Færsluflokkur: Reynslusögur

reynslusaga fíkils

Þegar ég loks fór að gera eitthvað í mínum málum átti ég að baki 25 ára hjónaband og eftir það 6 ára sambúð sem ég var í en var líka um það bil að ljúka.

En af hverju?? 


Ég var fínn strákur (að eigin áliti) en þarna var bara svo komið að ég var komin niður í mjög djúpan dimman dal örvæntingar, kvíða og ótta sem eg sá enga leið út úr. Hvað átti eg að gera!    Þá var það einmitt sambýliskona mín sem benti mér á hópastarf sem kallaði sig Tólf spora hópar.

Satt að segja hafði ég nú aldrei heyrt þetta nefnt en ákvað að hafa samband því ég varð að fá hjálp ég gat ekki meira. Ég tók upp símann og var mjög kvíðinn að tjá erindi mitt.

Viðkunnaleg rödd í símanum sem ég upplifði sem englarödd tjáði mér að hún skyldi sjá hvað hún gætti gert fyrir mig því það væri búið að loka hópunum og starfið byrjað.

Hvað var nú til ráða? Og aftur tóku kvíðinn og óttinn völdin. En vegna þess að Guð var komin inn í málið samþykkti hópurinn sem þá var byrjaður að starfa að taka mig inn í hópinn.

Þvílík blessun að komast að raun um að til var fólk sem var svipað ástatt fyrir og mér sjálfum.  Að heyra að öðrum leið eins og mér - þvílíkur léttir - en nú var mikil vinna framundan, vinna við að rannsaka og skoða sjálfan sig.

Það var alveg með ólíkindum hvað maður áttaði sig á mörgu sem miður hafði farið bæði í uppvexti sem barn og á unglingsárunum og svo á fullorðinsárum. Hvernig ég reyndi að hafa stjórn á öllu í kringum mig, ef það tókst ekki þá fór ég bara í fýlu og reyndi þannig að hafa áhrif á umhverfið! Og það sem verra var, fjölskylduna mína og ef það tókst ekki með fýlunni  þá var nú alltaf sá möguleiki eftir að einangra sig frá öllum í fýlu þannig að allir í kringum mann voru á tánum.

Að uppgötva að ég hafði reynt að stjórna umhverfi mínu með andlegu ofbeldi - því að það er það sem það heitir - var mjög sársaukafullt og mjög erfitt að horfa í spegil í langan tíma.
 

Og vegna þess að hegðunarmynstur mitt í seinna sambandinu var ekkert öðruvísi en í hjónabandinu mínu þá gafst sú kona auðvitað líka upp á þessu og mér var hafnað í annað sinn. Einmitt þetta sem eg var svo hræddur við HÖFNUN.

Í síðara skiptið var þetta allt vegna þess að ég gaf mér ekki tíma til að athuga hvað það var sem hafði farið úrskeiðis í hjónabandinu mínu heldur æddi í næsta samband af því ég átti svo óskaplega bágt og gat ekki verið einn (það heitir sjálfsvorkunn).

Betra hefði verið að gefa sér meiri tíma eftir skilnaðinn því þá væri ég ef til vill enn með þessari yndislegu konu sem vísaði mér á Tólf spora hópinn og stuðlaði þannig að bata mínum vegna þess að henni þótti vænt um mig - henni var ekki sama.
 

Núna eftir fjögur ár í Tólf spora starfinu hef ég öðlast sjáftraustið mitt aftur, ég er sáttur við sjálfan mig, ég get staðið á eigin fótum, er bjartsýnn aftur og elska lífið á ný og það er svo ekki lítið - en nákvæmlega þetta hef ég öðlast við að vera með  Guði og góðum vinum í Tólf spora starfinu.
 

Kæra þakkir fyrir þann bata sem ég hef mátt öðlast.

 

 


reynslusaga um átröskun

Ég er fædd í Reykjavík og alin upp þar að mestu leyti.  Ég hef átt við lotugræðgi að stríða undanfarin ár og hef ákveðið að segja sögu mína til þess að aðrir sem glíma við þetta vandamál öðlist von um að hægt sé að rjúfa þann vítahring.  Ég minnist þess allt frá 12 ára aldri að hafa fundist ég vera feit, en ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu eins og aðrir að það væri ofsalega flott að vera mjór. 

Það var talað um hvað ég væri falleg, hvað ég væri þæg og góð, ég geri mér grein fyrir því í dag að engum öðrum fannst ég vera feit.  Ég varð fljótlega þeirrar skoðunar að öll vandamál hyrfu og ég yrði hamingjusöm ef ég yrði grönn.Þegar ég var 15 ára sagði vinkona mín frá frábærri hugmynd sem hún hafði heyrt um – hvernig hægt væri að borða án þess að fitna.  Málið var bara að stinga fingri ofan í kok eftir máltíð og losa sig við allt ógeðið.  Þá opnaðist fyrir mér ný vídd. 

Ég var svo ánægð með þetta.  Nú gætu allir fitukomplexarnir verið úr sögunni.  Álit annarra á mér hefur alltaf skipt mig of miklu máli og vegna öryggisleysis og minnimáttarkenndar féll ég fyrir þessu.  Ég reyndi að kasta upp nokkrum sinnum og komst að því að þetta var bæði erfitt og óþægilegt, en með þrjóskunni og voninni um að  verða grönn fór þetta að ganga betur og varð fljótlega sjálfsagt mál, þegar mér fannst ég hafa borðað of mikið.  Ástandið hélst óbreytt í langan tíma og þetta var alls ekkert vandamál, en með tímanum fór ég að misnota þetta.  Ég fór að borða eins og mig lysti og hugsaði með mér að ég myndi bara losa mig við matinn, og fyrr en varði stundaði ég þetta eftir hverja máltíð. 

Ómeðvitað var ég farin að nota mat sem meðal við hinum ýmsu sálarkvillum, t.d. samviskubiti yfir að stunda ekki skólann nógu vel.  Ég sat kannski heima og vissi að ég þurfti að læra en kom mér ekki að verki og ákvað þá að fá mér að borða – enga smá máltíð.  Ég ældi svo öllu saman.  Það gerði það að verkum að ég varð enn slappari, fór ekki að læra og fékk enn meira samviskubit.  Hellti mér því í aðra máltíð og svo koll af kolli.  Áður en ég vissi af var ég föst í vítahringnum og búin að missa tökin á náminu í menntaskólanum en reyndi þó að tolla í tónlistanáminu sem ég hafði stundað frá bernsku.Ég var 18 ára þegar staðan var orðin svona slæm og mér fannst ég ömurleg, ein með þetta stórkostlega leyndarmál sem var mín eina huggun og það sem allt snérist um. 

Tíminn leið en ég var gersamlega stöðnuð í mínum heimi.  Um tvítugt var ég ekkert annað en skugginn af sjálfri mér, fannst ég vera að gefast upp og þráði oft á tíðum að enda þessa jarðvist.  Ég sá enga aðra leið en að deila þessum erfiðleikum með einhverjum.  Ég sagði mömmu og kærastanum mínum frá þessu og þau voru orðlaus.  Kærastann minn hafði ekki grunað neitt en mamma var að mörgu leyti glöð að fá skýringu á því hvað ég var orðin leið, sljó og afkastalítil.  Mamma pantaði tíma fyrir mig hjá heimilislækni sem sendi mig til læknis á geðdeild Landspítalans.

Ég fór upp á spítala en hljóp út af biðstofunni eftir nokkrar mínútur.  Ég var ekki tilbúinn að horfast í augu við vandann og segja ókunnugum frá, fyrir utan það hvað mér þótti hryllilegt að vera send á geðdeild eins og ég væri klikkuð.  Ég sannfærði mömmu um ég ætlaði að takast á við þetta sjálf.  Dæmið snerist við og ég hætti að borða, í nokkrar vikur lifði ég á nánast engu, en takmarkið var þó alltaf að reyna að borða ekki neitt.  Ég horaðist að sjálfsögðu mikið, mér hafði aldrei liðið betur, og fannst ég hafa náð algerri stjórn á þessu, ef ég bara svelti mig.  En auðvitað gat það ekki gengið til lengdar og loks fór ég að leyfa mér að borða aðeins meira en þá byrjuðu uppköstin strax aftur.  Fljótlega var ástandið orðið verra en nokkru sinni fyrr, og hver einasti dagur gekk út á það að borða og æla þangað til ég lognaðist útaf af orkuleysi. 

Þetta var mín leið til að útiloka raunveruleikann og komast í gegnum daginn.  Þannig liðu nokkrir mánuðir sem runnu saman í eitt.  Ég forðaðist öll samskipti við annað fólk, tók símann úr sambandi og hætti mér ekki útúr húsi nema í brýnustu nauðsyn.Það hlaut að koma að því að líkaminn mótmælti, því þetta var í rauninni ekkert annað en hægur dauðdagi.  Ég fékk taugaáfall, talaði við heimilislækninn minn sem sendi mig til annars geðlæknis sem rannsakaði mig og taldi mig mjög þunglynda ég fór að taka þunglyndislyf og tala við sálfræðing.  Með tímanum fór mér að líða betur andlega, þó svo að lotugræðgin væri alltaf til staðar. 

Ég fór að geta talað um þetta við vini mína og leyfði þeim að hjálpa mér eins og þeir gátu, sem fólst í því að draga mig út úr húsi og vekja mig aðeins til lífsins.  Þannig komst ég á bataveg.Það liðu nokkrir mánuðir þar sem ég var í nokkuð góðu jafnvægi, en það sem hrjáði mig mest var að mér fannst ég hafa eyðilagt sambandið við kærastann minn með öllu þessu tilfinningarrugli.  Hann var í námi erlendis og engin leið fyrir hann að gera sér grein fyrir öllu sem ég hafði gengið í gegnum. 

Mér fannst svo mikil fjarlægð á milli okkar og við að mörgu leyti ókunnug.  Mér leið ömurlega yfir þessu og svo fór að ég upplifði algjört bakslag hvað varðaði lotugræðgina.  Undir áhrifum áfengis gleypti ég eitt sinn allar þær pillur sem komst yfir og var skítsama um afleiðingarnar.  Allavega myndi eitthvað breytast og kannski leiða til þess að ég rifi mig upp úr þessu.  Vinir mínir fundu mig meðvitundarlausa og gerðu sér grein fyrir hvað hafði gerst, en ég endaði upp á Borgarspítala þar sem var dælt uppúr mér.  Eftir þetta áfall tók ég mér tíma til að hugleiða stöðu mína og reyna að skilja hvernig ég hafði lent í þessum hremmingum.  Nú er hálft ár liðið síðan og ég hef ekki þurft að taka lyf í þrjá mánuði. 

Mér finnst ég hafa þroskast og vaxið frá þessu hræðilega ástandi.  Nú get ég horft á vandann og skilgreint hann úr ákveðinni fjarlægð.  Þessi erfiðu ár eru hulin móðu í minningunni og ég geri mér grein fyrir að það þýðir ekki að sjá eftir neinu.  Maður verður að læra af reynslunni og það hef ég gert.   

spilafíkill segir frá

Mér finnst ég synda á móti straumnum.Mig langar svo að gera allt sem ég get til að hjálpa öllum þeim sem þurfa á hjálp að halda, því að þeir eru svo margir. Svo tala ég líka til þeirra sem standa og horfa á, þegjandi eða dæmandi. Þetta kemur okkur öllum svo sannarlega við þetta er heimurinn sem við höfum skapað sjálf. Við hljótum að vera hérna fyrir hvort annað. Þeir sem eiga erfitt og þurfa á hjálp eiga ekki að standa úti í horni og skammast sín.

Ég ætla að segja ykkur sanna sögu um sjálfan mig í þeirri von um að það geti breytt einhverju. Ef það getur hjálpað mikið sem einum þá er það þess virði.
Ég bjó í Noreg þegar ég var lítill. Ég fluttist þangað með móður minni og fósturföður eftir fjórða bekk.

Ég var á kafi í íþróttum, átti auðvelt með námið og var sannarlega fyrirmyndar unglingur. Það var ekki fyrr enn í tíunda bekk þegar það birtist pókerspilakassi í sjoppunni rétt hjá skólanum. Við vorum nokkrir skólabræður sem urðum helteknir af spilakössunum og þóttum þetta mjög spennandi og vorum fljótt farnir að horfa á hvorn annan spila. Ég var alveg himinlifandi að hafa fundið þessa auðveldu leið til að ná mér í pening og var ekki lengi að telja mér um trú um að ég væri búin að læra á kassann og gæti því grætt á meðan aðrir töpuðu.

Á mjög stuttum tíma átti kassinn í sjoppunni allan hug minn. Ég tók ekki einu sinni eftir því að ég var farinn að stela klinki úr vösum foreldra minna til þess að fara með í spilakassana. Ég fór út í sjoppu, stundum margar ferðir á dag. Ég sagðist vera að fara til vina minna. Þeim fannst þetta orðið skrýtið, áður fyrr tóku slíkar ferðir marga klukkutíma, en allt í einu voru þær orðnar tíu til fimmtán minótur  Þau sáu stórar breytingar á mér. Ég man að mamma spurði mig hvað væri orðið af glampanum í augunum mínum. Ég lokaði mig bara inni í herberginu mínu og var í tölvunni öllum stundum. Þarna var ég ekki nema 15 ára gamall. Ég hafði enga hugmynd um hvert ég stefndi.

Eftir jólin í 10. bekk vorum ég og  félagi minn byrjaðir að stela háum upphæðum til þess að geta spilað. Vinur minn vissi pin-númerið á debit korti móður sinnar, og á nóttinni tókum við út peninga af korti hennar. Það hljómar eflaust furðulega enn okkur fannst við ekki vera að stela frá henni. Okkur fannst við  gera ekkert  rangt, því við fengum þetta jú auðvitað lánað. Fyrst voru þetta ekki nema örfáir þúsundkallar en upphæðirnar voru fljótar að hækka og voru við farnir að klára úttektarheimildina. Móðir hans botnaði ekkert í því hvað yrði af öllum þessum peningum og hvernig þeir hurfu á undarlegan hátt af reikningi sínum.

Hún var búin að ásaka alla fjölskyldumeðlimi nema vin minn áður enn henni  datt það í hug að litli góði drengurinn hennar gæti hugsanlega verið að stela þessum peningum. Við vorum alveg hættir að hugsa um námið og einkunnirnar urðu sífellt verri. Foreldrar mínir voru að fara á taugum og vissu ekkert hvað hefði eiginlega gerst. Mamma var farin að spyrja mig hvort ég væri farin að nota eiturlyf. Ég hafði ekki einu sinni smakkað áfengi.   

Eftir 10. bekkinn flutti ég til föður míns í Reykjavík og hóf nám í MR. Ég ætlaði  að taka þetta með trompi. Ég byrjaði að vinna í sjoppu sem faðir minn átti um kvöld og helgar til þess að eiga einhvern pening. Þeir fóru alltaf í spilakassa og voru búnir á tveimur dögum eftir útborgun. Ég skammaðist mín rosalega. Það mátti engin vita hvernig þetta væri. Það höfðu allir mikla trú á mér og ég vildi ekki bregðast þeim. Ég varð að gera eitthvað. Árangurinn í skólanum var engin því ég skrópaði í skólanum. Ég var fastur útí sjoppu, ýmist að horfa á aðra spila eða spila sjálfur. Í skólanum náði ég engri einbeitingu. 

Ég byrjaði að stela úr peningakössunum í sjoppunni hans pabba. Hann fylgdist vel með peningamálum mínum og mátti alls ekki komast að því að ég væri alltaf orðinn blankur á öðrum degi hvers mánaðar. Ég tók því  pening úr peninga kassanum svo ég gæti sýnt honum. Ég náði að kaupa græna kortið og eina pylsu áður enn ég var búin að eyða öllu í spilakassann aftur. Þá þurfti ég að taka meira. Hvernig mér leið stundum er ólýsanlegt en þó enn ólýsanlegra hvernig mér tókst að kyngja öllu og brosa framan í alla. Þetta var helvíti. Ég reyndi að hætta á hverjum degi, reyndar í hvert skipti eftir að ég var búin að spila, en einhvernvegin leiddi hausinn mig alltaf á sama staðinn aftur. Ég sökk bara lengra og lengra. Þegar ég var búin að tapa öllu og gekk út úr sjoppunni þá var ég alveg brjálaður út í sjálfan mig og í huganum öskraði ég á sjálfan mig; “hvað varstu að spá!”

Þetta var jafnt fáránlegt að henda sér fram af bjargi. Engin botnar í því af hverju í ósköpunum og ekki þú heldur. Þú skellur á jörðina og þá er ekkert annað að gera en að klifra upp aftur. Þú hneykslast og hugsar um það alla leiðina upp, hvað þú hefðir eiginlega verið að spá. Loksins þegar þú skríður upp á síðustu brúnina, þá snýrðu þér við og hendir þér aftur niður.

Það var auðvitað búið að taka eftir því að einhver væri að stela úr peninga kassanum, þetta gekk samt svona áfram allan veturinn. Það kom eiginlega engin  til greina nema ég, en pabbi vildi ekki trúa því. Það var ekki fyrr enn móðir kærustu minnar, komst í bréf sem ég hafði skrifað henni. Þar stóð meðal annars að ég hefði tekið tíu þúsund á síðustu vakt og fór hún með það beint til pabba sem vægast sagt gersamlega bilaðist. Þetta var það versta sem hugsanlega gæti gerst. Þetta barst um alla fjölskylduna og allan heiminn, að mér fannst á örfáum klukkutímum.

Ég hugsaði um að fyrirfara mér því þetta væri hvort sem er allt búið. Ég man að ég setti nokkrar ullarpeysur í skólatöskuna mína og ætlaði að klifra upp á fjall eða fara eitthvað. Ég fékk það ekki og ég var læstur inni í herberginu mínu. Pabbi var svo reiður ég hélt hann ætlaði að hengja mig upp og nota mig sem boxpúða. Hann meikaði ekki að horfa framan í mig eða tala við mig. Enda var ég búin að stela frá honum líklega um 500.000 krónum.

Mamma kom fljúgandi frá Noregi og fengum við að gista hjá frænda mínum. Hún vildi hjálpa mér. Það var greinilegt að ég gat þetta ekki einn.
Ég byrjaði að stunda GA fundi og hlutirnir byrjuðu smátt og smátt að lagast. Ég komst í góðan bata og var spilalaus í tvö ár. Fyrstu fjórtán mánuðina stundaði ég GA fundi og leið mjög vel. Ég leyfði ljósinu að skína á mig og myrkrið leystist smátt og smátt upp og varð að engu. Ég var orðin frjáls og mér leið svo vel. Ég man að ég labbaði framhjá Gullnámunni og gaf henni fingurinn, skælbrosandi. Það var stórkolslegt að vera frjáls. Það var auðvitað margt í klessu í kringum mig, ég lét það ekki hafa áhrif á mig, því ég gat séð leiðina útúr þessu. Ég var búin að leggja frá mér þessar þungu birgðir, þennan lygavef sem varð alltaf stærri og stærri. 

Svo flutti ég til Noregs ásamt kærustu minni og ætluðum í skóla í Fredrikstad. Ég hætti að stunda fundi og var fljótt kominn á fallbraut og var fljótur að gefast upp á skólanum. Ég byrjaði að drekka og var farin að loka mig inni í herbergi, þess á milli sem ég vann. Ég kom sjaldan hlutum í framkvæmd, þó ég vissi  hvað mér bara að gera. Það var auðveldara að loka sig inni og vera í tölvunni. Þannig leið tíminn og eftir átta mánuði flutti ég aftur til Íslands. Það liðu ekki margir dagar þar til að ég byrjaði spila aftur í spilakössum.

Þetta kom mér ekkert á óvart því þetta var það eina sem ég átti eftir að gera. Flestir eiga líklega erfitt með að skilja þvílíkan hálfvitaskap eða jafnvel aumingjaskap að eyða öllum peningunum sínum svona í spilakassa. Ég ætlaði ekki að eyða meiru enn, segjum 500 krónum eins og ég hafði  oft sagt við sjálfan mig. Þegar 500 kallinn er búin þá fer maður með klinkið, því það skiptir hvort sem er engu máli.

Það klárast fljótt og sjálfsblekkingin heldur áfram. “Einn þúsundkall og þá er ég farin.” Maður dofnar allur upp og seðlarnir sogast inn í spilakassann. Maður vinnur kannski 20.000 einhverstaðar, enn heldur bara áfram að spila. Maður er búin að tapa svo miklu að maður getur ekki hætt. Smáupphæðir skipta engu máli. Peningarnir verða bara að einhverjum mattador peningum, einingum til að geta spilað. Maður þarf  einingar fyrir hvern leik og því meiru sem þú tapar, því fráleiddara er að þú getir hætt.

Jafnvel þótt þú hættir þá ertu fljótur að koma aftur, hvort sem þú vinnur eða tapar. Annað hvort til að vinna eða vinna upp tapið. Þú hættir ekki nema með hjálp því þetta skilur eftir sig stórt tómarúm með þvílíkri vanlíðan og þunglindi.

Ég sagði fjölskyldunni frá fallinu og sagðist ætla að byrja að stunda GA fundi voru þau fegin að heyra það. Ég held ég hafi farið á einn eða tvo GA fundi, sem ég gerði til að fylla uppí tómarúmið, Ég byrjaði að drekka bæði meira og öðruvísi. Gerði ég þetta algjörlega ómeðvitað. Ég var farin að drekka um hverja  helgi, oftast báða dagana. Alltaf í partíum ef það var ekkert partí þá bjó ég til partí. Ég var algjör snillingur að smala fólki saman og fannst ég vera geðveikt fyrirbæri. Þetta gat engin nema Bjarki.

Þetta munstur hélt áfram að þróast ég prófaði amfetamín og varð fljótt fastur í því sem maður kallar djammið. Ég fór að hanga með fólki sem mér fannst oftast hundleiðinlegt, þótt sumir gátu greinilega orðið hvað sem þeir vildu. Rosalega vel gefið fólk, sem hafði dottið. Ég gat ekki staðið upp og bara lág þarna. Þannig var ég orðin. Ég þráði að Guð mundi hjálpa mér. Ég sá að þetta gæti ekki gengið upp hjá mér. Sú hugsun að deyja í slysi var hræðileg. Það er svo margt sem mig langar að gera í lífinu. Ég reyndi að hætta í djamminu, þá fór ég bara að spila aftur. Ég missti alla stjórn á spilamennskunni.

Ég er ný komin úr meðferð og er að berjast við dýrið. Þetta er rosalega erfitt, en ég ætla ekki að gefast upp. Ég ætla að verða lögfræðingur og mér er alveg sama þó að þið trúið því ekki, en ég er bráðgáfaður strákur. Ég er rétt að verða 21 árs og ætla að verða lögfræðingur 29 ára. Ég ætla að klára menntaskólan og háskólann.

Þegar þú setur pening í spilakassa í Gullnámunni, þá segja þeir oftast eitthvað. Meðal annars;”velkomin aftur, þú rataðir rétt”. Ekki hlusta á þá. Heldur skaltu snúa þér við og hlaupa út. Þú getur svo sannarlega átt lífið að launa.    

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband