Unglingamenningin
24.1.2011 | 19:05
Forsendur fyrir sérstakri unglingamenningu hafa skapast, eftir að unglingar fóru að lifa í þessum biðsal, sínum eigin reynsluheimi. Rokkið kom fram á sjónarsviðið árið 1954 og er fyrsta sérstaka unglingatónlistin. Það var uppreisn gegn gildismati foreldranna, sem voru skelkaðir, enda vissu þeir ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Stefnur og straumar hafa skipst á frá þessum tíma, bítlatímabil, hippatímabil, þungarokk, diskó og pönkið kom og fór.
Nú einkennir mikil fjölbreytni unglingamenninguna og vaxandi áhugi er á íþróttum, líkamsrækt og fleiru í þeim dúr. Fullorðnir virðast hafa haft það sem þumalputtareglu að vera á móti því sem unglingar gera, svona ef ske kynni að það væri skaðlegt. Hér áður fyrr átti rokkið að vera stórhættulegt æskufólki. Það var bannað í ýmsum hlutum Bandaríkjanna og átti mjög erfitt uppdráttar í ríkisútvarpinu hér á landi. Núna er það hins vegar talið hluti af vestrænni menningu og fáir halda því fram að það sé æskunni skaðlegt.
Á bítlatímabilinu var skorin upp herör gegn síða hárinu. Til dæmis setti einn ágætur skólastjóri þá reglu, að ungir drengir mættu ekki fara með í skólaferðalagið, nema það sæist í eyrun á þeim. Á þessum árum voru margir sannfærðir um að hársöfnunin væri skaðleg. Mini pilsin sem stúlkur gengu einu sinni í, áttu að valda þeim öllum ólæknandi blöðrubólgu. Ætli sömu rök hafi ekki verið höfð uppi um götóttu gallabuxurnar sem síðar komu?
Það er skrítið að fólk skuli sjá ástæðu til að elta ólar við svona sauðmeinlausa dynti í unglingamenningunni. Þeir geta vissulega verið öfgafullir, en í langflestum tilvikum gjörsamlega skaðlausir. Þeir sem nú eru unglingar eiga áreiðanlega síðar eftir að hlæja að myndum af sér í rifnum gallabuxum eða loðfóðruðum kuldagöllum.
Sömu einstaklingar og stundum eru að gagnrýna myndir á herbergisveggjum unglinganna, klæðaburð þeirra og hárgreiðslu, gefa ef til vill eftir í mikilvægum málum, til dæmis varðandi útivist og áfengisneyslu. Það er eins og sumir hugsi sem svo, að ef dóttir þeirra eða sonur ætli að vera drukkin niðri í bæ fram á nótt, þá skuli þau alla vega vera sæmilega til fara.
Foreldrar ættu að taka allsgáða afstöðu til unglingamenningarinnar, ekki vera að eltast við sauðmeinlausa hluti, en hafa þess í stað kjark til að taka afstöðu gegn þeim þáttum sem eru hættumeiri, eins og sjálfskammtaður útivistartími og þegar unglingar byrja áfengisneyslu allt of snemma.
Flokkur: forvarnir og fræðsla | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.