"12 ára börn eru farin að drekka áfengi og fikta með fíkniefni"

Reynslusaga

Í upphafi vil ég taka fram að ég er hvorki læknir né sálfræðingur. Ég er einungis faðir sem misst hefur son sinn í helvíti eiturlyfja, og við hjónin höfum staðið í meira en 20 ára baráttu fyrir lífi hans. Sú barátta hefur ekki unnist enn, og ég veit ekki hvort hún mun nokkru sinni vinnast. Ég hef ekki alltaf breytt rétt, og í upphafi vissi ég ekkert hvernig ætti að bregðast við. Baráttan hefði ugglaust ekki verið eins erfið, ef ég hefði vitað þá það sem reynslan hefur kennt mér nú. Vegna þeirrar reynslu sendi ég ykkur þetta bréf. Það er ekki síst stílað til þeirra foreldra sem óttast að börn þeirra séu farin að fikta með fíkniefni, eða hafa nýlega uppgötvað það.

Það er skelfileg staðreynd að algengt er orðið að 12-14 ára börn séu farin að drekka áfengi og fikta með fíkniefni. Það er fullkomlega óeðlilegt, og við því verður að bregðast. Og fyrstu viðbrögðin verða og hljóta að koma frá foreldrum. Það þýðir ekki að afgreiða málið með því að þetta geri allir, enda ekki satt. Og allra síst ættu foreldrar að kaupa áfengi handa börnum sínum, jafnvel þótt það sé "aðeins" bjór.

Þegar grunur vaknar

Þegar grunur vaknar og gengið er á unglinginn mun hann sennilega harðneita öllu. Á að trúa honum? Ef hann er ekki beinlínis staðinn að verki þarf að styðja gruninn ákveðnum rökum. Það þarf að fylgjast með hegðun hans. Jafnvel leita hjá honum að tólum til neyslu, hasspípu eða einhverju slíku. Af hassi er ákveðin lykt. Er hegðun hans að einhverju leyti að breytast? Allt í einu kominn nýr félagsskapur og fyrri vinir horfnir? Pirringur, óeirð, skapstyggð? Hættur að umgangast foreldra eins og áður? Betl um peninga og tal um einhverjar óskilgreindar skuldir? Einkunnum hrakar og skólasókn óstöðug? Hverfur kannski og muldrar einhverjar óljósar skýringar?

Allt eru þetta vel þekkt einkenni sem getur tekið tíma að átta sig á. Þeim fylgir gjarnan kvíði og eins konar óöryggi. Get ég ekki lengur treyst barninu mínu? Er ég að hafa það fyrir rangri sök og spilli þar með samskiptum okkar? Það er ekkert gaman að standa í slíku. En óvissan nagar og vill fá svör, helst af öllu að óttinn sé óþarfur. Einnig það getur tafið fyrir. Dæmi sanna að ungmennum hefur tekist að neyta vímuefna mánuðum saman, jafnvel allt upp í tvö ár, án vitneskju grunlausra foreldra. Og þá getur neyslan verið komin á svo alvarlegt stig að erfitt verði um björgun.

Lamandi áfall

Þegar hið sanna kemur svo í ljós, að unglingurinn er í raun ánetjaður fíkniefnum, þá verkar það nánast sem lamandi áfall á foreldra. Ég man að mér féllust hendur og ég ætlaði ekki að trúa þessu. "Við upplifum gjarnan sorg, reiði, sektarkennd, vanmátt og hræðslu." Þannig komast tvær mæður á Akureyri að orði í bæklingi sem þær hafa dreift, og allt þetta kannast ég vel við. Fyrstu viðbrögð verða oft sjálfsásökun. Hvað hef ég gert rangt? Mér hlýtur að hafa mistekist sem foreldri úr því að svona gat farið. Og svo getur því miður vaknað smán og skömm, ekki síst vegna þess umtals (einkum fyrr á árum) að eiturlyfjakrakkar komi frá brotnum óreiðufjölskyldum. Og þess vegna getur sú hugsun orðið áleitin að þessu beri að leyna. Það eru að mínu viti verstu viðbrögð sem hugsast getur, því það kann að viðhalda neyslunni. Það besta sem unnt er að gera fyrir barn sitt sem komið er í neyslu fíkniefna er að gangast strax opinberlega við vandanum af fullri hreinskilni. Segja öllum frá því, öðrum í fjölskyldunni, skólayfirvöldum, vina- og kunningjahópi barnsins. Með því móti aukast líkur á því að unglingurinn fái fljótt viðeigandi meðferð til að sigrast á áunninni fíkn sinni, sem getur verið orðin að alvarlegum sjúkdómi. Þetta kann að virðast erfitt í fyrstu, en trúið mér, því fylgir mikill léttir.

Sjúkdómur eins og margarma kolkrabbi

Nú getur brugðist til beggja vona, og fer oftast eftir því hversu miklum skemmdum fíknin hefur þegar valdið. Alkóhólismi hefur verið skilgreindur sem líkamlegur, andlegur og félagslegur sjúkdómur, og neysla harðra fíkniefna margfaldar þann sjúkdóm á allan hátt. Vonandi sættist unglingurinn á að fara í meðferð, og vonandi fæst fljótt fyrir hann meðferðarpláss. Því miður hafa íslensk stjórnvöld harla lítinn skilning á þessum vanda og búa illa að meðferðarstofnunum. En vonandi fær unglingurinn skjóta meðferð. Því miður er ekki víst að hún takist í fyrstu atrennu. Ungt fólk jafnar sig oft fljótt líkamlega, og þá finnst því ekkert að lengur, allt er í fínu lagi, og þetta fíkniefnaflipp var kannski ekki svo svakalega slæmt. Slíkt viðhorf getur leitt til falls og afturhvarfs til fyrri neyslu. Annað lamandi áfall fyrir foreldra. Vonin sem ekki má bregðast hefur brugðist.

Því miður er þessi sjúkdómur eins og margarma kolkrabbi og teygir sýkingararma sína til fjölskyldunnar einnig. Foreldrarnir dragast inn í alla atburðarás og komast engan veginn undan áhrifum.Við sýkjumst einnig alltaf að einhverju leyti. Við viljum hjálpa barninu okkar, en vitum kannski ekki hvað er hjálp í raun. Fíknin gerir unglinginn ótrúlega tungulipran og útsmoginn við að telja aðra á sitt band. Við getum lent í þeirri aðstöðu hvað eftir annað, að okkur líður illa hvort sem við segjum já eða nei við tilmælum fíkilsins. Stundum þarf að brynja sig hörku, þótt manni sé það þvert um geð, og jafnvel fyllst hreinni örvæntingu. Barnið er ef til vill búið að ljúga, stela og svíkja. Það er ekki auðvelt að greina á milli barns og fíknar. Að elska barnið og hata fíknina. Að muna að barnið er annað og meira en fíkn þess.

Þess vegna verða foreldrar í þessum sorglegu aðstæðum að vera sér meðvitandi um eðli sjúkdómsins og leita ráða hjá fagfólki sem kann til verka. Í upphafi eru, held ég, allir ráðvilltir. Þetta er skelfilegur vandi, sem ég óska engum að komast í. En við verðum öll að vera vakandi, því að eiturlyfjavandinn er allt í kringum okkur og íslensk stjórnvöld hafa því miður engan skilning á umfangi hans né þeim hryllilega skaða sem hann veldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband