Áfengi og árangur í íþróttum

Áfengi og árangur í íþróttum :

Fyrir nokkrum árum stóð norska íþróttasambandið fyrir könnun á áhrifum áfengis á árangur í íþróttum.  70 handknattleiksmenn og knattspyrnumenn borðuðu léttan málsverð og drukku með matnum bjór og aðra áfenga drykki.  Engum þeirra fannst hann þó vera undir áhrifum áfengis eftir máltíðina.  Síðan voru þeir látnir skjóta á mark hjá góðum markvörðum, sem höfðu ekki drukkið áfenga drykki, og framkvæma vítaskot, knattrak og aðrar æfingar. 

Áfengisneyslan reyndist valda því að árangur þeirra, bæði stuttu eftir máltíðina og daginn eftir, varð talsvert lakari en þegar þeir höfðu ekki drukkið áfengi.  Þó íþróttamennirnir hafi ekki drukkið mikið áfengi kom það verulega niður á nákvæmni,  snerpu, krafti og hraða, jafnvel daginn eftir.  Til að tryggja að leikmennirnir legðu sig allan fram voru peningaverðlaun í boði fyrir besta árangurinn.  Þessar niðurstöður sýna hvaða áhrif  áfengisneysla getur haft á árangur íþróttamanna. 

Áfengi og kraftur!Einbeiting og hæfileiki til að beita mörgum vöðvum í samhæfðu átaki skipta miklu máli í íþróttagreinum sem krefjast vöðvastyrks og sprengikrafts.  Stjórnun þessara þátta fer að miklu leyti fram í heilanum og því eðlilegt að hún raskist við deyfandi áhrif áfengisins.  Styrkur og sprengikraftur verður þá minni en undir eðlilegum kringumstæðum.

Áfengi og samhæfing!

Sem fyrr er sagt riðlar alkóhól samstarfi og samhæfingu heila, vöðva og taugakerfis.  Nákvæmni í hreyfingum hrakar og jafnvægi versnar.  Allt bitnar þetta á tækni, hraða, þoli og samhæfingu íþróttamannsins.  Margir kannast við að þeir sem grunaðir eru um að vera undir áhrifum áfengis eru látnir ganga eftir beinni línu.  Það er vegna að þá kemur í ljós hvort samhæfing hreyfinga og jafnvægi er með eðlilegum hætti.

Áfengisneysla og æfingar!

Afleiðingar áfengisdrykkju endast miklu lengur í líkamanum en víman.  Líkaminn losar sig við alkóhólið jafnt og þétt, en því er ekki hægt að flýta með því að drekka kaffi, fara í kalda sturtu né gera líkamsæfingar, þó það kunni að hressast fyrst í stað.  Talið er að það taki lifrina 2-3 daga að ná aftur eðlilegri starfsemi eftir áfengisdrykkju.  Meðan líkaminn er að losa sig við alkóhólið á hann erfitt með að framleiða þá orku sem hann þarfnast við líkamsþjálfun.  Æfingar við þær aðstæður geta brotið meira niður en þær byggja upp og eru því gagnlitlar. 

Sá tími sem íþróttamaður er undir áhrifum áfengis og næstu dagar á eftir eru honum gangslausir til æfinga.  Enginn íþróttamaður sem stefnir í að ná langt og ná  árangri hefur því efni á að eyða mörgum dögum í að jafna sig eftir áfengisneyslu.  Með áfengisneyslu eftir æfingar lengist verulega sá tími sem líkaminn þarf til að jafna sig eftir áreynsluna.  Þannig er sóað til einskis dýrmætum tíma sem annars gæti nýst til að undirbúa líkamann fyrir næstu æfingu.

Áfengisneysla og meiðslahætta!

Áfengisneysla í tengslum við íþróttaiðkun hefur aukna meiðslahættu í för með sér.  Þó íþróttamaður drekki aðeins einn bjór, verður hann þar með líklegri en aðrir til að fá vöðvakrampa vegna vökvatapsins sem áfengisneyslan hefur í för með sér.  Verði íþróttamaður fyrir meiðslum finnur hann einnig síður til þeirra ef hann er undir áhrifum áfengis, því alkóhólið deyfir sársaukaskynið.  Þetta getur orðið til þess að hann bregðist ekki nógu skjótt við meiðslunum og þau verði því verri en ella.  Ennfremur seinkar það bata verulega ef áfengis er neytt meðan líkaminn er að ná sér eftir meiðsli.  

Lífsýn forvarnir og fræðsla


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband