Færsluflokkur: Reynslusögur

Dóttir mín er fíkill hvað get ég gert ?

Saga móður!

REYNSLUSAGA MÓÐUR OG BARÁTTA HENNAR FYRIR DÓTTIR SINNI SEM LEIDDIST ÚTÍ NEYSLU Á FÍKNIEFNUM!

Eitt stærsta vandamálið sem ég hef átt við að stríða sem móðir var að viðurkenna þá staðreynd – og hætta að loka augunum fyrir henni – að barnið mitt væri fíkniefnaneytandi.
Ég vissi að ég hafði séð barninu mínu fyrir umhverfi sem var laust við fíkniefni. Ég vissi einnig að ég hafði margoft minnst á þau áhrif sem fíkniefni hafa á börn. Barnið mitt tók mikinn þátt í skátastarfi og íþróttum og fjölskyldan fór oft til kirkju. Þessa vegna var engin hætta á því að barnið mitt færi að neyta fíkniefna. Sú hugsun hafði aldrei hvarlað að mér þegar það gerðist.

Ýmis atvik leiddu mig í allan sannleika um það og ég gat ekki lengur neitað því að barnið mitt væri farið að neyta fíkniefna. Áhuginn fyrir íþróttum minnkaði. Einkunnirnar í skólanum fóru lækkandi. Þegar kennarinn sagði mér að barnið mitt væri hætt að fylgjast með í skólanm og sofnaði jafnvel fram á borðið hélt ég að ég hefði ráð við því: bara flýta háttatímanum – barnið mitt væri bara þreytt. Það hafði dregið mjög úr boðskiptum milli okkar – gerðist slíkt ekki einmitt á vissu tímabili á bernskuskeiði? Ég fann litla plastpoka þegar ég fór að leita að einhverju, en þeir voru alltaf tómir. Nokkur frækorn í vasanum sýndust ekki svo hættuleg. Mér tókst jafnvel að finna eðlilega skýringu á þessum tveim litlu pípum sem ég fann. Ég varð vitni að því aðeins einu sinni að barnið mitt átti erfitt með að gagna eftir ganginum þegar það var á leið í rúmið. Þetta væri ekki honum að kenna. Einhver hafði narrað hann til að drekka áfengi.

Ég var svo frá mér af örvæntingu að ég vildi ekki viðurkenna að barnið mitt væri orðið svona háð fíkniefnum. Ég var haldin slíkri afneitun. Hvað mundi fólk halda? Hvert gætum við leitað eftir hjálp? Ég hafði vissulega misst tökin og að sjálfsögðu hafði ég samviskubit. Ég var gripin vonleysi og ég var reið. Ég fór því að óttast um líf barnsins míns.

Fjölskyldulífið fór úr böndunum. Við lifðum í andrúmslofti vonlausrar örvæntingar. Við æptum hvert á annað á óviðeigandi tímum. Ég fór jafnvel að kvíða því að koma heim úr vinnu. Svo virtist sem lífið veitti okkur enga ánægju lengur. Það var jafnvel orðið erfitt að vera glaður.... eða hlæja.
Ég gat ekki lengur neitað staðreyndum eftir það sálræna áfall þegar barnið mitt hljópst að heiman, án þess að kveðja eða taka með sér föt eða peninga – hann bara hvarf.

Þegar ég loks viðurkenndi þann hræðilega vanda sem fíkniefnin höfðu valdið í lífi barnsins míns fór ég að leita leiða til að bjarga lífi þessarar ungu manneskju. Í nær tvö ár var ýmislegt reynt til að vinna bug á þessum vanda. Ég ræddi við presta, fékk hjálp hjá sérfræðingum bæði fyrir fjölskylduna og barnið og stuðlaði að stuttri afeitrunarmeðferð og réði sérkennara. Ég vissi ekki þá að hér var ekki aðeins um að ræða svolítið “hass og áfengi”, heldur neyslu ýmissa efna.

Ég fékk áhuga á foreldrhóp á vegum foreldrsamtakanna Vímulausrar æsku, sem var að reyna að takast á við fíkniefnaneyslu unglinga. Ég sótti fundi, hlustaði í fyrirlestra, reynslusögur o.s.frv. Stuðning og hjálp veitti fólk sem hafði áður neytt fíkniefna en síðan hætt því. Barnið mitt og öll fjölskyldan hafa nú tekið þátt í foreldrahópnum í nær hálft annað ár og lífið er orðið svo miklu betra.
Við erum farin að geta tjáð tilfinningar okkar hvert fyrir öðru. Við látum í ljós mikinn stuðning og kærleika og lífið er orðið eins og það var áður en fíkniefnin komu til sögunnar. Sjálfsálitið, sem var alveg horfið, er farið að byggjast upp aftur og við eygjum von í framtíðinni, von fyrir fjölskylduna og líf barnanna hefur breyst til batnaðar.

Fíkniefnaneytandi verður að losa við fíkniefnin í eitt skipti fyrir öll. Einn sopi af áfengi eða ein hasssígaretta getur komið honum alveg niður á botninn aftur, þar sem hann hefur enga stjórn á lífi sínu og framtíð. Mikilvægt er að hafa áætlun og stuðningshóp til að hjálpa manni, vegna þess að það er ævilögn barátta að halda sér fíkniefnalausum.


Reis upp frá dauðum

Reynslusaga fíkils

Þegar ég horfi yfir mína stuttu ævi þá er ég oft svo þakklát fyrir að hafa fengið að hætta að drekka. Ég get varla lýst því með orðum hversu þakklát ég er!!

Ég var nýorðin tvítug og eftir erfiða Verslunarmannahelgi þá gafst ég upp fyrir áfengi. Eftir vikufyllerí náði bakkus yfirhöndinni og ég lýsti mig sigraða. Næstu dagar voru hræðilegir, ég nötraði, kipptist og skalf. Hélt nánast engum mat niðri í þrjá daga og þar fram eftir götum.

Það sem stakk mig samt mest eftir þessa helgi var framkoma mín við pabba minn. Frá því ég byrjaði að labba þá hékk ég í rassvasanum á pabba mínum og fór allt sem ég komst með honum. Hann var kletturinn í lífi mínu og sólin mín um leið, einstakt samband okkar á milli. Eftir fylleríið mikla, þá eru foreldrar mínir að leita að mér út um allt.

Pabbi finnur mig loksins og biður mig um að koma með sér heim, ég leit á þennan mann sem ég virði mest af öllum og sagði: “Er ekki allt í lagi með þig, sérðu ekki að ég er að djamma!?!” Mér var alveg skítsama um hvað honum fannst og um hann. Þegar ég vaknaði morgunin eftir þá var þetta það fyrsta sem ég mundi eftir og vissi þarna að ég var ekki að ráða við að drekka áfengi.

Viku seinna fór ég á minn fyrsta AA-fund. Ég fékk að fara með frænku minni og sat alla leiðina í bílnum að reyna að sannfæra hana um að ég væri ekki alkóhólisti, eða kannski mest sjálfa mig. Ég var jú að vinna þrjár vinnur, nýbúin að klára stúdentinn og búin að fá inni í háskólanámi. Það væri ekki möguleiki að ÉG væri alki.

Eftir fundinn sat ég steinrunnin, ég fékk allt það sem ég sagði í bílnum í andlitið aftur. Ég var alkóhólisti!

Í flestum tilvikum er ekki gott að vera bráðlátur, en í þetta skipti hentaði það mjög vel. Á fundinum var talað um lausn, að 12 sporin myndu hjálpa mér að eignast nýtt líf. Ég labbaði því að manneskjunni sem mér fannst skemmtilegast að hlusta á, kynnti mig sem alkóhólista í fyrsta skipti og bað hana að fara með mér í sporin – einfalt.


Mér gekk mjög vel að skrá niður misgjörðir mínar, ótta og gremju. Trúnaðarkonan mín sagðist í rauninni aldrei hafa fengið jafn skipulagt 4. spor.  Námsmaðurinn ég með fullkomnunaráráttuna kortlagði nánast hvert ár fyrir sig, seinna sá ég hvað þetta hjálpaði mér mikið í batanum. Að skilja EKKERT eftir úr fortíðinni, taka ærlega til í mínum málum.

Það að vera ættleidd var erfiðasta tiltektin hjá mér, mikið af óuppgerðum tilfinningum þar. Einnig þótti mér erfitt að taka Guð inn í líf mitt. Ég átti þó síst von á að ég myndi kynnast Guði á þann hátt sem ég gerði , TILVILJUN? Nei ég held ekki..

Einn daginn hringir vinkona mín í mig og segir að það séu að byrja Tólf spora vinna í kirkjunni í heimabæ okkar og hún hafi frétt að ég ætlaði að fara. Ég hafði ekki heyrt neitt af þessu fyrr en að hún hringdi og þarna kviknaði áhuginn hjá mér og mig langaði til að taka þátt. Það varð því raunin að ég fékk að smeygja mér inn í hópinn. Fundirnir voru haldnir í kirkjunni, nánar tiltekið í fundarherbergi þar, þannig að ég þurfti að stíga inn í mikinn ótta til að takast á við þessi spor.

Ég sem var skíthrædd við Guð og hvað þá kirkjur! Ég dreif mig samt af stað. Ég var mjög fegin að hafa reynsluna af sporunum úr AA en þessi spor voru samt sem áður byggð á Biblíunni og það hræddi mig örlítið. Næstu átta mánuði lagði ég mig alla fram um að vinna verkefnin sem voru fyrirlögð og vera heiðarleg til að vinnan myndi skila sér. Hún gerði það svo sannarlega, maður uppsker eins og maður sáir. Á þessum tíma hleypti ég Guði inn í líf mitt, þó án þess að taka almennilega eftir því. Þetta kom hægt og rólega og fyrr en ég þorði að vona. Óttinn við að hleypa Guði inn í líf mitt var horfinn.

Í dag treysti ég Guði fyrir lífi mínu og fæ á hverjum degi gjafir fyrir það. Hann sendir mér hin ýmsu próf og verkefni sem ég þarf að leysa. Jú, þau eru miserfið en eins og pabbi minn segir alltaf; Það sagði enginn að lífið ætti að vera auðvelt. Ég reyni að taka þessum verkefnum með opnum huga og leysa þau eins vel af hendi og ég mögulega get. Oft skil ég ekki alveg tilganginn, verð kannski örlítið hrædd en reynslan hefur kennt mér að það er langbest að stíga inn í óttann.

Í óttanum kemur Guð og ber mig á örmum sér. Einnig trúi ég að Guð sé með sérstakt plan fyrir hvert og eitt okkar, það sem er mikilvægast er að vera ekkert með puttana í því heldur treysta því að hann muni vel fyrir sjá.

Í dag eru komin fjögur ár frá því að ég bragðaði áfengi síðast og þakka ég Guði, sporunum og sjálfri mér fyrir þann árangur. Ég er frjáls, hamingjusöm og nýt einfaldlega velgengni í lífinu. Er hægt að biðja um eitthvað meira? Ég held ekki. Mig langar að lokum að koma því á framfæri að sporin eru ekki bara fyrir alkóhólista, ef að þig langar til að stokka upp líf þitt prófaðu þá – hverju hefurðu að tapa, þér gæti jafnvel liðið betur

Ég bið góðan Guð að vaka yfir ykkur öllum og blessa ykkur.


Hrikalegar staðreyndir úr heimi neyslunnar

18 ára strákur segir frá:  

"Ég byrjaði að nota öll vímuefni þegar ég var 16 ára hassið var hætt að virka og þetta var allt svo rosalega saklaust.

Maður fær sér amfetamín í nefið og verður hressari og vakir lengur og getur djammið meira, maður fær sér e og líður svo vel.  Þetta er allt svo saklaust
en svo er maður bara lentur í vítahring.  Og 17 ára byrjaði ég að djönka mig (sprauta mig), og upp frá því byrjaði allt annar pakki, þá breytist maður úr
venjulegum strák í eitthvað allt annað.  Ég var kominn á það stig að matur og föt var ekki sjálfsagt, maður þurfti jafnvel að ræna sér
fötum þegar þau voru orðin ógeðsleg, öll í blóði og í einhverjum viðbjóði.

Þegar maður er kominn í einhvern svona pakka þá er maður ekkert
“Að djamma.”

16 ára stelpa segir frá:

"Í fyrsta skiptið sem ég fór heim með kærastanum mínum, sem ég var rosalega hrifin af, var ég alltof drukkin. Ég vaknaði um nóttina ber a ð ofan án þess að muna nokkuð. Hvað hafði gerst og ég var búin að æla í r úmið hans. Mér hefur aldrei liðið jafn ömurlega. Ég var alveg eins og aumingi. Ég ætla aldrei að verða svona full aftur, maður heldur að maður hafi fulla stjórn en hefur akkúrat enga. Ég þorði ekki að horfast í augu við hann í marga daga á eftir, Ég skammaðist mín svo mikið.”

19 ára strákur segir frá:

" Þrátt fyrir hversu ömurlega mér leið eftir fyrsta fylleríið ákvað ég a ð drekka aftur en það yrði sko við öðruvísi aðstæður. Ég ætlaði að eignast bar heima hjá mér og flott glös til að drekka úr og fínt vín, ekki þetta rusl sem krakkarnir voru að drekka. Ég vildi ekki verða eins og pabbi, það átti aldrei að koma fyrir mig, drekkandi allt frá sér og standa ekki við nokkurn skapaðan hlut. Ég ætlaði ekki að enda svoleiðis, en hlutirnir áttu nú eftir að þróast ö ðruvísi.”

16 ára strákur segir frá:

"Fullorðnir drekka. Af hverju ættum við þá ekki að gera það ?”

 18 ára strákur segir frá:

,,Einangrunin og paranojan er ömurleg.  Ég hef oft lent inniá geðdeild og þar er mikið af fólki að fara yfir um af þessu hassi, fá einhverja maníu eða
geðsjúkdóma.  Fólk verður geðveikt af þessu, hass er alveg
jafn skaðlegt og önnur fíkniefni, málið er bara að þú drepur þig hægar.”

14 ára strákur:

,,Ég flutti inn til pabba af því að allt var ómögulegt. Mamma var alltaf full eða á einhverju öðru og heimilið var alltaf í rúst. Það er gott að vera hjá pabba, hann drekkur ekki og ég get slappað af.” (Úr bókinni Hvað er málið frá JPV útgáfu.)


Helvíti líkast

Anna byrjaði að fá átköst þegar hún var einungis ellefu ára gömul. Hún var einkabarn og því var afar erfitt fyrir hana að fela þetta fyrir foreldrum sínum en það tókst henni nú samt. Hún lifði samt sem áður í stöðugum ótta við að foreldrar hennar kæmust að því hvernig henni leið og hún gat ekki hætt því hún varð háð átköstunum. Hún komst upp með þetta öll sín unglingsár og hún var sátt við þetta því hún hafði “stjórn” á þessu og þetta var hennar leyndarmál.

 

Þegar hún fór í framhaldsskóla fékk hún hálsbólgu og gat ekkert borðað í nokkra daga og eftir það einbeitti hún sér að því að svelta sig og tók þá við barátta við lystarstol. Hún einbeitti sér að því að halda flötum maganum sem hún hafði fengið í kjölfar veikindanna. Hún hætti að hafa áhyggjur af tímum og því að passa inn í hópinn.

Hún var oft send á spítala vegna næringarskorts eða of mikils þyngdartaps. Svo um þrítugt fékk hún lotugræðgi. Næstu átta árin voru helvíti líkust og stundum gekk þetta svo langt að ælan lak af olnbogunum hennar. Þegar hún varð 38 ára hafði hún misst vinnuna sína og allt samband við vini sína.

 

Hún skráði sig svo að lokum á sjúkrahús en læknarinir þar unni ekkert með henni að sálrænu hliðinni. Hún gafst að lokum upp og ákvað að fyrirfara sér en tveir lögreglumenn komu í veg fyrir það og þá uppgötvaði hún að batinn fólst í því að líða vel innra með sér og að hún þyrfti að ganga í gegnum erfiðið sjálf, enginn annar gæti gert það fyrir hana.

Hún hefur verið laus við átröskunina í 13 ár núna og ráðleggur nú þeim sem eiga enn í sinni baráttu við átröskunarpúkann. Hún setti upp meðferðarstofnun sem bæði fékkst við mataræðið sem og sálræna þáttinn.

Munum að við sjálf erum þau einu sem getum breytt ástandi okkar. Við verðum að leita eftir hjálp og þiggja hana.

 


Martröð í draumi

Martröð í draumi

Hver hefur ekki farið í útilegu og skemmt sér konunglega?  Væntanlega hafa flestallir  unglingar gert einmitt það.  Sumir hafa farið með gamla genginu í þórsmörk, Ásbyrgi eða Vaglaskóg, aðrir hafa tjaldað útí garði og enn aðrir hafa farið á útihátíðir.  Reynsla flestra af útihátíðum er góð og við heimkomu er maður drullugur upp fyrir haus en endalaust hamingjusamur. 

Þeir sem hafa fylgst með fréttum heyrðu væntanlega um þær fjölmörgu nauðganir sem áttu sér stað síðastliðnu verslunarmannahelgar.  Við vitum öll hvað nauðganir eru en hugsum kannski ekki mikið um þær dags daglega.  Því eins og okkur hættir svo oft til að hugsa, þetta kemur ekki fyrir mig né mína nánustu.  Staðreyndin er þó allt önnur og sláandi.  Nauðganir eru mun algengari en við höldum, því aðeins brotbrot af þeim sem er nauðgað kæra nauðgunina til lögreglu eða leita sér hjálpar hjá aðilum eins og til að mynda Stígamótum. 

Hver er ástæðan fyrir því að svo margir gera ekkert í málinu?  Nauðgun er langt því frá þolandanum að kenna!  Það vill brenna við að þolandinn telji sig eiga einhvern þátt í nauðguninni og fari jafnvel að réttæta gerðir nauðgarans.  ,,ég get sjálfri mér um kennt, ef ég hefði ekki verið í svona flegnum bol eða stuttu pilsi hefði nauðgarinn ekki séð ástæðu til að nauðga mér.”  Hvað stúlka sem er á að geta klætt sig eftir sínum eigin stíl án þess að eiga það á hættu að vera áreitt. 

Aldrei má segja að hún hafi gefið nauðgaranum tilefni til að nauðga sér vegna klæðaburðar.  Nauðgun er sá glæpur sem kemst næst manndrápi, því þeir sem er nauðgað jafna sig seint og í sumum tilvikum aldrei.  Hvað það er sem fær menn til að fremja svo hræðilegan glæp er ekki auðsvarað.  Sumir hverjir hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku og vilja að aðrir þoli það sama og þeir máttu þola.  Þetta er ein af ástæðunum en þær eru fjölmargar og sumar hverjar óþekktar. 

Því vil ég benda ungum stúlkum, því þær eru í mestri áhættu, á að fara varlega því nauðgari gæti reynst hvar sem er og úr öllum stigum þjóðfélagsins.  Ég skrifa þessi orð ekki til að hræða þig lesandi góður heldur vekja þig til umhugsunar.  Ekki vera ein síðla kvölds eða næturlangt.  Haldið hópinn því ekki viljum við að skemmtilegir tímar eins og útilegur breytist í martraðir.  Farið að öllu með gát og eins og móðir mín hefur sagt oft : Ekki fara upp í bíla eða á brott með ókunnugum.


tvöfaldan asna með lambinu

Við lifum í þróuðu upplýsingasamfélagi, vel menntaðir unglingarnir trúa ekki kerlingabókum, þeir vita að hinn alræmdi fyrsti sopi mun ekki steypa þeim í glötun. Reyndar getur hann kveikt neistann í þeim fáu prósentum sem eru genetískir alkóhólistar, svo ég slái varnagla. Hugsanlega verður í framtíðinni hægt að einangra þennan erfðavísi og láta viðkomandi einstakling fá viðvörun.

En alkóhólistar þurfa náttúrlega að drekka nokkuð stíft og lengi til að þróa sjúkdóminn og missa stjórn á drykkjunni og lífi sínu. Því fyrr sem maður byrjar að drekka þeim mun meiri hætta er á alkóhólisma, það staðfesta rannsóknir og þær staðfesta einnig arfgengi. Barn alkóhólista sem byrjar að neyta áfengis 16 ára eða yngri er víst í fimmfalt meiri hættu en venjulegir unglingar.

 

Mér er minnisstætt þegar ég fór með nokkrum háskólanemum á Lækjarbrekku þar sem við fengum okkur ljúffenga lambasteik. Allmargir pöntuðu sér rauðvín með matnum en einn úr hópnum hrópaði upp að hann vildi bara tvöfaldan asna með lambinu og gott ef annar svolgraði ekki vodka í kók. Kannski sötra sannir karlmenn ekki léttvín, a.m.k. gáfust flestir upp á gutlinu eftir matinn og fengu sér eitthvað sterkara. Síðan upphófust þessi vanalegu vandræði sem allir þekkja, þeir sem missa stjórn á drykkjunni missa um leið stjórn á hegðun sinni og úr verður ástand sem getur sveiflast frá leiðindum til lífsháska.

 

Ég er  sannfærður um að margir geti bætt drykkjusiði sína. Atferlissálfræðingar segja að ofdrykkja sé lært atferli sem hægt sé að aflæra, m.ö.o. það er hægt að kenna fólki að fara betur með vín. Ekki þó alkóhólistum. Við verðum að gera greinarmun á sjúklegri fíkn og slæmum ávana. Óæskilega hegðun má bæta en ég efast reyndar um að æska vor geti í framtíðinni valið hófdrykkjubraut í áfangaskólum landsins og ég felli mig ekki við það viðhorf sem mér finnst skína í gegn hjá vini mínum (og e.t.v. meginþorra þjóðarinnar) að það sé óskaplega eftirsóknarvert að neyta áfengis, nánast nauðsynlegt. Þótt fráleitt kunni að virðast þá er til líf án áfengis og það líf er ekki litað af eymd og volæði, eftirsjá eða öfund.

 

Víst er erfitt að halda slíkum skoðunum fram í þjóðfélagi áfengistískunnar þar sem fullorðna fólkið, fyrirmynd æskunnar, blótar Bakkus opinberlega eða á laun, af áfergju, fíkn, vana, nautn, eða bara til að vera með. Mér finnst ég hins vegar hafa þær skyldur gagnvart börnum mínum og nemendum að benda á þá einföldu staðreynd að við eigum val og það geti líka haft marga kosti í för með sér að láta vínið eiga sig.

Þetta er frelsi.

Valfrelsi.

 

En frelsið er ekki taumleysi, það krefst sjálfsaga. Sá sem kemst að því að hann þarf ekki að nota áfengi er frjáls. Andstæðurnar eru ekki þær að annað hvort hangi maður edrú heima í fýlu eða drekki sig fullan og skemmti sér með félögunum. Það er ekki einungis hægt að lifa án áfengis, það er líka hægt að skemmta sér án þess, meira að segja leikur einn að njóta matarins án þess að hafa rautt eða hvítt í staupi.

 

Mér finnst ég vera rétt að byrja en þykist þó vita að mál er að linni. Ég á mér ósk um heill og hamingju æsku landsins til handa og að unglingarnir okkar átti sig á því að það er ekkert hallærislegt að lifa lífinu allsgáður. Bakkus er hverfull vinur og það gerir lífið á margan hátt þægilegra að láta hann eiga sig. Heilbrigt líferni er eftirsóknarvert, þar er ekki rúm fyrir vímuefni og vonandi skilur fólk, hvort sem það dreypir á víni eður ei, þann sjálfsagða rétt einstaklingsins að feta aðra slóð en fjöldinn. Við eigum að styrkja æskuna á fordómalausan hátt í því að velja sér heilbrigðan lífsstíl, í því viðhorfi eru raunverulegar forvarnir fólgnar.


löngun í skjótfenginn gróða

SKJÓTFENGINN gróði freistar allra og það er áreiðanlega skýringin á því að Íslendingar hafa eytt milljörðum króna í alls konar happdrættismiða á undanförnum árum. Happdrættin, lottóin, gullnámurnar og hvað þetta nú heitir eru fyrir löngu orðin fleiri en hægt er að telja í fljótu bragði. Auðvitað er málstaðurinn góður, svona oftast, en því miður er mun ólíklegra að málstaðurinn opni budduna en sú löngun mannsins að vilja verða ríkur án þess að hafa fyrir því.

Flestir gera sér þó grein fyrir þeirri staðreynd, að sjaldnast eignast nokkur maður nokkurn skapaðan hlut án þess að hafa fyrir því. Þess vegna stunda menn vinnu og fara mánaðarlega með reikningabunkann sinn út í banka, greiða skuldirnar og reyna að láta afganginn endast sem lengst. En væri nú ekki gott ef . . . ? Og svo er farið út í næstu sjoppu til að kaupa lottómiðann.

Þar sem svo grunnt er á þessari löngun er ekki furða þótt skynsamasta fólk missi fótanna þegar skjótfenginn gróði er í augsýn. Þannig fór til dæmis fyrir fjórum Íslendingum, sem voru í sólarferð á Kanaríeyjum fyrir nokkru. Þegar fólkið var að rölta frá ströndinni einn daginn kom að því ungur piltur sem rétti fram skafmiða og bauð fólkinu að freista gæfunnar, án þess að greiða krónu fyrir. Auðvitað þótti þetta undarlegt, en það sakaði ekki að reyna.

Einn fjórmenninganna fékk vinning, einhverja tugi þúsunda af pesetum og taldi sig að sjálfsögðu hafa himin höndum tekið, enda aldrei unnið í happdrætti áður. En þá kom örlítið babb í bátinn. Pilturinn ungi var að vísu enn ákaflega vingjarnlegur og stimamjúkur, en hann hvatti fólkið til að koma með sér á nærliggjandi hótel, því það væri innifalið í vinningnum að skoða hótelið og þar væri vinningurinn síðan afhentur. Svona stór vinningur kallaði auðvitað á umstang, að sögn piltsins, enda aðeins fjórir happaskafmiðar með þetta háum vinningi á öllum Kanaríeyjum.

Og svo var farið á hótelið, þar sem tók við japl og jaml og fuður, allt þar til Íslendingarnir voru komnir inn í stóran sal, þar sem fjöldi fólks sat við borð, ein hjón við hvert og hjá hverju einn sölumaður. Lesendur eru sjálfsagt farnir að átta sig á, að þessir landar þeirra höfðu lent í klónum á sölumönnum, sem stunda að selja fólki svokallaðan orlofsrétt í hótelum á sólarströndum.

Íslendingarnir fjórir höfðu heyrt af þessum óprúttnu sölumönnum áður en þeir héldu á sólarströnd, svo þeir gættu sín og gengu út áður en þeir höfðu flækst í svikavefinn. Það er hins vegar til marks um mannlega náttúru og þessa umtöluðu löngun í skjótfenginn gróða, að þrátt fyrir fyrri vitneskju og þrátt fyrir að sífellt kæmu upp nýir fyrirvarar varðandi "vinninginn" þá hélt fólkið lengi í vonina um að fá nú eitthvað fyrir skafmiðann góða.

Því er við þessa stuttu sögu að bæta, að skömmu eftir að fjórmenningarnir sluppu úr klóm svikahrappanna urðu þeir vitni að því er sami ungi sölumaðurinn afhenti hjónum nokkrum skafmiða og að sjálfsögðu var stóri vinningurinn á öðrum miðanna. Íslendingarnir helltu sér yfir sölumanninn og vöruðu hjónin við að skipta við hann, en þau horfðu fjarrænu bliki á skafmiðann og létu aðvaranir sem vind um eyru þjóta. Þau þráðu skjótfenginn gróðann.

Til allrar hamingju vara flestir sig á tálsýn skyndilegs og fyrirhafnarlauss ríkidæmis. Því er þó ekki svo farið um alla. Fyrir skömmu var fjallað um spilafíkn á síðum Morgunblaðsins. Þar lýsti einn þessara fíkla líðan sinni og líkti henni við þrá fíkniefnaneytanda eftir næsta skammti. Sá fíkill var búinn að steypa sér í 16 milljón króna skuldir áður en yfir lauk. Í þessari umfjöllun var einnig rætt við sérfræðinga um hugsanlega orsök spilafíknarinnar.

Þeir sögðu að reynt hefði verið að finna sameiginleg einkenni hjá spilafíklum og var ýmislegt nefnt til sögunnar, svo sem saga um áfengissýki eða spilafíkn í fjölskyldunni, vandamál í samskiptum innan fjölskyldunnar, gildi peninga hefði verið ofmetið í fjölskyldunni og fleira í þeim dúr, auk þess sem spilafíkinn einstaklingur reyndist oft hafa kynnst fjárhættuspili snemma á ævinni, með þeim hætti að það hafi verið mikils metið.

Það var einmitt þetta síðasta atriði sem vakti dálítinn óhug. Sú kynslóð, sem nú er að vaxa úr grasi, hlýtur síðar meir að geta haldið því fram að fjárhættuspil hafi verið mikils metið í uppeldi hennar. Börnin eru vitni að því að foreldrarnir eyða reglulega háum fjárhæðum þegar þeir freista gæfunnar, peningum sem gætu bætt hag fjölskyldunnar en hverfa þess í stað út í óvissuna. Heilu skemmtiþættirnir sem fjölskyldur fylgjast með saman eru helgaðir duttlungum heilladísanna og fjölmiðlar hampa þeim sem detta í lukkupottinn.

Sem betur fer er það nú þannig að fjöldi fólks spilar í happdrætti af einu eða öðru tagi án þess að eyða í það fjármunum sem um munar því það kann fótum sínum forráð. Og sumir lenda óneitanlega í lukkupottinum. Málið er hins vegar orðið alvarlegt þegar þrá eftir skjótfengnum gróða leiðir fólk á glapstigu svo það missir sjónar á raunveruleikanum.


lifandi / dauð

Ég varð einu sinni fyrir ofbeldi. Hræðilegu ofbeldi. Ég ver grátt leikin og illa farin. Það versta var samt að ofbeldismaðurinn skildi eftir púka inn í mér. Andstyggilegan púka sem hann tróð beint inní fallegt hjarta mitt. Þá hélt ég að hjarta mitt væri ekki fallegt lengur, því það var fullt af þessum ljóta púka.

Ég var ringluð og vissi ekki hvað ég átti að gera. Ofbeldismaðurinn var farinn en púkinn var á þessum stað og vantaði rödd. Svo að ég gaf honum mína. Það hefði ég kannski ekki átt að gera, en það var eina leiðin sem ég rataði þá.

Og púkinn tók til óspilltra málanna. Hann hafði alltaf nóg að segja. Hann gagnrýndi allt sem ég gerði og honum tókst alltaf að benda mér á allt sem miður fór. Ekkert var nógu gott fyrir hann, það var sama hvað ég vandaði mig mikið, hann gerði ætíð stólpagrín að mér og hló þessum ískrandi, illgirnislega hlátri sínum. Hann sagði að ég væri ljót og vond persóna.

Hann sagði að líkami minn væri svo afskræmilegur að ég ætti ekki að láta eðlilegt fólk sjá mig. Stundum grét ég þegar hann lér sem verst, en þá hlakkaði í honum og hláturinn ómaði hærra en nokkru sinni.

Púkinn varð hluti af lífi mínu og eina leiðin sem ég kunni til að lifa með hann í hjartanu mínu var að vera hluti af mér og ég leyfði honum að trúa því. Ó hvað ég var eftirlát við þessa andstyggð.Og reyndar ruglaðist ég iðulega í ríminu. Hvað var ég að segja og hvað var hann að segja? Það er reyndar ekkert skrýtið, ég hafði gefið honum röddina mína. Svona leið langur tími. Þetta var tíminn sem púkinn notaði til að tæta mig í sig og honum gekk vel.

Þangað til dag einn að ég tók ákvörðun. Ég tók þessa ákvörðun af því að ég er lifandi.Ég ákvað að lifa áfram, en ég ætlaði að hætta að vera fórnarlamb ofbeldismannsins og púkans. Það var eins og að klífa himinhátt fjall. Fjall sem var fullt af grjóti og hrikalegum skriðum. Oft hrasaði ég svolítið aftur niður, en aldrei mjög langt. Ég stóð alltaf á fæturnar aftur, því upp skyldi ég fara. Púkinn skammaðist og reifst alla leiðina og vissulega hlustaði ég oft á hann. Mér fannst hann vera eins og þungur steinn í hjarta mínu sem æ erfiðara var að burðast með. Ég fann núna að púkinn var sko enginn hluti af mér og hafði aldrei verið.

En það var erfittt að sannfæra hann um það, hann heyrði nefnilega aldrei til mín. Hvernig gat ég talað inn í hjartað á mér Púkinn fór létt með að tjá sig, ég talaði alltaf fyrir hann sem fyrr.

Ég fann að hann var að hægja á ferð minni og ég vissi líka að ég kæmist aldrei alla leið með hann inní mér. Ég hugsaði ráð mitt og allt í einu vissi ég hvað ég gæti gert.
Ég lagðist niður í grænt og fallegt gras og fyllti skilningarvit mín öll með lífinu. Þá fór ég með sál mína og leitaði inn í hof mitt. Þar fann ég sterkan vin og horfði á hann þar til hendur mínar urðu logagylltar.

Og ég fór inn í hjarta mitt og sá hvað allt var þar fallegt, nema púkinn. Með sólina í höndunum reif ég púkann úr brjósti mínu og skildi aðeins eftir fegurðina. Púkann setti ég upp á öxlina mína, þar sem hann grenjaði af ótta við birtuna. Ég tók af honum rödd mína og hann neyðist til að nota sína eigin.

Þegar ég opnaði augu mín næst, sá ég púkann í sinni réttu myndi í fyrsta sinn. Hann var lítill og horaður. Ræfilslegur og aumkunarverður. Og ég fann að hann myndi ekki segja mér til framar, Hann reyndi nú samt eins forhertur og hann er. En ég svaraði honum fullum hálsi. Rödd mín var sterk og hljómfögur, en hann skrækti bara eitthvað, samhengislaust og mjóróma.

Nú leið mér vel. Upp frá þessu hefur púkinn hangið á öxl minni, hálfmeðvitundarlaus og ruglaður. Hann röflar stundum eitthvað en þegar ég læt hann útskýra sig þá getur hann það ekki og þagnar.

Púkinn má alveg vera á öxlinni, því með sinni eigin rödd segir hann ekki margt sem hlustandi er á . Í hjarta mitt fær hann aldrei að koma framar, ég á það sjálf.
Ég er víst falleg manneskja og ég er líka svolítill sigurvegari



Pabbi alkóhólisti og mamma alkóhólisti

Já, þetta byrjaði allt suður með sjó þar sem ég ólst upp hjá yndislegum foreldrum sem voru bæði veik, mamma alkahólisti og pabbi alkahólisti og spilafíkill af verstu gerð. Mamma var að mestu leyti að vinna á meðan ég var að alast upp og pabbi að sinna drykkju og spilamennsku. Pabbi sagði mér að hann hefði farið með mig á pöbbinn þegar ég var 2 ára og sent mig einan heim i leigubíl.


Ég lærði fljótt aðlaga mig að aðstæðum, reyndi að segja og gera það sem ég hélt að fólk vildi að ég segði og gerði sem var til þess að ég var fljótur að týna sjálfum mér.

Besti vinur minn á þessum árum var mjög sterkur karakter og það hentaði mér mjög vel. Ég var mikið í skjólinu af honum og tók upp á því að vera með sömu skoðanir og hann. Við lékum okkur mikið í verslunarleikjum þar sem við kepptumst um að hafa betur og hann vann alltaf, en stundum komu fleiri og þá náði ég öðru sætinu og fékk mikið útúr því að hafa betur. Ég talaði oft niður til leikfélagana og bæði skýrði og uppnefndi þá ljótum nöfnum sem mér fannst mjög sniðugt þegar gekk vel í þessum leikjum hjá mér. Ég fékk það mjög sterkt á tilfiningunni að ég væri ekki nógu góður, þannig að það hjálpaði mikið að geta rakkað aðra niður þar sem ég var mjög óöruggur með sjálfan mig, mjög óttasleginn og þorði aldrei að gera neitt nema ég væri viss um að það mundi heppnast.

Þetta leiddi til þess að ég flutti í hausinn á mér og þar gekk allt upp. Gat legið tímunum saman og upplifað að vera allt sem ég var ekki og það var mjög fín lausn á þessum tíma. Ég var ofboðslega upptekin af því að vera númer eitt hjá öllum og það kom aldrei neitt annað til greina.

MATUR var í miklu uppáhaldi hjá mér og ég var mjög upptekinn af honum og borðaði iðulega of mikið sem var til þess að ég varð pínu þybbinn og var uppnefndur sem mér fannst mjög sárt. Ein versta minning var þegar bróðir minn var á leið að kaupa pizzu og gleymdi mér og sagði svo fyrir framan vin okkar að ég hefði ekki gott af því að fá Pizzu. Enn hann fékk á baukinn á móti.

Þegar ég var 6 ára skildu mamma og pabbi og það var mjög vond reynsla. Pabbi fór að vera með öðrum konum og ég sýktist seinna mikið af hans hugarfari. Ég var að æfa fótbolta og hafði mjög gaman af því en man ekki eftir að neinn í fjölskyldunni hafi komið einu sinni að horfa á mig,

Þegar ég er að alast upp var ég mjög sparsamur og passaði alltaf vel upp á peningana og setti mikið í baukinn. Þegar ég ætlaði að fara taka út átti ég svo engan pening.

9 ára byrjaði ég að spila í kössunum og þar lifnaði ég við. Ég fann tilgang lífsins. Lausnarinn minn var fundinn. Allir stundir fóru í að redda pening og spila og redda pening og spila. Á sunnudögum fékk ég pening í bíó hjá pabba, afa og fleirum til að get sett sem mest í kassann. Maðurinn í sjoppunni var að leggja mig í einelti og vildi ekki skipta fyrir mig í 5 kalla og hann var versti óvinur minn á þessum tíma. Samt er hann yndislegur í minningunni.

Flutti í höfuðborgina með mömmu þegar ég var 10 ára. Mamma var búin að fá nóg af þessu og pabbi búin að leika hana grátt og nú var komið að henni. Hún fór að drekka meira.

Ég hélt áfram að redda peningum til að setja í kassann og einn ættingi minn sem var búin að ganga mér í föðurstað sendi mér pening reglulega og kassinn brosti. Tilfinningin að koma í kassann var eins og að komast heim til sín. Að vera búinn að tapa öllu var til skiptist viðbjóður og léttir þar sem ég ávalt sagði: “nú er ég hættur”, sem entist aldrei þar sem líkamlega ofnæmið sem ég er búin að þróa með mér minnti alltaf á sig.

Mamma var yndisleg, lét renna í bað og maturinn til strax á eftir, öll föt straujuð og alltaf hreint og fínt, en hún var mjög lasinn drakk töluvert og fólk var að koma heim í miður góðu ástandi. Ég var lítill í mér og einhvern tíman skoraði einhver strákur á mig í slag og ég var manaður af lýðnum að taka því og stóð upp og leyfði honum að kýla mig og gerði ekkert á móti og fór svo að grenja. Oft lá ég upp í rúmi grenjandi.

Tímdi aldrei að kaupa mér neitt, peningar voru til að setja í kassann. Peningar sem áttu að fara í föt, nesti og annað enduðu oft í kassanum. 12 ára byrjaði ég að vinna í fiski og var alltaf tilbúin að vinna aukavinnu til að fóðra fíknina sem ég náði að sjálfsögðu aldrei að tengja saman. Ég var alltaf að safna en það var alveg sama hvað ég þénaði, það fór allt. 14 ára byrjaði ég að vinna sem sendill og eftir fyrstu útborgun kom ég heim og systir mín var í heimsókn og heyrir mig biðja mömmu um pening og segir; “var hann ekki að fá útborgað í dag”. Mamma segir þá; “það er allt búið”. Hún var ekki búin að heyra í mér þennan dag en hún vissi að ég var sonur föður míns.

Arfleiðin getur verið mögnuð, ég var orðin kópeyring af pabba.

Aldrei ætlaði ég að byrja að drekka eftir að ég var búin að sjá hvað brennivín gerði fyrir foreldra mína, en ég vildi sína að ég væri ekki minni maður en félagar mínir. Á 14 ári fékk ég mér í glas og þá var ekki aftur snúið, byrjaði strax að drekka hverja einustu helgi, fór á biljarðstofuna og spilaði pool upp á pening og drakk Captein Morgan.
Þetta gat ekki verið betra, hin fullkomna lífsleið.

Svona gekk þetta næstu árin, passaði mig að vera í skóla á veturna svo ég fengi nógan tíma til að spila og drekka, fékk alltaf fína vinnu á sumrin og svo fór ég í framhaldskóla til að þóknast öðrum, þorði aldrei að spyrja kennarann hvernig ég ætti að læra og féll alltaf. Var í skóla til 22 ára aldurs og var þá búin að ná 56 einingum,.

Þegar ég var 18 ára fékk ég hefti og þegar ég var búin að vera með það í 2 daga kláraði ég blöðin í heftinu, tapaði 300 þúsund á einu kvöldi og átti 15 þúsund upp í það. Merkilegt að eftir þessa reynslu datt mér ekki í hug að þetta væri vandamál. 22 ára fór ég í áfengismeðferð og ráðgjafinn minn var með svipaða sögu og ég. Sagði mér að hann hefði hætt að spila og drekka á sama tíma. Eftir þessa meðferð fékk ég vinnu sem gaf rosalega vel en samt fór ég alltaf að spila og kom stundum ósofinn í vinnuna.

Það sem gerðist var að ég varð ennþá uppteknari af því að spila, 4 mánuðum eftir að ég hætti að drekka tapaði ég um milljón á 10 dögum, sjaldan hefur mér liðið eins illa og það sem mér fannst verst að þetta voru peningar sem ég átti, hafði oft tapað miklu og getað samið um að borga minna.

Leita mér hjálpar júlí 96´ hjá yndislegum manni sem var heilari og náði þá að hætta í 3 mánuði og sjaldan hefur mér liðið jafnvel, leið eins og ég væri konungur alheimsins. Það sem vantaði upp á var að ég var aldrei tilbúin að viðurkenna að ég væri SPILAFÍKILL sem varð til þess að ég byrjaði að spila aftur.

Kynnist yndislegri konu janúar 97´ en var með lygavef í gangi sem var til þess að við áttum erfitt með að tengjast almennilega. Á öðru stefnumótinu kom ég of seint í bíó út af því ég var að spila og sagði við hana að við strákarnir hefðum verið að fíflast.

Við förum að búa saman og ég hélt mínu striki í spilamennskunni, lýg og lýg, segist vera á AA fundum og grúppum en er að spila, kem seint heim og lýg og lýg. Árið 99´ verður konan mín ólétt og þegar barnið fæðist koma ekki einu sinni tár þegar ég tek á móti henni. Hafði verið í spilaklúbbnum kvöldið áður en kom aldrei þessu vant snemma heim. Á spítalanum er verið að sýna fótboltaleik sem ég var búin að veðja á og þetta var síðasti leikurinn á seðlinum og átti að vera mjög öruggur. Chelsea-Blackburn en Blackburn náði að jafna og dagurinn sem ég varð faðir var ónýtur, 37.000 kr. í hafið. Lengjan var með því versta sem ég lenti í, var alltaf að reyna að vinna uppí tapið, eitt skiptið lagði ég ca.140 þúsund undir og Ipswich gerði jafntefli við Derby í síðasta leik og það kostaði 700 þúsund. Derby var búið að tryggja sig í deildinni og Ipswich var að berjast um sæti í meistaradeildinni. Ég fór að grenja.

Á þessum tíma höndlaði ég engan veginn að vera orðinn faðir, kom mér upp rútínu og var lítið heima, leið ömurlega. Hætti þegar barnið var mánaða gamalt og fór að stunda GA fundi. Sótti 1 í viku, kom seint og fór snemma af fundinum, vildi ekki tengjast þessu hallærislega pakki sem var á fundinum, eftir þrjá mánuði leit ég við í spilaklúbbnum og ætlaði svo sannarlega ekki að fara að spila. En allt í einu var ég sestur og byrjaður að spila og tapaði miklu meira en ég átti eina ferðina enn. Kom heim kl. 07.00 á aðfangadagsmorgunn og laug að konunni eina ferðina enn, var að horfa á video og sofnaði en var svo hrikalega ruglaður þegar ég vaknaði og hringdi í vin minn til að bakka söguna upp og talaði svo hátt í símann að konan heyrði allt.

Þarna hófst versta tímabil í mínu lífi, var alltaf að byrja og hætta að spila og þegar ég hætti fór ég að éta út í eitt og tók aldrei á því, var mjög kvalinn og búin að fá algjört ógeð á sjálfum mér og hætti alltaf þegar allt var komið í klessu , ekki út af því að ég var búin að viðurkenna að ég væri spilafíkill sem varð til þess að ég fór alltaf aftur að spila.

Prófaði að skilja við konuna og hélt að hún væri vandamálið sem hún var svo sannarlega ekki, þessi engill sem er það besta sem lífið hefur gefið mér.

Hætti 2002 þegar ég var búin að keyra allt í klessu og hélt ég ætti aldrei eftir að geta hætt að spila, en þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Ég var mjög virkur á fundum og vann GA prógrammið og átti mjög góðan tíma í tæpa 10 mánuði.

En á þessum tíma var allt í rugli í atvinnumálunum, var alltaf vinnandi á prósentum og vantaði pening, fékk símtal frá gömlum spilafélaga sem varð til þess að ég fór í bankann og tók út 80.000 til að hafa með mér í klúbbinn og ætlaði að sjá til hvort mig mundi langa að spila þegar ég kæmi inn.
Vá hvað það var gott og ég skildi ekki hvað ég var að pæla að hætta að spila, tapaði peningnum og annar nýfallinn félagi lánaði mér 140.000 til viðbótar.

Fyrsta hugsun þegar ég vaknaði daginn eftir var að ég þyrfti að ná þessum pening aftur, gamla vonda forritið STRAX komið í gang. Eftir 9 vikur gerðist svolítið sem aldrei hafði gerst áður, ég fékk ógeð þrátt fyrir að eiga ónotaða heimild upp á 500 þúsund, hafði grætt 60 þúsund kvöldið áður en samt í brjáluðu skapi.

Hringdi í trúnaðarmanninn minn og fór að hitta hann og byrjaði strax að hreinsa upp eftir mig skítinn, fara á fundi, vera mikið með GA félögum. Fór í þjónustu sem var mikið gæfuspor, mætti fyrr og hellti upp á kaffi og náði að kynnast fólkinu betur og nú ári seinna heyri ég ennþá í GA félögum nánast daglega. Þarna nýttist tíminn mjög vel sem ég var búin að ná áður en ég féll.

Nú er ég búin að átta mig á því að fara spila er það sama og að deyja, hætti að sinna öllu sem er mér kært og fer að dansa með djöflinum. Ég fer á GA fundi, nota bænina mjög mikið, fer reglulega á kirkju og er duglegur að hreyfa mig, það er hornsteinninn í mínu lífi.

Kraftaverkin hafa verið mörg á þessu ári, fjárhagurinn að lagast, ég er í draumastarfi, á góða vini úr GA, og það sem hefur komið í staðinn fyrir óregluna er mikið af hreyfingu, fundum og kirkjan.

Það að koma á GA fundi fyrir mig var eins og að koma heim. Það er vont að vera mesta fíflið í heiminum, en það að sjá að ég er ekki einn, ég er ekki heimskur eða vondur, ég er lasinn og það er til lausn.


Helvíti líkast

Reynslusaga um átröskun 

Anna byrjaði að fá átköst þegar hún var einungis ellefu ára gömul. Hún var einkabarn og því var afar erfitt fyrir hana að fela þetta fyrir foreldrum sínum en það tókst henni nú samt. Hún lifði samt sem áður í stöðugum ótta við að foreldrar hennar kæmust að því hvernig henni leið og hún gat ekki hætt því hún varð háð átköstunum. Hún komst upp með þetta öll sín unglingsár og hún var sátt við þetta því hún hafði “stjórn” á þessu og þetta var hennar leyndarmál.

 

Þegar hún fór í framhaldsskóla fékk hún hálsbólgu og gat ekkert borðað í nokkra daga og eftir það einbeitti hún sér að því að svelta sig og tók þá við barátta við lystarstol. Hún einbeitti sér að því að halda flötum maganum sem hún hafði fengið í kjölfar veikindanna. Hún hætti að hafa áhyggjur af tímum og því að passa inn í hópinn.

 

Hún var oft send á spítala vegna næringarskorts eða of mikils þyngdartaps. Svo um þrítugt fékk hún lotugræðgi. Næstu átta árin voru helvíti líkust og stundum gekk þetta svo langt að ælan lak af olnbogunum hennar. Þegar hún varð 38 ára hafði hún misst vinnuna sína og allt samband við vini sína.

 

Hún skráði sig svo að lokum á sjúkrahús en læknarinir þar unni ekkert með henni að sálrænu hliðinni. Hún gafst að lokum upp og ákvað að fyrirfara sér en tveir lögreglumenn komu í veg fyrir það og þá uppgötvaði hún að batinn fólst í því að líða vel innra með sér og að hún þyrfti að ganga í gegnum erfiðið sjálf, enginn annar gæti gert það fyrir hana.

Hún hefur verið laus við átröskunina í 13 ár núna og ráðleggur nú þeim sem eiga enn í sinni baráttu við átröskunarpúkann. Hún setti upp meðferðarstofnun sem bæði fékkst við

mataræðið sem og sálræna þáttinn.

 

Munum að við sjálf erum þau einu sem getum breytt ástandi okkar. Við verðum að leita eftir hjálp og þiggja hana.

 

Bestu kveðjur,


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband