Þú ættir að hætta maður !!

En hvað er drykkjuskapur?

Hvernig gat staðið á því að ég skyldi demba mér útí drykkjuskap þótt rakið sé að ég vildi það alls ekki?

Ég skyldi þó aldrei hafa verið beittur göldrum?

Varla
Eitthvað hefur samt gerst því sjálfur ætti ég best að vita að ég ætlaði aldrei að verða fyllibytta.  En ég varð fyllibytta – og hananú.
Það tók mig mörg ár já mörg ár eftir að ég hætti að drekka að komast til botns í þessu máli, að átta mig á því hvers vegna svona margar fyllibyttur eru fyllibyttur þótt enginn vilji vera fyllibytta.  Við slógum skyldustörfum á frest og misbuðum siðvenjum heimilis og þjóðfélags aðeins vegna þess að tíminn sem ætlaður var til starfa, hvíldar og þátttöku í félagslífi heimilisins fór í ýmiskonar stúss, sem meira og minna var bundið áfengisnotkun,  ég þarf ekki að segja þér að ofdrykkja sé óæskilegt ástand.  Þú veist það. 

Og að yfirlögðu ráði drakkst þú þessi vandræði ekki yfir þig.  Það væri ódrengilegt að ætla þér það.  Við hljótum því báðir að vita hversu mikils virði það er að reyna að opna augu þeirra sem eru að hrapa út úr stigvaxandi tækifærisdrykkju yfir á ofdrykkjusviðið.  Fásinna væri að ætla að þeir héldu sig vera eitthvað meiri menn en við, en þeir haga sér bara þannig.  Þetta vitum við .
Við vorum heldur ekki viðtals.

Vitað er að með elju og skynsemi hefur margur maðurinn búið sér og sínum góð lífsskilyrði, en skynsemin og dugnaðurinn hefur samt ekki dugað til að hamla í móti þeim alkóhólisma sem leyndist í tækifærisdrykkjunni. Í andvaraleysi rúlla þessir ágætu menn yfir hin óþekktu mörk milli tækifærisdrykkju og ofdrykkju og mjakast svo smám saman yfir á svið alkóhólisma án þess að gera sér nokkra hugmynd um hvað er að gerast.  Ég drakk oftar og meira en skynsemi mín sagði að mér væri hollt, og oft drakk ég þegar ég ætlaði mér ekki að gera það og gera frekar eitthvað annað allt annað. 

Þetta er að vera drykkjumaður, verandi eða verðandi alkóhólisti.  Drekki maður við vinnu sem maður þiggur laun fyrir, drekki maður þær stundir sem maður er búinn að selja öðrum, þá byggist sú drykkja á rugli sem kalla má virkan alkóhólisma, því ólíklegt er að vinnuveitanda þyki réttlætanlegt að starfsmaðurinn sé undir áhrifum við störf sín.  Að vísu vitum við að drukkinn maður gerir sér ekki ljósa fötlun sína.  En í því felst engin afsökun, nema ef vera skyldi að hann hafi verið drukkinn þegar hann réði sig til vinnu en þá mætti skipta sökinni á milli verktaka og verksala.  Að líða

síafréttan eða síþunnan mann innan um annað starfsfólk á vinnustað er flónska.  Jafnvel meira en flónska því með þessum misskilningi á bróðurkærleika hefur mönnum oft verið hjálpað inn í þá erfiðleika sem ekki varð ratað út úr hjálparlaust svo ekki sé nú talað um þá lítilsvirðingu sem samstarfsfólki er sýnd með þessu.  Rætur alkóhólisma standa oft í því að upp tekinn ávani verður að gróinni venju, sem hljóðlaust rennur yfir í ástríðu.  Þetta er samt langt frá því að vera eina orsök alkóhólisma en algeng er hún. 

Ekki áttaði ég mig á þróuninni frá sopa til sopa yfir í flösku til flösku og of oft taldi ég hvert fyllerí heyra til undantekninga þótt í verunni væru þau hvert um sig hlekkur í staðlaðri keðju.  Helgarfyllerí getur ekki talist slysafyllerí þegar svo er komið að þurr helgi heyrir til undantekninga.  Virkur alkóhólisti sniðgengur staðreyndir í öllu sem snert getur drykkjusiði eða drykkjuskap hans sjálfs.  Hinir sem drekka en bera gæfu til að halda athygli og skynsemi vakandi gagnvart hugsanlegu niðurbroti á hverju sem gengur og haga sér í samræmi við það, lenda aldrei inn á þessu Alkóhólista sviði þeir eru einhvernvegin öðruvísi en við hinir. 

Þeir haga sér bara öðruvísi.  Alkóhólisti sem veit hvað alkóhólismi er á ekki að þurfa að gera tilraun með brennivín á sjálfum sér eða tilraun með sjálfan sig í brennivíni.  Ef þú ert enn á báðum áttum góði, þá er þetta  lykillinn: enga tilraun. Það eru nógu margir búnir að gera þessa tilraun.  Annaðhvort sættir maður sig við að vera alkóhólisti og drekkur ekki – eða maður sættir sig ekki við það og drekkur.  Algáði alkóhólistinn afturbatabyttan sem er mitt eigið gælunafn á sjáfum mér þegar vel liggur á mér, gerir sér ljóst hvað alkóhólismi er og jafnframt það að hann er alkóhólisti og má ekki smakka vín og gerir það því ekki. 

En gleymi hann sjálfum sér , gleymi því að hann er alkóhólisti  eða telji sig trú um að hann sé bara pínulítill alkóhólisti þá snarast fljótt yfirum.  Þá verður hann á stundinni virkur semsagt stigin eru aðeins tvö ,,virkur” og ,,óvirkur”.  Sennilega er hægt að margfalda það með 5 ef það á að finna það hversu margir þjást vegna ofdrykkju hvers drykkjumanns.  Að nokkur skuli geta sagt að drykkjuskapurinn komi drykkjumanninum einum við er alveg furðulegt.  Drykkjumaðurinn lýgur að því er virðist af lífsnauðsýn. 

Aðstandandinn lýgur á misvíxl allt eftir því hvernig vindurinn blæs í það skiptið.  Oftar er logið í sjálfsvörn, sjaldnar af kvikindisskap.  En þú veist það vinur að í þynnkunni þráum við sannleikann og ekkert nema sannleikann en komum honum ekki frá okkur og viljum ekki hlusta.  Hinir luma líka á sannleika en loka hann inni koma honum ekki frá sér nema í skömmum eða ergelsi en þá er ekki tekið mark á þeim.  Þú þarft því ekkert að vera hissa á því að ég haldi uppá timburmennina, því á því skeiði má nálgast forhertustu fyllibyttur með sannleikann einan að vopni. 

En það er ekki sama hvernig á vopnum er haldið og hvorugur má þykjast hinum stærri virðulegri eða vitrari.  Jafnrétti verður að ríkja.  Annars byrjar leikurinn – þykjustuleikurinn – blekkingar og bull.  En það er ekki nóg að þú vitir þetta vinur.  Hinir þurfa líka að vita þetta en blessaður varaðu þá við að gefa þér sjúss eða pillu, því þá er hreinskilnin rokin ú í veður og vind.  Reyndu að koma þessu til skila til þeirra sem ekki drekka.  Einhverra sem áhuga hafa á þessum málum og geta ekki sætt sig við allt þetta leynimakk sem umlykur drykkjuskapinn. 

Sjálfur á drykkjumaðurinn svo óskaplega erfitt með að brjóta ísinn og leita sér hjálpar ófullur.  Hann er svo barnalega hræddur við puttann sem e.t.v. kynni að verða beint að honum.  Reyndin er nefnilega sú að manni finnst maður vera ræfill, og býst ekki við neinu öðru en fordæmingum á drykkjuskap sinn.  Þess vegna er drykkjumanni svo tamt að segja " ég veit það" ef á drykkjuskap hans er minnst. " ég veit það”."ég veit það".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband