Fullorðin börn alkóhólista

Fullorðin börn alkóhólista
- fengum aldrei tækifæri til að njóta.
1986 voru stofnuð samtökin Fullorðin börn alkóhólista (FBA) hér á landi. Tilvist þeirra hefur ekki farið hátt en það segir ekki allt um starfið og árangur þess. Til þess að kynnast dálítið þessum samtökum og starfi þeirra fengum við tvær konur, sem þekkja þau vel, til að upplýsa okkur um þau. Þær óskuðu báðar eftir því að nöfn þeirra kæmu ekki fram og því skýrum við þær upp okkur til hægðarauka með nöfnum sem hafa enga skírskotun til þeirra eiginlegu nafna.

Köllum aðra Björgu. Hún er búin að vera gift alkóhólista í fjórtán ár og er barnlaus. Maður hennar er búinn að vera óvirkur alkóhólisti í átta ár. Hún er barn alkóhólista en ekki alkóhólisti sjálf.

Köllum hina Önnu. Hún er líka barn alkóhólista en drykkjan var vandlega falin í fjölskyldunni. Hún er gift og á þrjú börn.

En látum þær stöllur hafa orðið.

BJÖRG: Samtökin Fullorðin börn alkóhólista voru stofnuð 3. september 1986. Fyrsti fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 11.

ANNA: Aðdragandi stofnunar þeirra var sá að fólk sem hafði starfað í AA og AI-Anon sameinaðist um stofnun sérstaks félags fyrir fullorðin börn alkóhólista.

BJÖRG: Það vantaði samkenndina við það að vera fullorðið barn. Þegar ég var búin að vera í Al-Anon þá fór ég að hugsa meira um mína bernsku og fann að það vantaði einhvers konar samtök fyrir þá, sem alast upp við alkóhólisma, en búa ekki lengur við það ástand. Ég hafði heyrt af slíkum samtökum í Bandaríkjunum og að þau væru mjög öflug. Vinur minn færði mér síðan ýmis gögn þaðan. Sumt af því var þýtt og gefið út hér. Eftir það var stofnuð deild og var mikil gróska þegar við fórum af stað. Deildunum hefur fækkað nokkuð síðan þá en starfið er samt mikið. Núna eru starfandi þrjár deildir í Reykjavík og deild á Akureyri. Það hafa einnig verið deildir víðar úti um land.

ANNA: Deildirnar eru sjálfshjálparhópar, sambærilegir við AA og AI-Anon, og byggjast á tólf reynslusporum og tólf erfðavenjum. Hver deild er sjálfstæð nema í málum sem varða samtökin í heild. Þjónustunefnd er skipuð tveimur einstaklingum, sem sjá um að halda utan um fundina í u.þ.b. einn mánuð í senn. Samstarfsnefnd kemur saman einu sinni í mánuði og samhæfir innra starf og annast útgáfu. Í henni sitja tveir fulltrúar frá hverri deild, en annars er hún opin öllum sem vilja starfa í henni.

BJÖRG: Þessi samtök, FBA, eru mjög öflug t.d. í Bandaríkjunum og starfandi víða um heim. Við tilheyrum því alheimssamtökum. Þaðan fáum við upplýsingar um hvað er að gerast. Í Bandaríkjunum koma mánaðarlega út tímarit og bækur, sem mikið er til af.

Samtökin eru ekki aðeins ætluð börnum alkóhólista heldur einnig fullorðnum börnum, sem koma úr tilfinningalega vanhæfum fjölskyldum. Allt okkar starf byggist á því sem felst í orðunum: Talaðu, treystu og finndu. Við höfum lært það í uppeldinu að tala ekki, treysta ekki öðrum og bæla tilfinningar okkar þannig að sjálfsmynd okkar er oft mjög skert og við höfum lært að lifa í hlutverkum. Á þessu erum við að reyna að sigrast á fundunum; að tala um okkur sjálf, treysta öðrum og leyfa okkur að hafa tilfinningar...

ANNA: ... og deila tilfinningum með öðru fólki og upplifa að það er í lagi. Það er nýtt fyrir okkur, sem höfum alist upp við rugluð skilaboð og þögn, að það skuli vera til fullt af fólki sem líður eins. Þetta er fyrst og fremst tilfinningavinna, losa um reiði, losa um höfnun...

BJÖRG: ...og gangast við barninu í sér sem er megin lykillinn. Við erum svo hrædd við tilfinningar okkar, ekki síst þegar kemur að tilfinningum sem við erum búin að segja okkur sjálfum lengi að séu ekki í lagi. Með því að tjá okkur á fundunum kemur bernskureynslan fram og tilfinningar sem við höfum bælt. Við það verða margir hræddir og treysta sér ekki til að halda áfram þessari sjálfsvinnu. En fari maður að tala, treysta og finna þá byggir maður upp sterkari sjálfsmynd og verður hæfari í samskiptum við aðra. Það eru samt engar kvaðir á fólk um að tala og tjá sig. Það er líka hægt að koma og hlusta. Það er enginn sem pressar þig til eins eða neins. Allt sem þú gerir á fundunum er á þína eigin ábyrgð. Þú getur treyst því að fullur trúnaður og alger nafnleynd ríki.

Á fundum FBA liggja frammi ýmsar upplýsingar sem fólk getur tekið með sér heim og kynnt sér bæði um félagsskapinn og ýmislegt sem felst í því að vera fullorðið barn alkóhólista. Allir nýliðar fá bæklinginn "Leiðin til bata", sem er ætlað að hvetja fólk til að koma aftur á fund og taka á sínum málum.

ANNA: Ég vildi gjarnan að starfið væri öflugra. Mér finnst að við ættum að vera meira inni í SÁÁ kerfinu og að þar væri FBA sérfræðingur starfandi. Mér finnst líka að við ættum að tengjast heilbrigðiskerfinu þannig að fólk þar benti á okkur. Við höfum gert veggspjald sem við sendum til heilsugæslustöðva og skóla. Við fengum nokkra svörun við því. Um tíma kynntum við FBA á mánaðarlegum fundum á fjölskyldunámskeiðum SÁÁ, en það féll svo niður.

BJÖRG: Tilvist þessara samtaka erlendis a.m.k. hefur orðið til þess að það er farið að líta öðruvísi og breiðara á alkóhólismann. FBA hefur vakið fólk ofsalega mikið upp.

"Fullorðin börn alkhóhólista (FBA) eru samtök karla og kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa fæðst eða verið alin upp við heimilisaðstæður þar sem vímuefnaneysla var fyrir hendi. Þó um sé að ræða aðgreind samtök ættum við ævinlega að eiga samstarf við AA samtökin og AI-Anon."
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband