum sjaldan fullkomlega ánægð.  Jákvæð sjálfsmynd ætti að vera markmið þitt.  Þeir sem hafa jákvæða sjálfsmynd eru öruggir með sjálfa sig, taka auðveldlega hrósi og gagnrýni og eiga auðveldara með að takast á við lífið.  Fjölskylda vinir og fjölmiðlar hafa mikil áhrif á hugmyndir þínar um hver þú ert, hvernig þú eigir að vera, hvað þú eigir að gera, hvernig þú eigir þú eigir að hugsa.

Vertu samkvæmur sjálfri(um)  þér og framkvæmdu í takt við tilfinningar þínar og skoðanir, ekki í takt við skoðanir annarra eða til að gleðjast öðrum.


Saga móður

Eitt stærsta vandamálið sem ég hef átt við að stríða sem móðir var að viðurkenna þá staðreynd – og hætta að loka augunum fyrir henni – að barnið mitt væri fíkniefnaneytandi.

Ég vissi að ég hafði séð barninu mínu fyrir umhverfi sem var laust við fíkniefni. Ég vissi einnig að ég hafði margoft minnst á þau áhrif sem fíkniefni hafa á börn. Barnið mitt tók mikinn þátt í skátastarfi og íþróttum og fjölskyldan fór oft til kirkju. Þessa vegna var engin hætta á því að barnið mitt færi að neyta fíkniefna. Sú hugsun hafði aldrei hvarlað að mér þegar það gerðist.

Ýmis atvik leiddu mig í allan sannleika um það og ég gat ekki lengur neitað því að barnið mitt væri farið að neyta fíkniefna. Áhuginn fyrir íþróttum minnkaði. Einkunnirnar í skólanum fóru lækkandi. Þegar kennarinn sagði mér að barnið mitt væri hætt að fylgjast með í skólanm og sofnaði jafnvel fram á borðið hélt ég að ég hefði ráð við því: bara flýta háttatímanum – barnið mitt væri bara þreytt. Það hafði dregið mjög úr boðskiptum milli okkar – gerðist slíkt ekki einmitt á vissu tímabili á bernskuskeiði? Ég fann litla plastpoka þegar ég fór að leita að einhverju, en þeir voru alltaf tómir. Nokkur frækorn í vasanum sýndust ekki svo hættuleg. Mér tókst jafnvel að finna eðlilega skýringu á þessum tveim litlu pípum sem ég fann. Ég varð vitni að því aðeins einu sinni að barnið mitt átti erfitt með að gagna eftir ganginum þegar það var á leið í rúmið. Þetta væri ekki honum að kenna. Einhver hafði narrað hann til að drekka áfengi.

Ég var svo frá mér af örvæntingu að ég vildi ekki viðurkenna að barnið mitt væri orðið svona háð fíkniefnum. Ég var haldin slíkri afneitun. Hvað mundi fólk halda? Hvert gætum við leitað eftir hjálp? Ég hafði vissulega misst tökin og að sjálfsögðu hafði ég samviskubit. Ég var gripin vonleysi og ég var reið. Ég fór því að óttast um líf barnsins míns.

Fjölskyldulífið fór úr böndunum. Við lifðum í andrúmslofti vonlausrar örvæntingar. Við æptum hvert á annað á óviðeigandi tímum. Ég fór jafnvel að kvíða því að koma heim úr vinnu. Svo virtist sem lífið veitti okkur enga ánægju lengur. Það var jafnvel orðið erfitt að vera glaður.... eða hlæja.
Ég gat ekki lengur neitað staðreyndum eftir það sálræna áfall þegar barnið mitt hljópst að heiman, án þess að kveðja eða taka með sér föt eða peninga – hann bara hvarf.

Þegar ég loks viðurkenndi þann hræðilega vanda sem fíkniefnin höfðu valdið í lífi barnsins míns fór ég að leita leiða til að bjarga lífi þessarar ungu manneskju. Í nær tvö ár var ýmislegt reynt til að vinna bug á þessum vanda. Ég ræddi við presta, fékk hjálp hjá sérfræðingum bæði fyrir fjölskylduna og barnið og stuðlaði að stuttri afeitrunarmeðferð og réði sérkennara. Ég vissi ekki þá að hér var ekki aðeins um að ræða svolítið “hass og áfengi”, heldur neyslu ýmissa efna.

Ég fékk áhuga á foreldrhóp á vegum foreldrsamtakanna Vímulausrar æsku, sem var að reyna að takast á við fíkniefnaneyslu unglinga. Ég sótti fundi, hlustaði í fyrirlestra, reynslusögur o.s.frv. Stuðning og hjálp veitti fólk sem hafði áður neytt fíkniefna en síðan hætt því. Barnið mitt og öll fjölskyldan hafa nú tekið þátt í foreldrahópnum í nær hálft annað ár og lífið er orðið svo miklu betra.
Við erum farin að geta tjáð tilfinningar okkar hvert fyrir öðru. Við látum í ljós mikinn stuðning og kærleika og lífið er orðið eins og það var áður en fíkniefnin komu til sögunnar. Sjálfsálitið, sem var alveg horfið, er farið að byggjast upp aftur og við eygjum von í framtíðinni, von fyrir fjölskylduna og líf barnanna hefur breyst til batnaðar.

Fíkniefnaneytandi verður að losa við fíkniefnin í eitt skipti fyrir öll. Einn sopi af áfengi eða ein hasssígaretta getur komið honum alveg niður á botninn aftur, þar sem hann hefur enga stjórn á lífi sínu og framtíð. Mikilvægt er að hafa áætlun og stuðningshóp til að hjálpa manni, vegna þess að það er ævilögn barátta að halda sér fíkniefnalausum
.


Hamingjan er lífið

Um Hamingjuna Við teljum okkur trú um að lífið verði betra eftir að við: göngum í hjónaband, eignumst barn og síðan þegar við eignumst annað barn. Síðan verðum við ómöguleg yfir því að börnin eru enn svo ung og teljum að við verðum miklu ánægðari er þau eldast.

Þegar það gerist verðum við pirruð á því að þurfa að takast á við unglingana okkar og teljum okkur verða ánægðari þegar þeir vaxa upp úr því aldursskeiði. Við teljum okkur trú um að við munum öðlast meiri lífsfyllingu loksins þegar: maki okkar tekur sig taki, þegar við fáum betri bíl, þegar við komumst í almennilegt frí eða þegar við setjumst í helgan stein.

Sannleikurinn er sá að það er ekki til betri tími til að verða hamingjusamur heldur en einmitt núna!…....... Því ef ekki núna..... hvenær þá? Lífið er alltaf fullt af vandamálum. Það er best að horfast í augu við það og ákveða að vera hamingusamur þrátt fyrir það. Alfred D. Souza sagði eitt sinn: “Lengi vel fannst mér alltaf sem lífið væri rétt að byrja – þetta eina sanna líf. En það var alltaf eitthvað sem stóð í vegi fyrir því, eitthvað sem þurfti að yfirstíga fyrst, einhver ókláruð mál, tími sem þurfti að eyða í eitthvað, ógreiddar skuldir. Síðan myndi lífið byrja.

Dag einn rann það upp fyrir mér að allar þessar hindranir voru lífið sjálft.” Þetta viðhorf hjálpar okkur að skilja að það er engin leið að hamingjunni. Hamingjan er leiðin. Njótum hverrar stundar sem við eigum. Njótum hennar enn frekar þegar okkur tekst að deila henni með öðrum sem er nógu sérstakur til að verja tíma okkar með … og munum, að tíminn bíður ekki eftir neinum.

Áttu að bíða þar til þú hefur lokið námi eða þar til þú hefur hafið nám, þar til þú hefur misst fimm kíló eða bætt á þig fimm kílóum, þar til þú hefur eignast börn eða þar til þau flytjast að heiman, þar til þú byrjar að vinna eða þar til þú sest í helgan stein, þar til þú giftist eða þar til þú skilur, þar til á föstudagskvöld, þar til á sunnudagsmorgun, þar til þú færð þér nýjan bíl eða hús, þar til þú hefur borgað upp bílinn eða húsið, þar til í vor, þar til í sumar, þar til í haust, þar til í vetur, þar til lagið þitt byrjar,

, þar til þú deyrð, þar til þú fæðist á ný … til þess eins að ákveða að það er enginn tími betri til að vera hamingjusamur en einmitt núna! Hamingjan er ferðalag ekki áfangastaður

Til umhugsunar að lokum! “Sinntu starfi þínu eins og þú þarfnist ekki peninganna.” “Elskaðu eins og þú hafir aldrei verið særð(ur).” “Dansaðu eins og enginn sjái til þín.”


Einelti og netið

Góð ráð:

• Leggðu áherslu á að barnið þitt gefi ekki hverjum sem er símanúmerið eða aðrar persónulegar upplýsingar, síst af öllu ókunnugum.
• Ekki svara særandi eða illkvittnum skilaboðum – það hvetur aðeins þá sem senda
• Mikilvægt er að ræða strax við barnið ef grunur vaknar um að það hafi orðið fyrir einelti og leita aðstoðar
• Leggðu áherslu á að barnið svari aldrei texta- eða myndskilaboðum sem það hefur ekki óskað eftir og innihalda óviðeigandi efni.
• Geymdu særandi textaskilaboð og myndir. Það getur verið mikilvægt sönnunargagn komi til lögreglurannsóknar
• Ræddu við barnið um mikilvægi þess að það láti þig vita ef það verður fyrir einhverskonar ónæði eða áreiti af völdum SMS, mynd-eða textaskilaboða, hvort sem það er frá einhverjum sem það þekkir eða ókunnugum.
• Leggðu áherslu á það við barnið þitt, að sömu sömu reglur gildi um samskipti í netinu og í daglegu lífi. Einelti er aldrei ásættanlegt.
• Skoðaðu heimasíðu barnsins þíns og athugaðu sérstaklega hvað er verið að skrifa í gestabókina en þar koma oft ljótar athugasemdir til barnsins ef það er lagt í einelti.
• Skoðaðu tengiliði barnsins þíns á msn, ef mikið er um „blokkeraða“ tengiliði (contact) getur það verið merki um samantekin ráð um að útiloka barnið þitt frá msn skilaboðum. Fáðu leyfi barnsins þíns til að vista msn söguna og með því getur þú fylgst með hvaða skilaboð það er að fá.

Frá helvíti til lífs

Reynslusaga:

Ég byrjaði 13 ára gamall að drekka, ég var mjög feimin og  skít hræddur sem krakki og vildi helst  vera týndur og var þetta mín flóttaleið að forðast alla þangað til að ég fann lausnina þegar ég fann áfengið, gat gert allt sem ég vildi þegar ég var undir áhrifum og gat talað við fólk og reynt við stelpur.  Þetta leiddist svo út í það að ég var farin að drekka hverja helgi 15-16 ára og braust inní verslanir til að verða mér út um pening og hékk fyrir framan pöbbana og betlaði áfengi og bað fólk að kaupa fyrir mig sterkt áfengi eins og viskí.  Lögreglan var oft að skipta sér af mér enda var ég oft dauður hér og þar. 

1998 missi ég föður minn en hann tók sitt líf og eftir það  hellti ég mér í enn meiri neyslu og reyndi að slökkva á eigin tilfinningum með því að fara í meiri neyslu.  Ég  fór í mínu fyrstu meðferð 1999 eftir að hafa reynt að fyrirfara mér, þá var komið að mér í partý í blóði mínu. Með sjúkrabíl var ég keyrður á landsspítalann  ég vakna þar og útskrifa mig sjálfur og held áfram í meiri neyslu þangað til ég var komin á götuna, borðaði uppúr ruslatunnum og svaf í strætó skýlum.

Fer í um 5 meðferðir árið 1999-2000 og leit á það sem ákveðið skjól og lausn frá ástandinu í x tíma.   Ég var inni og út úr vinnum og bestu vinnustaðirnir voru þegar ég vann með dílerum mínum og þar reyktum við hass í pásunum og sniffuðum amfetamín.  Ég gerði allt til að verða mér út um næsta skammt.

Um páskana árið 2003 fór ég í mína síðustu meðferð og var dóttir mín þá 6 mánaða. Þá fann ég minn botn, hafði verið að sprauta mig síðan hún fæddist.  Ég hringdi í barnavernd og bað um hjálp. Hafði fallið eftir 12 mánuði edrú mennsku með reyndar nokkrum sprungum þar inná milli.  Fór í meðferð hjá hvítasunnumönnunum hjá Samhjálp það var það besta sem hefur komið fyrir mig ég hafði kynnst öllum meðferðarúrræðum sem í boði voru. Þar kynntist ég því sem mig vantaði, trúin á æðri mátt sem ég kýs að kalla Guð hefur sú trú virkilega bjargað mér. 

Ég var þarna í 6 vikur og fór svo heim og fékk stelpuna frá fósturforeldrum og þá var mamma hennar í meðferð, sem hún kláraði ekki og stuttu seinna fellur hún aftur. Ég þraukaði með dóttur minnar og guðs hjálp og er enn edrú í dag og virkilega að njóta lífsins með að hjálpa öðrum sem eru að herja þessa baráttu sem ég virkilega kynntist frá helvíti til lífs


Ég var komin niður í mjög dimman djúpan dal

Reynslusaga 

Þegar ég loks fór að gera eitthvað í mínum málum átti ég að baki 25 ára hjónaband og eftir það 6 ára sambúð sem ég var í en var líka um það bil að ljúka.
En af hverju?? 

 Ég var fínn strákur (að eigin áliti) en þarna var bara svo komið að ég var komin niður í mjög djúpan dimman dal örvæntingar, kvíða og ótta sem eg sá enga leið út úr. Hvað átti eg að gera! Þá var það einmitt sambýliskona mín sem benti mér á hópastarf sem kallaði sig Tólf spora hópar.

Satt að segja hafði ég nú aldrei heyrt þetta nefnt en ákvað að hafa samband því ég varð að fá hjálp ég gat ekki meira. Ég tók upp símann og var mjög kvíðinn að tjá erindi mitt. Viðkunnaleg rödd í símanum sem ég upplifði sem englarödd tjáði mér að hún skyldi sjá hvað hún gætti gert fyrir mig því það væri búið að loka hópunum og starfið byrjað. Hvað var nú til ráða? Og aftur tóku kvíðinn og óttinn völdin. En vegna þess að Guð var komin inn í málið samþykkti hópurinn sem þá var byrjaður að starfa að taka mig inn í hópinn. Þvílík blessun að komast að raun um að til var fólk sem var svipað ástatt fyrir og mér sjálfum. Að heyra að öðrum leið eins og mér - þvílíkur léttir - en nú var mikil vinna framundan, vinna við að rannsaka og skoða sjálfan sig.

Það var alveg með ólíkindum hvað maður áttaði sig á mörgu sem miður hafði farið bæði í uppvexti sem barn og á unglingsárunum og svo á fullorðinsárum. Hvernig ég reyndi að hafa stjórn á öllu í kringum mig, ef það tókst ekki þá fór ég bara í fýlu og reyndi þannig að hafa áhrif á umhverfið! Og það sem verra var, fjölskylduna mína og ef það tókst ekki með fýlunni  þá var nú alltaf sá möguleiki eftir að einangra sig frá öllum í fýlu þannig að allir í kringum mann voru á tánum. Að uppgötva að ég hafði reynt að stjórna umhverfi mínu með andlegu ofbeldi - því að það er það sem það heitir - var mjög sársaukafullt og mjög erfitt að horfa í spegil í langan tíma.

Og vegna þess að hegðunarmynstur mitt í seinna sambandinu var ekkert öðruvísi en í hjónabandinu mínu þá gafst sú kona auðvitað líka upp á þessu og mér var hafnað í annað sinn. Einmitt þetta sem eg var svo hræddur við HÖFNUN. Í síðara skiptið var þetta allt vegna þess að ég gaf mér ekki tíma til að athuga hvað það var sem hafði farið úrskeiðis í hjónabandinu mínu heldur æddi í næsta samband af því ég átti svo óskaplega bágt og gat ekki verið einn (það heitir sjálfsvorkunn). Betra hefði verið að gefa sér meiri tíma eftir skilnaðinn því þá væri ég ef til vill enn með þessari yndislegu konu sem vísaði mér á Tólf spora hópinn og stuðlaði þannig að bata mínum vegna þess að henni þótti vænt um mig - henni var ekki sama.

Núna eftir fjögur ár í Tólf spora starfinu hef ég öðlast sjáftraustið mitt aftur, ég er sáttur við sjálfan mig, ég get staðið á eigin fótum, er bjartsýnn aftur og elska lífið á ný og það er svo ekki lítið - en nákvæmlega þetta hef ég öðlast við að vera með Guði og góðum vinum í Tólf spora starfinu.

Kæra þakkir fyrir þann bata sem ég hef mátt öðlast.


Að fikta við vímuefni

Þær breytingar sem verða á hegðun og mörgum hreyfingum hjá unglingi ætti að vera foreldrum vísir að því að hann sé farinn að nota vímuefni. Það er ekki auðvelt að átta sig á því þegar börn og unglingar fara að fikta við vímuefni. Einkennin eru nefnilega oft mjög lík eða mjög svipuð einkennum sem tengjast unglingsárunum, gelgjunni. Það að um líkt sé að ræða, má ekki verða til þess að foreldrar eða ættingjar unglingsins loki augunum og bregðist ekki við breyttri hegðun eða atferli og hugsi sem svo, að einungis sé um dæmigerð einkenni gelgju unglingsins að ræða.

Þegar upp er kominn grunur foreldra, sem er í raun vantraust, vegna breytts ástands, þá á þessi grunur oft við rök að styðjast. Því er nauðsynlegt að tengsl og traust sé á milli foreldra og barna, og foreldrar þekki venjur og áhugamál þeirra. Þá ættu allar grunsemdir foreldra ef upp koma, við rök að styðjast. Foreldrar sem eru vissir í framangreindu geta þá gripið inn í og fiktið verður ekki að fíkn.

Einkenni eða breytt hegðunarmynstur unglinga og stundum barna eru eftirfarandi, og öllum foreldrum ráðlagt að skoða og bregðast við þeim á réttan hátt ef upp koma.

Skyndilegur og breyttur lífsstíll, t.d. á fatnaði, breytt viðhorfi til lífsins, kunningja hópur breytist, og oft tónlist svo eitthvað sé nefnt.


Breyting verður á skapi, mikil reiði.
Lystarleysi kemur upp, hugsi,( þögull) drungi, og syfja.
Góð tengsl við foreldra rofnar, áhugi á fjölskyldunni minnkar, heimboð hunsuð.
Áhugaleysi á því sem var þeim kært að stunda, íþróttir, nám og þau forðast góða vini.
Unglingurinn verður áhugalaus, t.d. á lærdómi og árangur í skóla versnar, og hann finnur sér nýjan kunningjahóp.


Viðkomandi stundar illa vinnu, boðar oft forföll, ástæður vegna fjarvista verða skröksögur.
Sjálfsvirðing dvínar vegna neyslunnar og engin áhugi er á, að þrífa sig, né umhverfi sitt.
Öfgakennd viðbrögð og viðkomandi tekur öllum afskiptum af sínum málum mjög illa.
Staðinn að lygi og oft er um laumulegt hátterni að ræða.Foreldrar gefi vísbendingum gaum.
Þjófnaðir, peningar fjölskyldunnar hverfa, unglingurinn er staðinn að svikum og falsi.
Lögregla þarf oft að hafa afskipti af unglingnum, vegna óreglu eða afbrota.

 

                           Hvað á ég að gera, ef unglingur, barnið mitt lendir í vanda?

Ef þig fer að gruna að unglingur noti vímuefni, er mikilvægt að þú bregðast rétt við. Að finna til vanmáttarkenndar og hræðslu er eðlilegt, en í fæstum tilfellum er barnið í bráðri lífshættu.
Ekki ráðast á barnið með ásökunum, því þá missir þú traust þess. Sýndu umfram allt stillingu.
Ekki ásaka sjálf þig. En neytandinn/unglingurinn, mun ásaka þig, því það er eitt af einkennum/afleiðingum neyslunnar.


Það er hægt að fá upplýsingar um vímuefni á heilsugæslustöðvum, hjá læknum, skólum og á bókasöfnum, forvarnarfélögum og víða á Netinu.
Þekktu vini eða kunningjahópinn og þeirra áhugmál, þannig aukast líkur á því að þú þekkir til, ef um vímuefnamisnotkun er að ræða.
Þú skalt alltaf reyna að þekkja foreldra vina barna þinna. Talaðu við foreldra í svipaðri stöðu ef þú grunar unglinginn/barnið um neyslu á vímuefnum. Reynsla annarra foreldra getur hjálpað þér mikið.

Fræðsla. Þekktar verkanir.

Vímuefni verka með einum eða öðrum hætti á miðtaugakerfið og starfsemi þess. Áhrif vímuefna á það, má rekja til truflunar á starfsemi taugungamóta og efna sem bera boð til tauga, sem stjórna viðbrögðum einstakra líffæra. Þetta veldur því að neysla vímuefna raskar og truflar starfsemi líffæra. Þetta skýrir m.a. breytingar á skynjun, tilfinningum og skapferli.


Þau áhrif sem vímuefni hafa á líkamsstarfsemi og andlega og líkamlega færni, geta haft mikil áhrif. Þunglyndi sem hrjáir oft neytendur ecstacy, er til komið af þessum sökum. Annað dæmi eru áhrif kannabisefna á nýminni og þar með námshæfni. Einnig má nefna heilaskemmdir, sem verða vegna þess að öndun hefur stöðvast um hríð og heilinn ekki fengið nauðsynlegt súrefni í lengri eða skemmri tíma. Þetta er t.d. þekkt í tengslum við sniff.

Neyslan getur því leitt til mikilla og afdrifaríkra breytinga á lífsvenjum, sem rekja má til skertrar getu til þess að takast á við viðfangsefni lífsins og njóta lífshamingju. Þunglyndi er erfitt að fást við, skert námsgeta takmarkar möguleika fólks til þess að nýta sér hæfileika sína, varanlegar heilaskemmdir útiloka fólk nánast frá þátttöku í samfélaginu, o.s.frv.


Ýmis áhrif vímuefna á líkamsstarfsemina geta verið varanleg og lagast ekki þó að neyslunni sé hætt.

 


Góð boðorð

1. Láttu engan segja þér að þú getir ekki eitthvað því þú ein/n veist hver styrkur þinn er.

2. Vertu einlæg/ur og trú/r því sem þú framkvæmir og segir.

3. Hvatning og hrós getur glatt manneskju óendanlega mikið án þess að þú vitir það.

4. Brostu þótt þú hafir ekkert tilefni til þess, það lýsir upp andlit þitt.

5. Talaðu frekar um kosti einhvers heldur en galla.

6. Segðu alltaf satt þótt það geti verið erfitt.

7. Baktal er einungis fyrir þá sem þurfa að sanna sitt eigið ágæti á kostnað annarra.

8. Öll höfum við lítið ljós innra með okkur sem við þurfum að vernda og gefa öðrum af sem ekki finna sitt.

9. Ekki reyna að líkjast öðrum því þú ert eina útgáfan af þér og þar af leiðandi einstök.

10. Elskaðu skilyrðislaust.

Ekki missa af þessu ! "nýr þáttur í hverri viku"

Útvarpsþátturinn Lífsýn

Þáttur unga fólksins

 

Þáttur sem fjallar um ungt fólk, forvarnir, fræðslu,  sjálfsskoðun, sjálfstyrkingu, tónlist og fleira.

ma. spjall, fræðsla um þær sjálfshjálpar aðferðir sem eru í boði, vitnisburðir, spurt og svarað, forvarnir, fræðsla , sjálfstyrking, viðtöl og tónlist.

viðtöl við fólk sem hefur verið í baráttu við að koma lífi sínu í lag og líða vel.

 Nýr 60 mín þáttur í hverri viku á fm 105,5

á föstudögum klukkan 11:00 - 15:00 - 19:00 og 23:00

og síðan eftir það hér á blogginu okkar :)    

(hér til hægri undir tenglar Útvarpsþátturinn Lífsýn)

 

 

Lífsýn fræðsla og forvarnir  sími 771-4474



Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband