Ekki prófa!!
4.10.2010 | 22:36
Ekki prófa!!
Mig langar að hvetja alla 10. bekkinga og foreldra þeirra að vera nú meðvituð um þessar staðreyndir og þá óheillavænlegu breytingu sem getur átt sér stað við þessi tímamót. Það er varasamt að fikta við reykingar eða prófa áhrif áfengis, því fiktið getur á skömmum tíma snúist upp í óviðráðanlega fíkn.
Reynsla allra, sem prófað hafa, er að fíkn er erfitt að losna undan, jafnvel þótt viljinn til þess sé til staðar. Nýlegar tölur sýna að 66% þeirra sem reykja eru alvarlega að hugsa um að hætta að reykja. Best er því að byrja alls ekki. Árið 2004 var gerð könnun meðal nemenda í 10. bekk og síðan aftur meðal sama árgangs eftir að hann var kominn í fyrsta bekk í framhaldsskóla. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að hlutfall þeirra sem reyktu daglega jókst úr 11,7% yfir í 15,1% við það að skipta um skólastig.
Sama rannsókn sýndi einnig að hlutfall nemenda sem höfðu orðið ölvaðir síðustu 30 daga jókst úr 26,0% í 53,4% við það að fara úr 10. bekk yfir í framhaldsskóla. Þetta eru gríðarlegar breytingar á skömmum tíma og ættu því að vera alvarleg áminning fyrir alla sem hlut eiga að máli. Áfengi er heldur ekki nein venjuleg neysluvara og það liggur fyrir að því seinna sem einstaklingar hefja neyslu áfengis, þeim mun minni líkur eru á misnotkun þess.
Óhófleg notkun áfengis hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar, m.a. auknar líkur á ofbeldi og óábyrgu kynlífi þar sem varnir gegn ótímabærum þungunum og/eða kynsjúkdómum gleymast. Ég hvet 10. bekkinga og foreldra til að sofna ekki á verðinum og vera áfram flott án fíknar.
Lífsýn fræðsla og forvarnir
Flokkur: forvarnir og fræðsla | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.