Burt með einelti!!

Einelti Einelti er það kallað þegar hópur einstaklinga reynir að útiloka einn eða hugsanlega fleiri út úr hópnum með öllum mögulegum hætti. Þetta getur verið með stöðugri stríðni, gera fórnarlambið að aðhlátursefni, sýna því vanþóknun, hæðast að því, bera út slúður um fórnarlambið, einangra það og útskúfa og jafnvel getur verið um líkamlega valdbeitingu að ræða.Einelti felur það í sér að fórnarlambið upplifir sig óvelkomið í og útilokað af hóp, sem það getur ekki annað en tilheyrt, t.d. vinnuhóp, skólabekk, fjölskyldu o.s.frv.

Til er að einstaklingar leggist þannig á aðra einstaklinga, án stuðnings annarra í hópnum, en þá er ekki talað um einelti í sama skilningi, þar sem fórnarlambið upplifir sig ekki einangrað og útilokað á sama hátt og getur varið sig með því að líta á ofsækjandann sem veikan eða vondan. Einelti felur í sér að fórnarlambið upplifir alla eða flestalla í hópnum á móti sér, þó svo að í langflestum tilvikum sé meirihlutinn óvirkur í stuðningi sínum við eineltið. Aðeins lítill hluti hópsins er yfirleitt virkur, en nýtur stuðnings hins hlutans í gegnum aðgerðarleysi hans, en flestir þeirra líta svo á að hættulegt sé að taka upp hanskann fyrir fórnarlambið. Það gæti leitt til þess að þeir sjálfir verði lagðir í einelti.

Einelti er félagslegt fyrirbæriEinelti er þannig félagslegt fyrirbæri. Það tengist alltaf hópi fólks og valdabaráttu einstaklinga innan hópsins og óöryggi þeirra um stöðu sína innan hans. Það er því ekki einangrað samspil á milli tveggja einstaklinga. Slík samskipti eru ekki kölluð einelti. Það er því nauðsynlegt að stjórnendur hópa, hvort sem það eru stjórnendur á vinnustað, kennarar, skátaforingjar eða aðrir leiðtogar hópa, geri sér grein fyrir því hvort um er að ræða einelti, sem er félagslegt fyrirbæri innan hóps, eða deilur og ágreining milli tveggja einstaklinga. Viðbrögð þeirra eiga að stjórnast af því.Einelti myndast aðeins í hóp, þar sem einhvers konar vanlíðan er til staðar. Líði öllum einstaklingum vel í hópnum, finnist allir meira eða minna jafnir, finni að allir njóti þokkalega jafnrar virðingar, finni að allir hafi eitthvað að segja og að hlustað sé jafnt á alla, myndast ekki einelti í hópnum. Sé hins vegar ríkjandi ójöfnuður í hópnum, hlustað sé á suma en aðra ekki og mikill munur á virðingu milli einstaklinga, myndast vanlíðan í hópnum. Fyrri hópurinn hefur flatan valdapíramída eða goggunarröð, þar sem jöfnuður og vellíðan ríkir og sátt er um forystuna.

Síðari hópurinn hefur brattan valdapíramída eða goggunarröð, þar sem ríkir ójöfnuður, vanlíðan og valdabarátta. Það er einungis í síðari hópnum sem einelti getur myndast og alltaf sem hluti af valdabaráttunni, sem á sér stað í hópnum. Sú valdabarátta er ekki einungis á efstu þrepunum, vegna þess að í slíkum hópi ríkir mikið óöryggi um stöðu sína hvar sem er í goggunarröðinni og því myndast þörf hjá öllum fyrir að klifra ofar og þá gjarnan á kostnað þeirra, sem neðar eru.

Öryggi í stað vellíðunarSé ríkjandi vanlíðan og óöryggi í hóp og valdapíramídi hans brattur leita allir einstaklingar hópsins eftir einhvers konar stöðugleika og öryggi. Það er hins vegar ekki endilega leitað eftir vellíðan, því vellíðan er aftar í þarfaforgangsröð einstaklinga en öryggi. Í slíkum hóp lítur alltaf út fyrir að mesta öryggið um stöðu sína sé á efstu þrepum hans, sérstaklega vegna þess að svo virðist sem þar sé mesta virðingin, áhrifin og völdin. Þess vegna leita einstaklingarnir upp goggunarröðina með því að koma öðrum í henni niður fyrir sig.

Það er hægt að gera með því að smjaðra fyrir forystunni, leggja henni lið eða sýna henni fram á hollustu á ýmsan hátt t.d. með því að andmæla henni ekki, hlægja að uppátækjum hennar eða örva hana til dáða á annan óbeinan hátt. Eftir því sem ofar dregur í goggunarröðinni kemur þó fram nýtt óöryggi hjá einstaklingunum í hópnum, sem felst í aukinni hættu á að falla (aftur) neðar í goggunarröð hópsins eða, fyrir þá sem efstir eru, að missa völd sín, ef tekið er feilspor. Þannig verða meðlimir hópsins að viðhalda völdum sínum eða klifri upp á við og hópurinn er fastur í neti óöryggis og vanlíðunar.

Í hópnum myndast síðan hópbundnar hegðunarreglur (norm), sem halda honum enn fastar í þessum viðjum og að lokum er það einungis utanaðkomandi stjórnun eða aðstoð, sem getur hjálpað honum út úr þessum vítahring. Allir meðlimir hópsins eru fastir í netinu og það að gera tilraun til að brjótast út úr því eykur hættuna á að falla niður goggunarröðina og þá jafnvel lenda neðst í henni og eiga þar með á hættu að verða veikastur í hópnum. Allir skynja hættuna af þeirri stöðu við þessar aðstæður og forðast hana eins og heitan eldinn.

ValdabaráttaÞegar þannig er komið fyrir hópi, er mikil hætta á að einelti myndist í honum. Valdabaráttan og þörfin fyrir að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra leggur grunninn að því. Fórnarlambið er þá ætíð valið úr neðstu þrepum goggunarraðarinnar. Fyrir kemur að fórnarlambið ber yfirmannstitil, en þá er um að ræða yfirmann, sem hefur í raun engin völd í hópnum, er neðst í goggunarröðinni og ræður ekki við yfirmannstitil sinn. Hópurinn finnur eitthvað við fórnarlambið og notar það til að benda á að viðkomandi eigi ekki heima í hópnum. Það getur verið eitthvað við útlit einstaklingsins eða hegðun hans eða aðstæður.

Eina leiðin er því að fórnarlambið hafi ekki styrk til að verja sig og að hægt sé að koma fram við það með hegðun sem segir: “Þú ert öðruvísi en við og átt því ekki heima með okkur”. Einelti byggist þannig á vissan hátt á því að styrkja hópinn innbyrðis með því að halda þeirri skoðun á lofti að um sé að ræða “okkur og þig”. Þrennt græðist á þessu fyrir meirihlutann. Í fyrsta lagi gerir það þeim sem ofar eru í goggunarröðinni kleyft að komast enn ofar með því að ýta fórnarlambinu niður hana og raða öðrum hópmeðlimum á milli sín og fórnarlambsins.

Í öðru lagi verður til ákveðin (sjálfs)blekking um samstöðu og öryggi innan hópsins, a.m.k í efstu þrepum goggunarraðarinnar. Í þriðja lagi styrkir slíkt athæfi stöðu og styrk þeirra sem í efstu þrepunum eru, þar sem þetta bendir öðrum en fórnarlambinu á hvað bíði þeirra, ef þeir halda sig ekki á mottunni.

Stjórnunarstíll ræður úrslitumAf framanskráðu sést að einelti er félagslegt fyrirbæri, sem stjórnast af því að um vanlíðan er að ræða í hópnum. Það orsakast ekki af því að einstaklingar séu vondir eða veikir og eina leiðin til að bregðast við því er að takast á við stjórnun hópsins. Það er eitt meginhlutverk stjórnanda að stjórna þannig að í hópnum ríki vellíðan. Þannig skapar hann mest öryggi og ánægju í hópnum og nær hámarksafköstum hjá honum. Ef einelti kemur upp í hópi, og einungis er tekið á málinu út frá einstaklingunum, geranda og/eða fórnarlambi, leiðir það ekki til breytinga á stjórnun hópsins eða hópgerðinni og hættan á að aðrir fari inn í hlutverk þessara einstaklinga og sagan endurtaki sig er ákaflega mikil. Þó er ekki hægt að útiloka að hópgerðin breytist óvart við slíkar aðgerðir. Þá er það og augljóst að sé fórnarlambið tekið út úr hópnum og flutt í annan hóp, fer það eftir því hvort í nýja hópnum ríkir vellíðan eða vanlíðan, hvernig fórnarlambinu reiðir af þar. Nýliði er alltaf veikasti einstaklingurinn í hópnum og getur því auðveldlega aftur lent í fórnarlambshlutverkinu í nýja hópnum, sé þörf fyrir einelti í þeim hópi.Það er undir stjórnanda hóps, leiðtoga hans eða kennara komið, hvort í hópnum ríkir vellíðan eða vanlíðan. Það er stjórnandans að stjórna með þeim hætti að vellíðan ríki og það er hans að bregðast þannig við, ef upp kemur vanlíðan, t.d. vegna utanaðkomandi áhrifa, að hópurinn nái aftur jafnvægi og vellíðan. Stjórnanda ber að stjórna hópi þannig að ekki myndist í honum þörf fyrir einelti. Það er ekki nóg fyrir hann að velta fyrir sér viðbrögðunum við einelti þegar það er komið í fullan gang.

(Grein þessi er lítið breytt frá því að hún birtist í tímariti Bókagerðarmanna árið 2000.)
 Ýmsar greinar um eineltiHvað er einelti?,,Einelti er langvarandi ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einum, sem ekki kemur vörnum við. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi þar sem gerandinn beitir hótunum og vill ráða yfir þolandanum.“

Þessa skilgreiningu er að finna í bókinni Gegn einelti Handbók fyrir skóla sem Æskan gaf út 2000. Síðar í sömu bók stendur: „Einelti getur verið mjög dulið. Þegar gerandi eða gerendur hafa náð tökum á þolanda má segja að n.k. eineltissamband hafi myndast. Eftir að slíkt samband hefur orðið til getur eitt augnatillit frá geranda verið nóg til að þolanda sé ógnað og að hann finni til hræðslu og óöryggis.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband