Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Helvíti líkast

Anna byrjaði að fá átköst þegar hún var einungis ellefu ára gömul. Hún var einkabarn og því var afar erfitt fyrir hana að fela þetta fyrir foreldrum sínum en það tókst henni nú samt. Hún lifði samt sem áður í stöðugum ótta við að foreldrar hennar kæmust að því hvernig henni leið og hún gat ekki hætt því hún varð háð átköstunum. Hún komst upp með þetta öll sín unglingsár og hún var sátt við þetta því hún hafði “stjórn” á þessu og þetta var hennar leyndarmál.

 

Þegar hún fór í framhaldsskóla fékk hún hálsbólgu og gat ekkert borðað í nokkra daga og eftir það einbeitti hún sér að því að svelta sig og tók þá við barátta við lystarstol. Hún einbeitti sér að því að halda flötum maganum sem hún hafði fengið í kjölfar veikindanna. Hún hætti að hafa áhyggjur af tímum og því að passa inn í hópinn.

Hún var oft send á spítala vegna næringarskorts eða of mikils þyngdartaps. Svo um þrítugt fékk hún lotugræðgi. Næstu átta árin voru helvíti líkust og stundum gekk þetta svo langt að ælan lak af olnbogunum hennar. Þegar hún varð 38 ára hafði hún misst vinnuna sína og allt samband við vini sína.

 

Hún skráði sig svo að lokum á sjúkrahús en læknarinir þar unni ekkert með henni að sálrænu hliðinni. Hún gafst að lokum upp og ákvað að fyrirfara sér en tveir lögreglumenn komu í veg fyrir það og þá uppgötvaði hún að batinn fólst í því að líða vel innra með sér og að hún þyrfti að ganga í gegnum erfiðið sjálf, enginn annar gæti gert það fyrir hana.

Hún hefur verið laus við átröskunina í 13 ár núna og ráðleggur nú þeim sem eiga enn í sinni baráttu við átröskunarpúkann. Hún setti upp meðferðarstofnun sem bæði fékkst við mataræðið sem og sálræna þáttinn.

Munum að við sjálf erum þau einu sem getum breytt ástandi okkar. Við verðum að leita eftir hjálp og þiggja hana.

 


Netfíkn

Í ljósi aukinnar umræðu um netfíkn í fjölmiðlum undanfarið, ákvað ég að fara hér stuttlega yfir helstu áhættuatriði netfíknar.  Netfíkn er vandi sem hrjáir gjarnan ungt fólk og því geta vel upplýstir og undirbúnir foreldrar gripið inn í vandræðaástand áður en það ágerist.  Líkt og með svo margt annað, er best að vinna með vandann snemma.  Þegar um ungt fólk er að ræða hafa foreldrar ákveðna valdastöðu sem unnt er að nýta til meðferðar og þegar fólk er eldra, hafa ástvinir og ættingjar ákveðna stöðu sem hægt er að nýta til að vekja forfallinn einstakling til umhugsunar.  Það er því afar mikilvægt fyrir foreldra, vini og ættingja að læra að þekkja áhættueinkenni netfíknar. 

Grunnskilgreining á netfíkn felst í því að um er að ræða tímaþjóf og því miða fræðimenn oft við það að þegar netnotkun hafi náð 38 tímum á viku sé orðið um alvarlegt vandamál að ræða.  Tími tölvunotkunar er því vissulega eitt fyrsta atriðið sem ber að fylgjast með.  Er einstaklingurinn sífellt að auka tölvunotkun sína á kostnað annarra athafna.  Þegar einstaklingur kýs ítrekað netið umfram aðrar athafnir sem voru honum mikilvægar áður, er hugsanlegt að um vandamál sé að ræða.  Mjög fljótlega getur slík hegðun undið upp á sig og haft áhrif á sjálfsmynd og félagsfærni einstaklingsins og þannig versnar vandinn smám saman. 

En að sjálfsögðu viljum við grípa tímanlega inn í vandamálin og helst áður en þau verða of alvarleg og því er mikilvægt að fylgjast vel með og grípa inn í strax þegar okkur finnst hegðunin vera orðin óhófleg.  Gott er að fylgjast með hvort einstaklingurinn sé mjög upptekinn af netinu, hvort hann feli eða neiti að viðurkenna hve miklum tíma hann verji í tölvunni, sé farinn að ljúga um tölvunotkunina, segist eiga alla sína vini á netinu eða einungis spjalla við þá þar, finnist aðrar athafnir orðnar leiðinlegar og svo hvort einstaklingurinn verði óhóflega reiður eða pirraður þegar hann er truflaður við tölvunotkunina eða hún stoppuð. 

Þessi atriði er hægt að sjá hjá einstaklingum sem ánetjast tölvunotkun áður en hún nær að verða það alvarleg að einstaklingurinn verji 38 tímum við tölvuna og því verður að hafa í huga að vandinn getur verið til staðar fyrr en því marki er náð.

Þegar einstaklingar byrja að ánetjast netinu er oftast um að ræða flóttahegðun þar sem þeir flýja óþægilegar aðstæður í raunveruleikanum og finna betri veru í andlitslausu umhverfi netheima. 

Atriði sem geta leitt til aukinnar tölvunotkunar eru félagsfælni, lágt sjálfsmat, einmannaleiki og samskiptavandamál eins og hjónabandserfiðleikar, einelti og langvarandi veikindi eða einangrun.  Það er því mikilvægt að fólk fylgist með hvort börn þeirra eigi í erfiðleikum í skóla eða utan hans og grípi inn í ef vandamál skapast í umhverfi þeirra.  Þegar börn hætta skyndilega að vilja mæta í skóla, einkunnir lækka og þau hætta að vilja taka þátt í íþróttum og öðrum utanskóla athöfnum eru það allt þættir sem geta bent til þess að barninu líði illa og geta svo leitt til þess að það flýr á netið. 

Þegar barnið hefur svo eitt sinn flúið á netið ýkist hegðunin gjarnan sem á undan gekk og það hættir nánast alfarið að mæta í skóla, læra eða sinna utanskólaáhugamálum.  Allt of oft velja foreldrar að líta undan og láta börnin útkljá málin sín á milli en nú til dags í harðnandi heimi getur slíkt hæglega reynst börnum um megn.  Börnin geta í raun lært að takast á við slík vandamál með því að fara að fordæmi foreldranna og því er mikilvægt að þau sýni þeim rétta hegðun í verki.

Umræða, eins og sú sem hefur farið fram undanfarið, getur vakið fólk til umhugsunar og vonandi haft jákvæð áhrif á þróun þessa mála.  Það er því mikilvægt að foreldrar hvetji börnin sín til dáða og kenni þeim að umgangast tölvur af hófsemi. 

Martröð í draumi

Martröð í draumi

Hver hefur ekki farið í útilegu og skemmt sér konunglega?  Væntanlega hafa flestallir  unglingar gert einmitt það.  Sumir hafa farið með gamla genginu í þórsmörk, Ásbyrgi eða Vaglaskóg, aðrir hafa tjaldað útí garði og enn aðrir hafa farið á útihátíðir.  Reynsla flestra af útihátíðum er góð og við heimkomu er maður drullugur upp fyrir haus en endalaust hamingjusamur. 

Þeir sem hafa fylgst með fréttum heyrðu væntanlega um þær fjölmörgu nauðganir sem áttu sér stað síðastliðnu verslunarmannahelgar.  Við vitum öll hvað nauðganir eru en hugsum kannski ekki mikið um þær dags daglega.  Því eins og okkur hættir svo oft til að hugsa, þetta kemur ekki fyrir mig né mína nánustu.  Staðreyndin er þó allt önnur og sláandi.  Nauðganir eru mun algengari en við höldum, því aðeins brotbrot af þeim sem er nauðgað kæra nauðgunina til lögreglu eða leita sér hjálpar hjá aðilum eins og til að mynda Stígamótum. 

Hver er ástæðan fyrir því að svo margir gera ekkert í málinu?  Nauðgun er langt því frá þolandanum að kenna!  Það vill brenna við að þolandinn telji sig eiga einhvern þátt í nauðguninni og fari jafnvel að réttæta gerðir nauðgarans.  ,,ég get sjálfri mér um kennt, ef ég hefði ekki verið í svona flegnum bol eða stuttu pilsi hefði nauðgarinn ekki séð ástæðu til að nauðga mér.”  Hvað stúlka sem er á að geta klætt sig eftir sínum eigin stíl án þess að eiga það á hættu að vera áreitt. 

Aldrei má segja að hún hafi gefið nauðgaranum tilefni til að nauðga sér vegna klæðaburðar.  Nauðgun er sá glæpur sem kemst næst manndrápi, því þeir sem er nauðgað jafna sig seint og í sumum tilvikum aldrei.  Hvað það er sem fær menn til að fremja svo hræðilegan glæp er ekki auðsvarað.  Sumir hverjir hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku og vilja að aðrir þoli það sama og þeir máttu þola.  Þetta er ein af ástæðunum en þær eru fjölmargar og sumar hverjar óþekktar. 

Því vil ég benda ungum stúlkum, því þær eru í mestri áhættu, á að fara varlega því nauðgari gæti reynst hvar sem er og úr öllum stigum þjóðfélagsins.  Ég skrifa þessi orð ekki til að hræða þig lesandi góður heldur vekja þig til umhugsunar.  Ekki vera ein síðla kvölds eða næturlangt.  Haldið hópinn því ekki viljum við að skemmtilegir tímar eins og útilegur breytist í martraðir.  Farið að öllu með gát og eins og móðir mín hefur sagt oft : Ekki fara upp í bíla eða á brott með ókunnugum.


tvöfaldan asna með lambinu

Við lifum í þróuðu upplýsingasamfélagi, vel menntaðir unglingarnir trúa ekki kerlingabókum, þeir vita að hinn alræmdi fyrsti sopi mun ekki steypa þeim í glötun. Reyndar getur hann kveikt neistann í þeim fáu prósentum sem eru genetískir alkóhólistar, svo ég slái varnagla. Hugsanlega verður í framtíðinni hægt að einangra þennan erfðavísi og láta viðkomandi einstakling fá viðvörun.

En alkóhólistar þurfa náttúrlega að drekka nokkuð stíft og lengi til að þróa sjúkdóminn og missa stjórn á drykkjunni og lífi sínu. Því fyrr sem maður byrjar að drekka þeim mun meiri hætta er á alkóhólisma, það staðfesta rannsóknir og þær staðfesta einnig arfgengi. Barn alkóhólista sem byrjar að neyta áfengis 16 ára eða yngri er víst í fimmfalt meiri hættu en venjulegir unglingar.

 

Mér er minnisstætt þegar ég fór með nokkrum háskólanemum á Lækjarbrekku þar sem við fengum okkur ljúffenga lambasteik. Allmargir pöntuðu sér rauðvín með matnum en einn úr hópnum hrópaði upp að hann vildi bara tvöfaldan asna með lambinu og gott ef annar svolgraði ekki vodka í kók. Kannski sötra sannir karlmenn ekki léttvín, a.m.k. gáfust flestir upp á gutlinu eftir matinn og fengu sér eitthvað sterkara. Síðan upphófust þessi vanalegu vandræði sem allir þekkja, þeir sem missa stjórn á drykkjunni missa um leið stjórn á hegðun sinni og úr verður ástand sem getur sveiflast frá leiðindum til lífsháska.

 

Ég er  sannfærður um að margir geti bætt drykkjusiði sína. Atferlissálfræðingar segja að ofdrykkja sé lært atferli sem hægt sé að aflæra, m.ö.o. það er hægt að kenna fólki að fara betur með vín. Ekki þó alkóhólistum. Við verðum að gera greinarmun á sjúklegri fíkn og slæmum ávana. Óæskilega hegðun má bæta en ég efast reyndar um að æska vor geti í framtíðinni valið hófdrykkjubraut í áfangaskólum landsins og ég felli mig ekki við það viðhorf sem mér finnst skína í gegn hjá vini mínum (og e.t.v. meginþorra þjóðarinnar) að það sé óskaplega eftirsóknarvert að neyta áfengis, nánast nauðsynlegt. Þótt fráleitt kunni að virðast þá er til líf án áfengis og það líf er ekki litað af eymd og volæði, eftirsjá eða öfund.

 

Víst er erfitt að halda slíkum skoðunum fram í þjóðfélagi áfengistískunnar þar sem fullorðna fólkið, fyrirmynd æskunnar, blótar Bakkus opinberlega eða á laun, af áfergju, fíkn, vana, nautn, eða bara til að vera með. Mér finnst ég hins vegar hafa þær skyldur gagnvart börnum mínum og nemendum að benda á þá einföldu staðreynd að við eigum val og það geti líka haft marga kosti í för með sér að láta vínið eiga sig.

Þetta er frelsi.

Valfrelsi.

 

En frelsið er ekki taumleysi, það krefst sjálfsaga. Sá sem kemst að því að hann þarf ekki að nota áfengi er frjáls. Andstæðurnar eru ekki þær að annað hvort hangi maður edrú heima í fýlu eða drekki sig fullan og skemmti sér með félögunum. Það er ekki einungis hægt að lifa án áfengis, það er líka hægt að skemmta sér án þess, meira að segja leikur einn að njóta matarins án þess að hafa rautt eða hvítt í staupi.

 

Mér finnst ég vera rétt að byrja en þykist þó vita að mál er að linni. Ég á mér ósk um heill og hamingju æsku landsins til handa og að unglingarnir okkar átti sig á því að það er ekkert hallærislegt að lifa lífinu allsgáður. Bakkus er hverfull vinur og það gerir lífið á margan hátt þægilegra að láta hann eiga sig. Heilbrigt líferni er eftirsóknarvert, þar er ekki rúm fyrir vímuefni og vonandi skilur fólk, hvort sem það dreypir á víni eður ei, þann sjálfsagða rétt einstaklingsins að feta aðra slóð en fjöldinn. Við eigum að styrkja æskuna á fordómalausan hátt í því að velja sér heilbrigðan lífsstíl, í því viðhorfi eru raunverulegar forvarnir fólgnar.


kynferðisofbeldi

Afleiðingar kynferðisofbeldis : 

Yfirlýsingarnar hér að neðan eru nokkuð dæmigerðar fyrir þá einstaklinga sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi. Þegar þú ferð yfir listann getur þú fundið hvort einhverjar þeirra eiga við þig.
Ef svo er hafðu þá samband.

Sjálfsálit

  • Mér finnst ég vera skítug, eins og það sé eitthvað að mér...
  • Ég er öðruvísi en annað fólk...
  • Ef fólk þekkti mig eins og ég er þá hafnaði það mér...
  • Ég hata sjálfa mig...
  • Ég er misheppnuð, ég á erfitt með að skila af mér góðu verki...


Tilfinningar mínar

  • Ég held að tilfinningar skipti ekki miklu máli...
  • Yfirleitt veit ég ekki hvernig mér líður...
  • Ég er oft leið eða þunglynd...
  • Ég verð óörugg þegar allt er rólegt og þægilegt..
  • Ef ég slaka á, þá missi ég stjórn á tilfinningum mínum...


Líkami minn

  • Líkami minn er oft dofinn, tilfinningalaus...
  • Ég hlusta ekki vel á líkama minn, (svengd, þreyta, verkir)...
  • Ég svelti mig eða borða og kasta upp...
  • Mér finnst líkami minn ljótur...
  • Ég nota áfengi eða lyf meira en ég held að ég ætti að gera...


Náin kynni

  • Mér finnst ég oft vera einangruð, eins og ég sé frá annarri plánetu...
  • Mér líður vel með vinum mínum en á erfitt með elskhuga...
  • Ég á erfitt með að treysta fólki...
  • Ég held að fólk muni yfirgefa mig...
  • Ég á erfitt með að segja NEI...


Kynlíf

  • Ég forðast kynlíf, innst inni óska ég þess að þurfa aldrei að lifa kynlífi framar...
  • Ég fæ ekki mikla ánægju út úr kynlífi, yfirleitt stunda ég kynlíf fyrir aðra...
  • Ég leita eftir kynlífi sem mig langar þó ekki í...
  • Ég er best í kynlífi...
  • Ég á erfitt með að vera "á staðnum" í kynlífi...


Börn og foreldrar

  • Ég á erfitt með að sýna börnunum blíðu...
  • Ég á erfitt með að setja börnunum mörk...
  • Ég á það til að ofvernda börnin...
  • Mér finnst ég vera ófullkomið foreldri...
  • Börnin mín hafa verið beitt ofbeldi...


Stórfjölskyldan mín, ættin

  • Samband mitt við fjölskylduna er mjög þvingað...
  • Ég á erfitt með að setja fjölskyldunni mörk...
  • Sumir fjölskyldumeðlimir hafa hafnað mér (eða ég þeim)...
  • Ég get ekki verið heiðarleg gagnvart fjölskyldu minni...
  • Ég verð brjáluð þegar ég umgengst fjölskylduna mína...

Líkamlegt og andlegt ofbeldi

Líkamlegt ofbeldi er margskonar, allt frá saklausum slagsmálum upp í stórfelldar líkamsárásir , pyntingar og morð.  Það er ágætt að hafa í huga að flest manndráp hefjast með slagsmálum eða einu höggi, fáir hefja slagsmál með það í huga að drepa einhvern.  Það eru mörg dæmi um að eitt högg drepi mann.
               
Andlegt ofbeldi er ósýnilegt eða dulbúið ofbeldi og þess vegna getur verið erfitt að koma auga á það.  Andlegt ofbeldi er algengt innan fjölskyldna, makar beita hvor annan andlegu ofbeldi, foreldrar beita börn sín andlegu ofbeldi og börn beita foreldra sína andlegu ofbeldi.

Kannast þú við að kýla í öxlina á félaga þínum, hrinda eða pota í hann og segja svo:
Hvað er þetta maður þetta er bara grín.  Öllu gríni fylgir nokkur alvara og svona grín getur meitt.  Sá sem verður fyrir gríninu getur lítið annað gert en brosað, annað væri hallærislegt þar sem þetta var nú bara grín.  Það er á hreinu að engum finnst gaman að láta pota í sig, hrinda sér eða kýla sig dag eftir dag, ekki þér heldur.  Svona grín er líka ofbeldi !

Ef þú hlustar vel á krakka í kringum þig heyrirðu sjálfsagt orð eins og: fíflið þitt, fáviti, ertu algjör hálfviti, asni, eða homminn þinn notuð mjög oft, líka í vinahópum.  Margir hafa vanið sig á að tala í allt of neikvæðum tón til þeirra sem þeim þykir vænt um.  Ef þú heyrir slíka neikvæðni frá vinum þínum á hverjum degi er ekki skrýtið þótt sjálfsmyndin er í ólagi.  Hafðu þetta í huga þegar þú talar við vini þína.

Ef þú ert mikið í tölvuleikjum eða horfir oft á ofbeldisfullar bíómyndir er mjög mikilvægt að gleyma ekki að sá heimur er ekki raunverulegur og persónur í bíó og tölvuleikjum þola mun meira ofbeldi er nokkurn tíma við ( sorrý þú ert ekki með níu líf og þér vaxa ekki nýir útlimir ef þú tapar þínum ).  Ekki gleyma því að leikir og kvikmyndir eru full af tæknibrellum og sýna alls ekki rétta mynd af raunveruleikanum.

Hefur þú einhvern tíma staðið í hópi í kringum slagsmál og öskrað ,,slagur,slagur” ...  eða bara staðið og horft þögull(l) á?  Hvarflaði að þér að þú værir að hvetja til ofbeldis með áhuga þínum?

Strákum finnst stundum að þeir þurfi að sanna karlmennsku sína með því að ,,lumbra” á einhverjum og stundum ýta stelpur ómeðvitað undir þá trú hjá þeim.  Það er líka þekkt að sumir leiti hreinlega uppi slagsmál sér til skemmtunar, yfirleitt í því skyni að sýna félögunum hvað þeir eru sterkir og kúl.

Eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi er ekki óeðlilegt að finna fyrir :

  • Sekt- finnast næstum því að þetta hafi verið manni sjálfum að kenna og þjást af samviskubiti.
  • Skömm- skammast sín fyrir að hafa verið á staðnum þegar ofbeldi átti sér stað, fyrir að hafa ekki getað afstýrt því, fyrir að vera veikari aðilinn.
  • Ótta- heimurinn er ekki öruggur lengur.  Maður gerir sér grein fyrir að allt getur gerst.
  • Reiði- það er eðlilegt að verða óhamingjusamur, leiður og sorgmæddur yfir því sem gerðist, jafnvel finna fyrir tímabundnu þunglyndi.

18 ára strákur segir frá:  

"Ég er ekki ofbeldishneigður en maður verður það samt af dópinu.  Maður tekur svona æðisköst, eins og með foreldra mína, mér þykir heví vænt um þau og myndi aldrei gera þeim neitt, en samt er maður kannski að rífast við þau og svo allt í einu tekur maður eitthvað upp, til dæmis glas, og dúndrar því í jörðina.  Eiturlyfin fokka upp í hausnum á manni.  Ef  maður er að labba á götu og einhver rekst í mann þá getur maður verið svo fokkdup ´í hausnum að maður ræðst bara á hannvég hef meitt fólk, vini og ókunnuga, alltaf í neyslu (engin afsökun )."

Heimild: Úr bókinni Hvað er málið frá JPV útgáfu


löngun í skjótfenginn gróða

SKJÓTFENGINN gróði freistar allra og það er áreiðanlega skýringin á því að Íslendingar hafa eytt milljörðum króna í alls konar happdrættismiða á undanförnum árum. Happdrættin, lottóin, gullnámurnar og hvað þetta nú heitir eru fyrir löngu orðin fleiri en hægt er að telja í fljótu bragði. Auðvitað er málstaðurinn góður, svona oftast, en því miður er mun ólíklegra að málstaðurinn opni budduna en sú löngun mannsins að vilja verða ríkur án þess að hafa fyrir því.

Flestir gera sér þó grein fyrir þeirri staðreynd, að sjaldnast eignast nokkur maður nokkurn skapaðan hlut án þess að hafa fyrir því. Þess vegna stunda menn vinnu og fara mánaðarlega með reikningabunkann sinn út í banka, greiða skuldirnar og reyna að láta afganginn endast sem lengst. En væri nú ekki gott ef . . . ? Og svo er farið út í næstu sjoppu til að kaupa lottómiðann.

Þar sem svo grunnt er á þessari löngun er ekki furða þótt skynsamasta fólk missi fótanna þegar skjótfenginn gróði er í augsýn. Þannig fór til dæmis fyrir fjórum Íslendingum, sem voru í sólarferð á Kanaríeyjum fyrir nokkru. Þegar fólkið var að rölta frá ströndinni einn daginn kom að því ungur piltur sem rétti fram skafmiða og bauð fólkinu að freista gæfunnar, án þess að greiða krónu fyrir. Auðvitað þótti þetta undarlegt, en það sakaði ekki að reyna.

Einn fjórmenninganna fékk vinning, einhverja tugi þúsunda af pesetum og taldi sig að sjálfsögðu hafa himin höndum tekið, enda aldrei unnið í happdrætti áður. En þá kom örlítið babb í bátinn. Pilturinn ungi var að vísu enn ákaflega vingjarnlegur og stimamjúkur, en hann hvatti fólkið til að koma með sér á nærliggjandi hótel, því það væri innifalið í vinningnum að skoða hótelið og þar væri vinningurinn síðan afhentur. Svona stór vinningur kallaði auðvitað á umstang, að sögn piltsins, enda aðeins fjórir happaskafmiðar með þetta háum vinningi á öllum Kanaríeyjum.

Og svo var farið á hótelið, þar sem tók við japl og jaml og fuður, allt þar til Íslendingarnir voru komnir inn í stóran sal, þar sem fjöldi fólks sat við borð, ein hjón við hvert og hjá hverju einn sölumaður. Lesendur eru sjálfsagt farnir að átta sig á, að þessir landar þeirra höfðu lent í klónum á sölumönnum, sem stunda að selja fólki svokallaðan orlofsrétt í hótelum á sólarströndum.

Íslendingarnir fjórir höfðu heyrt af þessum óprúttnu sölumönnum áður en þeir héldu á sólarströnd, svo þeir gættu sín og gengu út áður en þeir höfðu flækst í svikavefinn. Það er hins vegar til marks um mannlega náttúru og þessa umtöluðu löngun í skjótfenginn gróða, að þrátt fyrir fyrri vitneskju og þrátt fyrir að sífellt kæmu upp nýir fyrirvarar varðandi "vinninginn" þá hélt fólkið lengi í vonina um að fá nú eitthvað fyrir skafmiðann góða.

Því er við þessa stuttu sögu að bæta, að skömmu eftir að fjórmenningarnir sluppu úr klóm svikahrappanna urðu þeir vitni að því er sami ungi sölumaðurinn afhenti hjónum nokkrum skafmiða og að sjálfsögðu var stóri vinningurinn á öðrum miðanna. Íslendingarnir helltu sér yfir sölumanninn og vöruðu hjónin við að skipta við hann, en þau horfðu fjarrænu bliki á skafmiðann og létu aðvaranir sem vind um eyru þjóta. Þau þráðu skjótfenginn gróðann.

Til allrar hamingju vara flestir sig á tálsýn skyndilegs og fyrirhafnarlauss ríkidæmis. Því er þó ekki svo farið um alla. Fyrir skömmu var fjallað um spilafíkn á síðum Morgunblaðsins. Þar lýsti einn þessara fíkla líðan sinni og líkti henni við þrá fíkniefnaneytanda eftir næsta skammti. Sá fíkill var búinn að steypa sér í 16 milljón króna skuldir áður en yfir lauk. Í þessari umfjöllun var einnig rætt við sérfræðinga um hugsanlega orsök spilafíknarinnar.

Þeir sögðu að reynt hefði verið að finna sameiginleg einkenni hjá spilafíklum og var ýmislegt nefnt til sögunnar, svo sem saga um áfengissýki eða spilafíkn í fjölskyldunni, vandamál í samskiptum innan fjölskyldunnar, gildi peninga hefði verið ofmetið í fjölskyldunni og fleira í þeim dúr, auk þess sem spilafíkinn einstaklingur reyndist oft hafa kynnst fjárhættuspili snemma á ævinni, með þeim hætti að það hafi verið mikils metið.

Það var einmitt þetta síðasta atriði sem vakti dálítinn óhug. Sú kynslóð, sem nú er að vaxa úr grasi, hlýtur síðar meir að geta haldið því fram að fjárhættuspil hafi verið mikils metið í uppeldi hennar. Börnin eru vitni að því að foreldrarnir eyða reglulega háum fjárhæðum þegar þeir freista gæfunnar, peningum sem gætu bætt hag fjölskyldunnar en hverfa þess í stað út í óvissuna. Heilu skemmtiþættirnir sem fjölskyldur fylgjast með saman eru helgaðir duttlungum heilladísanna og fjölmiðlar hampa þeim sem detta í lukkupottinn.

Sem betur fer er það nú þannig að fjöldi fólks spilar í happdrætti af einu eða öðru tagi án þess að eyða í það fjármunum sem um munar því það kann fótum sínum forráð. Og sumir lenda óneitanlega í lukkupottinum. Málið er hins vegar orðið alvarlegt þegar þrá eftir skjótfengnum gróða leiðir fólk á glapstigu svo það missir sjónar á raunveruleikanum.


lifandi / dauð

Ég varð einu sinni fyrir ofbeldi. Hræðilegu ofbeldi. Ég ver grátt leikin og illa farin. Það versta var samt að ofbeldismaðurinn skildi eftir púka inn í mér. Andstyggilegan púka sem hann tróð beint inní fallegt hjarta mitt. Þá hélt ég að hjarta mitt væri ekki fallegt lengur, því það var fullt af þessum ljóta púka.

Ég var ringluð og vissi ekki hvað ég átti að gera. Ofbeldismaðurinn var farinn en púkinn var á þessum stað og vantaði rödd. Svo að ég gaf honum mína. Það hefði ég kannski ekki átt að gera, en það var eina leiðin sem ég rataði þá.

Og púkinn tók til óspilltra málanna. Hann hafði alltaf nóg að segja. Hann gagnrýndi allt sem ég gerði og honum tókst alltaf að benda mér á allt sem miður fór. Ekkert var nógu gott fyrir hann, það var sama hvað ég vandaði mig mikið, hann gerði ætíð stólpagrín að mér og hló þessum ískrandi, illgirnislega hlátri sínum. Hann sagði að ég væri ljót og vond persóna.

Hann sagði að líkami minn væri svo afskræmilegur að ég ætti ekki að láta eðlilegt fólk sjá mig. Stundum grét ég þegar hann lér sem verst, en þá hlakkaði í honum og hláturinn ómaði hærra en nokkru sinni.

Púkinn varð hluti af lífi mínu og eina leiðin sem ég kunni til að lifa með hann í hjartanu mínu var að vera hluti af mér og ég leyfði honum að trúa því. Ó hvað ég var eftirlát við þessa andstyggð.Og reyndar ruglaðist ég iðulega í ríminu. Hvað var ég að segja og hvað var hann að segja? Það er reyndar ekkert skrýtið, ég hafði gefið honum röddina mína. Svona leið langur tími. Þetta var tíminn sem púkinn notaði til að tæta mig í sig og honum gekk vel.

Þangað til dag einn að ég tók ákvörðun. Ég tók þessa ákvörðun af því að ég er lifandi.Ég ákvað að lifa áfram, en ég ætlaði að hætta að vera fórnarlamb ofbeldismannsins og púkans. Það var eins og að klífa himinhátt fjall. Fjall sem var fullt af grjóti og hrikalegum skriðum. Oft hrasaði ég svolítið aftur niður, en aldrei mjög langt. Ég stóð alltaf á fæturnar aftur, því upp skyldi ég fara. Púkinn skammaðist og reifst alla leiðina og vissulega hlustaði ég oft á hann. Mér fannst hann vera eins og þungur steinn í hjarta mínu sem æ erfiðara var að burðast með. Ég fann núna að púkinn var sko enginn hluti af mér og hafði aldrei verið.

En það var erfittt að sannfæra hann um það, hann heyrði nefnilega aldrei til mín. Hvernig gat ég talað inn í hjartað á mér Púkinn fór létt með að tjá sig, ég talaði alltaf fyrir hann sem fyrr.

Ég fann að hann var að hægja á ferð minni og ég vissi líka að ég kæmist aldrei alla leið með hann inní mér. Ég hugsaði ráð mitt og allt í einu vissi ég hvað ég gæti gert.
Ég lagðist niður í grænt og fallegt gras og fyllti skilningarvit mín öll með lífinu. Þá fór ég með sál mína og leitaði inn í hof mitt. Þar fann ég sterkan vin og horfði á hann þar til hendur mínar urðu logagylltar.

Og ég fór inn í hjarta mitt og sá hvað allt var þar fallegt, nema púkinn. Með sólina í höndunum reif ég púkann úr brjósti mínu og skildi aðeins eftir fegurðina. Púkann setti ég upp á öxlina mína, þar sem hann grenjaði af ótta við birtuna. Ég tók af honum rödd mína og hann neyðist til að nota sína eigin.

Þegar ég opnaði augu mín næst, sá ég púkann í sinni réttu myndi í fyrsta sinn. Hann var lítill og horaður. Ræfilslegur og aumkunarverður. Og ég fann að hann myndi ekki segja mér til framar, Hann reyndi nú samt eins forhertur og hann er. En ég svaraði honum fullum hálsi. Rödd mín var sterk og hljómfögur, en hann skrækti bara eitthvað, samhengislaust og mjóróma.

Nú leið mér vel. Upp frá þessu hefur púkinn hangið á öxl minni, hálfmeðvitundarlaus og ruglaður. Hann röflar stundum eitthvað en þegar ég læt hann útskýra sig þá getur hann það ekki og þagnar.

Púkinn má alveg vera á öxlinni, því með sinni eigin rödd segir hann ekki margt sem hlustandi er á . Í hjarta mitt fær hann aldrei að koma framar, ég á það sjálf.
Ég er víst falleg manneskja og ég er líka svolítill sigurvegari



30 einkenni fíknar

  1. Hefur barnið þitt verið úti alla nóttina án leyfis? ( áður en þú segir ,,það gera allir krakkar,” þau gera það nefnilega ekki öll.
  2. Hefur þú fundið hluti í herbergi hans/hennar, sem ekki eiga þar heima ?
  3. Er barnið undarlegt til augnanna þegar það kemur heim?
  4. Er barnið augljóslega í vímu þegar það kemur heim?
  5. Hefur barnið meitt systkini sín?
  6. Hefur barnið hagað sér ósæmilega á opinberum samkomum þar sem önnur börn haga sér vel ?
  7. Hefur yfirkennari eða skólastjóri hringt til þín vegna sonar þíns eða dóttur ?
  8. Hefur honum/henni verið vísað úr skóla ?
  9. Eru einkunnir barnsins verri en í fyrra ?
  10. Skrópar hann/hún ?
  11. Er barnið hætt að taka þátt í íþróttum eða skólastarfi sem það hafði ánægju af áður fyrr?  Fer hann ekki á fótboltaæfingar eins og áður ? er hún hætt í danstíma.
  12. Hefur klæðnaður barnsins breyst, jafnvel þegar miðað er við klæðaburð félaganna?
  13. Er barnið hætt að vinna húsverkin sín af áhuga ? er afsökunin ,,Ég þarf að skreppa út”?
  14. Hittir barnið vini sína oft á skólalóðinni eftir skóla?  Skólalóðir grunn og framhaldsskóla eru kjörinn sölu og neyslustaður á kvöldin og um helgar.  Foreldrarnir eru að vonum ánægð með að séu á skólalóðinni með félögunum en ekki á Hlemmi í óreglu.  Auðvitað viljum við trúa börnunum okkar.  En þetta er ekki spurning um siðferði, það er við erfiðan sjúkdóm að eiga.
  15. Talar barnið um frábær teiti, vikur og mánuði frammí tímann ? ( Ég get ekki beðið eftir að verða tvítug/ur og komast og komast í Ríkið! Þá er sko hægt að detta í það! )  þegar þú minnist á einhvern sem hefur hætt að drekka, segir barnið þá ,, En hvað með kampavín á Gamlárskvöld ?” og þetta er um jónsmessuleytið.
  16. hefur barnið einhverju sinni stært sig af að hafa drukkið alla undir borðið ?
  17. notar barnið orðið partý sem sagnorð fremur en nafnorð? (t.d. ef dóttir þín er að fara í veislu, ræðir hún þá almennt um veisluna, frekar en fólkið sem verður þar? )
  18. vill barnið gista oft hjá vinum sínum? Er mömmu Siggu sama þó þær fái sér bjór? Var þér sagt að mamma Siggu yrði heima, en hún var það ekki ? Aðgættu allar staðreyndir.
  19. finnur þú tómar bjór og brennivínsflöskur undir rúmi barnsins?
  20. hangir barnið þitt í verslunarmiðstöðvum ? Er áfengisútsala þar ? Kaupa unglingarnir áfengi þar eða fá þau einhvern fullorðin til að kaupa fyrir sig ?
  21. hefur vinahópur barnsins augljóslega breyst ?
  22. hverfa lyfin úr lyfjaskápnum smátt og smátt ? Lyfjaskápurinn er ein helsta vímuefnauppspretta barna og unglinga.
  23. er áfengið á heimilinu ( ef þú átt vín ) útþynnt?  Hafa gestir þínir einhvern tímann minnst á ,,óvenjulega léttar blöndur” þegar þú hefur blandað eins og venjulega ?
  24. fer barnið undan flæmingi þegar þú spyrð einhvers ?
  25. hverfa peningar ú seðlaveskinu þínu ? Úr sparibaukum á heimilinu ?
  26. endast vasapeningarnir aldrei út vikuna ? Fer sumarhýran jafnhraðan ? Er alltaf verið að biðja um aukafjárveitingar ?
  27. hverfa hlutir af heimilinu ?
  28. hefur unglingurinn verið tekinn af lögreglu vegna ölvunar við akstur ?
  29. hefur þú einhvern tíma íhugað að leita sérfræðiaðstoðar vegna hegðunar barnsins/unglingsins ?
  30. hefur hann/hún einhvern tíma talað um sjálfsvíg, eða reynt að svipta sig lífi ?    

Unglingar í dag

Unglingar eru ekki tímasprengjur Þvert á algenga trú þess efnis að börn, sem virðast vera vel aðlöguð að umhverfi sínu, séu í raun tifandi tímasprengjur þegar að unglingsárum kemur hafa rannsóknir sýnt að flestir unglingar aðlagast og hagnast af lífsreynslu sinni.

Án mikils óstöðuleika finna þeir jafnvægi snemma á lífsleiðinni milli langanna og þarfa sinna og væntinga fjölskyldu og samfélagsins. Þetta jafnvægi virðist flestir ná án mikilla erfiðleika eða baráttu.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að flestir þeir sem lenda í erfiðleikum á unglingsárum ná sama stöðuleika og aðrir í lífi sínu þegar á fullorðinsárin kemur. Rannsóknir af þessum toga, þrátt fyrir mjög jákvæðar niðurstöður, mæla sjaldan með hvaða hætti ungt fólk er aðstoðað í gegnum þá erfiðleika sem upp kunna að koma á unglingsárum.

Það er væntanlega vegna þess að sú aðstoð getur verið svo margbreytileg að erfitt er að gera skilmerkilega grein fyrir henni.

En það er ýmislegt sem uppalendur geta haft í huga þegar kemur að því að stuðla að góðri andlegri heilsu barna sinna og minnka líkur á vímuefnaneyslu. Mikilvægt er að tala við börnin og geta átt regluleg og einlæg samskipti þau. Með því eiga uppalendur auðveldara með að þekkja þau málefni og tilfinningar sem börnin glíma við hverju sinni.

Þá er mikilvægt að uppalendur séu þátttakendur í lífi barna sinna. Börn sem eiga foreldra sem taka þátt í starfi þeirra og leik eru ólíklegri til þess að leiðast út í fíkniefni eða afbrot. Mikilvægt er að setja börnum einnig reglur. Þær þurfa að vera skýrar og stuðla að stöðugleika í lífi þeirra.

Uppalendur eru einnig fyrirmynd og mega því ekki sýna af sér óábyrga hegðun. Börn líkja eftir fullorðnum og óhófleg notkun áfengis uppalenda, fíkniefnaneysla eða fordómar gagnvart einhverjum þjóðfélagshóp gæti fengið barn til að draga þá ályktun að slík hegðun og viðhorf séu í góðu lagi. Þá geta uppalendur aðstoðað börn sín við að velja sér vini.

Allir hafa heyrt orðið “hópþrýstingur”. Börn vilja auðvita, eins og aðrir, að þeim sé vel tekið af jafningjum og stundum getur það orðið til þess að þau framkvæma hluti sem þau venjulega myndu ekki gera.

Hlutverk foreldra í að þroska félagshæfni er því mikilvægt og mun hafa áhrif þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Uppalendur þurfa einnig að vera meðvituð um hvað börnin þeirra eru að gera.

Rannsóknir hafa sýnt að séu foreldrar vel upplýstir um hvað börn þeirra eru að gera dags daglega minnkar líkurnar á því að þau lendi í fíkniefnum eða afbrotum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband