spilafíkill segir frá
1.10.2010 | 12:55
Mér finnst ég synda á móti straumnum.Mig langar svo að gera allt sem ég get til að hjálpa öllum þeim sem þurfa á hjálp að halda, því að þeir eru svo margir. Svo tala ég líka til þeirra sem standa og horfa á, þegjandi eða dæmandi. Þetta kemur okkur öllum svo sannarlega við þetta er heimurinn sem við höfum skapað sjálf. Við hljótum að vera hérna fyrir hvort annað. Þeir sem eiga erfitt og þurfa á hjálp eiga ekki að standa úti í horni og skammast sín.
Ég ætla að segja ykkur sanna sögu um sjálfan mig í þeirri von um að það geti breytt einhverju. Ef það getur hjálpað mikið sem einum þá er það þess virði.
Ég bjó í Noreg þegar ég var lítill. Ég fluttist þangað með móður minni og fósturföður eftir fjórða bekk.
Ég var á kafi í íþróttum, átti auðvelt með námið og var sannarlega fyrirmyndar unglingur. Það var ekki fyrr enn í tíunda bekk þegar það birtist pókerspilakassi í sjoppunni rétt hjá skólanum. Við vorum nokkrir skólabræður sem urðum helteknir af spilakössunum og þóttum þetta mjög spennandi og vorum fljótt farnir að horfa á hvorn annan spila. Ég var alveg himinlifandi að hafa fundið þessa auðveldu leið til að ná mér í pening og var ekki lengi að telja mér um trú um að ég væri búin að læra á kassann og gæti því grætt á meðan aðrir töpuðu.
Á mjög stuttum tíma átti kassinn í sjoppunni allan hug minn. Ég tók ekki einu sinni eftir því að ég var farinn að stela klinki úr vösum foreldra minna til þess að fara með í spilakassana. Ég fór út í sjoppu, stundum margar ferðir á dag. Ég sagðist vera að fara til vina minna. Þeim fannst þetta orðið skrýtið, áður fyrr tóku slíkar ferðir marga klukkutíma, en allt í einu voru þær orðnar tíu til fimmtán minótur Þau sáu stórar breytingar á mér. Ég man að mamma spurði mig hvað væri orðið af glampanum í augunum mínum. Ég lokaði mig bara inni í herberginu mínu og var í tölvunni öllum stundum. Þarna var ég ekki nema 15 ára gamall. Ég hafði enga hugmynd um hvert ég stefndi.
Eftir jólin í 10. bekk vorum ég og félagi minn byrjaðir að stela háum upphæðum til þess að geta spilað. Vinur minn vissi pin-númerið á debit korti móður sinnar, og á nóttinni tókum við út peninga af korti hennar. Það hljómar eflaust furðulega enn okkur fannst við ekki vera að stela frá henni. Okkur fannst við gera ekkert rangt, því við fengum þetta jú auðvitað lánað. Fyrst voru þetta ekki nema örfáir þúsundkallar en upphæðirnar voru fljótar að hækka og voru við farnir að klára úttektarheimildina. Móðir hans botnaði ekkert í því hvað yrði af öllum þessum peningum og hvernig þeir hurfu á undarlegan hátt af reikningi sínum.
Hún var búin að ásaka alla fjölskyldumeðlimi nema vin minn áður enn henni datt það í hug að litli góði drengurinn hennar gæti hugsanlega verið að stela þessum peningum. Við vorum alveg hættir að hugsa um námið og einkunnirnar urðu sífellt verri. Foreldrar mínir voru að fara á taugum og vissu ekkert hvað hefði eiginlega gerst. Mamma var farin að spyrja mig hvort ég væri farin að nota eiturlyf. Ég hafði ekki einu sinni smakkað áfengi.
Eftir 10. bekkinn flutti ég til föður míns í Reykjavík og hóf nám í MR. Ég ætlaði að taka þetta með trompi. Ég byrjaði að vinna í sjoppu sem faðir minn átti um kvöld og helgar til þess að eiga einhvern pening. Þeir fóru alltaf í spilakassa og voru búnir á tveimur dögum eftir útborgun. Ég skammaðist mín rosalega. Það mátti engin vita hvernig þetta væri. Það höfðu allir mikla trú á mér og ég vildi ekki bregðast þeim. Ég varð að gera eitthvað. Árangurinn í skólanum var engin því ég skrópaði í skólanum. Ég var fastur útí sjoppu, ýmist að horfa á aðra spila eða spila sjálfur. Í skólanum náði ég engri einbeitingu.
Ég byrjaði að stela úr peningakössunum í sjoppunni hans pabba. Hann fylgdist vel með peningamálum mínum og mátti alls ekki komast að því að ég væri alltaf orðinn blankur á öðrum degi hvers mánaðar. Ég tók því pening úr peninga kassanum svo ég gæti sýnt honum. Ég náði að kaupa græna kortið og eina pylsu áður enn ég var búin að eyða öllu í spilakassann aftur. Þá þurfti ég að taka meira. Hvernig mér leið stundum er ólýsanlegt en þó enn ólýsanlegra hvernig mér tókst að kyngja öllu og brosa framan í alla. Þetta var helvíti. Ég reyndi að hætta á hverjum degi, reyndar í hvert skipti eftir að ég var búin að spila, en einhvernvegin leiddi hausinn mig alltaf á sama staðinn aftur. Ég sökk bara lengra og lengra. Þegar ég var búin að tapa öllu og gekk út úr sjoppunni þá var ég alveg brjálaður út í sjálfan mig og í huganum öskraði ég á sjálfan mig; hvað varstu að spá!
Þetta var jafnt fáránlegt að henda sér fram af bjargi. Engin botnar í því af hverju í ósköpunum og ekki þú heldur. Þú skellur á jörðina og þá er ekkert annað að gera en að klifra upp aftur. Þú hneykslast og hugsar um það alla leiðina upp, hvað þú hefðir eiginlega verið að spá. Loksins þegar þú skríður upp á síðustu brúnina, þá snýrðu þér við og hendir þér aftur niður.
Það var auðvitað búið að taka eftir því að einhver væri að stela úr peninga kassanum, þetta gekk samt svona áfram allan veturinn. Það kom eiginlega engin til greina nema ég, en pabbi vildi ekki trúa því. Það var ekki fyrr enn móðir kærustu minnar, komst í bréf sem ég hafði skrifað henni. Þar stóð meðal annars að ég hefði tekið tíu þúsund á síðustu vakt og fór hún með það beint til pabba sem vægast sagt gersamlega bilaðist. Þetta var það versta sem hugsanlega gæti gerst. Þetta barst um alla fjölskylduna og allan heiminn, að mér fannst á örfáum klukkutímum.
Ég hugsaði um að fyrirfara mér því þetta væri hvort sem er allt búið. Ég man að ég setti nokkrar ullarpeysur í skólatöskuna mína og ætlaði að klifra upp á fjall eða fara eitthvað. Ég fékk það ekki og ég var læstur inni í herberginu mínu. Pabbi var svo reiður ég hélt hann ætlaði að hengja mig upp og nota mig sem boxpúða. Hann meikaði ekki að horfa framan í mig eða tala við mig. Enda var ég búin að stela frá honum líklega um 500.000 krónum.
Mamma kom fljúgandi frá Noregi og fengum við að gista hjá frænda mínum. Hún vildi hjálpa mér. Það var greinilegt að ég gat þetta ekki einn.
Ég byrjaði að stunda GA fundi og hlutirnir byrjuðu smátt og smátt að lagast. Ég komst í góðan bata og var spilalaus í tvö ár. Fyrstu fjórtán mánuðina stundaði ég GA fundi og leið mjög vel. Ég leyfði ljósinu að skína á mig og myrkrið leystist smátt og smátt upp og varð að engu. Ég var orðin frjáls og mér leið svo vel. Ég man að ég labbaði framhjá Gullnámunni og gaf henni fingurinn, skælbrosandi. Það var stórkolslegt að vera frjáls. Það var auðvitað margt í klessu í kringum mig, ég lét það ekki hafa áhrif á mig, því ég gat séð leiðina útúr þessu. Ég var búin að leggja frá mér þessar þungu birgðir, þennan lygavef sem varð alltaf stærri og stærri.
Svo flutti ég til Noregs ásamt kærustu minni og ætluðum í skóla í Fredrikstad. Ég hætti að stunda fundi og var fljótt kominn á fallbraut og var fljótur að gefast upp á skólanum. Ég byrjaði að drekka og var farin að loka mig inni í herbergi, þess á milli sem ég vann. Ég kom sjaldan hlutum í framkvæmd, þó ég vissi hvað mér bara að gera. Það var auðveldara að loka sig inni og vera í tölvunni. Þannig leið tíminn og eftir átta mánuði flutti ég aftur til Íslands. Það liðu ekki margir dagar þar til að ég byrjaði spila aftur í spilakössum.
Þetta kom mér ekkert á óvart því þetta var það eina sem ég átti eftir að gera. Flestir eiga líklega erfitt með að skilja þvílíkan hálfvitaskap eða jafnvel aumingjaskap að eyða öllum peningunum sínum svona í spilakassa. Ég ætlaði ekki að eyða meiru enn, segjum 500 krónum eins og ég hafði oft sagt við sjálfan mig. Þegar 500 kallinn er búin þá fer maður með klinkið, því það skiptir hvort sem er engu máli.
Það klárast fljótt og sjálfsblekkingin heldur áfram. Einn þúsundkall og þá er ég farin. Maður dofnar allur upp og seðlarnir sogast inn í spilakassann. Maður vinnur kannski 20.000 einhverstaðar, enn heldur bara áfram að spila. Maður er búin að tapa svo miklu að maður getur ekki hætt. Smáupphæðir skipta engu máli. Peningarnir verða bara að einhverjum mattador peningum, einingum til að geta spilað. Maður þarf einingar fyrir hvern leik og því meiru sem þú tapar, því fráleiddara er að þú getir hætt.
Jafnvel þótt þú hættir þá ertu fljótur að koma aftur, hvort sem þú vinnur eða tapar. Annað hvort til að vinna eða vinna upp tapið. Þú hættir ekki nema með hjálp því þetta skilur eftir sig stórt tómarúm með þvílíkri vanlíðan og þunglindi.
Ég sagði fjölskyldunni frá fallinu og sagðist ætla að byrja að stunda GA fundi voru þau fegin að heyra það. Ég held ég hafi farið á einn eða tvo GA fundi, sem ég gerði til að fylla uppí tómarúmið, Ég byrjaði að drekka bæði meira og öðruvísi. Gerði ég þetta algjörlega ómeðvitað. Ég var farin að drekka um hverja helgi, oftast báða dagana. Alltaf í partíum ef það var ekkert partí þá bjó ég til partí. Ég var algjör snillingur að smala fólki saman og fannst ég vera geðveikt fyrirbæri. Þetta gat engin nema Bjarki.
Þetta munstur hélt áfram að þróast ég prófaði amfetamín og varð fljótt fastur í því sem maður kallar djammið. Ég fór að hanga með fólki sem mér fannst oftast hundleiðinlegt, þótt sumir gátu greinilega orðið hvað sem þeir vildu. Rosalega vel gefið fólk, sem hafði dottið. Ég gat ekki staðið upp og bara lág þarna. Þannig var ég orðin. Ég þráði að Guð mundi hjálpa mér. Ég sá að þetta gæti ekki gengið upp hjá mér. Sú hugsun að deyja í slysi var hræðileg. Það er svo margt sem mig langar að gera í lífinu. Ég reyndi að hætta í djamminu, þá fór ég bara að spila aftur. Ég missti alla stjórn á spilamennskunni.
Ég er ný komin úr meðferð og er að berjast við dýrið. Þetta er rosalega erfitt, en ég ætla ekki að gefast upp. Ég ætla að verða lögfræðingur og mér er alveg sama þó að þið trúið því ekki, en ég er bráðgáfaður strákur. Ég er rétt að verða 21 árs og ætla að verða lögfræðingur 29 ára. Ég ætla að klára menntaskólan og háskólann.
Flokkur: Reynslusögur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.