Ástar og kynlífsfíkn

Ástar og kynlífsfíkn.

Hvað er það eiginlega? Hvernig er hægt að vera sjúkur eða sjúk í ást eða kynlíf ? er búið að skilgreina allt sem fíkn og má ekkert lengur, ekki einu sinni vilja fara í samband eða fá sér á broddinn ? Að bregðast við með því að fara í netta vörn hljóta að vera eðlileg viðbrögð manneskju sem heyrir í fyrsta sinn minnst á ástar og kynlífsfíkn, enda virðist þessi áratugur sem við lifum núna með endemum litaður af allskonar vandamálaskilgreiningum sem enginn hefur áður heyrt um.

Halldór Laxness blessaður sagði í einhverri bókinni að mannkynið ætti ekki að farast úr sálgreiningum og sýfilis og það er kannski ekki svo langt frá sannleikanum nú á gullöld geðlyfja og lauslætis. Þrátt fyrir það má alveg skoða ástar og kynlífsfíknar fyrirbærið betur því að á sama tíma og ótrúlegustu sálarástönd eru orðinn vandamál verður ekki undan því litið að daginn út og inn er haldið að okkur margskonar ástar og kynlífsáróðri sem erfitt er að loka augunum fyrir.

Bíómyndir, sjónvarpsþættir og dægurlagatextar hamra á því að ástin sé málið og það sé ekki hægt að lifa hamingjusamur án þess að finna sér maka og stunda kynlíf eins og kynbótanaut. Þá sé maður hálfur kálfur og allt í klessu. Kynlífsaldan í fjölmiðlum hefur einnig orðið til þess að menn eru farnir að fletta klámi á netinu meðan þeir borða rúnstykkið og einkaritararnir lesa um snípsáburði á femin.is. eðlilega hljóta að verða margskonar afleiðingar af þessu bæði góðar og slæmar og maður væri bara vitlaus að reyna að horfa framhjá því.

Kynlífsfíkn :

Kynlífsfíkn er til á mörgum stigum og birtingarmyndir hennar eru allt frá þráhyggjukenndri sjálfsfróun til kynferðisglæpa, en núna ætlum við bara að skoða það sem er kallað fyrsta stigs kynlífsfíkn, en með því er átt við kynferðishegðun þar sem enginn er fórnarlamb í lagalegum skilningi þess orðs. Kynlífsfíkill sem ekki er orðinn svo langt leiddur að hann sé farinn að stunda beina kynferðisglæpi getur stundað strippklúbba, skoðað klámblöð og klámmyndir.

Hann getur fróað sér fram úr hófi, keypt sér vændi, stundað margendurtekið “ einnar nætur gaman “ eða átt marga bólfélaga. Einnig getur hann dvalið langtímum saman á spjallrásum á netinu, stundað símasex og svo mætti lengi telja. Kynlífsfíkillinn getur fundið sig í einu eða mörgum þessara atriða en hegðun hans er þráhyggju, endurtekinn og henni er stjórnað af fíkn.

Það sem í upphafi einkenndist af forvitni og smá spennu er nú orðið að þráhyggju, sektarkennd, sjálfsréttlætingum og tilfinningalega ruglandi ástandi. Þetta fer að taka meiri og meiri tíma í lífi fíkilsins, jafnvel þótt “kikkið” sem hann fær út úr þessu verði minna og minna.

Ástarfíkn :

Við sjáum ást eða rómantíska ást sem grundvallar undirstöðu þess að við höfum áhuga á því að fara í alvarlegt samband við aðra manneskju. Ef það er enginn rómantík í loftinu og okkur finnst við ekki vera ástfanginn þá er ekki líklegt að það sé hjónaband eða sambúð á næsta leyti. Að vera ástfanginn er ástand sem lætur manni líða eins og maður sé hátt uppi, í ástarvímu, alsælu. maður fær aukinn kraft og veröldin breytir um lit.

Ástin verður að fíkn þegar þessi tilfinning sem á sér stað í upphafi sambands verður að markmiði. Þegar einstaklingurinn verður háður fyrstu dögunum þegar þú getur setið og horft endalaust inn í augun á hinum aðilanum án þess að þurfa endilega að segja neitt. Þegar það bara að heyra röddina á símsvaranum verður til þess að hjartað taki kipp. Þegar kossarnir láta þig svífa og þú hugsar ekki um annað en hann eða hana. Fólk getur orðið háð þessum breytingum og þær verða m.a. til þess að fíknin snýr lyklinum og fer í gang.

Ást og kynlíf fara hönd í hönd. Þegar við erum ástfanginn þá stundum við oftar en ekki kynlíf með viðkomandi og það kynlíf köllum við að “elskast”. Fyrir kynlífs og ástarfíkillinn verður hinsvegar kynlíf innan ástarsambands fljótlega þreytandi og leiðinlegt. Um leið og hormónarnir hætta að pumpast útí blóðið með sama krafti og í byrjun þá hættir þetta fljótlega að vera fjör. Vímutilfinningin dofnar og raunveruleg vinna innan sambandsins þarf að byrja að eiga sér stað.

Þá leitar kynlífsfíkillinn fljótt inn á sín svið, ástarfíkillinn fer að horfa í aðrar áttir og fíknaferlið fer aftur í gang. Vonin sem ástarfíkillinn ól í brjósti sér um að nýja sambandið yrði það síðasta deyr og ástarfíkillinn situr uppi með bömmerinn, skömmina, missinn og sektakenndina. Ekki örvænta það er hægt að redda þessu! Bataferlið frá þessum fíknum er það sama og við flestum öðrum fíknum tólf spora kerfi AA samtakanna hefur dugað til að drekkja allskonar vandamálum og fíknum og ástar og kynlífsfíkn er þar enginn undantekning.

Fyrsta skrefið er að viðurkenna að það sé vandamál fyrir hendi. Með því að vera hreinskilinn við sjálfan sig opnast gáttir inn í sálarlífið og það er útgönguleiðin úr vandanum. Fíkillinn veður að sjá hvernig þunglyndi hans, stress, kvíði og aðrar óþægilegar tilfinningar eiga rætur sínar að rekja til þessarar þráhyggjuhegðunar og með því getur hann byrjað að sleikja sárin það er hægt að fara á spjallrás á netinu þar sem fólk sem hefur fundið sig í þessu hittist og reynir að leysa vandann í sameiningu.

Einnig er hægt að komast í beint samband við manneskju sem hefur komið sér út úr vítahringnum og hún deilir með þér reynslu sinni og styrk. Sálfræðingar geta líka hjálpað og þeir eru jú bara í símskránni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband