Búlimía og Anorexía

Reynslusögur : 

18 ára stelpa segir frá:

Ég hef bæði þjáðst af búlimíu og anorexíu. Þegar ég var nýorðin 19 ára var ég 120 kíló og þreytt á að heyra hvað ég væri feit og að ég þyrfti nú að fara að taka mig á. Þau jól ákvað ég að taka stjórn á lífi mínu og stinga puttanum upp í mig. Eftir það varð ekki aftur snúið. F yrst sagðist ég vera með ælupest eða hafa borðað eitthvað sem fór svona í magann á mér.

Ég gerði ekki annað en að ljúga að mínum nánustu og hrakti marga frá mér með því. Þetta tók mikið á foreldra mína og systkini. Mér líður vel í dag og finnst ég vera ný og betri manneskja. Ég veit að þessi sjúkdómur m un alltaf fylgja mér og vera hluti af mér en ég get stjórnað honum núna. Ég passa hvað ég borða og hreyfi mig reglulega, þannig hugsa ég vel um líkama og sál. Ég fer til sálfræðings einu sinni í mánuði og hitti hjúkrunarfræðing reglulega.

Ég fæ mikinn stuðning frá fjölskyldu minni. Allir sjá rosalegan mun á mér í dag. Þú ein(n) ræður hvort sjúkdómurinn stjórnar þér eða þú honum. Það er þitt val en viljinn verður að vera fyrir hendi. Við höldum að þetta sé töframeðal sem gerir okkur falleg og flott en það virkar því miður öfugt. Maður verður slappur, fölur, lítur alltaf veiklulega út og er alltaf skapillur og þunglyndur. Það eru alltaf til aðrar og betri lausnir en þetta helvíti. Meðferð við lotugræðgi og lystarstoli felst í því að koma á heilbrigðum matarvenjum, fá sjúkling til að hætta ofáti og megrun, þar sem hið seinna er talið valda hinu fyrra.

Að auki þarf að hjálpa sjúklingnum við að hætta að hreinsa úr líkamanum hitaeiningar , hvort sem það er með uppköstum eða notkun hægðarlosandi lyfja. Meðferð telst árangursrík þegar tekst að draga úr öðrum sálrænum erfiðleikum sem tengjast lotugræðginni, til dæmis að sjálfsmat byggist ekki nær alfarið á þyngd og líkamslögun.

Flestir sjúklinga ná bata í meðferð fyrir utan sjúkrahúsa. Frásögn stúlku sem lenti í þeim ömurlega vítahring að finnast hún vera feit þrátt fyrir að engum öðrum fyndist það. Sjálfsmyndin var í molum og afleiðingin varð lotugræðgi, þunglyndi og að lokum sjálfsmorðstilraun. Hún er nú á góðum batavegi.

21 árs kona segir frá:

Ég er fædd í Reykjavík og alin upp þar að mestu leyti. Ég hef átt við lotugræðgi að stríða undanfarin ár og hef ákveðið að segja sögu mína til þess að aðrir sem glíma við þetta vandamál öðlist von um að hægt sé að rjúfa þann vítahring. Ég minnist þess allt frá 12 ára aldri að hafa fundist ég vera feit, en ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu eins og aðrir að það væri ofsalega flott að vera mjór. Það var talað um hvað ég væri falleg, hvað ég væri þæg og góð, ég geri mér grein fyrir því í dag að engum öðrum fannst ég vera feit.

Ég varð fljótlega þeirrar skoðunar að öll vandamál hyrfu og ég yrði hamingjusöm ef ég yrði grönn. Þegar ég var 15 ára sagði vinkona mín frá frábærri hugmynd sem hún hafði heyrt um – hvernig hægt væri að borða án þess að fitna. Málið var bara að stinga fingri ofan í kok eftir máltíð og losa sig við allt ógeðið. Þá opnaðist fyrir mér ný vídd. Ég var svo ánægð með þetta. Nú gætu allir fitukomplexarnir verið úr sögunni. Álit annarra á mér hefur alltaf skipt mig of miklu máli og vegna öryggisleysis og minnimáttarkenndar féll ég fyrir þessu.

Ég reyndi að kasta upp nokkrum sinnum og komst að því að þetta var bæði erfitt og óþægilegt, en með þrjóskunni og voninni um að verða grönn fór þetta að ganga betur og varð fljótlega sjálfsagt mál, þegar mér fannst ég hafa borðað of mikið. Ástandið hélst óbreytt í langan tíma og þetta var alls ekkert vandamál, en með tímanum fór ég að misnota þetta. Ég fór að borða eins og mig lysti og hugsaði með mér að ég myndi bara losa mig við matinn, og fyrr en varði stundaði ég þetta eftir hverja máltíð.

Ómeðvitað var ég farin að nota mat sem meðal við hinum ýmsu sálarkvillum, t.d. samviskubiti yfir að stunda ekki skólann nógu vel. Ég sat kannski heima og vissi að ég þurfti að læra en kom mér ekki að verki og ákvað þá að fá mér að borða – enga smá máltíð. Ég ældi svo öllu saman. Það gerði það að verkum að ég varð enn slappari, fór ekki að læra og fékk enn meira samviskubit. Hellti mér því í aðra máltíð og svo koll af kolli. Áður en ég vissi af var ég föst í vítahringnum og búin að missa tökin á náminu í menntaskólanum en reyndi þó að tolla í tónlistanáminu sem ég hafði stundað frá bernsku.

Ég var 18 ára þegar staðan var orðin svona slæm og mér fannst ég ömurleg, ein með þetta stórkostlega leyndarmál sem var mín eina huggun og það sem allt snérist um. Tíminn leið en ég var gersamlega stöðnuð í mínum heimi. Um tvítugt var ég ekkert annað en skugginn af sjálfri mér, fannst ég vera að gefast upp og þráði oft á tíðum að enda þessa jarðvist. Ég sá enga aðra leið en að deila þessum erfiðleikum með einhverjum. Ég sagði mömmu og kærastanum mínum frá þessu og þau voru orðlaus.

Kærastann minn hafði ekki grunað neitt en mamma var að mörgu leyti glöð að fá skýringu á því hvað ég var orðin leið, sljó og afkastalítil. Mamma pantaði tíma fyrir mig hjá heimilislækni sem sendi mig til læknis á geðdeild Landspítalans. Ég fór upp á spítala en hljóp út af biðstofunni eftir nokkrar mínútur. Ég var ekki tilbúinn að horfast í augu við vandann og segja ókunnugum frá, fyrir utan það hvað mér þótti hryllilegt að vera send á geðdeild eins og ég væri klikkuð. Ég sannfærði mömmu um ég ætlaði að takast á við þetta sjálf.

Dæmið snerist við og ég hætti að borða, í nokkrar vikur lifði ég á nánast engu, en takmarkið var þó alltaf að reyna að borða ekki neitt. Ég horaðist að sjálfsögðu mikið, mér hafði aldrei liðið betur, og fannst ég hafa náð algerri stjórn á þessu, ef ég bara svelti mig. En auðvitað gat það ekki gengið til lengdar og loks fór ég að leyfa mér að borða aðeins meira en þá byrjuðu uppköstin strax aftur. Fljótlega var ástandið orðið verra en nokkru sinni fyrr, og hver einasti dagur gekk út á það að borða og æla þangað til ég lognaðist útaf af orkuleysi.

Þetta var mín leið til að útiloka raunveruleikann og komast í gegnum daginn. Þannig liðu nokkrir mánuðir sem runnu saman í eitt. Ég forðaðist öll samskipti við annað fólk, tók símann úr sambandi og hætti mér ekki útúr húsi nema í brýnustu nauðsyn. Það hlaut að koma að því að líkaminn mótmælti, því þetta var í rauninni ekkert annað en hægur dauðdagi.

Ég fékk taugaáfall, talaði við heimilislækninn minn sem sendi mig til annars geðlæknis sem rannsakaði mig og taldi mig mjög þunglynda ég fór að taka þunglyndislyf og tala við sálfræðing. Með tímanum fór mér að líða betur andlega, þó svo að lotugræðgin væri alltaf til staðar. Ég fór að geta talað um þetta við vini mína og leyfði þeim að hjálpa mér eins og þeir gátu, sem fólst í því að draga mig út úr húsi og vekja mig aðeins til lífsins.

Þannig komst ég á bataveg. Það liðu nokkrir mánuðir þar sem ég var í nokkuð góðu jafnvægi, en það sem hrjáði mig mest var að mér fannst ég hafa eyðilagt sambandið við kærastann minn með öllu þessu tilfinningarrugli. Hann var í námi erlendis og engin leið fyrir hann að gera sér grein fyrir öllu sem ég hafði gengið í gegnum. Mér fannst svo mikil fjarlægð á milli okkar og við að mörgu leyti ókunnug. Mér leið ömurlega yfir þessu og svo fór að ég upplifði algjört bakslag hvað varðaði lotugræðgina. Undir áhrifum áfengis gleypti ég eitt sinn allar þær pillur sem komst yfir og var skítsama um afleiðingarnar.

Allavega myndi eitthvað breytast og kannski leiða til þess að ég rifi mig upp úr þessu. Vinir mínir fundu mig meðvitundarlausa og gerðu sér grein fyrir hvað hafði gerst, en ég endaði upp á Borgarspítala þar sem var dælt uppúr mér. Eftir þetta áfall tók ég mér tíma til að hugleiða stöðu mína og reyna að skilja hvernig ég hafði lent í þessum hremmingum.

Nú er hálft ár liðið síðan og ég hef ekki þurft að taka lyf í þrjá mánuði. Mér finnst ég hafa þroskast og vaxið frá þessu hræðilega ástandi. Nú get ég horft á vandann og skilgreint hann úr ákveðinni fjarlægð. Þessi erfiðu ár eru hulin móðu í minningunni og ég geri mér grein fyrir að það þýðir ekki að sjá eftir neinu. Maður verður að læra af reynslunni og það hef ég gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband