Börn alkóhólista

Barnið í fjölskyldu alkóhólista!

Í bók sinni "Börn alkóhólista - hin gleymdu börn", sem kom út á íslensku
árið 1979, segir R. Margaret Cork frá könnun sem hún gerði á 115 10-16 ára börnum alkóhólista. Hún lýsir þar m.a. aðstæðum og líðan barnanna
og byggir á viðtölum við börnin. Hér á eftir er stuðst við frásögn hennar.

"Ég fer ekkert með vinum mínum og foreldrum þeirra af því að ég get aldrei farið neitt með þá í staðinn"
Flest barnanna í könnun Cork sögðust eiga leikfélaga og kunningja en aðeins fá sögðust eiga svo góða vini að þeim fyndist þeir geta sagt þeim allt af létta um fjölskylduhagi sína. Flest börn frá venjulegum fjölskyldum eiga a.m.k. einn vin svo náinn að þeir geta sagt honum hvað sem er, m.a. frá vanköntum foreldra sinna. Börn alkóhólista reyna aftur á móti að leyna framferði foreldra sinna fyrir öllum öðrum börnum. Þess vegna er vinátta þeirra ekki eins einlæg og hún hefði annars getað verið og mörg bamanna sögðu að þeim liði illa með félögum sínum af þeirri ástæðu. Mörg þeirra eru hreinlega vinalaus alla ævi.

Börnin koma yfirleitt ekki með félaga sína heim af ótta við að þeir verði vitni að drykkju foreldris síns eða rifrildi. Sum sögðu frá því að vinir þeirra hefðu orðið fyrir móðgunum heima hjá sér. Mörgum barnanna fannst þau undirstrika sérstöðu sína með því að vera öllum stundum inni á heimilum vina sinna og kusu því frekar að leika sér á götunni.

Mörg barnanna höfðu engan tíma til að leika sér eða vera með félögum þar sem þau þurftu að sinna heimilisstörfum af einhverju tagi eða fengu einfaldlega ekki að vera með öðrum börnum. Á heimilum þar sem aðeins er eitt foreldri hvílir þetta ennþá þyngra á börnunum.

Af þessu má sjá að á því tímabili ævinnar þegar flest börn eru að mynda og styrkja vináttu við aðra virðast samskipti barnanna í könnun Cork einkennast af öryggisleysi, hræðslu og vantrausti. Einmitt á því skeiði, sem þeim er nauðsynlegast að öðlast viðurkenningu annarra, fóru þau á mis við hana. Þau lærðu að vera á varðbergi gagnvart öðrum og halda aftur af eðlilegri tjáningu og kærleika. Í lífi flestra þessara barna var lítið um félagsskap, sem sérfræðingar álíta svo nauðsynlegan fyrir heilbrigðan þroska og grundvöll fyrir farsælli vináttu síðar á lífsleiðinni.

"Allir heima eru alltaf reiðir"

Samskipti systkina einkenndust af spennu og töluverðri samkeppni, ekki samkeppni eins og hjá venjulegum fjölskyldum, heldur fremur baráttu. Þessu fylgdu rifrildi meira en gengur og gerist á milli systkina. Eldri systkini voru oft í "foreldrahlutverki" gagnvart þeim yngri sem þoldu það illa. Hjá eldri börnunum var jafnvel um að ræða þörf fyrir að ráða yfir þeim yngri sem e.t.v. stafar af árásarhneigð eða mótlæti.

Eldri börnin voru viðkvæmari en eðlilegt mátti teljast fyrir því hvort foreldrarnir tækju þau yngri fram yfir þau sjálf og töluðu um að foreldrunum þætti aðeins vænt um yngri börnin.

Barn eða börn sem eru "í miðið", þ.e. eiga bæði eldri og yngri systkini, eru oft einangruð en þau börn í fjölskyldum alkóhólista líða ennþá meira fyrir það. Mörg þeirra sögðust alltaf vera nauðbeygð til að halda með öðru hvoru foreldrinu og fannst þetta stuðla að því að systkinin fjarlægðust hvort annað.

Af þessu má sjá að ágreiningur og ósamheldni milli systkina er óeðlilega mikill. Þau sýna hvort öðru sjaldan hlýju og ástúð. Þess í stað gætti ófriðar og gremju sem var enn tilfinnanlegri fyrir þær sakir að börnin áttu ekki vini og neyddust því til að umgangast hvert annað þrátt fyrir að þau virtust ekki hafa af því nokkra ánægju.

"Allan skóladaginn hef ég áhyggjur af því hvernig ástandið muni vera þegar ég kem heim"
Mörgum yngri börnunum þótti gaman í skólanum og stóðu sig tiltölulega vel. Þetta virtist ekki fyrst og fremst vera vegna áhuga á náminu heldur frekar vegna þess að í skólanum var ró og næði. Ekki voru þó öll börnin sama sinnis. Sum sögðust eiga erfitt með að einbeita sér við námið. Einkum voru það "miðbörnin" sem áttu í erfiðleikum og varð það til að auka enn á vanmátt þeirra. Kennarar eiga erfitt með að nálgast börnin og stundum er eins og þau heyri ekki hvað við þau er sagt. Þá dregur það úr möguleikum kennara til að koma börnunum til hjálpar að fæstir þeirra þekkja helstu einkenni í fari og hegðun barna alkóhólista.

Metnaður eldri barnanna gagnvart skóla og námi var yfirleitt lítill. Sum töldu sig alls ekki geta lært vegna aðstæðna heima fyrir og önnur misstu áhuga á skólanum af því að þeim fannst þörf á að fara að vinna til að hjálpa til fjárhagslega. Skólinn var því aðeins eitthvað sem þau urðu að sætta sig við.

"Allir krakkarnir í skólanum tala um hvað það er gaman að vera með fjölskyldu sinni. Þá finnst mér ég vera útundan"
Bömin báru heimili sín saman við heimili annarra barna þar sem foreldramir léku við bömin eða sinntu þeim. Flest þeirra sögðu að heima væri ekkert tækifæri til að hafa gaman af neinu. "Ef við förum í einhvern leik við pabba verður hann alltaf að vinna annars verður hann vondur", sagði eitt barnið. Af þessu er ljóst að börnin höfðu fá tækifæri til glens og gamans, sem er þeim svo nauðsynlegt.

"Mér líður ver af því að ég á engin systkini"
Tengsl barna við foreldra kunna að hafa þýðingarmeiri áhrif á þroska þeirra heldur en tengsl við systkini, en því er samt haldið fram að það hjálpi börnum að semja sig að öðru fólki og þroska persónuleikann þegar önnur börn eru innan fjölskyldunnar.

Einbirni í drykkjusjúkri fjölskyldu finnur sérstaklega mikið til einangrunar. Einsamalt verður það að horfa upp á foreldra sína drekka og rífast. Það hefur engan innan fjölskyldunnar, sem það getur rætt um tilfinningar sínar við, né neinn sem það getur látið reiði sína bitna á. Börnin töluðu einnig um að þau væru alltaf á milli foreldranna og vissu ekki með hvoru þau ættu að standa. Einkabarn er venjulega eigingjarnara en barn úr systkinahópi og er líklegt að þessi skapgerðareinkenni aukist enn á heimilum drykkjusjúkra.

"Ég get tekið því þegar annað þeirra drekkur en þegar þau byrja bæði þá verð ég hræddur"
Börn foreldra, sem báðir eru drykkjusjúkir, eiga við sérstök vandamál að stríða. Foreldrarnir skiptast á svo að aldrei er hlé. Mörgum börnum, sem búa við þetta, finnst þau vera hlaðin ábyrgð. Þau geta yfir höfuð engu treyst því að sjaldan kemur fyrir að báðir foreldrar séu allsgáðir.

"Það gengur betur þegar pabbi er farinn í burtu en mamma virðist einmana. Mér þætti gaman að vita hvernig pabba gengur einum"
Flestum börnunum, sem áttu foreldra sem bjuggu ekki saman, fannst ganga heldur betur þegar hinn drykkjusjúki var farinn að heiman. Foreldrið, sem eftir var, róaðist við það og sinnti börnunum betur.

Mörg barnanna óttuðust stöðugt að til skilnaðar kæmi hjá foreldrunum og báru því m.a. við að þau vissu ekki hjá voru þeirra þau ættu að vera og sögðu t.d. að einhver yrði að vera hjá því foreldrinum sem færi.

"Hvernig getur maður orðið fullorðinn þegar þau koma alltaf fram við mann eins og smábarn"
Venjulegu barni eru unglingsárin skeið mikilla líkamlegra, andlegra og tilfinningalegra breytinga. Á því tímabili eflist barátta barnsins til að verða sjálfstæð persóna og liður í því er að komast undan áhrifum foreldra sinna. Það fer að uppgötva ýmsa eiginleika sína og öðlast nýtt sjálfsmat. Það fer að taka ýmsar afdrifaríkar ákvarðanir sjálft og reynir að ná sem mestu valdi á umhverfi sínu. Þessu fylgja að sjálfsögðu ýmis vandamál og vonbrigði en smám saman lærir það að standast mótlætið og getur sætt sig við að þurfa að bíða eftir því að fá umbun gerða sinna. Það kynnist heiminum í víðara samhengi en fyrr og tekur á sig nýjar skyldur. Þá fara ýmsar væntingar til lífsins og framtíðarinnar að mótast og metnaður fer að þróast.

Á unglingsárunum erum við ákaflega móttækileg fyrir nýjum hugmyndum og verðum gagnrýnin á þær gömlu. Þessu kynnast foreldrar vel. Unglingurinn lærir nýjar leiðir til að verja frístundum sínum. Hann fær áhuga á gagnstæða kyninu og fer að treysta meira á félagana en foreldrana. Hann tekst á við ný líffræðileg, tilfinningaleg og félagsleg viðfangsefni, leggur nýtt mat á hlutina og myndar sér lífsskoðun.

Unglingsárunum fylgja margs konar flækjur, kvíði og öryggisleysi. Skapferli unglings er mjög breytilegt. Stundum vill hann helst vera einn með dagdrauma sína um framtíðina á sama tíma og hann hefur þörf fyrir að tilheyra bæði fjölskyldu sinni og hópi jafnaldra. Hann getur reiðst ef fundið er að við hann og orðið hræddur ef honum er hafnað. Hann getur gagnrýnt opinskátt sitt eigið heimili og foreldra og borið saman við aðra foreldra og heimili á kostnað síns eigin. Ef samskipti hans við foreldrana hafa verið góð á fyrri árum þá bera flestir unglingar þó traust til foreldra sinna og vitneskjan um að þeim þyki vænt um þá hjálpar unglingunum þessi erfiðu ár. Þegar allt kemur til alls þykir unglingum vænt um foreldra sína og myndu ekki vilja skipta á fjölskyldu sinni og nokkurri annarri.

Það er því ljóst að foreldrar eiga mikinn þátt í því hvernig börnum tekst að komast í gegnum unglingsárin. Foreldrar verða alltaf fyrirmynd hvort sem þeir kæra sig um eða ekki. Meðan barnið er að þroskast og verða sjálfstæðara verður það að finna að það fái fullan stuðning foreldra sinna.

Þessar aðstæður eru fjarri börnum alkóhólista. Þeim finnst oft að þau séu byrði á foreldrunum og séu þeim einskis virði nema til að ráðskast með. Í eftirfarandi orðum barnasálfræðingsins A.T. Jersild felst mikil viðvörun: fjöldi barna og unglinga, sem ekki njóta umhyggju og eru vanrækt af foreldrum sínum, eiga mjög erfitt nema þeir finni einhvern sem kemur í stað foreldra eða njóti umhyggju og kærleiks utan heimilisins. Flest börn sem verða fyrir þessu geta ekki á eðlilegan hátt komist í gegnum unglingsárin til fullorðinsára. Iðulega festast þau svo rækilega í ákveðinni hegðun, sem tilheyrir síðbernskuskeiði, að þau vaxa aldrei upp úr því.


Að viðbættum erfiðleikum heima fyrir verða börn alkóhólista oft fyrir mótlæti í skólanum. Mörgum finnst þau ekki vera gædd námshæfileikum. Fjölskyldur drykkjusjúkra flytja oft búferlum og verða unglingarnir því oft að aðlagast nýjum skóla, nýjum bekkjarsystkinum og nýjum nágrönnum á þeim tíma sem þau þurfa á festu að halda.

Börn alkóhólista hafa væntingar og dreymir um framtíðina eins og önnur börn. Þau eru hins vegar vön því að óskum og draumum sé skotið á frest og læra smám saman að draumar rætast sjaldnast. Því miður hafa þau lítið tækifæri til að láta drauma sína rætast án þess að fá hjálp til þess. Flest börnin í könnun Cork höfðu lítinn metnað og lifðu frá degi til dags. Þau virtust full vonleysis um framtíðina. Sagt er að vonin sé dýrmætasti þáttur í lífi allra manna en fyrir unglinga er vonin sérstaklega mikilvæg.

Fá barnanna voru meðlimir í félögum eða samtökum sem bjóða upp á viðfangsefni sem víkka sjóndeildarhring unglinga. Mjög fá fengust við skapandi viðfangsefni, eins og leiklist, listmálun eða hljóðfæraleik og tóku lítinn þátt í íþróttum. Þau höfðu fengið sig fullsödd af ábyrgð og vildu komast sem mest hjá henni.

Það er algengt að þrjóska og fjandskapur komi fram hjá unglingum gagnvart foreldrum sínum en hjá börnum alkóhólista kemur þetta fram miklu fyrr en hjá öðrum bömum. Flest þeirra hafa neikvæðar tilfinningar gagnvart foreldrum sínum þegar þau fara að hafa vit á drykkjuvandamálum heimilisins.

"Barn getur verið líkamlega of lítið til að skerast í leikinn en þó nógu þroskað til að finna vanmátt sinn"
Það er sérstaklega erfitt fyrir ungling að horfa upp á að móður hans sé hótað eða hún beitt líkamlegu ofbeldi. Barn getur verið líkamlega of lítið til að skerast í leikinn en þó nógu þroskað til að finna vanmátt sinn. Það veit ekki hverjar skyldur þess eru og á í innri baráttu. Líklegt er að barnið verði biturt, óákveðið og fullt haturs á foreldrum sínum eða allri fjölskyldunni.

Af því sem sagt hefur verið hér á undan má gera ráð fyrir að börn alkóhólista gangi út í lífið óöruggari og hafi minna traust á sjálfum sér og öðrum en börn frá venjulegum heimilum. Viðhorf þeirra til lífsins er afskræmt sökum áhrifa frá foreldrunum. Sem dæmi eru viðbrögð gagnvart yfirvöldum; ef skortir á traust og ef foreldrar beita valdi á óviturlegan hátt verður barnið andsnúið yfirráðum hvers konar sem endist því til fullorðinsáranna. Gremja gagnvart yfirvaldi eða vanhæfni til að sætta sig við það er samkvæmt rannsóknum eitt af aðalskapgerðareinkennum fullorðins drykkjusjúklings.

Börnin í könnun Cork höfðu auðsjáanlega svo mörg vandamál við að stríða að þau höfðu lítið þol eftir til að skilja eða takast á við tilfinningalega erfiðleika sína og það var enginn í þeirra umhverfi til að hjálpa þeim. Aðeins fá þeirra töluðu um náið samband við fullorðið fólk utan fjölskyldu þeirra eða að þau hefðu nokkurn til að tala við í trúnaði. Flest virtust halda að fullorðið fólk mundi ekki hafa skilning á vandamálum þeirra. Af því að þau fundu engan grundvöll fyrir því að treysta foreldrum sínum héldu þau að fullorðnu fólki væri yfirleitt ekki treystandi. Í öllu falli voru þau treg til að tala um erfiðleika sína við fólk utan fjölskyldunnar og venjulega fengu þau skammir fyrir það hjá því foreldri sem ekki var drykkjusjúkt.

Þessi einangrun er sérstaklega mikilvæg þar sem við vitum hve nauðsynlegt er fyrir barn frá fjölskyldu, sem er sneydd fjölskylduböndum, að hafa sterk jákvæð tengsl og samband við annað fullorðið fólk svo sem skilningsríkan kennara eða umhyggjusaman ættingja, sem gæti látið í té eitthvað af þeirri hlýju sem það þarfnast. Slík reynsla er mikilvæg fyrir barnið ef hjálpa á því við að ráða fram úr vandamálum þess. Án hennar er líklegt að barnið byrgi þau inni eða láti þau í Ijós í andfélagslegu atferli. Það er einnig líklegt að það ali með sér haturstilfinningu gagnvart foreldrum og öllum öðrum í umhverfi sínu. Það getur jafnvel verið sannfært um að allur heimurinn sé fjandsamlegur og ógnvekjandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband