tvöfaldan asna með lambinu
18.10.2010 | 08:06
Við lifum í þróuðu upplýsingasamfélagi, vel menntaðir unglingarnir trúa ekki kerlingabókum, þeir vita að hinn alræmdi fyrsti sopi mun ekki steypa þeim í glötun. Reyndar getur hann kveikt neistann í þeim fáu prósentum sem eru genetískir alkóhólistar, svo ég slái varnagla. Hugsanlega verður í framtíðinni hægt að einangra þennan erfðavísi og láta viðkomandi einstakling fá viðvörun.
En alkóhólistar þurfa náttúrlega að drekka nokkuð stíft og lengi til að þróa sjúkdóminn og missa stjórn á drykkjunni og lífi sínu. Því fyrr sem maður byrjar að drekka þeim mun meiri hætta er á alkóhólisma, það staðfesta rannsóknir og þær staðfesta einnig arfgengi. Barn alkóhólista sem byrjar að neyta áfengis 16 ára eða yngri er víst í fimmfalt meiri hættu en venjulegir unglingar.
Mér er minnisstætt þegar ég fór með nokkrum háskólanemum á Lækjarbrekku þar sem við fengum okkur ljúffenga lambasteik. Allmargir pöntuðu sér rauðvín með matnum en einn úr hópnum hrópaði upp að hann vildi bara tvöfaldan asna með lambinu og gott ef annar svolgraði ekki vodka í kók. Kannski sötra sannir karlmenn ekki léttvín, a.m.k. gáfust flestir upp á gutlinu eftir matinn og fengu sér eitthvað sterkara. Síðan upphófust þessi vanalegu vandræði sem allir þekkja, þeir sem missa stjórn á drykkjunni missa um leið stjórn á hegðun sinni og úr verður ástand sem getur sveiflast frá leiðindum til lífsháska.
Ég er sannfærður um að margir geti bætt drykkjusiði sína. Atferlissálfræðingar segja að ofdrykkja sé lært atferli sem hægt sé að aflæra, m.ö.o. það er hægt að kenna fólki að fara betur með vín. Ekki þó alkóhólistum. Við verðum að gera greinarmun á sjúklegri fíkn og slæmum ávana. Óæskilega hegðun má bæta en ég efast reyndar um að æska vor geti í framtíðinni valið hófdrykkjubraut í áfangaskólum landsins og ég felli mig ekki við það viðhorf sem mér finnst skína í gegn hjá vini mínum (og e.t.v. meginþorra þjóðarinnar) að það sé óskaplega eftirsóknarvert að neyta áfengis, nánast nauðsynlegt. Þótt fráleitt kunni að virðast þá er til líf án áfengis og það líf er ekki litað af eymd og volæði, eftirsjá eða öfund.
Víst er erfitt að halda slíkum skoðunum fram í þjóðfélagi áfengistískunnar þar sem fullorðna fólkið, fyrirmynd æskunnar, blótar Bakkus opinberlega eða á laun, af áfergju, fíkn, vana, nautn, eða bara til að vera með. Mér finnst ég hins vegar hafa þær skyldur gagnvart börnum mínum og nemendum að benda á þá einföldu staðreynd að við eigum val og það geti líka haft marga kosti í för með sér að láta vínið eiga sig.
Þetta er frelsi.
Valfrelsi.
En frelsið er ekki taumleysi, það krefst sjálfsaga. Sá sem kemst að því að hann þarf ekki að nota áfengi er frjáls. Andstæðurnar eru ekki þær að annað hvort hangi maður edrú heima í fýlu eða drekki sig fullan og skemmti sér með félögunum. Það er ekki einungis hægt að lifa án áfengis, það er líka hægt að skemmta sér án þess, meira að segja leikur einn að njóta matarins án þess að hafa rautt eða hvítt í staupi.
Mér finnst ég vera rétt að byrja en þykist þó vita að mál er að linni. Ég á mér ósk um heill og hamingju æsku landsins til handa og að unglingarnir okkar átti sig á því að það er ekkert hallærislegt að lifa lífinu allsgáður. Bakkus er hverfull vinur og það gerir lífið á margan hátt þægilegra að láta hann eiga sig. Heilbrigt líferni er eftirsóknarvert, þar er ekki rúm fyrir vímuefni og vonandi skilur fólk, hvort sem það dreypir á víni eður ei, þann sjálfsagða rétt einstaklingsins að feta aðra slóð en fjöldinn. Við eigum að styrkja æskuna á fordómalausan hátt í því að velja sér heilbrigðan lífsstíl, í því viðhorfi eru raunverulegar forvarnir fólgnar.
Flokkur: Reynslusögur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.