Ást er það ekki bara þriggja stafa orð notað í skáldsögum ?

Ástin skiptist í nokkur svið og til þess að þú fáir sem mest út úr ástarsambandi þurfa öll sviðin að vera virk. Lestu eftirfarandi og athugaðu hvort þér finnist eitthvað vanta upp á hjá þér.

Fyrsta sviðið: Kynlíf

Sama hvað hver segir þá er þetta einn almikilvægasti hluturinn í ástarsambandi. Kynhvötin er ein af frumhvötum mannsins og ef þú ert ekki að sinna manninum þínum, þá gerir bara einhver önnur það. Þetta er kaldur sannleikurinn. Kynlíf gerir ykkur nánari og sambandið tryggara en kynlífið er vinna sem þarf að sinna. Það er svo auðvelt þegar þið eruð þreytt á kvöldin eftir langan vinnudag að sofna fyrir framan sjónvarpið eða inni í rúmi og sleppa kynlífinu. Hugsa, æ ég geri það bara á morgun. Dagar verða að vikum og fyrr en varir koma jólin oftar! Pör sem hætta að lifa kynlífi fjarlægjast hvort annað og verða skilningslaus á þarfir makans. Bryddaðu upp á nýjungum og fáðu sem mest út úr kynlífinu og það mun gefa ástinni mikinn styrk.

Annað sviðið: Vinátta

Hver myndi vilja eiga maka sem er ekki jafnframt þinn besti vinur og félagi sem þú deilir flestu/öllu með. Það er þó nokkuð algengt að pör líti á sig sem par en ekki vini. Þegar á móti blæs er það þó oft vináttan sem heldur fólki saman. Þegar þú ert þreytt og úfin heima í jogginggallanum, þá er það vináttan sem heldur ykkur saman en ekki ástríðan. Maðurinn þinn þarf að vera sá sem þér finnst þú ávallt geta leitað til og treyst og þú verið viss um að hann styðji þig og hvetji þig áfram.

Þriðja sviðið: Rómantík

Ef þú þarft að hugsa þig lengur um en eina mínútu ef ég spyr þig, hvenær áttir þú síðast rómantíska stund með manninum þínum, skaltu athuga málið og gera eitthvað í því. Hvernig var rómantíkin þegar að þið voruð í tilhugalífinu. Þú þarft kannski að rifja það upp og brydda líka upp á nýjungum. Oft nægir ein rós, falleg skilaboð, út að borða 2 ein, helgarferð innan- eða utanlands, kertaljós og notaleg kvöldstund. Rómantík viðheldur ástríðu í hjónabandinu og kemur í veg fyrir að þið séuð eins og systkini eða góðir vinir.

Fjórða sviðið: Fjármál

Nú kanntu að spyrja, hafa fjármál eitthvað með ástina að gera. Já, svo sannarlega. Helsta ástæða fyrir því að fólk fer að rífast er vegna fjármála. Það er því mikilvægt að þið séuð á sömu skoðun um hvernig eigi að fara með peninga og hvernig eigi að ráðstafa tekjum heimilisins. Jafnframt þó mörgum finnist fáranlegt að tala um fjármál í sömu andrá og ástina, þá er það bara svo stór hluti af okkar lífi og gott að hafa á hreinu frá upphafi.

Fimmta sviðið: Skoðanir

Ef þú og maki þinn hafa svipað lífsviðhorf og skoðanir er líklegra að samband ykkar endist. Smá skoðanamunur er þó í góðu lagi, en við erum að tala um svona stærri mál eins og barneignir, trúmál, hjónaband, fjármál o.fl.

Sjötta sviðið: Áhugamál

Þið þurfið alls ekki að eiga sömu áhugamál og í raun er það bara gott mál ef þið eigið ykkar eigin áhugamál fyrir ykkur. Það sem er nauðsynlegt er að þið hafið skilning á áhugamálum hvors annars og styðjið hvort annað. Einnig er gott að eiga einhver sameiginleg áhugamál, jafnvel eitthvað sem allir fjölskyldumeðlimir geta gert saman. Reyndu að sýna áhuga á hans starfi og áhugamálum því þá ert þú á sama tíma að sýna honum virðingu. Þú skalt einnig óska eftir áhuga hans á þínu starfi og málefnum. Vinna okkar er svo stór hluti af okkar lífi að við verðum að sýna hvort öðru áhuga á þessu sviði, annað er virðingaleysi.

Sjöunda sviðið: Markmið

Mikilvægt er að þið séuð með sama markmið í huga varðandi samband ykkar. Ef þú ert ekki viss um markmið hans með sambandinu getur það skapað óöryggi hjá þér og þú getur ekki gert áætlanir fram í tímann. Heiðarleiki er lykillinn og þú þarft að geta rætt þetta við hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband