Frásögn ofbeldismanns:

Reynslusaga: 

Hér fylgir saga Guðmundar sem birtist í Daglegu lífi í Morgunblaðinu þann 9. ágúst 1996.

Guðmundur er ofbeldismaður sem leitaði sér aðstoðar.

Eftir 23ja ára kynni og 19 ára hjónaband keyrði um þverbak fyrir tveimur og hálfu ári. Rifrildi hjónanna, sem venjulega endaði með öskrum, ógnunum, pústrum, löðrungum og hrindingum af hálfu eiginmannsins, varð heiftarlegra en nokkru sinni fyrr. Konan og börnin þrjú flúðu í Kvennaathvarfið. Eiginmaðurinn, sem réttlætti ætíð barsmíðarnar með því að hann missti bara stjón á sér, iðraðist…að vísu eins og jafnan áður þegar honum varð laus höndin. “Í þetta skipti rann þó upp fyrir mér að sjálfur yrði ég að leita mér hjálpar. Þrátt fyrir allt sem á undan var gengið var fjölskyldan mér afar kær.”


Hér verður hann kallaður Guðmundur, en hann hefur einn fárra íslenskra karla leitað sér sálfræðimeðferðar til að losna úr viðjum þess vana að beita ofbeldi. Hann er enn í meðferð hjá Gabríelu Sigurðardóttur, sálfræðingi, og segist ekki hafa beitt eiginkonu sína eða aðra ofbeldi frá því meðferðin hófst. Guðmundur er fús til að segja Daglegu lífi undan og ofan af lífshlaupi sínu, uppvaxtarárunum, hjónabandinu og meðferðinni.

“Ég er næstelstur fjögurra systkina og ólst upp, ásamt þeim, hjá báðum foreldrum þar til þeir skildu þegar ég var tíu ára. Við bjuggum fyrir norðan, faðir minn var sjómaður og oft í burtu. Þótt hann væri mikill drykkjumaður, var ég pabbastrákur og þoldi hvorki hvernig mamma talaði við hann né um hann við okkur systkinin. Hún hataði hann, kallaði hann fyllibyttu og ræfil, en hann lagði mér vitanlega aldrei illt orð til hennar. Ég skildi þetta ekki því mér þótti pabbi góður og hlakkaði alltaf til þegar hann kom í land. Einkum man ég að mér sárnaði þegar mamma sagði að ég væri sami auminginn og pabbi.”

Mamma lamdi mig eins og harðfisk:

Þótt á ýmsu hafi gengið í samskiptum foreldranna man Guðmundur ekki eftir að faðir hans hafi beitt hann ofbeldi. Hins vegar segir hann að móðir sín hafi oft lúbarið sig eins og harðfisk ef henni mislíkaði. ”Ég man fyrst eftir að hún lamdi mig þegar ég var sex ára. Barsmíðunum linnti ekki fyrr en ég var svona tólf til þrettán ára og var farinn að geta tekið á móti. Mér fannst mamma afskaplega vond kona. Núna veit ég að hún hefur alla tíð átt við geðræna vanda að stríða líkt og svo margir í fjölskyldunni minni. Innst inni er hún góð manneskja og vitaskuld fannst mér hún stundum góð í gamla daga, þótt slæmu minningarnar séu fyrirferðarmeiri.”

Af ýmsum frásögnum og minningabrotum móðursystkina sinna segir Guðmundur að smám saman hafi sér orðið ljóst að móðir hans hafi sætt ofbeldi af hendi föður síns í æsku. “Við vorum bláfátæk, en mamma var hörkudugleg, vann í verksmiðju og þáði aldrei neitt af neinum. Hún var og er afar bitur kona. Ég hef lítið samband við hana núna, en finn ekki lengur fyrir reiði í hennar garð.
Ofbeldið á heimilinu einskorðaðist þó ekki við að móðirin gengi í skrokk á elsta syninum. Elsti sonurinn, þ.e. Guðmundur, lamdi systkini sín óspart. Hann segir að aldrei hafi hvarflað að sér að hann væri að gera eitthvað rangt. Með þessu móti gat ég stjórnað þeim, þau voru hrædd við mig og hlýddu.”

Fannst ég aldrei geta lamið nóg:

Þrátt fyrir ógnina, sem yngri systur Guðmundar stóð af bróður sínum, leitaði hún eitt sinn liðsinnis hans eftir að strákur í skólanum hafði ítrekað veist að henni með látum. “Ég sat fyrir strák og greip hann glóðvolgan. Ég man að ég lamdi og lamdi og kýldi og kýldi. Heiftin var þvílík að mér fannst ég aldrei geta lamið hann nóg. Ég gat ekki hætt. Mér er atvikið í fersku minni, því þegar ég beitti konuna mína ofbeldi síðast greip mig nákvæmlega sama tilfinning.”

Guðmundur segir að samband þeirra systkina hafi byggst á ást og hatri í senn. “Ég var uppreisnarseggurinn, kjaftfor, lenti oft í áflogum, slunginn að finna upp á orðum til að særa aðra og mér var oftast refsað. Mamma batt miklar vonir og væntingar við elstu systur mína, sem átti að verða allt sem mamma varð ekki. Yngri systir mín var, eins og stundum er sagt, týnda barnið, sem synti í gegnum lífið, sagði fátt og virtist kæra sig kollótta um ástandið á heimilinu. Litli bróðir minn var hins vegar dálætið og “krúttið” í fjölskyldunni.” Að sögn Guðmundar hefur systkinum hans ekki gengið margt í haginn í lífinu. Hann segir samband þeirra innbyrðis ekki náið, þau séu tilfinningalega bæld og erfitt að komast að þeim.

Fimmtán ára fluttist Guðmundur suður og leigði til að byrja með hjá föður sínum, sem með drykkjuskap var á góðri leið með að leggja líf sitt í rúst. Heimilisaðstæður voru fjarri því að vera til fyrirmyndar; drykkjufélagar föður hans tíðir gestir og oft upphófst slagsmál og læti. “Ég þurfti oft að skakka leikinn, en verst þótti mér þegar ég neyddist til að svipta föður minn sjálfræði. Hann lést úr dæmigerðum áfengissjúkdómi aðeins 49 ára, einn og yfirgefinn, í fátæklegri herbergiskytru. Hann náði aldrei tökum á áfengissýkinni, þótt hann hefði oft farið á Bláa bandið og þreifað fyrir sér innan AA-samtakanna. Hann var “lúser”.

Guðmundur segist hafa orðið mjög undrandi þegar hann kom fyrst til Reykjavíkur og sá allar “mellurnar”. “Ég hafði ýmsar ranghugmyndir frá móður minni. Hún sagði mér að allar konur, sem væru farðaðar, með lakkaðar neglur og þess háttar, væru mellur. Ég trúði henni en þorði ekki að spyrja neinn. Ég held að þetta sé lýsandi dæmi um biturð mömmu út í allt og alla.”

Hröð sigling í brennivínið:

Til að byrja með vegnaði Guðmundi bærilega í höfuðborginni. Hann fór á sjóinn, síðan í sveit, lærði prentiðn, var sölumaður í þrjú ár og lausamaður í blaðamennsku í nokkur ár. Þegar hann kynntist eiginkonu sinni segist hann hafa skemmt sér mikið og verið á hraðri siglingu í brennivínið. “Áfengið var mín lausn á ótta og kvíða, lélegu sjálfsmati og feimni. Ég vissi að ég var ágætum gáfum gæddur, gæti lært og gert ýmislegt betur en ég gerði. Ég lærði bara aldrei neitt og gerði aldrei neitt af viti. Eftir að við giftum okkur, bæði rúmlega tvítug, vildi konan að við hættum að skemmta okkur og lifðum rólegu heimilislífi. Slíkt fannst mér fráleitt. Á þessum árum vann ég mikið, drakk mikið, stofnaði fytrirtæki 1976, sem ég misst vegna óreglu fjórum árum síðar.

Ári eftir að við giftum okkur var ég farinn að beita konuna ofbeldi, en passaði mig alltaf á að ekki sæi á henni. Ég var aðallega í því að taka lauslega muni og grýta þeim út um allt. Þegar elsta dóttir okkar var nokkurra mánaða, rústaði ég íbúðina algjörlega, en eyðilagði þó ekki hluti sem mér voru kærastir eins og hljómflutningstækin og fleira.”

Sjálfsvorkunn:

Þótt eiginkona Guðmundar hafi sætt barsmíðum annað slagið um tæplega tveggja áratuga skeið var framangreindur atburður til þess í annað skipti af tveimur að hún yfirgaf heimili þeirra. “Hún flúði með barnið til móður sinnar, en ég lá heima, vorkenndi sjálfum mér og vældi í henni að koma aftur heim.” Áberandi einkenni þeirra sem beita ofbeldi segir Guðmundur einmitt vera sjálfsvorkunn, t.d. telja þeir sig ekki hafa fengið sömu tækifæri í lífinu og aðrir og fleira þess háttar. Ennfremur hafi þeir tilhneigingu til að gera aðra ábyrga fyrir hegðun sinni. Framangreindri uppákomu segir Guðmundur að hafi loks lyktað með því að konan kom heim og tók íbúðina í gegn.

Árin liðu, Guðmundur jók drykkjuna og áður en hann fór í áfengismeðferð var hann búinn að vera dagdrykkjumaður í 3-4 ár. “Lífið snerist bara um að vinna, drekka og sofa. Ég drakk í vinnunni en sjálfsvirðing mín fólst í að mæta alltaf í vinnuna. Yfirleitt var ég drukkinn þegar ég beitti ofbeldi. Dæmigert ferli var á þá leið að á fyrsta stigi var smá úlfúð milli okkar hjóna, á öðru stigi rifumst við og á þriðja stigi varð uppgjör, sem endaði með barsmíðum.”

Þótt Guðmundur segist ekki geta talað fyrir munn konu sinnar er hann viss um að hún hafi alltaf vitað að rifrildin enduðu með ofbeldi og líklega hafi henni verið farið að finnast sem þá væri málið afgreitt. “ Ég túlkaði viðbrögðin hins vegar þannig að sennilega vildi hún láta berja sig”
Eftir áfengismeðferðina virtist ýmislegt færast í betra horf. Líkamlegt ofbeldi linnti um stundarsakir, en þó kveðst Guðmundur hafa haldið áfram að vera ógnandi í framkomu ef eitthvað í fari eða hegðun eiginkonunnar var honum ekki að skapi.

“Í meðferðinni fékk ég andlega vakningu, mér leið miklu betur og sótti síðan AA fundi reglulega. Þótt ég væri edrú fór smám saman að halla undan fæti og 1987 átti ég við alvarlegt þunglyndi að stríða, sem varði í fimm ár með smáglennum á milli. Þá reyndi ég að gera eitthvað sem gaf peninga, en það dugði ekki til og árið 1992 varð ég gjaldþrota. Ég var hjá geðlækni, sem prófaði hvert þunglyndislyfið af öðru án árangurs. Ekki fór að rofa til fyrr en ég var sendur í raflostsmeðferð á Borgarspítalanum. Á þessum tíma hóf ég aftur að láta hendur skipta þegar upp úr sauð milli okkar hjóna en ekki þó eins og oft áður.”

Áfengi ekki lengur sökudólgurinn:

Guðmundur telur raflostsmeðferðina hafa bjargað lífi sínu. Varðandi ofbeldið segist hann hafa verið kominn út í horn. Konan hafði farið í Alanon og lært sitthvað til að bregðast við aðstæðum og sjálfur hafði hann ekki áfengið sem sökudólg fyrir hegðun sinni. “Þegar allt fór úr böndunum síðast var ég algjörlega örvinglaður. Mér fannst illa komið fyrir mér en hafði litla samúð með konunni. Sektarkenndin var yfirþyrmandi, en samt hugsaði ég bara um sjálfan mig.”

Guðmundur segist alltaf hafa elskað eiginkonu sína, en gagnkvæm virðing hefði vitaskuld ekki ríkt í hjónabandinu. Aðdragandinn að því að konan flúði í Kvennaathvarfið segir hann hafa verið lítilfjörlegan ágreining í fyrstu. “Rifrildið magnaðist í nokkra daga þar til dætur okkar fóru líka að rífast og snerust gegn mér. Þá fannst mér mælirinn fullur, ég henti þeim út og hóf barsmíðar á konunni. Ólýsanleg heift greip mig, ég kýldi hana hvað eftir annað í magann, á höfuðið og þeytti henni og hrinti um íbúðina. Ég hef stundum velt fyrir mér hvað hefði gerst ef eitthvert vopn hefði verið við höndina.”

Eiginkonan og tvö barnanna voru sjö vikur í kvennaathvarfinu. Skilnaður virtist óumflýjanlegur og Guðmundi var ljóst að konunni var fullkomin alvara. Þar sem hann hafði farið í áfengismeðferð datt honum í hug að kanna hvort ekki byðist meðferð fyrir karla, sem ættu við sams konar vanda að stríða og hann. “Ég spurðist víða fyrir, en enginn kannaðist við slíkt úrræði. Til að gera langa sögu stutta þá leiddu fyrirspurnir mínar mig loks á fund Gabríelu, sem samþykkti að taka mig í einstaklingsmeðferð.”

Þaulhugsaður verknaður:

Guðmundur telur meðferðina eitt sitt mesta gæfuspor í lífinu, því Gabríela hafi leitt sér eitt og annað fyrir sjónir, sem honum var framandi. “Eitt hið fyrsta sem hún upplýsti mig um var að ofbeldi mitt væri lærð hegðun en ekki stjórnleysi. Í fyrstu brást ég illa við þegar hún fullyrti að ofbeldi væri þaulhugsaður verknaður. Ég svaraði að bragði að ég hefði oft rifist við konuna mína án þess að berja hana. Gabríela sagði að vitaskuld hefði ég gert það, því ég hefði bara lamið hana þegar ég ætlaði mér það. Þar fór afsökunin um að missa stjórn á sér fyrir bí líkt og áfengið forðum.”

Að sögn Guðmundar var Gabríela ekki ýkja spennt fyrir að taka hann í meðferð. Þegar hún lét undan þrábeiðni hans tók hún skýrt fram að hann yrði bara tilraunadýr. “Fyrstu fjóra mánuðina ræddum við saman í tvo og hálfan tíma einu sinni í viku. Við fórum yfir ferlið og stöðuna sem upp var komin. Smám saman tókst henni að þoka sektarkennd minni til hliðar, brjóta niður varnarmúrana og höfða til skynseminnar.”

Þótt vantrúuð væri lét eiginkonan tilleiðast að gefa manni sínum enn eitt tækifærið og hefja sambúð að nýju. Hún vissi af meðferðinni en var hvorki sátt við hana né tilbúin að taka þátt í henni. “ Við hjónin getum enn ekki rætt um það sem á undan er gengið. Þótt mótsagnarkennt sé þá vorum við föst í einkennilegu mynstri sem fólst í að okkur fór í rauninni ekki að líða vel fyrr en okkur fór að líða illa. Ég held að nokkuð sé til í því sem stundum er sagt að sá sem elst upp í ótta líður illa þegar honum er sýnd ást.”

Ekki hægt að gleyma hegðun sem særir siðferðisvitundina:

Í meðferðinni lærði Guðmundur m.a. að tileinka sér ákveðna hegðun til að vekja ekki ótta. Í stað þess að alhæfa var honum bent á að segja fremur hvað sér fyndist. Einnig fékk hann ýmis ráð til að bregðast við áþekkum aðstæðum og áreiti, sem árum saman leiddu til þess að hann beitti hnúum og hnefum.

“Ég hef þurft að horfast óvæginn í augu við sjálfan mig. Slík sjálfskoðun er afar erfið, en vel þess virði. Þótt ýmsir agnúar séu enn á hjónabandinu er ég vongóður um að tíminn vinni með okkur hjónum. Verst þykir mér að konan mín virðist halda að hægt sé að gleyma því liðna. Ég held að lausnin sé ekki fólgin í afneitun. Þrátt fyrir einlægan vilja gleymir maður aldrei því slæma eða óeðlilega sem gerst hefur í fortíðinni og særir siðferðisvitundina. Mín reynsla er sú að beri maður sig eftir hjálp er alls staðar hjálp að fá hversu ógnvænlegur og illviðráðanlegur sem vandinn virðist,”

segir Guðmundur og bætir við að með viðtalinu vilji hann miðla öðrum af reynslu sinni og hvetja þá, sem standi í svipuðum sporum og hann gerði, til að leita sér aðstoðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband