áfengi og Jólin

Litli vísirinn á klukkunni gömlu og slitnu benti niður á við, til merkis um að nú væri aðfangadagskvöld loksins komið. Móðirin var þá fyrir nokkru búin að undirbúa hlutina alla, eins og frekast var unnt, og klæða börnin sín í hátíðarfötin, þó engin dýrindisklæði, heldur bara örlítið skárri larfa en alla jafna. Þetta var nefnilega stórt heimili og fátækt, og sjálf átti hún engan kjól til að vera í á þessari mestu gleðihátíð kristindómsins. Faðirinn hafði náð sér í brennivín daginn áður, á Þorláksmessu, og mikið af því, og drukkið sleitulaust og af áfergju.

Hafði vafalítið fóðrað það á einhvern dúnmjúkan og fagran hátt gagnvart samviskunni, að hann ætti þetta skilið eftir allt erfiðið undanfarið, að fá nú loksins að slappa ærlega af, eða eitthvað í þeim dúr. Vælið í kerlingunni hafði ekkert verið annað en pirrandi röfl; hún skildi þetta ekki, fattaði ekki hvernig karlmenn voru gerðir. Hún um það. Að morgni aðfangadags var byrjað á ný, en upp úr hádegi gat hann ekki meira í bili, og ákvað því að halla sér. Móðirin og börnin læddust næstu klukkustundir um gólfin eins hljóðlega og unnt var, líkt og framliðnar sálir, til að raska nú ekki svefnró heimilisföðurins, og innst inni bjó sú von í hjörtum þeirra, dauf samt, að hann mætti ná að sofa þannig fram á jóladag.

Enda vissu þau, að eini möguleikinn á friðsælu og gleðilegu kvöldi væri fólginn í einhverju slíku. Þetta var ekkert nýtt. Svona hafði formið verið alla tíð, en óvenju slæmt var ástandið þetta árið. Þeim varð ekki að ósk sinni. Upp úr klukkan sex vaknaði hann, leit ringlaður og hissa á uppábúna fjölskylduna og sagði: "Hvað í andskotanum stendur eiginlega til á þessu heimili?" Hann mundi ekki hvaða dagur var. Þessi saga er ekki uppspuni, þótt ótrúlegt sé. Mér var sögð hún fyrir nokkrum árum, en hún gerðist fyrir löngu. Og ég veit, að hún er ekkert einsdæmi. Um allt land og víða jörð gerist eitthvað svipað á hverjum einustu jólum.

Ekkert foreldri hefur leyfi til að hafa gleði jólanna af barni sínu og því munu ýmis samtök minna á í dag hversu mikilvægt það er fyrir börn að foreldrar þeirri neyti ekki áfengis á jólunum. Í þessu tilliti eru forvarnir afar mikilvægar og má aldrei slaka á í þeim málum. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að fyrirmyndir skipti mestu máli. Fyrirmyndir barna eru eðlilega foreldrarnir og því er heimilisuppeldið öðru fremur lykill að farsæld uppvaxandi kynslóðar. Oft er sagt að fjölskyldan sé hornsteinn samfélagsins, það er mikið rétt. Því er hlutverk okkar allra að treysta þennan hornstein með öllum tiltækum ráðum.

Jólamánuðurinn reynir mikið á fjölskyldur og alla einstaklinga. Hraðinn verður mikill í samfélaginu næstu vikur, kröfur miklar og væntingar fram úr öllu hófi. Allt aukaáreiti eins og ofdrykkja og vandræði henni tengd verður enn erfiðara um jól en á öðrum tímum. Tökum höndum saman, stöldrum við og tryggjum öllum möguleika á að njóta jólanna þar sem ríkir öryggi og kærleikur. Ef þú, faðir eða móðir, sem lest þessi orð mín og ert að hugsa um að gera eitthvað svipað og húsbóndinn sem ég nefndi í upphafi, þá bið ég þig um að staldra við og líta rétt augnablik í innstu fylgsni huga þíns.

Eitthvað hlýtur að vera úr lagi þar, eða hvað?

Og ef svo er, væri þér ekki best að leita eftir aðstoð færra manna og kvenna, til að finna bót á þessu, áður en glæpurinn er framinn?

Að fá hjálp við að sjá, að það er fátt, ef þá nokkuð, ónáttúrulegra til en að nauðga með drykkju og yfirgangi sálum kærustu ástvina þinna á helgasta tíma ársins, sem einnig og fyrst og síðast er og á að vera mesta gleðistund í lífi allra barna ár hvert?

Slík ör eru lengi að hverfa, og sum ná því aldrei. Ef einhver manndómur lifir ennþá í þér, ef vínandinn er ekki nú þegar búinn að drekkja öllu siðferðisþreki þínu, verðurðu að grípa í taumana. Þetta er dauðans alvara.

Fyrsta skrefið gæti verið að sleppa drykkju um þessi jól, og annað það að spenna greipar og biðja meistarann um fyrirgefningu og hjálp, Guðs son í jötunni, því maðurinn er stærstur þegar hann krýpur í einlægri bæn við fótskör hans. "Komið til mín, öll þið sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld," segir hann, og er þekktur fyrir að ganga aldrei á bak orða sinna.

Takirðu boði hans, muntu finna kraft, sem nægir til að halda áfram á brautinni, í átt til eðlilegs lífs. Megi hann ná um þig á komandi dögum, ljúka upp augum þínum og hreinsa ærlega til.

Það yrði besta jólagjöf þín til ástvinanna frá upphafi. Og Jesúbarnsins.

Ekki spurning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband