reynslusaga fíkils
4.10.2010 | 20:02
Þegar ég loks fór að gera eitthvað í mínum málum átti ég að baki 25 ára hjónaband og eftir það 6 ára sambúð sem ég var í en var líka um það bil að ljúka.
En af hverju??
Ég var fínn strákur (að eigin áliti) en þarna var bara svo komið að ég var komin niður í mjög djúpan dimman dal örvæntingar, kvíða og ótta sem eg sá enga leið út úr. Hvað átti eg að gera! Þá var það einmitt sambýliskona mín sem benti mér á hópastarf sem kallaði sig Tólf spora hópar.
Viðkunnaleg rödd í símanum sem ég upplifði sem englarödd tjáði mér að hún skyldi sjá hvað hún gætti gert fyrir mig því það væri búið að loka hópunum og starfið byrjað.
Hvað var nú til ráða? Og aftur tóku kvíðinn og óttinn völdin. En vegna þess að Guð var komin inn í málið samþykkti hópurinn sem þá var byrjaður að starfa að taka mig inn í hópinn.
Þvílík blessun að komast að raun um að til var fólk sem var svipað ástatt fyrir og mér sjálfum. Að heyra að öðrum leið eins og mér - þvílíkur léttir - en nú var mikil vinna framundan, vinna við að rannsaka og skoða sjálfan sig.
Það var alveg með ólíkindum hvað maður áttaði sig á mörgu sem miður hafði farið bæði í uppvexti sem barn og á unglingsárunum og svo á fullorðinsárum. Hvernig ég reyndi að hafa stjórn á öllu í kringum mig, ef það tókst ekki þá fór ég bara í fýlu og reyndi þannig að hafa áhrif á umhverfið! Og það sem verra var, fjölskylduna mína og ef það tókst ekki með fýlunni þá var nú alltaf sá möguleiki eftir að einangra sig frá öllum í fýlu þannig að allir í kringum mann voru á tánum.
Að uppgötva að ég hafði reynt að stjórna umhverfi mínu með andlegu ofbeldi - því að það er það sem það heitir - var mjög sársaukafullt og mjög erfitt að horfa í spegil í langan tíma.
Í síðara skiptið var þetta allt vegna þess að ég gaf mér ekki tíma til að athuga hvað það var sem hafði farið úrskeiðis í hjónabandinu mínu heldur æddi í næsta samband af því ég átti svo óskaplega bágt og gat ekki verið einn (það heitir sjálfsvorkunn).
Betra hefði verið að gefa sér meiri tíma eftir skilnaðinn því þá væri ég ef til vill enn með þessari yndislegu konu sem vísaði mér á Tólf spora hópinn og stuðlaði þannig að bata mínum vegna þess að henni þótti vænt um mig - henni var ekki sama.
Núna eftir fjögur ár í Tólf spora starfinu hef ég öðlast sjáftraustið mitt aftur, ég er sáttur við sjálfan mig, ég get staðið á eigin fótum, er bjartsýnn aftur og elska lífið á ný og það er svo ekki lítið - en nákvæmlega þetta hef ég öðlast við að vera með Guði og góðum vinum í Tólf spora starfinu.
Flokkur: Reynslusögur | Breytt s.d. kl. 20:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.