Sjálfsvíg og önnur sjálfsskaðandi hegðun

Sjálfsvíg og önnur sjálfsskaðandi hegðun

Sjálfsvíg er alvarlegasta afleiðing þunglyndis. Sem betur fer eru sjálfsvíg barna og unglinga undir 16 ára aldri mjög fátíð. Þó eru þau þekkt í okkar litla samfélagi. Í næsta aldurshópi fyrir ofan, 17–24ra ára,  hefur uggvænleg þróun átt sér stað. Sjálfsvígum meðal ungra karlmanna hefur fjölgað meira en í öðrum aldurshópum undanfarna áratugi og náðu hámarki í lok síðustu aldar.

Tíðni
Erfiðara er að leggja tölulegt mat á tíðni sjálfsskaðandi hegðunar, þar á meðal tíðni sjálfsvígstilrauna. Mat á niðurstöðum fjölda rannsókna á sjálfsvígshegðun unglinga sýnir að 9,7% unglinga höfðu gert tilraun til sjálfsvígs. Sjálfsskaðandi hegðun getur spannað bilið frá meinlausum rispum í úlnlið eða töku smáskammts af svefnlyfi yfir í lífshættulega atlögu einstaklings að lífi sínu.

Allt ber þó að skoða sem hugsanlega hættulegt því að stundum gerist líka að það sem átti að vera ákall um hjálp getur fyrir slysni endað í dauða. Eins ber að hafa í huga að líkur á annarri tilraun til sjálfsvígs eru meiri hjá þeim sem áður hafa skaðað sig heldur en hjá öðrum.Dauðahugsanir eru oft fylgifiskur umbrota unglingsáranna. Kannanir hafa sýnt að um þriðjungur unglinga hefur hugsað slíkar hugsanir einhvern tíma. Það er alltaf mikilvægt að taka þær alvarlega, sérstaklega ef viðkomandi sýnir sterk einkenni þunglyndis eða hömluleysis.

Kynjamunur 
Sjálfsskaðandi hegðun og dauðahugsanir eru algengari hjá konum en körlum, ekki síst hjá unglingum. Það ber þó að taka með í reikninginn að ýmiss konar áhættuhegðun er algengari hjá unglingspiltum og má í sumum tilvikum líta á hana sem ákall um athygli, svipað og oft er um sjálfsskaðandi hegðun hjá stúlkum.

Áhættuþættir 
Í stórri rannsókn á ungmennum greindist geðröskun, ein eða fleiri, hjá meirihluti barna og unglinga (um 60%) sem höfðu sýnt af sér sjálfsvígsatferli, þ.e. höfðu hugsað um dauðann, gert sjálfsvígsáætlanir eða beinar tilraunir til sjálfsvígs.Oftast er um að ræða þunglyndi, kvíðaraskanir og/eða vímuefnavanda. Um þriðjungur er með veruleg einkenni um geðröskun og samsvarandi vanlíðan, en ekki nægilega mörg einkenni til að uppfylla skilyrði um greiningu.
Í sömu rannsókn greindust um 4%  með verulega tengslaörðugleika, en án þess að vera með einkenni um geðröskun. Mesta hættan er hjá þeim sem greinast með þunglyndi og kvíða eða með þunglyndi samfara vímuefnafíkn eða hömluleysi.

Kvíði eða vímuefnavandi einn og sér virtist ekki auka líkur á sjálfsvígsatferli í þessari könnun. Unglingum sem eiga í tengslaerfiðleikum er hætt við að einangrast og hafa því ekki þann félagslega stuðning sem bindur þá við lífið. Þegar geðraskanir eða önnur vandamál bætast við er þeim hættara við sjálfsskaðandi hegðun en öðrum. Ýmislegt bendir til að höfnun foreldra á unglingi geti skapað meiri hættu á sjálfsskaðandi hegðun en erfiðleikar í samskiptum við jafnaldra.

Fjöldi rannsókna sýnir að kynferðisleg misnotkun leiðir mjög oft til sjálfsskaðandi hegðunar; svo sem í formi vímuefnafíknar frá unga aldri, persónuleikaraskana sem einkennast meðal annars af hvatvísi og erfiðri reiðistjórnun. Sjálfsmynd er brotin og stöðugleiki í tengslamyndun því minni. Allt hefur þetta þau áhrif að sjálfsvígstilraunir hjá þessum hópi eru mun algengari en hjá þeim sem hafa ekki orðið fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis.Í stórfjölskyldum þar sem sjálfsvígsatferli er þekkt hjá einhverjum ættmennum aukast líkur á slíku atferli hjá öðrum í sömu ætt.

Hegðun eða atferlið eitt og sér getur flust milli kynslóða. Ýmsir persónuleikaþættir, sem tengjast tilhneigingu til sjálfsskaða, eru bundnir í erfðavísa mannsins. Má nefna hvatvísi og árásargirni, sem við vissar aðstæður geta beinst að eigin persónu. Einnig er vitað að geðraskanir almennt eru arfgengar, í mismiklum mæli þó.

Hættumerki

Merki um að sjálfsvígshætta kunni að vera í uppsiglingu hjá unglingum eru:

 

  • Unglingurinn hefur mörg einkenni þunglyndis.
  • Vaxandi kvíði og félagsfælni.
  • Unglingurinn talar um sjálfsvíg, vonleysi eða vanmátt
  • Unglingurinn lendir í tíðum slysum eða óhöppum
  • Unglingurinn talar um dauða og það að deyja.
  • Unglingurinn grætur meira en áður, en er tilfinningalega lokaður að öðru leyti.
  • Unglingurinn er farinn að gefa öðrum eigur sínar.
Auk þess er rétt að gefa gaum að eftirfarandi hegðun:

 

  • Félagslegri einangrun.
  • Vímuefnanotkun, þar með talin áfengisnotkun.
  • Vaxandi hömluleysi í allri hegðun.
  • Vaxandi áhættuhegðun.

Verndandi þættir
Það sem helst hefur verndandi áhrif er allt það sem hjálpar barni og unglingi að þróa með sér trú á sjálfan sig, sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum. Hlýtt samband við foreldra, sérstaklega móður, ræður hér miklu, sömuleiðis jákvæð fyrirmynd í föður, sérstaklega fyrir drengi. Góð tengsl við jafningja og sjálfstraust til að takast á við eigin vandamál skipta hér einnig miklu.Í þessu efni er líka mikilvægt að draga sem mest úr áhættuþáttum þunglyndis , stuðla að styrkjandi uppeldi og seinka því sem lengst fram á unglingsárin að hefja neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Meðferð
Meðferð byggir á sömu meginþáttum og meðferð við þunglyndi, kvíða og vímuefnafíkn. Grundvallaratriði í meðferð unglinga sem hafa verið í sjálfsvígshættu er að fylgja þeim þétt eftir í fyrstu með samtölum og öðrum stuðningi. Hætta á tilraun til sjálfsvígs getur verið lengi til staðar þó að gripið hafi verið inn í líf viðkomandi með stuðningi.

Lyfjameðferð ein og sér nægir ekki, samtalsmeðferð eða virkur stuðningur í formi reglubundinnar eftirfylgdar fagfólks er grundvallaratriði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sæll Elvar, tek svo hjartanlega undir þessa framsetningu þína, ást, kærleikur og að gera þeim grein fyrir hvað er rétt og rangt + smá frelsi og traust er það sem til þarf.
Kveðja frá Húsavík

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.11.2010 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband