Baráttan gegn fíkninni

Á Íslandi er lögð áhersla á baráttuna gegn fíkninni. Eiturlyf eru flest ólögleg og stefnu yfirvalda í verðlagningu áfengis og tóbaks er ætlað að koma í veg fyrir að einstaklingurinn verði fíkninni að bráð. Ein er þó sú fíkn sem þrífst í skjóli yfirvalda.Fjárhættuspil viðgangast í stórum mæli á Íslandi. Spilafíkn hefur ef til vill ekki sömu hrikalegu áhrifin á heilsu fólks og eiturlyfin en hún getur leitt til þess að fólk missir allt sitt, bæði eignir og fjölskyldu. Spilafíkn var skilgreind sem sjúkdómur í Bandaríkjunum árið 1980 og verið er að rannsaka hvort hægt sé að stjórna henni með lyfi sem tekið er inn daglega.


Á Íslandi er hins vegar ekki sama viðhorfið til spilafíknar og til dæmis áfengissýki. Hér er fjárhættuspil tekjulind ýmissa stofnana sem allajafna njóta mikillar virðingar í samfélaginu. Undir merkjum Íslandsspils reka SÁÁ, Rauði kross Íslands og Landsbjörg spilakassa um allt land og slíkt hið sama gerir Happdrætti Háskólans í þágu Háskóla Íslands. Yrðu ugglaust margir undrandi ef þessi samtök tækju upp á því að fjármagna reksturinn með sölu tóbaks eða áfengis.

Í umfjöllun Skapta Hallgrímssonar um spilafíkn í Morgunblaðinu í gær er rætt við Ólaf M. Ólafsson, sem tapaði öllum eigum sínum vegna þess að náinn venslamaður hans ánetjaðist spilafíkn. Ólafur lítur svo á að spilakassar á borð við þá sem Íslandsspil reka séu fjárhættuspil og starfsemin því bönnuð að landslögum. Ólafur bendir á að í 183. grein hegningarlaga segi að hver sá sem geri "sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim [skuli] sæta sektum...eða fangelsi allt að einu ári, ef miklar eru". Hann segir margar mótsagnir í núverandi kerfi. Til dæmis megi spila fjárhættuspilið 21 í spilakössum en ekki sé langt síðan menn voru dæmdir fyrir að láta spila 21 upp á peninga við borð og hann spyr hver munurinn sé.

Ekki er kyn þótt hann spyrji. Þræta má um það hvort peningaspilin séu fjárhættuspil en staðreyndirnar tala sínu máli. Sveinbjörn Kr. Þorkelsson, ráðgjafi á göngudeild Vogs, segir í grein Skapta að þess séu dæmi að spilafíklar á Íslandi eyði meira en einni milljón króna á mánuði í spil. 100 manns hafi verið í viðtalsmeðferð á deildinni vegna spilafíknar á þessu ári, en hann sé sannfærður um að spilafíklarnir séu miklu fleiri og bendir því til stuðnings á að í könnun, sem gerð var fyrir nokkrum árum, hafi 0,6% þjóðarinnar reynst spilafíklar og 0,7% átt í töluverðum vanda eða eitthvað á fjórða þúsund manns.

Það er ljóst að þetta fólk fær ekki stóra vinninginn. Hins vegar hefur komið fram á Alþingi að árið 2002 hafi hreinn hagnaður af söfnunarkössum og happdrættisvélum numið tæpum 1,4 milljörðum króna. Hagnaðist Íslandsspil um 940 milljónir og Happdrætti Háskólans um 450 milljónir. Það er ljóst að þessar stofnanir og samtök geta illa verið án slíkra fjárhæða en sú siðferðislega spurning er áleitin hvernig hægt er að réttlæta það að byggja rekstur þeirra á starfsemi sem getur lagt líf fólks í rúst. Í þjóðfélagi allsnægta hljóta að vera til aðrar leiðir til fjármagna slíka grundvallarstarfsemi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband