Reis upp frá dauðum
20.10.2010 | 15:59
Reynslusaga fíkils
Þegar ég horfi yfir mína stuttu ævi þá er ég oft svo þakklát fyrir að hafa fengið að hætta að drekka. Ég get varla lýst því með orðum hversu þakklát ég er!!
Ég var nýorðin tvítug og eftir erfiða Verslunarmannahelgi þá gafst ég upp fyrir áfengi. Eftir vikufyllerí náði bakkus yfirhöndinni og ég lýsti mig sigraða. Næstu dagar voru hræðilegir, ég nötraði, kipptist og skalf. Hélt nánast engum mat niðri í þrjá daga og þar fram eftir götum.
Það sem stakk mig samt mest eftir þessa helgi var framkoma mín við pabba minn. Frá því ég byrjaði að labba þá hékk ég í rassvasanum á pabba mínum og fór allt sem ég komst með honum. Hann var kletturinn í lífi mínu og sólin mín um leið, einstakt samband okkar á milli. Eftir fylleríið mikla, þá eru foreldrar mínir að leita að mér út um allt.
Pabbi finnur mig loksins og biður mig um að koma með sér heim, ég leit á þennan mann sem ég virði mest af öllum og sagði: Er ekki allt í lagi með þig, sérðu ekki að ég er að djamma!?! Mér var alveg skítsama um hvað honum fannst og um hann. Þegar ég vaknaði morgunin eftir þá var þetta það fyrsta sem ég mundi eftir og vissi þarna að ég var ekki að ráða við að drekka áfengi.
Viku seinna fór ég á minn fyrsta AA-fund. Ég fékk að fara með frænku minni og sat alla leiðina í bílnum að reyna að sannfæra hana um að ég væri ekki alkóhólisti, eða kannski mest sjálfa mig. Ég var jú að vinna þrjár vinnur, nýbúin að klára stúdentinn og búin að fá inni í háskólanámi. Það væri ekki möguleiki að ÉG væri alki.
Eftir fundinn sat ég steinrunnin, ég fékk allt það sem ég sagði í bílnum í andlitið aftur. Ég var alkóhólisti!
Í flestum tilvikum er ekki gott að vera bráðlátur, en í þetta skipti hentaði það mjög vel. Á fundinum var talað um lausn, að 12 sporin myndu hjálpa mér að eignast nýtt líf. Ég labbaði því að manneskjunni sem mér fannst skemmtilegast að hlusta á, kynnti mig sem alkóhólista í fyrsta skipti og bað hana að fara með mér í sporin einfalt.
Mér gekk mjög vel að skrá niður misgjörðir mínar, ótta og gremju. Trúnaðarkonan mín sagðist í rauninni aldrei hafa fengið jafn skipulagt 4. spor. Námsmaðurinn ég með fullkomnunaráráttuna kortlagði nánast hvert ár fyrir sig, seinna sá ég hvað þetta hjálpaði mér mikið í batanum. Að skilja EKKERT eftir úr fortíðinni, taka ærlega til í mínum málum.
Það að vera ættleidd var erfiðasta tiltektin hjá mér, mikið af óuppgerðum tilfinningum þar. Einnig þótti mér erfitt að taka Guð inn í líf mitt. Ég átti þó síst von á að ég myndi kynnast Guði á þann hátt sem ég gerði , TILVILJUN? Nei ég held ekki..
Einn daginn hringir vinkona mín í mig og segir að það séu að byrja Tólf spora vinna í kirkjunni í heimabæ okkar og hún hafi frétt að ég ætlaði að fara. Ég hafði ekki heyrt neitt af þessu fyrr en að hún hringdi og þarna kviknaði áhuginn hjá mér og mig langaði til að taka þátt. Það varð því raunin að ég fékk að smeygja mér inn í hópinn. Fundirnir voru haldnir í kirkjunni, nánar tiltekið í fundarherbergi þar, þannig að ég þurfti að stíga inn í mikinn ótta til að takast á við þessi spor.
Ég sem var skíthrædd við Guð og hvað þá kirkjur! Ég dreif mig samt af stað. Ég var mjög fegin að hafa reynsluna af sporunum úr AA en þessi spor voru samt sem áður byggð á Biblíunni og það hræddi mig örlítið. Næstu átta mánuði lagði ég mig alla fram um að vinna verkefnin sem voru fyrirlögð og vera heiðarleg til að vinnan myndi skila sér. Hún gerði það svo sannarlega, maður uppsker eins og maður sáir. Á þessum tíma hleypti ég Guði inn í líf mitt, þó án þess að taka almennilega eftir því. Þetta kom hægt og rólega og fyrr en ég þorði að vona. Óttinn við að hleypa Guði inn í líf mitt var horfinn.
Í dag treysti ég Guði fyrir lífi mínu og fæ á hverjum degi gjafir fyrir það. Hann sendir mér hin ýmsu próf og verkefni sem ég þarf að leysa. Jú, þau eru miserfið en eins og pabbi minn segir alltaf; Það sagði enginn að lífið ætti að vera auðvelt. Ég reyni að taka þessum verkefnum með opnum huga og leysa þau eins vel af hendi og ég mögulega get. Oft skil ég ekki alveg tilganginn, verð kannski örlítið hrædd en reynslan hefur kennt mér að það er langbest að stíga inn í óttann.
Í óttanum kemur Guð og ber mig á örmum sér. Einnig trúi ég að Guð sé með sérstakt plan fyrir hvert og eitt okkar, það sem er mikilvægast er að vera ekkert með puttana í því heldur treysta því að hann muni vel fyrir sjá.
Í dag eru komin fjögur ár frá því að ég bragðaði áfengi síðast og þakka ég Guði, sporunum og sjálfri mér fyrir þann árangur. Ég er frjáls, hamingjusöm og nýt einfaldlega velgengni í lífinu. Er hægt að biðja um eitthvað meira? Ég held ekki. Mig langar að lokum að koma því á framfæri að sporin eru ekki bara fyrir alkóhólista, ef að þig langar til að stokka upp líf þitt prófaðu þá hverju hefurðu að tapa, þér gæti jafnvel liðið betur
Ég bið góðan Guð að vaka yfir ykkur öllum og blessa ykkur.
Flokkur: Reynslusögur | Breytt s.d. kl. 16:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.