Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Búlimía og Anorexía

Reynslusögur : 

18 ára stelpa segir frá:

Ég hef bæði þjáðst af búlimíu og anorexíu. Þegar ég var nýorðin 19 ára var ég 120 kíló og þreytt á að heyra hvað ég væri feit og að ég þyrfti nú að fara að taka mig á. Þau jól ákvað ég að taka stjórn á lífi mínu og stinga puttanum upp í mig. Eftir það varð ekki aftur snúið. F yrst sagðist ég vera með ælupest eða hafa borðað eitthvað sem fór svona í magann á mér.

Ég gerði ekki annað en að ljúga að mínum nánustu og hrakti marga frá mér með því. Þetta tók mikið á foreldra mína og systkini. Mér líður vel í dag og finnst ég vera ný og betri manneskja. Ég veit að þessi sjúkdómur m un alltaf fylgja mér og vera hluti af mér en ég get stjórnað honum núna. Ég passa hvað ég borða og hreyfi mig reglulega, þannig hugsa ég vel um líkama og sál. Ég fer til sálfræðings einu sinni í mánuði og hitti hjúkrunarfræðing reglulega.

Ég fæ mikinn stuðning frá fjölskyldu minni. Allir sjá rosalegan mun á mér í dag. Þú ein(n) ræður hvort sjúkdómurinn stjórnar þér eða þú honum. Það er þitt val en viljinn verður að vera fyrir hendi. Við höldum að þetta sé töframeðal sem gerir okkur falleg og flott en það virkar því miður öfugt. Maður verður slappur, fölur, lítur alltaf veiklulega út og er alltaf skapillur og þunglyndur. Það eru alltaf til aðrar og betri lausnir en þetta helvíti. Meðferð við lotugræðgi og lystarstoli felst í því að koma á heilbrigðum matarvenjum, fá sjúkling til að hætta ofáti og megrun, þar sem hið seinna er talið valda hinu fyrra.

Að auki þarf að hjálpa sjúklingnum við að hætta að hreinsa úr líkamanum hitaeiningar , hvort sem það er með uppköstum eða notkun hægðarlosandi lyfja. Meðferð telst árangursrík þegar tekst að draga úr öðrum sálrænum erfiðleikum sem tengjast lotugræðginni, til dæmis að sjálfsmat byggist ekki nær alfarið á þyngd og líkamslögun.

Flestir sjúklinga ná bata í meðferð fyrir utan sjúkrahúsa. Frásögn stúlku sem lenti í þeim ömurlega vítahring að finnast hún vera feit þrátt fyrir að engum öðrum fyndist það. Sjálfsmyndin var í molum og afleiðingin varð lotugræðgi, þunglyndi og að lokum sjálfsmorðstilraun. Hún er nú á góðum batavegi.

21 árs kona segir frá:

Ég er fædd í Reykjavík og alin upp þar að mestu leyti. Ég hef átt við lotugræðgi að stríða undanfarin ár og hef ákveðið að segja sögu mína til þess að aðrir sem glíma við þetta vandamál öðlist von um að hægt sé að rjúfa þann vítahring. Ég minnist þess allt frá 12 ára aldri að hafa fundist ég vera feit, en ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu eins og aðrir að það væri ofsalega flott að vera mjór. Það var talað um hvað ég væri falleg, hvað ég væri þæg og góð, ég geri mér grein fyrir því í dag að engum öðrum fannst ég vera feit.

Ég varð fljótlega þeirrar skoðunar að öll vandamál hyrfu og ég yrði hamingjusöm ef ég yrði grönn. Þegar ég var 15 ára sagði vinkona mín frá frábærri hugmynd sem hún hafði heyrt um – hvernig hægt væri að borða án þess að fitna. Málið var bara að stinga fingri ofan í kok eftir máltíð og losa sig við allt ógeðið. Þá opnaðist fyrir mér ný vídd. Ég var svo ánægð með þetta. Nú gætu allir fitukomplexarnir verið úr sögunni. Álit annarra á mér hefur alltaf skipt mig of miklu máli og vegna öryggisleysis og minnimáttarkenndar féll ég fyrir þessu.

Ég reyndi að kasta upp nokkrum sinnum og komst að því að þetta var bæði erfitt og óþægilegt, en með þrjóskunni og voninni um að verða grönn fór þetta að ganga betur og varð fljótlega sjálfsagt mál, þegar mér fannst ég hafa borðað of mikið. Ástandið hélst óbreytt í langan tíma og þetta var alls ekkert vandamál, en með tímanum fór ég að misnota þetta. Ég fór að borða eins og mig lysti og hugsaði með mér að ég myndi bara losa mig við matinn, og fyrr en varði stundaði ég þetta eftir hverja máltíð.

Ómeðvitað var ég farin að nota mat sem meðal við hinum ýmsu sálarkvillum, t.d. samviskubiti yfir að stunda ekki skólann nógu vel. Ég sat kannski heima og vissi að ég þurfti að læra en kom mér ekki að verki og ákvað þá að fá mér að borða – enga smá máltíð. Ég ældi svo öllu saman. Það gerði það að verkum að ég varð enn slappari, fór ekki að læra og fékk enn meira samviskubit. Hellti mér því í aðra máltíð og svo koll af kolli. Áður en ég vissi af var ég föst í vítahringnum og búin að missa tökin á náminu í menntaskólanum en reyndi þó að tolla í tónlistanáminu sem ég hafði stundað frá bernsku.

Ég var 18 ára þegar staðan var orðin svona slæm og mér fannst ég ömurleg, ein með þetta stórkostlega leyndarmál sem var mín eina huggun og það sem allt snérist um. Tíminn leið en ég var gersamlega stöðnuð í mínum heimi. Um tvítugt var ég ekkert annað en skugginn af sjálfri mér, fannst ég vera að gefast upp og þráði oft á tíðum að enda þessa jarðvist. Ég sá enga aðra leið en að deila þessum erfiðleikum með einhverjum. Ég sagði mömmu og kærastanum mínum frá þessu og þau voru orðlaus.

Kærastann minn hafði ekki grunað neitt en mamma var að mörgu leyti glöð að fá skýringu á því hvað ég var orðin leið, sljó og afkastalítil. Mamma pantaði tíma fyrir mig hjá heimilislækni sem sendi mig til læknis á geðdeild Landspítalans. Ég fór upp á spítala en hljóp út af biðstofunni eftir nokkrar mínútur. Ég var ekki tilbúinn að horfast í augu við vandann og segja ókunnugum frá, fyrir utan það hvað mér þótti hryllilegt að vera send á geðdeild eins og ég væri klikkuð. Ég sannfærði mömmu um ég ætlaði að takast á við þetta sjálf.

Dæmið snerist við og ég hætti að borða, í nokkrar vikur lifði ég á nánast engu, en takmarkið var þó alltaf að reyna að borða ekki neitt. Ég horaðist að sjálfsögðu mikið, mér hafði aldrei liðið betur, og fannst ég hafa náð algerri stjórn á þessu, ef ég bara svelti mig. En auðvitað gat það ekki gengið til lengdar og loks fór ég að leyfa mér að borða aðeins meira en þá byrjuðu uppköstin strax aftur. Fljótlega var ástandið orðið verra en nokkru sinni fyrr, og hver einasti dagur gekk út á það að borða og æla þangað til ég lognaðist útaf af orkuleysi.

Þetta var mín leið til að útiloka raunveruleikann og komast í gegnum daginn. Þannig liðu nokkrir mánuðir sem runnu saman í eitt. Ég forðaðist öll samskipti við annað fólk, tók símann úr sambandi og hætti mér ekki útúr húsi nema í brýnustu nauðsyn. Það hlaut að koma að því að líkaminn mótmælti, því þetta var í rauninni ekkert annað en hægur dauðdagi.

Ég fékk taugaáfall, talaði við heimilislækninn minn sem sendi mig til annars geðlæknis sem rannsakaði mig og taldi mig mjög þunglynda ég fór að taka þunglyndislyf og tala við sálfræðing. Með tímanum fór mér að líða betur andlega, þó svo að lotugræðgin væri alltaf til staðar. Ég fór að geta talað um þetta við vini mína og leyfði þeim að hjálpa mér eins og þeir gátu, sem fólst í því að draga mig út úr húsi og vekja mig aðeins til lífsins.

Þannig komst ég á bataveg. Það liðu nokkrir mánuðir þar sem ég var í nokkuð góðu jafnvægi, en það sem hrjáði mig mest var að mér fannst ég hafa eyðilagt sambandið við kærastann minn með öllu þessu tilfinningarrugli. Hann var í námi erlendis og engin leið fyrir hann að gera sér grein fyrir öllu sem ég hafði gengið í gegnum. Mér fannst svo mikil fjarlægð á milli okkar og við að mörgu leyti ókunnug. Mér leið ömurlega yfir þessu og svo fór að ég upplifði algjört bakslag hvað varðaði lotugræðgina. Undir áhrifum áfengis gleypti ég eitt sinn allar þær pillur sem komst yfir og var skítsama um afleiðingarnar.

Allavega myndi eitthvað breytast og kannski leiða til þess að ég rifi mig upp úr þessu. Vinir mínir fundu mig meðvitundarlausa og gerðu sér grein fyrir hvað hafði gerst, en ég endaði upp á Borgarspítala þar sem var dælt uppúr mér. Eftir þetta áfall tók ég mér tíma til að hugleiða stöðu mína og reyna að skilja hvernig ég hafði lent í þessum hremmingum.

Nú er hálft ár liðið síðan og ég hef ekki þurft að taka lyf í þrjá mánuði. Mér finnst ég hafa þroskast og vaxið frá þessu hræðilega ástandi. Nú get ég horft á vandann og skilgreint hann úr ákveðinni fjarlægð. Þessi erfiðu ár eru hulin móðu í minningunni og ég geri mér grein fyrir að það þýðir ekki að sjá eftir neinu. Maður verður að læra af reynslunni og það hef ég gert.


Sjálfsvíg

Sjálfsvíg!

Ástæða þess að einhver er í sjálfsvígshættu er oftast flókið samspil margra þátta. Við getum sagt að einhver sé í meiri hættu ef ákveðnir áhættuþættir eru til staðar en ef þeir eru það ekki. Það er því mjög mikilvægt að þekkja þessa áhættuþætti svo við getum betur gert okkur grein fyrir því hverjir eru í hættu og þá hve mikilli. Eftirfarandi þættir geta verið áhættuþættir hvað varðar sjálfsvígsatferli.

Þunglyndi
Þunglyndi getur verið stór áhrifaþáttur þess að viðkomandi sé hættara við sjálfsvígsatferli en ella. Niðurstöður fjölda rannsókna sýna mikla fylgni milli þunglyndiseinkenna og sjálfsvíga, þó að það geti verið nokkuð breytilegt eftir rannsóknum. Það er mikilvægt að taka tillit til þessa, sérstaklega þar sem oft er erfitt að greina þunglyndi hjá ungu fólki. Fagfólk þarf að þekkja einkenni þunglyndis mjög vel og stéttir sem vinna mikið með ungu fólki, eins og kennarar, þurfa að kynna sér þunglyndiseinkenni vel. Foreldrar þurfa að hafa aðgang að fræðslu um þunglyndi meðal barna og unglinga til þess að þeir geti þekkt einkennin. Þótt þunglyndi sé miklivægur áhrifaþáttur sýna ekki næstum allir sem eru haldnir þunglyndi sjálfsvígsatferli. Hafa ber í huga að þunglyndi er algengt og er langoftast læknanlegt með viðtalsmeðferð og lyfjameðferð.

Áfengis- og fíkniefnanotkun
Rannsóknir hafa sýnt að misnotkun áfengis og fíkniefnanotkun eru afgerandi áhættuþættir. Í rannsókn á sjálfsvígum á Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu 1984 - 1991 (óbirt rannsókn á vegum Landlæknisembættisins, Wilhelm Norðfjörð) kemur fram að margir af þeim sem sviptu sig lífi byrjuðu ungir að drekka áfengi. Einnig kemur fram að þeir áttu erfitt með neyslu áfengis, þar sem þeir urðu gjarnan daprari og þyngri af neyslunni en gengur og gerist eða þá árásargjarnari.

Félagsleg sefjun/smit
Þegar keðjusjálfsvíg fara í gang má segja að félgagsleg sefjun sé að hluta til áhrifavaldur. Í áðurnefndri rannsókn Landlæknisembættisins voru borin saman sjálfsvíg sem áttu sér stað á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1984 til 1991.

Í rannsókninni koma fram áberandi meiri sefjunareinkenni á Austurlandi en á höfðurborgarsvæðinu. Á Austurlandi þekkti helmingur þeirra sem svipt hafði sig lífi einhvern sem hafði gert það sama áður, hlutfallið var mun lægra á höfuðborgarsvæðinu. Því má segja að sjálfsvígsyfirfærslan hafi verið orðin mjög mikil í unglingamenningunni á Austurlandi.

Ýmsar skýringar kunna að vera á því. Ef einhver sviptir sig lífi í fámennu samfélagi, eins og á Austurlandi, eru meiri líkur á því að fólk þekki til viðkomandi. Það virðist vera að meiri samgangur sé á milli unglinga sem búa á fámennari stöðum. Á tiltölulega skömmum tíma urðu sjálfsvíg að "ásættanlegri" lausn við fjölmörgum vandamálum. Sjálfsvíg urðu smám saman hluti af þeim lausnum ,sem hægt var að grípa til í unglingamenningu Austfjarða.

Þegar áhættuþættir sjálfsvíga leggjast allir á sama aðila er viðkomandi að sjálfssögðu mun hættara til að líta á sjálfsvíg sem lausn en ella. Ungur þunglyndur karlmaður sem misnotar áfengi og þekkir eða þekkti einhvern sem svipt hefur sig lífi býr yfir þremur áhrifamestu áhættuþáttum sjálfsvíga. Hann er því í mun meiri sjálfsvígshættu heldur en aðrir ungir karlmenn.
Hér á eftir koma fram ýmsir þættir er hafa áhrif á sjálfsvígsatferli, í mismunandi mæli eftir tilfellum.

Erfið tilfinningaleg líðan
Alvarleg kvíðaeinkenni og ofsakvíðaköst (panic attacks) geta haft áhrif á sjálfsvígsatferli. Einnig geta geðsjúkdómar eins og geðklofi leitt til sjálfsvígsatferlis. Persónuleikatruflanir sem leiða af sér langvarandi samskiptaerfiðleika við umhverfi og fjölskyldu eru oft mikilvægur áhrifaþáttur. Oft tengjast þessir erfiðleikar þunglyndi og áfengis- og vímuefnamisnotkun.

Félagslegir erfiðleikar og uppeldislegur arfur
Uppvöxtur hefur verið þyrnum stráður, miklir erfiðleikar foreldra, áfengismisnotkun, kynferðilsleg valdbeiting, andleg og líkamlega valdníðsla og félagslegir erfiðleikar í jafningjahópi eins og einelti og félagsleg einangrun. Allt þetta getur aukið hættuna á sjálfsvígstilraunum.

Erfiðleikar við að átta sig á kynhlutverki sínu
Fyrir marga er erfitt að átta sig á kynhlutverki sína og finna út úr því hvort þeir séu samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir. Þetta virðist vera enn erfiðara fyrir drengi en stúlkur. Rannsóknir sýna að sjálfsvíg eru algengari hjá hommum og lesbíum en hjá gagnkynhneigðum. Fyrir homma og lesbíur býður flóknari og erfiðari lífsbarátta, m.a. vegna almennra vanþekkingar og fordóma gagnvart stöðu þeirra í samfélaginu. Öll barátta gegn þeim fordómum og vanþekkingu getur haft fyrirbyggjandi gildi gagnvart sjálfsvígsatferli.

Áföll og hremmingar
Slys, dauðsföll og atburðir sem hafa mikla erfiðleika í för með sér og marka stór spor í líf viðkomandi, t.d. nauðgun, auka líkur á sjálfsvígsatferli. Áhrif þessara atburða geta blossað upp þegar aðrir erfiðleikar eiga sér stað, sérstaklega ef ekki hefur verið unnið úr atburðinum.

Árekstrar við umhverfi/ frelsissvipting
Hefðbundin íslensk "brennivínsafbrot" eins og að aka drukkinn, missa prófið, skemma eignir eða meiða fólk getur verið mjög erfitt fyrir marga. Rannsóknir sýna að sjálfsvíg eru algengari í fangelsum en fyrir utan veggja þeirra.

Niðurlæging
Það sem einstaklingur upplifir sem mikla alvarlega niðurlægingu getur stundum verið kornið sem fyllir mælinn.

Afburðahæfileikar
Þeir sem búa yfir afburðahæfileikum, t.d. í námi eða íþróttum, finnst stundum þeir fyrst og fremst metnir af afrekum sínum en ekki af þeim sjálfum sem persónum. Þetta getur meðal annars stafað af því að þeir eiga erfitt með að meta sjáfa sig nema í gegnum afrek sín. Það sem einhverjum öðrum finnst smávægileg mistök getur orðið óyfirstíganleg hindrun fyrir þann sem býr yfir afburðahæfileikum. Ályktanir fólks með afburðahæfileika eru stundum þráhyggjukenndar. Sé niðurstaðan sem fólk kemst stundum að sú að það eigi ekki skilið að lifa lífinu vegna þess að það hafi brugðist getur það endað með sjálfsvígi.

Ýmsir þættir
Námserfiðleikar eru algengir og sumir þeirra sem eru að takast á við námserfiðleika árum saman missa sjálfsálitið hægt og sígandi nema þeir fái sérstakan stuðning til að takast á við þá. Stundum býður sjálfsálitið upp á sjálfsvígsatferli. Að verða barnshafandi er stundum mikið áfall fyrir ungt fólk og þá sérstaklega stúlkur sem getur orðið þeim ofviða að takast á við.

Þeim getur fundist eins og þær séu komnar í öngstræti og að engin leið sé fær önnur en að svipta sig lífi. Einstaklingur sem er með mörg þessara einkenna í miklum mæli er hugsanalega í alvarlegri þróun sjálfsvígsatferlis og getur verið í sjálfsvígshættu. Hann ætti því að leita aðstoðar sérfræðings, vina og fjölskyldu.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Almennar fyrirbyggjandi aðgerðir
Hér er átt við allt sem lýtur að heilbrigði og bættri líðan og gerir fólk hæfara til að takast á við það sem mætir því í lífinu. Nefna má áherslu á íþróttir. Rannsóknir sýna að íþróttafólk er síður í sjálfsvígshættu. Það þarf að styðja og hjálpa íþróttahreyfingunni til að leggja í auknum mæli áherslu á íþróttir fyrir alla en einblína ekki á keppnisíþróttir.

Uppeldi er auðvitað mikilvægur þáttur fyrir alla. Skapa þarf hinni íslensku fjölskyldu meira svigrúm til að sinna því flókna uppeldi sem nútíma samfélag krefst. Samfélagið ætti í auknum mæli að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir foreldra að kynna sér kenningar í uppeldi. Foreldrum þarf að kenna en ekki kenna um. Þar sem samvera foreldra og barna virðist oft vera í minna mæli en foreldrar svo gjarnan vildu liggur mikið við að samskipti þeirra á milli séu góð.

Flestar stofnanir geta lagt sitt af mörkum. Heilsugæslustöðvar, sem liggja eins og net í kringum landið, geta aukið sinn þátt í fyrirbyggjadi starfi, t.d. með margvíslegri fræðslu varðandi mataræði, fatlanir, sjúkdóma, slökun, áföll og áfallahjálp svo eitthvað sé nefnt. Sama má segja um skóla. Hér gæti verið um að ræða úrræði eins og ný 2 ára skólabraut fyrir nemendur sem hentar ekki fjögura ára námbraut og hefðu annars heltst úr lestinni í hugsanlegri uppgjöf. Vímuvarnarsamþætt námsefni, áfallaráð, fræðsluámskeið fyrir nemendur og starfsmenn skóla, samningur um þjónustu frá heilsugæslustöð, sérstakt kerfi er tryggir vissa nánd við nemendur, og samstarf við íþróttafélög og sveitastjórnir.

Hvað hentar hverjum og einum sér til heilla er sjálfsagt eins mismunandi og einstaklingarnir eru margir. Það er því mikilvægt að framboð hinna ýmsu tilboða í formi heilsuræktar, sjálfsskoðunar og tómstundaiðkunar sé fjölbreytilegt og mikið.

Fyrirbyggjandi aðgerðir beinast að því að finna einstaklinga sem sýna sjálfsvígsatferli og tryggja þeim leiðir til að komast úr erfiðleikum sínum.

Einn mikilvægasti þátturinn hér er endurmenntun fagfólks í sjálfsvígsfræðum og skyldum greinum. Norðmenn settu heildarstefnu varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir um sjálfsvíg árið 1993. Þar er mikil áhersla löggð á endurmenntun, m.a. vegna takmarkaðrar þekkingar fagfólks á efninu sem stafaði af því að fræðsla um sjálfsvíg var mjög lítil í hefðbundnu háskólanámi. Norðmenn settu á fót fyrsta sjálfsvígsforvarnasetrið 1996 með þremur útibúum úti á landi.

Fagfólk þarf að læra að þekkja einkennin , spyrja réttra spurninga og kunna að hlusta og sýna skilning.
Mjög mikilvægt er að tryggja starfsfólki skóla fræðslu um það sama. Viss lágmarksfræðsla þarf að vera aðgengileg fyrir nemendur og foreldra til að koma í veg fyrir vanþekkingu og fordóma í tengslum við sjálfsvíg. Gera þarf hér sterkan greinarmun á nytsamlegri fræðslu og þeirri hættu að verið sé að velta sér upp úr efninu.

Umfjöllun um sjálfsvíg getur verið mjög vandasöm, meðal annars af vissri sefjunarhættu, þess vegna er það góð regla að "rómantísera" eða ofgera aldrei sjálfsvígsumræðu og sjálfsvígsandlát á að fá sömu viðhöfn og önnur andlát. Ákveðin hætta er á að sjálfsvígsdauðdagi sé "rómantíseraður", sem getur aukið líkur á keðjusjálfsvígum.

Ungt fólk þarf að vita að það á að leita eftir hjálp þegar vinur eða vinkona talar um sjálfsvíg. Það þarf vissa undirstöðuþekkingu á sjálfsvígum en ekki síður þarf ungt fólk að þekkja þunglyndiseinkenni og vita hvað það er að líða mjög illa. Ungt fólk þarf að vita að það er hægt að fá hjálp og þunglyndi er hægt að meðhöndla og lækna.
Flest ungmenni eru að biðja um hjálp þegar þau segja vini frá sjálfsvígsáformum sínum.

Þau eru að biðja um hjálp þar sem þeim finnst þau ekki geta leyst vandamál sín lengur og þau geta heldur ekki lengur hlaupið frá þeim. Þau telja að þessi ódrepandi sársauki hverfi aldrei og sé eilífur. Það er algengt að þeir sem eru í djúpri geðlægð telji sig ekki lengur geta upplifað þennan dapurleika og þá getur verið að þau sjái sjálfsvígið sem flóttaleið.

Mikilvægt er að starfmenn skóla og nemendur geri sér grein fyrir að eftirfarandi hegðunareinkenni geta verið vísbendingar um sjáfsvígshættu:
·         Sjálfsvígshugsanir
·         Sjálfsvígstjáning
·         Áberandi breyting á hegðun í tiltölulega langan tíma
·         Vinur verður fyrir miklum missi
·         Vinur gefur frá sér vissar eigur og hegðar sér líka eins og hann sé að klára ákveðin mál sem hugsanlega lengi hefur staðið til að gera
·         Sjálfseyðileggjandi hegðun
·         Mikið mótlæti og reiði
·         Lélegt sjálfsmat

Fyrirbyggjandi aðgerðir eftir sjálfsvíg
Af ýmsum ástæðum sem ekki verða raktar hér var farið mjög seint að skrifa um reynslu aðstandenda þeirra er höfðu misst einhvern vegna sjálfsvígs Fyrsta bókin um þetta efni kom út 1972 og hún féll eiginlega í gleymsku. Það er því ekki fyrr en um og eftir 1980 sem farið var að skrifa um og rannsaka hvað gerist eftir sjálfsvíg. Einn af brautryðendunum er E. Betsy Ross sem skrifaði bók um sína reynslu er hún missti maka sinn vegna sjálfsvígs.

Ágrip af bókinni komu út 1980 en í heild kom bókin út 1986 og heitir Life after suicide. A ray of hope for those left behind (1997). Betsy tók þátt í stuðningshópi fólks er bjó yfir þessari sömu reynslu, að hafa misst einhvern nákomin vegna sjálfsvígs. Hún tók svo þátt í að stofna samtök sem héldu fyrstu alþjóðlegu ráðstefnuna 1980 um þetta málefni.

Betsy Ross telur að það sé lykilatriði að aðstandendur fái sjálfsvígseftirmeðferð (suicide postvention). "Sjálfsvígseftirmeðferð byggist upp af margvíslegri meðferðalegri, menntunarlegri og skipulagslegri virkni, í því umfangi afleiðinga sjálfsvígs eða sjálfsvígstilraunar með það fyrir augum að hún dragi úr tilfinningalegu álagi og vanlíðan einstaklingsins og dragi úr hættu á frekari sjálfsvígum". Að mati höfundar þessa kafla væri eftirfarandi fyrirbyggjandi aðgerðir mikilvægar fyrir þá sem misst hafa einhvern vegna sjálfsvígs.

1. Sjálfsvíginu lýkur ekki við verknaðinn sjálfan heldur lifir það áfram í þeim sem eftir lifa, oft með mikilli þjáningu. Hér er í flestum tilfellum um flókna sorg að ræða þannig að erfitt er fyrir aðstandendur að vinna sig í gegnum sorgina með þeim björgum sem fjölskylda þess látna býr yfir. Hefðbundnar sorgarathafnir kirkju duga skammt þegar um sjálfsvíg er að ræða. Rannsóknir sýna að mikil vanlíðan getur fylgt í kjölfarið árum saman, líkamleg veikindi aukast og þunglyndi er algengur fylgifiskur.

Hér þarf því að koma til sorgarráðgjöf og í mörgum tilfellum sorgarmeðferð. Með endurmenntun getur starfsfólk heilsugæslustöðva veitt sorgarráðgjöf og vísað þeim skjólstæðingum í sorgarmeðferð sem því þykir að þurfi þess. Bjóða mætti aðstandendum eftirfylgd í ár eftir atburðinn á heilsugæslustöð. Gott væri ef samvinna væri með presti viðkomandi fjölskyldu.

2. Stofna þyrfti sorgarsamtök þeirra sem misst hafa einhvern vegna sjálfsvígs. Sorgarvinnan er svo ólík allri annari að fólk finnur sig ekki í hefðbundnum sorgarsamtökum. Slík sorgarsamtök gæti verið opin þeim sem hafa áhuga á málefninu. Slík sorgarsamtök gætu veitt syrgjendum mikinn stuðning.

3. Aðferðir er beinast að því að draga úr hættunni á keðjusjálfsvígum, félagslegri sefjun. Hér er um að ræða samruna tveggja aðferða, þ.a.s. sorgarúrvinnslu og áfallahjálpar. Ef sá látni er nemandi í skóla þá færi áfallahjálp í gang innan 3 sólarhringa frá andláti. Nauðsynlegt er að skólar hafi áfallaráð og séu búnir að skipuleggja viðbrög sín áður en áfallið gerist. Þeir sem tengjast þeim látna mest fá svo sorgarráðgjöf og sorgarmeðferð ef þurfa þykir.
Hversu mikil fræðsla og umræða um sjálfsvígsmál á að koma inn í skólanna er mikið álitamál. Mörg lönd hafa sett fræðsluefni inn í grunnskóla sína og framhaldsskóla (mörg fylki í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu).

Sannleikurinn er sá að þettta er mjög vandmeðfarið. Í tímaritinu Crisis sem er gefið út af alþjóðlegum samtökum um fyrirbyggjandi aðferðir gegn sjálfsvígum (IASP, International, Association for Suicide Prevention) var til að mynda fjallað um hættuna af of mikilli sjálfsvígsumræðu inn í skólum.

Mjög erfitt er að sýna fram á jákvæðan árangur af sjálfsvígsumræðu í skólum með þeirri aðferðafræði sem er nauðsynleg í rannsóknum eins og reyndar hefur líka verið erfitt með áfallahjálp. Það þarf því vandaða fagmennsku og trausta þekkingu til að þessi fyrirbyggjandi úrræði snúist ekki í höndunum á okkur.

Hvað geta aðstandendur gert?

·         Gerðu þér far um að koma í kistulagningu og í jarðaförin. Áfallið, afneitunin og erfiðleikarnir að horfast í augu við sjálfsvígið er yfirþyrmandi fyrir þá sem eftir lifa. Þeir þurfa ALLAN þann stuðning sem þeir geta fengið.
·         Hegðaðu þér eins og þú ert vön/vanur þegar þú ferð í kistulagninguna eða jarðaförina. Þetta er ekki auðvelt þar sem þig langar sérstaklega mikið til að votta samúð en þú veist ekki hvað á að segja. Fá orð duga best. "Mig tekur þetta svo sárt. Ég veit ekki hvað ég á að segja við þig því ég þekki ekki hvernig þetta er sem þú ert að fara í gegnum". Taktu í hendina á þeim, fyrir alla muni taktu utan um þá og ekki finnast að þú þurfir endilega að segja neitt.
·         Ekki finnast erfitt að gráta í augsýn annarra ef sá látni stóð þér nær. Oft eru það eftirlifendirnir sem reyna að hugga þig en á sama tíma skilja þeir tárin þín og finna að þeir eru ekki einir í sorginni.
·         Sektarkennd eftirlifenda sjálfsvíga gerir það að verkum að þeir eiga á hættu að vera næmari en aðrir sem syrgja fyrir því hverjir sýna stuðning og hverjir ekki. Þess vegna er mikilvægt að koma í heimsókn, senda kveðju og sýna umhyggjuna á þann hátt á næstu vikum eða mánuðum.
·         Vertu meðvitaður um að sársauki eftirlifenda sjálfsvíga er svo mikill að oft er auðveldara að fara í afneitun. Vertu skilningsrík(ur) og þolinmóð(ur). Stundum gefur afneitunin smá tækifæri til að átta sig á áfallinu áður en meðvitundin um það skellur á aftur.
·         Komdu til þeirra sem eftir lifa sem vinur án fordóma og hindurvitna. Sýndu áhuga og hlustaðu. Eftirlifendur eiga það til að segja ekkesens vitleysu, rugla og endurtaka sig. Þú getur þurft að hlusta á það sama aftur og aftur. Og allt í lagi með það.
·         Vertu vinur sem hægt er að tala við og hægt er að vera afslappaður með. Vertu til taks til að eyða tíma með þeim sem á þér þurfa að halda. Flestir upplifa að besta leiðin til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar er að tala við þá sem þeir geta treyst. Með því að tala áttar fólk sig oft sjálft á líðan sinni og hugsunum og finnur eigin lausnir.
·         Vertu þolinmóður. Oft eru þeir sem eiga erfitt fyrstir til að átta sig á að þeir eru ekki auðveldir í samskiptum en þeir þarfnast þess að fólk umberi þá þangað til að sorgin mýkist.
·         Eftirlifendur sjálfsvíga hafa allan rétt á að vera viðkvæmir. Sumt fólk reynir markvisst að forðast þá. Þeir fara yfir götuna eða láta sem þeir sjá ekki eftirlifendurna. Þetta eykur á sektarkennd þeirra. Slík hegðun annarra stafar ekki af illgirni heldur frekar af óöryggi um hvað viðkomandi eigi að segja.
·         Hvettu eftirlifendur til að tala. Það er ekki gagnlegt að segja "Vertu ekkert að tala um þetta". Leyfðu þeim að hella úr sér.
·         Vertu einlægur þegar þú spyrð: "Hvernig gengur þér" og hlustaðu á viðbrögðin. EKKI koma í veg fyrir að hinn tali, ganga í burtu eða eyða samræðunum ef hinn raunverulega byrjar að tala.
·         Eftir því sem tíminn líður er allt í lagi að segja hve leiður þú sért og að minnast á sjálfsvígið. Það er huggun fyrir eftirlifendurna að ástvinur þeirra sé ekki gleymdur og að fólk hugsi enn til þeirra í sorginni.


Netfikn

Netnotkun á íslandi er einhver mesta í heiminum.  Rúmlega 70% íslendinga hafa nú aðgang að tölvu sem tengd er netinu og sækja þangað reglulega.  Fólk notar netið til ýmissa hluta, allt frá því að kynna sér ýmis efni yfir í það að eiga í samskiptum við fjarlæga vini og ættingja.  Margir láta sér nægja að gægjast á Netið einu sinni í viku meðan aðrir eru friðlausir ef ADSL tengingin þeirra dettur niður.  Fyrir marga er Netið frístundagaman líkt og að lesa góða bók en fyrir aðra er Netið atvinnutæki.  Ráðamenn hvetja fólk til að sækja Netið kynna sér það og nýta kosti þess og fullyrða að Netið verði okkar helsta tól í framtíðinni.  Hvenær er þá hægt að segja að netnotkun sé orðið að vandamáli, jafnvel fíkn.

Netfíkn er mjög ungt hugtak og eru rannsóknir á þessu fyrirbæri mjög fáar og erfitt að draga af þeim ákveðnar niðurstöður.  Netfíkn er ekki skilgreind sem geðræn röskun samkvæmt nýjustu útgáfu greiningarkerfis bandarísku geðlæknasamtakanna frá 1994.  óhætt er því að fullyrða að umræðan sem á sér stað í dag á eftir að mótast eftir því sem lengra líður og fleiri rannsóknir og meiri reynsla eiga eftir að varpa mun betra ljósi á netfíknina.

Ef þig grunar að ekki sé allt með felldu með netnotkun þína eða einhver þér nákominn reynir að benda þér á tölvunotkun þín sé meiri en góðu hófi gegnir, ættir þú að athuga hvort einhver fótur sé fyrir grunsemdum og aðdróttunum í þinn garð.  Það má finna próf á netinu sem þú getur tekið og leiði prófið í ljós að þú sért í áhættuhópi skaltu leita ráða hjá fagaðila meðferð er til staðar fyrir netfíkla og hún byggist á hugrænni meðferð, fjölskyldumeðferð og þjálfun í félagslegri færni. Í meðferð beinist einkum athyglin að því að kenna netnotandanum að ná stjórn á hegðun sinni.  Þessi meðferðarform geta ekki komið í veg fyrir að hegðunin taki sig upp aftur en gerir notandanum kleift að kljást við hvatir sínar og ná meiri færni í að stjórna þeim.

 

Margir telja að netfíkn geti greinst í undirflokka sem ræðst af því hvað það er sem fólk sækir helst á Netið.

  • kynlífsfíkn sem skiptist í netkynlífs (Cyber Sex) og netklámfíkn.
  • Sambandsfíkn ( cyber relationships )
  • Tölvupóstfíkn (eMail)
  • Verðbréfabrask á Netinu fíkn ( online stocking trading )
  • Netspilafíkn ( online Gambling )
  • Netuppboðsfíkn ( online Auctioning )
  • Upplýsingarfíkn ( information surfing )
  • Leikjafíkn ( computer games )

Netfíkill segir frá:

Þegar ég eignaðist fyrstu tölvuna mína og komst í samband við Netið átti ég það til að vaka langt fram eftir og stundum fram á morgun.  Enda þótt ég vissi að vinna biði mín og áhrif svefnleysis þá hundsaði ég það.  Þegar vika var liðin með tilheyrandi vitleysu og trekktum taugum( sem voru óhjákvæmilegur fylgifiskur aukinnar kaffineyslu  ) fann ég að ég var kominn á hálan ís.  Morgun einn leit ég upp frá lyklaborðinu og horfði umhverfis mig.  Það var full nauðsyn að fara út með ruslið.  Óhreinn þvottur flæddi út úr þvottakörfunni og helgin hafði liðið án þess að ég tæki eftir því.  Íbúðin mín var í einu orði sagt ruslahaugur.  Um leið uppgötvaði ég að maturinn hafði breyst í næringarsnautt ruslfæði og ég borðaði minna.  Að lokum kom að því að ég ákvað að taka mér tak og byrjaði að þrífa íbúðina mína og gerði það sem ég þurfti að gera.  Ég  mun aldrei gleyma því í hverju ég lenti.

 

Það eina sem hægt er að fullyrða er að Netfíkn virðist leggjast helst á ungt fólk, og frekar stráka en stelpur.  Það má í þessu sambandi benda á að stærstur hópur netnotanda er ungt fólk.  Á þessu stigi er ekkert hægt að fullyrða um orsök netfíknar.

Aðstandandi segir frá:

Þessi saga er ekki af mér heldur konunni minni.  Hún viðurkennir ekki að hún sé háð spjallrásum á Netinu. Fíkn hennar hefur skemmt hjónaband okkar það mikið að erfitt er að sjá fyrir endann á því.  Fyrir nokkrum mánuðum hóf hún að sækja “Ancient Sites” spjallrásina.  Hún byrjaði að því að eyða nokkrum tímum á viku á henni sem nú eru orðnir milli 18 og 20 tímar á dag, sjö daga vikunnar.  Hún sagðist vera að leita að gáfulegum samræðum.  Þvílíkt rangnefni það eru ekki mikið um gáfur á spjallrásum vefsins.  Hún er viðkvæm fyrir skjalli karlmanna sem leituðu kynlífs.  Síðustu 8-10 mánuði hefur hún haldið framhjá mér í huganum á spjallrásum og síðan í beinu framhaldi í síma með að minnsta kosti sex mönnum.  Nýlega keypti hún sér flugmiða til að hitta einn elskhuga sinn af Netinu og innsiglaði framhjáhaldið líkamlega.  Við eigum tvö börn 4ára dreng og 2ára stúlku.  Konan mín sinnir ekki heimilisstörfum , hún eldar ekki mat, svarar ekki símtölum nema þau séu frá netvinum hennar, viðurkennir að það sem hún gerir sé rangt.  En virðist vera tilbúin að fórna börnunum sínum fyrir það að sitja fyrir framan tölvuskjá við það eitt að skoða þrjár eða fjórar spjallrásir í einu með fimm eða sex manns í hverri.  Ég er viss um að þetta er meira en fíkn, þetta er geðveila.


Spurt og svarað IV "Dóttir mín 15 ára er byrjuð í neyslu"

Dóttir mín 15 ára gömul er komin í neyslu!  

Móðir spyr:
Ég var að komast að því að dóttir mín 15 ára gömul er komin í
neyslu á hassi og jafnvel í sterkari efni. Hvað get ég gert!!!!!!????
 

Kæra móðir:
Spurningin þín er mjög opin en ég mun gera mitt besta til að leiðbeina þér:
Byrjaðu á því að reyna að tala við dóttur þína. Segðu henni frá hvað þú ert hrædd og áhyggjufull. Reyndu að miðla henni þessu á sem einfaldastan hátt og án ásakana. Byrjaðu setningar þínar á “ég ...”, “mér líður ...”. Kannski tekst þér að fá hana til að hlusta á þig. Ef þú finnur að þú verður mjög æst og/eða ásakandi, slíttu þá samtalinu, því það mun ekkert koma út úr því nema að dóttir þín fælist frá þér. Reyndu að fá upplýsingar frá henni um hversu mikil neysla hennar sé, hver afstaða hennar er til neyslunnar, hvort hún líti á neysluna sem vandamál eða ekki o.s.frv.

Spurðu hana hvort hún sé tilbúin til að koma með þér í ráðgjafarviðtal niður í Foreldrahús. Í framhaldi skaltu panta viðtal í Foreldrahúsinu, hvort sem telpan þín er tilbúin til að koma með þér eða ekki og ættuð þið bæði foreldrar hennar að koma í slíkt viðtal. Oftast er hægt að fá viðtal við ráðgjafa samdægurs. Einnig gætirðu leitað til okkar hjá Lífsýn hringt og fengið viðtal hjá okkur hvort sem það er fyrir þig eða dóttur þína hjálpin er nær þér en þú heldur, Bið eftir viðtali hjá sálfræðingi er oftast um 2-3 vikur.

Gangi ykkur vel!


Spurt og svarað III "Hann vill ekki halda áfram"

Hann vill ekki halda áfram!

 

  
 

 

  

Ég var að lesa spurt og svarað á heimasíðunni ykkar og hafði gagn af. Við eigum í erfiðleikum með 16 ára fósturson okkar sem er nú þegar búinn að viðurkenna að grunur okkar varðandi hassreykingar var á rökum byggður. Hann vill ekki halda áfram slíkri neyslu og hefur verið í viðtölum við sálfræðing til þess að fá stuðning. Út úr þeim viðtölum hefur lítið komið fram því miður og erum við þrátt fyrir þetta enn í lausu lofti varðandi þetta mál.

Hann lýgur að okkur og við finnum að allt traust er farið forgörðum. Tekið hefur verið af honum þvagpróf sem sýndi að ekki var neysla í það skiptið n.b. hann veit að hann getur átt von á slíkum prófum hvenær sem er.

Spurningar hrannast upp eins og t.d.: Erum við að gera rétt með því að taka af honum fasta vasapeninga,( þegar hann hefur sýnt fram á að meira en þúsund krónur í einu eru honum um megn ef farið er fram yfir þá upphæð leiðir það oftast til einhverjar misnotkunar, sígarettur, áfengi eða jafnvel til hassneyslu)?

Hann leggur það á borð fyrir okkur að sígarettureykingar heyri fortíðinni til en í gær var hann hankaður á því að vera að kveikja sér í sígarettu úti á götu, hafði sér ekkert til varnar. Hann hefur ekki kveikt á gsm. símanum sínu til þess að ekki náist í hann og segir ekki frá eins og málin eru núna að hann hefur glatað símanum sínum (þetta er þriðji síminn sem hann á) fékk símann í jólagjöf og fannst það ekki vera jólagjöf sem hafði eitthvert gildi fyrir hann, átti sennilega bara að fá símann aukreitis en ekki sem, gjöf.

Honum eru settar þröngar skorður varðandi útivistartíma á virkum dögum á hann að vera kominn inn fyrir kl. 23.30 og um helgar í síðastalagi kl. 1.00 að miðnætti er þetta sanngjarnt?

Þakka fyrir Kæra foreldri

Það er gott að heyra að þú hafðir gagn af spurt og svarað hjá okkur. Hvað fósturson ykkar áhrærir, þá heyrist mér þið vera í nokkuð slæmum vanda. Ég hef þó ýmsar spurningar sem mér finnst mikilvægt að vita svörin við.

Er drengurinn í skóla eða vinnu?

Mætir hann þar og stendur sig?

Ef svo er, þá skiptir það miklu máli og er jákvætt. Stendur hann við útivistartímann? Ef svo er, þá skiptir það líka miklu máli og er líka jákvætt.

Þriðja spurningin sem ég hef er um hvað sé aðalmálið, sígarettureykingarnar, áfengisdrykkjan eða hassreykingarnar?

Auðvitað erum við öll sammála um að unglingar eigi ekki að reykja sígarettur eða drekka áfengi. En ég held líka að þegar maður stendur í ykkar sporum, þá hljóti hassreykingarnar að vera aðalvandamálið og það sem þið eruð hræddust við. Þessar spurningar allar lúta að því hvernig þið getið byggt upp traust að nýju. Það verður að vera alveg ljóst, bæði fyrir ykkur og hann hvernig hann á að fara að því. Máli skiptir að einbeita sér að því sem máli skiptir til að minnka líkurnar á því að honum finnist hann þurfa að ljúga að ykkur eða fara á bak við ykkur.

Eins og staðan er núna, þá hlýtur fyrsta skilyrðið fyrir því að byggja upp traust að vera að hann mælist ekki í neinni neyslu á hassi. Hann þarf að fara í próf reglulega og þau þurfa að vera óvænt. Það þarf að standa yfir honum á klósettinu og passa að hann geti ekki sett neitt út í þvagið eða notað þvag úr öðrum.

Ef hann mætir í skóla eða vinnu og þið fylgist með því a.m.k. einu sinni í viku að hann sé í alvöru að mæta, þá er hann líka að vinna sér inn punkta. Ef hann stendur við útivistartíma gildir það sama. Hvað vasapeninga áhrærir, þá er mjög erfitt að taka alla vasapeninga af krökkum í dag. Betra er að það sé ljóst hvað hann á að fá og hvenær. Ef hann höndlar ekki stórar upphæðir í einu, skiptið því þá niður og látið hann hafa peninga 2svar eða 3svar í viku. Það á að vera alveg ákveðið hvaða fjárhæð hann fær og hvað hann á að sjá um að greiða sjálfur með því (símakort, sælgæti, gos, bíóferðir, skólaskemmtanir o.s.frv.

ljóst er að ef hann á að borga mat í skóla, þá þarf hann meira). Einnig þarf að vera ljóst hvað er ekki innifalið í vasapeningnum (föt, matur í skóla, bíóferðir, skólaskemmtanir o.s.frv.) Í ykkar sporum mundi ég jafnvel sleppa því að gera mál úr því hvort hann eyðir í sígarettur eða ekki. Ljóst er þó að hann hefur ekki ykkar leyfi til að reykja og gerir það ekki heima eða fyrir framan ykkur, en að öðru leyti mundi ég láta það kyrrt liggja. Það að byggja upp brotið traust er alltaf erfitt. Það er einstigi sem þarf að feta með varúð.

Hvorki má setja of ströng skilyrði, of óljós, né of algild (t.d. að "vera almennilegur"). Það þarf líka að vera ljóst hvað það felur í sér ef hann stendur sig. Fær hann þá t.d. lengri útivistartíma um helgar? Þarf hann þá ekki lengur að taka hasspróf, eða bara sjaldnar? Fær hann þá meiri vasapeninga aftur? Getur hann þá unnið sér inn fyrir nýjum síma? Allt þetta og meira getur komið í kjölfar þess að hann standi sig. Mikilvægt er að hann og þið séuð í sameiningu að vinna að því að byggja upp traustið og að öllum sé ljóst hvernig staðan er.

Ég legg til að þið farið yfir stöðuna einu sinni eða tvisvar í viku til að allir séu með á nótunum hvað er að ganga vel og hvað þarf til að gera betur eða ná tilætluðum árangri. Það er nauðsynlegt fyrir hann að vita hvernig hann á að fara að því að mæta kröfum ykkar og hvað felst í því, því annars gefst hann bara upp og telur að það sé ómögulegt fyrir sig að ná nokkurn tíma trausti ykkar á ný fyrst það brotnaði yfir höfuð.

Ég vona að þessar ráðleggingar hjálpi ykkur, en bendi ykkur einnig á að þið getið sótt ykkur aðstoð fyrir ykkur, ef þið viljið, eða son ykkar.


Að halda sig frá fyrsta glasinu.

 ,,Eitt glas er of mikið og tuttugu er of lítið” 

Þegar við byrjuðum að drekka, vildu mörg okkar ekki nema eitt eða tvö glös og þáðu ekki meira.  En með tímanum jókst fjöldi þeirra.  Og um síðir fundum við að við vorum farin að drekka meira og meira, sum okkar urðu mjög drukkin.  Kannski sást þetta ekki alltaf á okkur né heyrðist, en á þessum tíma vorum við aldrei alveg allsgáð. Ef þetta fór of mikið í taugarnar á okkur, minnkuðum við drykkjuna, eða reyndum að takmarka okkur við eitt eða tvö glös, eða að fara að drekka bjór eða létt vín í stað sterkra drykkja. 

Við reyndum að minnsta kosti að minnka magnið, svo að við yrðum ekki alltof  drukkin.  En allar þessar aðferðir urðu erfiðari og erfiðari.  Stundum fórum við jafnvel í bindindi og drukkum alls ekki í tíma.  En við fórum alltaf að drekka aftur – bara eitt glas.  Og fyrst það gerði okkur greinilega engan stórskaða, fannst okkur allt í lagi að fá okkur annað.   Kannski drukkum við ekki meira við þetta tækifæri, og það var mikill léttir að finna að við gátum drukkið eitt eða tvö glös og hætt svo.  Sum okkar gerðu þetta oft.  En þetta reyndist vera tál.  Það sannfærði okkur um að okkur væri óhætt að drekka. 

Og svo kom að því við einhver sérstök hátíðarhöld, persónulegan missi, eða ekkert sérstakt, þegar tvö eða þrjú glös hresstu okkur sérdeilis vel, svo að við héldum að eitt eða tvö til myndu ekkert skaða.  Þótt við hefðum alls ekki ætlað okkur það, vorum við allt í einu farin að drekka of mikið aftur.  Við vorum aftur komin á sama stað – drukkum of mikið án þess að ætla okkur það. Þegar þessi reynsla endurtók sig nógu oft, leiddi hún til þessar óhjákvæmilegu niðurstöðu:  Ef við drekkum ekki fyrsta glasið, verðum við aldrei drukkin. 

Í stað þess að ætla okkur að verða drukkin, eða að reyna að takmarka fjölda glasanna eða magn áfengisins, erum við þess vegna að læra að einbeita okkur að því að forðast aðeins eitt glas: það fyrsta. Þetta reyndist þannig að í stað þess að hafa áhyggjur af takmörkun glasafjöldans í lok drykkjutímabils, forðumst við glasið, sem kemur því af stað.  Þetta virðist nærri heimskulega einfalt er það ekki ?

Það er erfitt fyrir mörg okkar núna að trúa því að við skyldum aldrei komast að þessari niðurstöðu sjálf áður en við leituðum okkur aðstoðar. En aðalatriðið er þetta:  Nú vitum við að þetta er það sem dugar.  Í stað þess að reyna að reikna út, hve mörg glös við þyldum – fjögur ? – sex ?  tólf ? – höfum við hugfast, ,,Drekktu bara ekki fyrsta glasið” Það er miklu einfaldara.  Þessi hugsanavenja hefur hjálpað hundruðum þúsunda manna til að halda okkur frá áfengi svo árum skipti. 

Læknar sem hafa sérhæft sig í alkóhólisma, segja okkur að það sé læknisfræðilega rétt að forðast fyrsta glasið.  Fyrsta glasið kemur af stað ílöngun, annaðhvort strax eða einhvern tíma síðar, til að drekka meira og meira, þar til við erum aftur komin í vandæði vegna drykkjunnar.  Margir hafa komist á þá skoðun að alkóhólismi sé það, þegar við verðum háð eiturlyfinu ethyl-alkóhóli, og við verðum að halda okkur frá fyrsta skammtinum af lyfinu, sem við höfum ánetjast, eins og allir eiturlyfjasjúklingar, sem vilja halda heilsu.                                       


Mikilvægasta persóna heims

Hefur álit annarra mikil áhrif á þig og þínar ákvarðanir og gerðir? Hversvegna skyldir þú láta aðra taka þínar ákvarðanir? Stjórnar annað fólk því hvernig þér líður? Vita aðrir betur en þú hvernig þér líður og hvað þér er fyrir bestu?
Skortur á sjálfstrausti veldur því oft að við verðum háð öðru fólki og skoðanir þeirra fara að hafa áhrif á hvernig við högum okkur og hvað við gerum. Við leitumst við að geðjast öðrum og leitum stöðugt eftir áliti þeirra og viðurkenningu á okkar verkum. Við verðum óörugg, óttumst gagnrýni og erum sífelt óánægð með það sem við gerum, hversu gott sem það er.
Þetta er skelfilegur vítahringur sem gefur í sífellu höggstað á okkur og okkar tilfinningum og getur mjög auðveldlega leitt af sér þunglyndi, vanmáttarkennd og leiðir margt fólk út í fyrringu áfengis og fíkniefna.
Þegar við lendum í þessari aðstöðu er hugur okkar fullur af neikvæðum, niðurbrjótandi hugsunum og tilfinningar okkar eru dofnar. Við erum ekki í stakk búin til að gefa af okkur, né þiggja nokkuð til baka. Það merkilega er að þó við þráum hól og þakkir fyrir það sem við gerum, þá gleðjumst við ekki þegar okkur er hrósað. Hugur okkar trúir ekki lengur á hól og falleg orð vegna þess að við höfum gert okkur neikvæða mynd af sjálfum okkur.
Við getum breytt þessu ástandi með því að temja okkur jákvæða hugsun og gera okkur skýra, jákvæða mynd af sjálfum okkur. Ræktum okkar góðu eiginleika og lærum að gleðjast yfir verkum okkar. Smám saman byggjum við upp sjálfsvirðingu sem er grundvöllur þess að aðrir virði okkur og hætti að notfæra sér okkur.
Það er kominn tími til að þú kynnist mikilvægustu persónu heims. Þessi persóna stjórnar þér, velgengni þinni, heilsu, hamingju og auði. Þú hefur þekkt þessa persónu alla ævi, en ef til vill er þetta eina persónan sem þú hefur ekki hlustað á hingað til. Mikilvægasta persóna í heimi ert þú. Þessi manneskja hefur gríðarlega hæfileika og möguleika á að stjórna sínu eigin lífi og hamingju. Hún á það skilið að hlustað sé á hana og skoðanir hennar virtar. Taktu stjórnina í eigin hendur og breyttu lífi þínu til betri vegar.
Starfsemi hugans
Hugur okkar skiptist í meðvitund og undirmeðvitund. Meðvitundin sér um meðvitaðar hugsanir og gerðir, meðan undirmeðvitundin geymir allar okkar tilfinningar og sjálfsmynd. Undirmeðvitundin stjórnar hvernig okkur líður og hvernig við bregðumst við atvikum í lífinu. Hún geymir minningar sem við höldum að séu löngu gleymdar og kemur okkur stundum á óvart með því að draga fram atriði sem við viljum ekkert með hafa.
Undirmeðvitundin starfar nótt og dag. Það er hún sem býr til myndir þegar við látum hugann reika og það er hún sem sér okkur fyrir draumum okkar um nætur. Áhyggjur og kvíði eru undirmeðvitundinni kveikja að nýjum og nýjum hörmungarmyndum og martröðum. Hún spinnur endalausan vef sem aðeins eykur á vanlíðan okkar og gera okkur ráðþrota og vonlaus.
Ótti og kvíði eiga bústað í undirmeðvitund okkar. Þetta eru neikvæðar tilfinningar sem hafa bein áhrif á hvernig okkur líður og hvernig okkur gengur í daglegu lífi. Ef sjálfsmynd okkar er sú að við séum lægra sett en aðrir eða minna virði, þá bregðumst við við samkvæmt því og förum í vörn af minnsta tilefni. Framkoma okkar speglar líka tilfinningar okkar á hverjum tíma. Það er margsannað að fólk sem þjáist af þunglyndi og kvíða er líklegra til að lenda í slysum og óhöppum en annað fólk.
Hugur okkar reynir að hrinda öllum okkar hugsunum í framkvæmd, bæði meðvituðum og ómeðvituðum. Undirmeðvitundin er gríðarlega sterkur kraftur sem ekki má vanmeta. Séu flestar okkar tilfinningar neikvæðar, mun okkur ganga illa í samskiptum við aðra og framkoma okkar litast af því hvernig okkur líður. Ekkert af því sem við gerum virðist skila árangri og áform okkar ganga ekki upp.
Sé sjálfsmynd okkar og sjálfsvirðing á hinn bóginn sterk, þá tökum við gagnrýni á annan hátt og hugsum sem svo: "ef gagnrýnin er réttmæt, þá verð ég að lagfæra það sem miður fór, en ef gagnrýnin er ranglát þá hefur hún engin áhrif á mig". Með öðrum orðum: við látum ekki álit annara hafa áhrif á okkur vegna þess að við erum þess fullviss að við höfum gert rétt og eins vel og við gátum.
Þegar við fáum svokölluð hugboð eða hugmyndir, þá er undirmeðvitundin að verki og hugmyndin getur verið árangur af langri vinnu hugans án þess að við höfum gert okkur grein fyrir því. Hefur þú ekki orðið fyrir því að finna allt í einu lausn á vandamáli frá í gær eða síðustu viku, án þess að hafa verið að hugsa meðvitað um vandamálið? Undirmeðvitundin hefur verið að starfa að lausn vandans og er nú að skila lausninni til meðvitaða hluta hugans til þess að þú getir komið henni í framkvæmd.
Hvernig getum við þá haft áhrif á undirmeðvitundina? Það virðist ekki auðvelt verk þar sem hún er ekki hluti af sjálfráðum hugsunum okkar. Það er hins vegar gerlegt að breyta þeirri mynd sem við höfum af sjálfum okkur og breyta þannig líðan okkar og því hvernig við bregðumst við. Þannig getum við í raun haft áhrif á alla okkar framtíð og hvaða árangri við náum.
Aðferðin sem við notum til að komast í samband við undirmeðvitundina heitir innræting og fer þannig fram að við endurtökum eitthvað margoft þar til það síast inn og greipist fast í huga okkar. Við þurfum að segja sjálfum okkur á hverjum degi að við getum það sem við ætlum okkur og um leið bægja frá okkur öllum efasemdum og neikvæðum hugsunum. Hugurinn er jafnmóttækilegur fyrir neikvæðum hlutum og jákvæðum og við verðum að fara varlega, því við höfum allt of lengi hleypt neikvæðum hugsunum að. Þar liggur vandinn og það verðum við að lagfæra.
Markmið
Ef við viljum breyta lífi okkar varanlega, komast upp úr því hjólfari sem við höfum allt of lengi hjakkað í og öðlast eitthvað það sem okkur hefur langað í verðum við að hafa markmið. Það skiptir ekki máli hvað okkur langar í eða hvað við viljum verða. Við getum öðlast það sem okkur langar í, en aðeins ef við vinnum skipulega að því og setjum okkur skýr markmið.
Allt sem við afrekum í lífinu hefst sem hugmynd í höfði okkar eða einhverra annara. Stundum er sagt að orð séu til alls fyrst, en þá gleymist að á undan orði fer af stað hugsun í heila okkar og hugmynd skapast. Við eigum ekki í neinum vandræðum með að hrinda í framkvæmd einföldum hlutum sem við getum gert þegar í stað, en annað gildir um verk sem þarfnast undirbúnings og taka langan tíma.
Því miður er það hluti af eðli mannsins að fresta hlutum sem ekki þarf lífsnauðsynlega að framkvæma strax. Þess vegna hættir okkur til að fresta ýmsu sem okkur langar til að gera, stundum svo árum skiptir. Innst inni líður okkur ekki vel yfir því að fresta hlutum og þess vegna finnum við okkur afsakanir til að útskýra hvers vegna við erum ekki búin að gera þetta og gera hitt. Við verðum sérfræðingar í afsökunum og reynum að skella skuldinni á einhvern annan eða einhverjar aðstæður.
Algengar afsakanir eru:
Ég hef ekki nægan tíma…
Ég er of blankur…
Makinn/börnin/vinnuveitandinn yrði ekki ánægður…
Það er of kalt/heitt núna
Ef ég hefði tækifæri…
Ef ég væri betur settur…
Ef ég kynni það…
Ég get það ekki…
Í rauninni endurspegla þessar afsakanir aðeins vantrú á okkar eigin getu og ágæti. Við hræðumst álit annara og komum okkur undan ábyrgð á eigin gerðum og framtíð um leið og við búum til ástæðu til að sitja áfram aðgerðalaus.
Hugsum okkur að við þurfum að fara að endurnýja bílinn. Við getum falið okkur bak við ótal afsakanir alveg þangað til að sá gamli deyr drottni sínum og þá er nú hætt við að ýmsir verði ekki glaðir, hvorki maki né seðlaveski. Við höfum vitað í tvö ár að þessi stund væri á næsta leyti, en við höfum enga áætlun um hvernig á að leysa vandann, vegna þess að það er auðveldara að fresta hlutunum en taka á þeim.
 

Ekki vanmáttur , heldur styrkur !!

það er ekki vanmáttur að leita sér hjálpar það er styrkur að gera það og hananú!

Spurt og svarað dálkurinn hefur tekið til starfa og endilega kynnið ykkur það og sendið mér spurningar ef ykkur vantar svör við eitthvað sem varðar forvarnir, allskonar fræðslu t.d.  áfengi eða önnur fíkniefni áhrif eða skaðsemi.

Nýtt fræðsluefni er fært hingað á bloggið okkar á hverjum degi og nú hafa bæst við fleiri spurningar frá fólki sem er í vandræðum og hafa þau sent inn spurningar !

á email. lifsyn@lifsyn.is


Spurt og svarað II "Eru til úrræði fyrir aðstandendur ?"

Spurn:

Eru til einhver úrræði fyrir aðstandendur þegar fíkill vill ekki fara í meðferð. Það er martröð að hafa fíkil inn á heimili að mér finnst. Hvað er til ráða ?

Svar:

Það fer eftir því hvernig fíkn viðkomandi er að kljást við. Ef um er að ræða vímuefnafíkn þá er hægt að fara á aðstandendanámskeið hjá SÁÁ eða bara fá hjá þeim viðtal, til að læra að setja fíklinum eðlileg mörk. Hægt er að hringja í Lífsýn fræðsla og forvarnir og leita sér aðstoðar höfum verið að vinna gott starf með unglingum  sem og fullorðnum einstaklingum með góðum árangri. Það getur stundum verið erfitt að setja fíkli stólinn fyrir dyrnar og fara fram á það að hann fari að taka ábyrgð á sjálfum sér. Fer það líka eftir því hvort um manns eigið barn er að ræða eða maka. en oft er þörfin sú að þegar fíkillinn finnur að allar hafa yfirgefið sig þá fyrst fer hann að vilja gera eitthvað í málunum.

Þegar um ungling er að ræða þá er hægt að leita til Foreldrahúsins en þeir aðstoða foreldra og uppalendur sem eru með börn sem eru byrjuð að nota vímuefni.

Gangi þér vel


Frelsi

Staður: Þjórsárdalur
Stund: Verslunarmannahelgin 1983
Með vinum og kunningjum inni í tjaldi. Sextán ára og framtíðin björt. Búið að bíða lengi eftir þessari helgi. Nú á að detta í það! Þú hikar augnablik, en færð þér svo sopa. Mikið rosalega bragðaðist þetta illa. En vinirnir eru duglegir að hvetja þig áfram og kenna þér réttu aðferðirnar. Þú lætur þig hafa það og brátt komu áhrifin í ljós. Vá, þetta var bara fínt. Þú varðst kát og hress, fyndin og óhrædd við að segja og gera það sem þig langaði til.
Í dag öfunda ég fólk, ákveðin hóp af fólki réttara sagt. Ég öfunda fólk sem aldrei hefur smakkað áfengi og þekkir ekki áhrif áfengis. Mikið rosalega vildir þú að þú hefðir aldrei byrjað og þekktir ekki áhrifin.

21 ári síðar
Staður: Reykjavík
Stund: 1. júlí 2004
Umkringd fólki og að drekka léttvín. Lifnaðir við eftir tvö glös og fannst þú skemmtileg og áttir auðvelt með að tala við fólk og leikur á als oddi. Allir voru skemmtilegir en það varði stutt, svona klukkustund eða tvær. Svo urðu flestir svolítið kjánalegir. Drukkið fólk getur verið kjánalegt. Þvílíkt falskt haldreipi að halda að maður sé skemmtilegri eftir nokkur glös. Ég öfunda fólk. Öfunda þá sem aldrei prófuðu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband