Færsluflokkur: konfekt

Vandamálatréð

VANDAMÁLATRÉÐ

Smiðurinn sem ég réð til að hjálpa mér að gera upp gamalt sveitabýli, hafði nýlokið erfiðum fyrsta degi í vinnunni.  Hann var klukkutíma of seinn í vinnuna vegna þess að það sprakk dekk á bílnum, rafmagnssögin hans gafst upp, og nú neitaði forni pallbíllinn hans að fara í gang. Meðan ég keyrði hann heim, sat hann við hlið mér í steingerfðri þögn. Þegar við vorum komnir, bauð hann mér inn til að hitta fjölskylduna. Þar sem við gengum að útidyrunum, stoppaði hann stuttlega við lítið tré og snerti trjágreinarnar með báðum höndum.Eftir að hann opnaði hurðina, varð á honum undursamleg breyting. Sólbrúnt andlit hans rifnaði í brosi og hann faðmaði börnin sín tvö og kyssti konuna sína.  Seinna gekk hann með mér að bílnum mínum.

Við gengum framhjá trénu og forvitnin náði tökum á mér.  Ég spurði hann um það sem ég hafði séð hann gera fyrr um kvöldið. "Æ, þetta er vandamálatréð mitt," svaraði hann.  "Ég veit að ég kemst ekki hjá vandamálum í vinnunni, en það er eitt sem víst er, að þau eiga ekki heima á heimili mínu hjá konu minni og börnum. Þannig að ég hengi þau á tréð þegar ég kem heim á kvöldin. Síðan tek ég þau aftur af trénu á morgnana." "Það skrýtna er," sagði hann og brosti,  "að þegar ég kem út á morgnana og tek þau upp, þá eru þau ekki næstum eins mörg og mig minnti að ég hefði hengt upp kvöldið áður."
 

Ókunnur höfundur

Hverjir eru stóru steinarnir í þínu lífi ?

Steinarnir í krukkunni.

Dag einn var sérfræðingur í tímaskipulagningu að tala fyrir framan hóp viðskiptafræðinema. Til að koma merkingunni almennilega til skila notaði hann sýnikennslu sem nemendurnir gleyma aldrei. 
Þar sem hann stóð fyrir framan þennan hóp af metnaðarfullu fólki sagði hann: ,,Jæja, þá skulum við hafa próf." Hann tók upp 5 lítra krukku með stóru víðu opi og setti hana á borðið fyrir framan sig. Svo tók hann um það bil 10 hnefastóra steina og varfærnislega kom hann þeim fyrir í krukkunni, einum af öðrum. Þegar krukkan var full og ekki hægt að koma fleiri steinum í hana spurði hann: "Er krukkan full?"

Allir í bekknum svöruðu já. "Jæja" sagði hann. Hann teygði sig undir borðið og tók upp fötu með möl. Því næst sturtaði hann smá möl í krukkuna og hristi hana um leið, sem orsakaði það að mölin komst niður í holrúmin á milli stóru steinanna. Svo spurði hann hópinn aftur: "Er krukkan full?" Í þetta sinn grunaði nemana hvað hann var að fara. "Sennilega ekki" svaraði einn þeirra. "Gott!" svaraði sérfræðingurinn. Hann teygði sig undir borðið og tók upp fötu af sandi. Hann hellti úr henni í krukkuna og sandurinn rann í öll holrýmin sem eftir voru milli malarinnar og stóru steinanna. Enn spurði hann: "Er krukkan full?"

"Nei!" æptu nemendurnir. Aftur svaraði hann. 
"Gott!" Hann tók því næst könnu af vatni og hellti í krukkuna þar til hún var alveg full. Svo leit hann á bekkinn og spurði. "Hver er tilgangur þessarar sýnikennslu?" Einn uppveðraður nemandinn rétti upp höndina og sagði: "Tilgangurinn er að sýna að það er sama hversu full dagskráin hjá þér er. Ef þú virkilega reynir geturðu alltaf bætt fleiri hlutum við!"

"Nei" svaraði sérfræðingurinn. "Það er ekki það sem þetta snýst um. Sannleikurinn sem þetta dæmi kennir okkur er þessi: Ef þú setur ekki stóru steinana í fyrst, þá kemurðu þeim aldrei fyrir." Hverjir eru stóru steinarnir í þínu lífi? Börnin þín? Fólkið sem þú elskar? Menntun þín?

Draumarnir þínir? Verðugt málefni? Að kenna eða leiðbeina öðrum? Gera það sem þér þykir skemmtilegt? Tími fyrir sjálfa(n) þig? Heilsa þín? Maki þinn?  
Mundu að setja STÓRU STEINANA í fyrst eða þú munt aldrei koma þeim fyrir. Ef þú veltir þér upp úr litlu hlutunum (mölin, sandurinn, vatnið) fyllirðu líf þitt með litlum hlutum sem skipta í raun ekki máli og þú munt aldrei hafa þann tíma sem þú þarft til að eyða í stóru mikilvægu hlutina í þínu lífi (stóru steinarnir). 

Sem sagt, í kvöld eða í fyrramálið þegar þú hugsar um þessa stuttu sögu, spurðu sjálfa(n) þig þá þessarar spurningar: "Hverjir eru stóru steinarnir í mínu lífi?" Settu þá svo fyrst í krukkuna!


hamingjan

Hamingjan

 

Lífið er alltaf fullt af vandamálum. Það er best að horfast í augu við það og ákveða að vera hamingusamur þrátt fyrir það. Alfred D. Souza sagði eitt sinn:  “Lengi vel fannst mér alltaf sem lífið væri rétt að byrja – þetta eina sanna líf. En það var alltaf eitthvað sem stóð í vegi fyrir því, eitthvað sem þurfti að yfirstíga fyrst, einhver ókláruð mál, tími sem þurfti að eyða í eitthvað, ógreiddar skuldir.  Síðan myndi lífið byrja. 

Dag einn rann það upp fyrir mér að allar þessar hindranir voru lífið sjálft.”  Þetta viðhorf hjálpar okkur að skilja að það er engin leið að hamingjunni.  Hamingjan er leiðin.  Njótum hverrar stundar sem við eigum.  Njótum hennar enn frekar þegar okkur tekst að deila henni með öðrum sem er nógu sérstakur til að verja tíma okkar með … og munum, að tíminn bíður ekki eftir neinum.

Áttu að bíða þar til þú hefur lokið námi eða þar til þú hefur hafið nám, þar til þú hefur misst fimm kíló eða bætt á þig fimm kílóum, þar til þú hefur eignast börn eða þar til þau flytjast að heiman, þar til þú byrjar að vinna eða þar til þú sest í helgan stein, þar til þú giftist eða þar til þú skilur, þar til á föstudagskvöld, þar til á sunnudagsmorgun, þar til þú færð þér nýjan bíl eða hús, þar til þú hefur borgað upp bílinn eða húsið, þar til í vor, þar til í sumar, þar til í haust, þar til í vetur, þar til lagið þitt byrjar, þar til þú ert búin að fá þér í glas, þar til runnið er af þér, þar til þú deyrð, þar til þú fæðist á ný …

til þess eins að ákveða að það er enginn tími betri til að  
vera hamingjusamur en einmitt núna!


Sjálfshjálp

7  aðferðir í  átt  að  betra  sjálfstrausti.

1) Hugsaðu aftur til þess tíma er þú varst að læra og uppgötva í fyrsta skipti.

Oft vekur það óöryggi og streitu að læra eitthvað nýtt eða standa frammi fyrir breytingum. Næst þegar þú þarft að gera eitthvað sem þú hefur ekki gert áður mundu þá að þú ert að læra og því mjög eðlilegt að þú sért óörugg.


2) Gerðu það sem þú hefur lengi beðið með að gera.

Eins og td. skrifa til vina og ættingja, hringja til vina þinna, þrífa, vinna í garðinum, gera við bílinn, fara yfir reikninga, elda góðan mat. Þér mun líða betur vegna þess að þú hefur lokið verkum sem hafa lengi setið á hakanum.

 

3) Gerðu það sem að þú ert góð í.

Dæmi? Hvað um t.d. að synda, hlaupa, dansa, elda, vinna í garðinum, mála, föndra, skrifa? Veldu það sem þú ert góð í og best er ef það er eitthvað sem þú getur einbeitt þér að og gleymt þér yfir. Það færir þér vellíðan að fást við það sem þú ert góð í. Og ef þetta gengur vel skaltu taka frá eitt kvöld í viku fyrir þetta viðfangsefni.

 

4) Hættu að hugsa um sjálfa þig!

Kannski hljómar þetta undarlega, en lítið sjálfálit er oft tilkomið vegna þess að fólk leiðir hugann of mikið að sjálfu sér. Finndu þér áhugamál sem þú getur einbeitt þér að og heldur athygli þinni óskertri.

 

5) Slappaðu vel af.

Ef þér líður illa og þú trúir ekki á sjálfa þig reyndu þá að hreinsa hugann og slappa vel af. Sumir fara út að hlaupa eða í leikfimi til að slappa af, aðrir taka sér eitthvað fyrir hendur sem kúplar þeim út úr tilverunni, t.d. jóga. Sumir slappa af yfir sjónvarpinu eða fótboltaleik. Veldu þá aðferð sem hentar þér best. Eftir góða afslöppun dregur þú úr tilfinningasemi og þú manst betur það góða sem hefur gerst í lífinu.

 

6) Rifjaðu upp það sem þú hefur afrekað á ævinni.

Þetta getur verið erfitt í fyrstu en eftir svolítinn tíma, þegar þú hefur skrifað lista yfir það sem þér hefur tekist vel upp á ævinni, mun sjálfsálitið aukast. Og ef þú hugsar "en ég hef aldrei afrekað neitt", þá erum við ekki að tala um að þú þurfir að hafa klifið Mount Everest heldur til dæmis það að þú náðir bílprófinu (þó að þú værir stressuð), þú náðir öðrum prófum sem þú hélst að nú næðir ekki, þú hreyfir þig mikið, þú safnar fyrir ferðalagi, ert hjálpsöm, osfrv.


7) Mundu að þú gætir haft rangt fyrir þér!

Ef þú hefur lítið sjálfsálit og þér líður illa yfir því, mundu þá að það hefur áhrif á hvernig þú hugsar, hegðun þína og minningar. Þá kemurðu bara tl með að muna það leiðinlega sem hefur gerst og nýtir ekki þau tækifæri sem lífið býður upp á. Fólk sem þú umgengst hefur vafalítið ekki sömu skoðun á þér og þú sjálf. Lestu aftur ráð númer 5 og lærðu að slappa af.

 

Samantekt:

Eftir að þú hefur prófað eina eða fleiri af ofangreindum aðferðum reyndu þá að gera hana/þær hluta af lífi þínu. Gott sjálfsálit er ekki bara kostur, það er nauðsynlegt því það mótar hugsanir þínar á hverjum degi.



« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband