löngun í skjótfenginn gróða
17.10.2010 | 13:24
SKJÓTFENGINN gróði freistar allra og það er áreiðanlega skýringin á því að Íslendingar hafa eytt milljörðum króna í alls konar happdrættismiða á undanförnum árum. Happdrættin, lottóin, gullnámurnar og hvað þetta nú heitir eru fyrir löngu orðin fleiri en hægt er að telja í fljótu bragði. Auðvitað er málstaðurinn góður, svona oftast, en því miður er mun ólíklegra að málstaðurinn opni budduna en sú löngun mannsins að vilja verða ríkur án þess að hafa fyrir því.
Flestir gera sér þó grein fyrir þeirri staðreynd, að sjaldnast eignast nokkur maður nokkurn skapaðan hlut án þess að hafa fyrir því. Þess vegna stunda menn vinnu og fara mánaðarlega með reikningabunkann sinn út í banka, greiða skuldirnar og reyna að láta afganginn endast sem lengst. En væri nú ekki gott ef . . . ? Og svo er farið út í næstu sjoppu til að kaupa lottómiðann.
Þar sem svo grunnt er á þessari löngun er ekki furða þótt skynsamasta fólk missi fótanna þegar skjótfenginn gróði er í augsýn. Þannig fór til dæmis fyrir fjórum Íslendingum, sem voru í sólarferð á Kanaríeyjum fyrir nokkru. Þegar fólkið var að rölta frá ströndinni einn daginn kom að því ungur piltur sem rétti fram skafmiða og bauð fólkinu að freista gæfunnar, án þess að greiða krónu fyrir. Auðvitað þótti þetta undarlegt, en það sakaði ekki að reyna.
Einn fjórmenninganna fékk vinning, einhverja tugi þúsunda af pesetum og taldi sig að sjálfsögðu hafa himin höndum tekið, enda aldrei unnið í happdrætti áður. En þá kom örlítið babb í bátinn. Pilturinn ungi var að vísu enn ákaflega vingjarnlegur og stimamjúkur, en hann hvatti fólkið til að koma með sér á nærliggjandi hótel, því það væri innifalið í vinningnum að skoða hótelið og þar væri vinningurinn síðan afhentur. Svona stór vinningur kallaði auðvitað á umstang, að sögn piltsins, enda aðeins fjórir happaskafmiðar með þetta háum vinningi á öllum Kanaríeyjum.
Og svo var farið á hótelið, þar sem tók við japl og jaml og fuður, allt þar til Íslendingarnir voru komnir inn í stóran sal, þar sem fjöldi fólks sat við borð, ein hjón við hvert og hjá hverju einn sölumaður. Lesendur eru sjálfsagt farnir að átta sig á, að þessir landar þeirra höfðu lent í klónum á sölumönnum, sem stunda að selja fólki svokallaðan orlofsrétt í hótelum á sólarströndum.
Íslendingarnir fjórir höfðu heyrt af þessum óprúttnu sölumönnum áður en þeir héldu á sólarströnd, svo þeir gættu sín og gengu út áður en þeir höfðu flækst í svikavefinn. Það er hins vegar til marks um mannlega náttúru og þessa umtöluðu löngun í skjótfenginn gróða, að þrátt fyrir fyrri vitneskju og þrátt fyrir að sífellt kæmu upp nýir fyrirvarar varðandi "vinninginn" þá hélt fólkið lengi í vonina um að fá nú eitthvað fyrir skafmiðann góða.
Því er við þessa stuttu sögu að bæta, að skömmu eftir að fjórmenningarnir sluppu úr klóm svikahrappanna urðu þeir vitni að því er sami ungi sölumaðurinn afhenti hjónum nokkrum skafmiða og að sjálfsögðu var stóri vinningurinn á öðrum miðanna. Íslendingarnir helltu sér yfir sölumanninn og vöruðu hjónin við að skipta við hann, en þau horfðu fjarrænu bliki á skafmiðann og létu aðvaranir sem vind um eyru þjóta. Þau þráðu skjótfenginn gróðann.
Til allrar hamingju vara flestir sig á tálsýn skyndilegs og fyrirhafnarlauss ríkidæmis. Því er þó ekki svo farið um alla. Fyrir skömmu var fjallað um spilafíkn á síðum Morgunblaðsins. Þar lýsti einn þessara fíkla líðan sinni og líkti henni við þrá fíkniefnaneytanda eftir næsta skammti. Sá fíkill var búinn að steypa sér í 16 milljón króna skuldir áður en yfir lauk. Í þessari umfjöllun var einnig rætt við sérfræðinga um hugsanlega orsök spilafíknarinnar.
Þeir sögðu að reynt hefði verið að finna sameiginleg einkenni hjá spilafíklum og var ýmislegt nefnt til sögunnar, svo sem saga um áfengissýki eða spilafíkn í fjölskyldunni, vandamál í samskiptum innan fjölskyldunnar, gildi peninga hefði verið ofmetið í fjölskyldunni og fleira í þeim dúr, auk þess sem spilafíkinn einstaklingur reyndist oft hafa kynnst fjárhættuspili snemma á ævinni, með þeim hætti að það hafi verið mikils metið.
Það var einmitt þetta síðasta atriði sem vakti dálítinn óhug. Sú kynslóð, sem nú er að vaxa úr grasi, hlýtur síðar meir að geta haldið því fram að fjárhættuspil hafi verið mikils metið í uppeldi hennar. Börnin eru vitni að því að foreldrarnir eyða reglulega háum fjárhæðum þegar þeir freista gæfunnar, peningum sem gætu bætt hag fjölskyldunnar en hverfa þess í stað út í óvissuna. Heilu skemmtiþættirnir sem fjölskyldur fylgjast með saman eru helgaðir duttlungum heilladísanna og fjölmiðlar hampa þeim sem detta í lukkupottinn.
Sem betur fer er það nú þannig að fjöldi fólks spilar í happdrætti af einu eða öðru tagi án þess að eyða í það fjármunum sem um munar því það kann fótum sínum forráð. Og sumir lenda óneitanlega í lukkupottinum. Málið er hins vegar orðið alvarlegt þegar þrá eftir skjótfengnum gróða leiðir fólk á glapstigu svo það missir sjónar á raunveruleikanum.
Flokkur: Reynslusögur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.