Víman er ekki töff

Hvernig stendur á því að íslenskir unglingar sækjast eftir vímu og eiturlyfjum? Höfum við nokkurn tíma velt því fyrir okkur í alvöru af hverju við, þegar við erum ung, viljum sækjast eftir því að komast í annarlegt ástand - og þar með að verða í raun öðru vísi en okkur er eiginlegt?

Við vitum að það er ungu fólki eiginlegt að vilja prófa sig áfram, fara sínar eigin leiðir, taka með fyrirvara það sem fullorðna fólkið segir, og umfram allt skella skollaeyrum við hvers konar predikunum. Og líta þá gjarnan á viðvaranir sem predikanir og tuð.

Ég ætla samt að biðja ykkur að lesa áfram.

Ég á við ykkur erindi sem mér finnst brýnt.

Vímuefni breyta okkur

Þótt ég skilji vel löngun til þess að prófa eitthvað nýtt og reyna sjálfur að átta sig á mörkum þess sem er hættulegt, þá eru samt til þau fyrirbæri sem eru einfaldlega of hættuleg. Fíkniefni, eiturlyf, eru af þessu tagi, og áfengi sömuleiðis, í mörgum tilvikum að minnsta kosti. Vímuefni breyta okkur. Víman sljóvgar okkur, svæfir dómgreind og fær okkur til að gera eitt og annað sem við myndum ekki gera allsgáð. Og ekki einungis vímuefni, þótt þau séu hættulegust. Þegar ég byrjaði að reykja 15 ára gamall, þá vissi ég ekki hversu skaðlegar reykingar eru. En nú vita þetta allir. Sá sem byrjar að reykja í dag, veit að hann er að skaða heilsu sína, fækka ævidögum sínum. Af hverju þá að byrja? Er það af því að dauðinn er okkur svo fjarlægur þegar við erum ung?

Við byrjum ekki að nota vímuefni af því að við höfum þörf fyrir þau. Þörfin verður fyrst til við notkun. Víman kann að skapa ákveðna vellíðan, og við sjáum engan skaða í því. Þetta er bara gaman. En stundum fer gamanið af, og alvaran sem fylgir getur orðið skelfileg.

Það ætlar sér enginn að verða ósjálfbjarga eiturlyfjafíkill, sem hefur misst alla stjórn á lífi sínu. Það byrjar enginn á því að sprauta amfetamíni, kókaíni eða heróíni í æð. Þetta gerist stig af stigi, stundum hægt, stundum fljótar. Fyrirfram veit enginn hvernig fara muni. Sem betur fer átta sig ýmsir áður en það er um seinan og snúa við, grípa í taumana, hætta. Þeir eru heppnir og mega vera þakklátir raunsæi sínu og veruleikaskyni. Aðrir eru ekki eins heppnir. Ég tala af ákveðinni og sárri reynslu.

Sonur minn ánetjaðist ungur eiturlyfjum. Það hefur kostað hann meira en 20 ára þrældóm og óhamingju, og alvarlega sköddun. Ég veit ekki hvort til eru mörg verri hlutskipti en að lenda í þvílíkum hremmingum. Um þá löngu sögu höfum við skrifað tvær bækur, Ekkert mál og Eftirmál.

Fyrsta skrefið

Sá sem byrjar að fikta við fíkniefni stígur örlagaríkt skref, sem hann veit ekki hvert muni leiða hann. Þetta fyrsta skref byrjar nefnilega strax að breyta honum, þótt hann geri sér ekki grein fyrir því sjálfur, enda mun honum tæpast finnast það mikilsvert. Sá sem neytir fíkniefna í fyrsta sinn mun varla játa það fyrir fjölskyldu sinni. Þar með er hann farinn að fela hluta af sjálfum sér fyrir öðrum. Ef slíkt er borið upp á hann, mun hann trúlega neita. Þar með er hann farinn að ljúga að öðrum.

Ef hann heldur áfram, mun hann finna sjálfur að ekki er allt sem skyldi, en hann mun samt réttlæta það fyrir sjálfum sér. "Þetta er ekki svo slæmt. Ég hef alveg vald á þessu. Ég get hætt ef ég vil." Þar með er hann farinn að ljúga að sjálfum sér. Og þar með er hann ekki lengur heill, heldur klofinn. Hann sýnir öðrum hluta af sjálfum sér en felur annan hluta fyrir öðrum - og fyrir sjálfum sér. Sjálfsblekkingin er komin til sögunnar, og hún er ötull fylgismaður þess sjúkdóms sem nú er að byrja að herja á unglinginn.

 

Inn fyrir ósýnileg landamæri

Ef unglingurinn heldur enn áfram að nota fíkniefni, breytist fiktið í alvöru og um leið koma til sögunnar aðrar breytingar. Þegar áhrif efnanna hverfa, taka við fráhvarfseinkenni sem valda mikilli vanlíðan, og líkaminn heimtar meiri efni. Þessi vanlíðan er svo mikil að hún yfirskyggir allt. Viljinn ræður ekki við hana. Þar með rennur upp örlagastund sem breytir öllu. Það verður að ná í meiri efni.

Sá sem býður unglingi fíkniefni er að skaða hann. Sumir eiturlyfjasalar hafa ánetjaða unglinga á sínum snærum til að bjóða öðrum og festa þannig í net sitt. Þegar fráhvörfin eru orðin óbærileg, er unglingurinn flæktur í netinu. Hann er kominn inn fyrir landamæri sem sjást ekki utan að. En innan frá rísa þau eins og ókleifur veggur, eins konar fangelsismúrar.

Nú er allt breytt. Tímaskynið breytist. Markmiðið verður að ná í efni, hvað sem það kostar. Lengra er ekki hugsað. Regluleg neysla kostar mikla peninga. Hvernig á að afla þeirra? Oftast er fyrst farið að stela frá mömmu og pabba. En það hrekkur skammt og kemst áreiðanlega upp. Örvæntingin eykst, og þar með örþrifaráð. Nú breytist siðferðiskenndin. Þá fer unglingurinn að gera það sem hann hefði aldrei áður látið sér detta í hug, hvað þá meir.

Það verður að ná í peninga til að ná í efni. Nú er engum gefið neitt. Unglingurinn er orðinn skaddaður á líkama og sál. Það sem byrjaði sem saklaust fikt og skemmtun er orðin skelfileg kvöl. Kvölin er deyfð með vímu, víman kallar fram fráhvörf, fráhvörfin heimta meiri efni. Vítahringnum er lokað. Það er ekki auðvelt að komast aftur út úr honum til eðlilegs lífs á ný.

Enginn á líf sitt einn

Eiturlyfjasjúklingurinn skaðar ekki aðeins sjálfan sig. Enginn á líf sitt einn, það tengist einnig öðrum. Sjúkdómur unglingsins mun einnig bitna á fjölskyldu hans og valda mikilli sorg og vanlíðan nánustu ættmenna. Það er ekki viljandi gert, en hjá því verður ekki komist. Nema með aðgát. Þess vegna bið ég íslenska unglinga að hafa sérstaka aðgát. Látið ekki leiða ykkur afvega með gylliboðum. Þeir félagar ykkar sem vilja að þið takið þátt í fíkniefnafikti, eru ekki vinir ykkar.

Þá ber að forðast. Það eru ekki þeir sem eiga að útiloka ykkur, þið eigið að útiloka þá. Það er ekki töff að reykja hass og gleypa e-töflur. Það er ekki töff að sprauta sig með eitri. Það er aumkunarvert og sorglegt. Til þess er lífið of dýrmætt. Til þess er kærleikur ykkar nánustu of dýrmætur. Njótið þess kærleika og njótið lífsins. Forðist það sem er andstætt lífinu.

Munið að það er á ykkar valdi að sigrast á vímuefnavandanum. Ef þið hafnið vímuefnum, verða þau brátt úr sögunni. Það yrði ykkur mikill og veglegur sigur, og allrar þjóðarinnar. Þið getið bjargað henni frá þessum skelfilega vanda.

Verið sönn og heil. Gæfan fylgi ykkur.

 

Þessi grein er eftir Njörð P. Njarðvík


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband