Pabbi alkóhólisti og mamma alkóhólisti

Já, þetta byrjaði allt suður með sjó þar sem ég ólst upp hjá yndislegum foreldrum sem voru bæði veik, mamma alkahólisti og pabbi alkahólisti og spilafíkill af verstu gerð. Mamma var að mestu leyti að vinna á meðan ég var að alast upp og pabbi að sinna drykkju og spilamennsku. Pabbi sagði mér að hann hefði farið með mig á pöbbinn þegar ég var 2 ára og sent mig einan heim i leigubíl.


Ég lærði fljótt aðlaga mig að aðstæðum, reyndi að segja og gera það sem ég hélt að fólk vildi að ég segði og gerði sem var til þess að ég var fljótur að týna sjálfum mér.

Besti vinur minn á þessum árum var mjög sterkur karakter og það hentaði mér mjög vel. Ég var mikið í skjólinu af honum og tók upp á því að vera með sömu skoðanir og hann. Við lékum okkur mikið í verslunarleikjum þar sem við kepptumst um að hafa betur og hann vann alltaf, en stundum komu fleiri og þá náði ég öðru sætinu og fékk mikið útúr því að hafa betur. Ég talaði oft niður til leikfélagana og bæði skýrði og uppnefndi þá ljótum nöfnum sem mér fannst mjög sniðugt þegar gekk vel í þessum leikjum hjá mér. Ég fékk það mjög sterkt á tilfiningunni að ég væri ekki nógu góður, þannig að það hjálpaði mikið að geta rakkað aðra niður þar sem ég var mjög óöruggur með sjálfan mig, mjög óttasleginn og þorði aldrei að gera neitt nema ég væri viss um að það mundi heppnast.

Þetta leiddi til þess að ég flutti í hausinn á mér og þar gekk allt upp. Gat legið tímunum saman og upplifað að vera allt sem ég var ekki og það var mjög fín lausn á þessum tíma. Ég var ofboðslega upptekin af því að vera númer eitt hjá öllum og það kom aldrei neitt annað til greina.

MATUR var í miklu uppáhaldi hjá mér og ég var mjög upptekinn af honum og borðaði iðulega of mikið sem var til þess að ég varð pínu þybbinn og var uppnefndur sem mér fannst mjög sárt. Ein versta minning var þegar bróðir minn var á leið að kaupa pizzu og gleymdi mér og sagði svo fyrir framan vin okkar að ég hefði ekki gott af því að fá Pizzu. Enn hann fékk á baukinn á móti.

Þegar ég var 6 ára skildu mamma og pabbi og það var mjög vond reynsla. Pabbi fór að vera með öðrum konum og ég sýktist seinna mikið af hans hugarfari. Ég var að æfa fótbolta og hafði mjög gaman af því en man ekki eftir að neinn í fjölskyldunni hafi komið einu sinni að horfa á mig,

Þegar ég er að alast upp var ég mjög sparsamur og passaði alltaf vel upp á peningana og setti mikið í baukinn. Þegar ég ætlaði að fara taka út átti ég svo engan pening.

9 ára byrjaði ég að spila í kössunum og þar lifnaði ég við. Ég fann tilgang lífsins. Lausnarinn minn var fundinn. Allir stundir fóru í að redda pening og spila og redda pening og spila. Á sunnudögum fékk ég pening í bíó hjá pabba, afa og fleirum til að get sett sem mest í kassann. Maðurinn í sjoppunni var að leggja mig í einelti og vildi ekki skipta fyrir mig í 5 kalla og hann var versti óvinur minn á þessum tíma. Samt er hann yndislegur í minningunni.

Flutti í höfuðborgina með mömmu þegar ég var 10 ára. Mamma var búin að fá nóg af þessu og pabbi búin að leika hana grátt og nú var komið að henni. Hún fór að drekka meira.

Ég hélt áfram að redda peningum til að setja í kassann og einn ættingi minn sem var búin að ganga mér í föðurstað sendi mér pening reglulega og kassinn brosti. Tilfinningin að koma í kassann var eins og að komast heim til sín. Að vera búinn að tapa öllu var til skiptist viðbjóður og léttir þar sem ég ávalt sagði: “nú er ég hættur”, sem entist aldrei þar sem líkamlega ofnæmið sem ég er búin að þróa með mér minnti alltaf á sig.

Mamma var yndisleg, lét renna í bað og maturinn til strax á eftir, öll föt straujuð og alltaf hreint og fínt, en hún var mjög lasinn drakk töluvert og fólk var að koma heim í miður góðu ástandi. Ég var lítill í mér og einhvern tíman skoraði einhver strákur á mig í slag og ég var manaður af lýðnum að taka því og stóð upp og leyfði honum að kýla mig og gerði ekkert á móti og fór svo að grenja. Oft lá ég upp í rúmi grenjandi.

Tímdi aldrei að kaupa mér neitt, peningar voru til að setja í kassann. Peningar sem áttu að fara í föt, nesti og annað enduðu oft í kassanum. 12 ára byrjaði ég að vinna í fiski og var alltaf tilbúin að vinna aukavinnu til að fóðra fíknina sem ég náði að sjálfsögðu aldrei að tengja saman. Ég var alltaf að safna en það var alveg sama hvað ég þénaði, það fór allt. 14 ára byrjaði ég að vinna sem sendill og eftir fyrstu útborgun kom ég heim og systir mín var í heimsókn og heyrir mig biðja mömmu um pening og segir; “var hann ekki að fá útborgað í dag”. Mamma segir þá; “það er allt búið”. Hún var ekki búin að heyra í mér þennan dag en hún vissi að ég var sonur föður míns.

Arfleiðin getur verið mögnuð, ég var orðin kópeyring af pabba.

Aldrei ætlaði ég að byrja að drekka eftir að ég var búin að sjá hvað brennivín gerði fyrir foreldra mína, en ég vildi sína að ég væri ekki minni maður en félagar mínir. Á 14 ári fékk ég mér í glas og þá var ekki aftur snúið, byrjaði strax að drekka hverja einustu helgi, fór á biljarðstofuna og spilaði pool upp á pening og drakk Captein Morgan.
Þetta gat ekki verið betra, hin fullkomna lífsleið.

Svona gekk þetta næstu árin, passaði mig að vera í skóla á veturna svo ég fengi nógan tíma til að spila og drekka, fékk alltaf fína vinnu á sumrin og svo fór ég í framhaldskóla til að þóknast öðrum, þorði aldrei að spyrja kennarann hvernig ég ætti að læra og féll alltaf. Var í skóla til 22 ára aldurs og var þá búin að ná 56 einingum,.

Þegar ég var 18 ára fékk ég hefti og þegar ég var búin að vera með það í 2 daga kláraði ég blöðin í heftinu, tapaði 300 þúsund á einu kvöldi og átti 15 þúsund upp í það. Merkilegt að eftir þessa reynslu datt mér ekki í hug að þetta væri vandamál. 22 ára fór ég í áfengismeðferð og ráðgjafinn minn var með svipaða sögu og ég. Sagði mér að hann hefði hætt að spila og drekka á sama tíma. Eftir þessa meðferð fékk ég vinnu sem gaf rosalega vel en samt fór ég alltaf að spila og kom stundum ósofinn í vinnuna.

Það sem gerðist var að ég varð ennþá uppteknari af því að spila, 4 mánuðum eftir að ég hætti að drekka tapaði ég um milljón á 10 dögum, sjaldan hefur mér liðið eins illa og það sem mér fannst verst að þetta voru peningar sem ég átti, hafði oft tapað miklu og getað samið um að borga minna.

Leita mér hjálpar júlí 96´ hjá yndislegum manni sem var heilari og náði þá að hætta í 3 mánuði og sjaldan hefur mér liðið jafnvel, leið eins og ég væri konungur alheimsins. Það sem vantaði upp á var að ég var aldrei tilbúin að viðurkenna að ég væri SPILAFÍKILL sem varð til þess að ég byrjaði að spila aftur.

Kynnist yndislegri konu janúar 97´ en var með lygavef í gangi sem var til þess að við áttum erfitt með að tengjast almennilega. Á öðru stefnumótinu kom ég of seint í bíó út af því ég var að spila og sagði við hana að við strákarnir hefðum verið að fíflast.

Við förum að búa saman og ég hélt mínu striki í spilamennskunni, lýg og lýg, segist vera á AA fundum og grúppum en er að spila, kem seint heim og lýg og lýg. Árið 99´ verður konan mín ólétt og þegar barnið fæðist koma ekki einu sinni tár þegar ég tek á móti henni. Hafði verið í spilaklúbbnum kvöldið áður en kom aldrei þessu vant snemma heim. Á spítalanum er verið að sýna fótboltaleik sem ég var búin að veðja á og þetta var síðasti leikurinn á seðlinum og átti að vera mjög öruggur. Chelsea-Blackburn en Blackburn náði að jafna og dagurinn sem ég varð faðir var ónýtur, 37.000 kr. í hafið. Lengjan var með því versta sem ég lenti í, var alltaf að reyna að vinna uppí tapið, eitt skiptið lagði ég ca.140 þúsund undir og Ipswich gerði jafntefli við Derby í síðasta leik og það kostaði 700 þúsund. Derby var búið að tryggja sig í deildinni og Ipswich var að berjast um sæti í meistaradeildinni. Ég fór að grenja.

Á þessum tíma höndlaði ég engan veginn að vera orðinn faðir, kom mér upp rútínu og var lítið heima, leið ömurlega. Hætti þegar barnið var mánaða gamalt og fór að stunda GA fundi. Sótti 1 í viku, kom seint og fór snemma af fundinum, vildi ekki tengjast þessu hallærislega pakki sem var á fundinum, eftir þrjá mánuði leit ég við í spilaklúbbnum og ætlaði svo sannarlega ekki að fara að spila. En allt í einu var ég sestur og byrjaður að spila og tapaði miklu meira en ég átti eina ferðina enn. Kom heim kl. 07.00 á aðfangadagsmorgunn og laug að konunni eina ferðina enn, var að horfa á video og sofnaði en var svo hrikalega ruglaður þegar ég vaknaði og hringdi í vin minn til að bakka söguna upp og talaði svo hátt í símann að konan heyrði allt.

Þarna hófst versta tímabil í mínu lífi, var alltaf að byrja og hætta að spila og þegar ég hætti fór ég að éta út í eitt og tók aldrei á því, var mjög kvalinn og búin að fá algjört ógeð á sjálfum mér og hætti alltaf þegar allt var komið í klessu , ekki út af því að ég var búin að viðurkenna að ég væri spilafíkill sem varð til þess að ég fór alltaf aftur að spila.

Prófaði að skilja við konuna og hélt að hún væri vandamálið sem hún var svo sannarlega ekki, þessi engill sem er það besta sem lífið hefur gefið mér.

Hætti 2002 þegar ég var búin að keyra allt í klessu og hélt ég ætti aldrei eftir að geta hætt að spila, en þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Ég var mjög virkur á fundum og vann GA prógrammið og átti mjög góðan tíma í tæpa 10 mánuði.

En á þessum tíma var allt í rugli í atvinnumálunum, var alltaf vinnandi á prósentum og vantaði pening, fékk símtal frá gömlum spilafélaga sem varð til þess að ég fór í bankann og tók út 80.000 til að hafa með mér í klúbbinn og ætlaði að sjá til hvort mig mundi langa að spila þegar ég kæmi inn.
Vá hvað það var gott og ég skildi ekki hvað ég var að pæla að hætta að spila, tapaði peningnum og annar nýfallinn félagi lánaði mér 140.000 til viðbótar.

Fyrsta hugsun þegar ég vaknaði daginn eftir var að ég þyrfti að ná þessum pening aftur, gamla vonda forritið STRAX komið í gang. Eftir 9 vikur gerðist svolítið sem aldrei hafði gerst áður, ég fékk ógeð þrátt fyrir að eiga ónotaða heimild upp á 500 þúsund, hafði grætt 60 þúsund kvöldið áður en samt í brjáluðu skapi.

Hringdi í trúnaðarmanninn minn og fór að hitta hann og byrjaði strax að hreinsa upp eftir mig skítinn, fara á fundi, vera mikið með GA félögum. Fór í þjónustu sem var mikið gæfuspor, mætti fyrr og hellti upp á kaffi og náði að kynnast fólkinu betur og nú ári seinna heyri ég ennþá í GA félögum nánast daglega. Þarna nýttist tíminn mjög vel sem ég var búin að ná áður en ég féll.

Nú er ég búin að átta mig á því að fara spila er það sama og að deyja, hætti að sinna öllu sem er mér kært og fer að dansa með djöflinum. Ég fer á GA fundi, nota bænina mjög mikið, fer reglulega á kirkju og er duglegur að hreyfa mig, það er hornsteinninn í mínu lífi.

Kraftaverkin hafa verið mörg á þessu ári, fjárhagurinn að lagast, ég er í draumastarfi, á góða vini úr GA, og það sem hefur komið í staðinn fyrir óregluna er mikið af hreyfingu, fundum og kirkjan.

Það að koma á GA fundi fyrir mig var eins og að koma heim. Það er vont að vera mesta fíflið í heiminum, en það að sjá að ég er ekki einn, ég er ekki heimskur eða vondur, ég er lasinn og það er til lausn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband