Færsluflokkur: forvarnir og fræðsla

Við byrjuðum öll að drekka 13 ára

Ég fékk fjóra ósköp venjulega unglinga í spjall úr höfuðborginni til að komast að því hvernig þau skemmta sér.  Þessir krakkar sem eru í 10.bekk, koma frá ósköp venjulegum heimilum, óbrotnum fjölskyldum og standa sig vel í skóla,  s.s. engin vandræðabörn.

En þrátt fyrir öll þessi venjulegheit kom í ljós í spjallinu að þau eru engir englar.  Þar með fellur kenningin sem foreldrar vilja svo gjarnan halda í, að unglingarnir séu slæmir ef heimilið er slæmt.  Krakkarnir vildu ekki segja til nafns, því þau ætluðu að leiða mig í allan sannleikann um heim unglinganna og þeim fannst ekki líklegt að foreldrar þeirra gætu tekið honum öllum áfallalaust.

Við byrjuðum öll að drekka og reykja 13 ára, þó strákarnir hafi ekki komist uppá lagið með það, þá reykja þeir á fylleríum.  Fyrst rændi maður frá mömmu og pabba, sullaði einhverju saman en svo byrjaði maður að kaupa landa.  Það er mjög auðvelt að verða sér úti um hann, maður hringir í símboða, svo eru líka nokkrir krakkar að selja.  Lítrinn kostar 1500 krónur.  En núna kaupum við bara landa ef við komumst ekki í ríkið.  Frændi eða frænka kaupa fyrir okkur, það eru líka nokkrir í skólanum sem fá afgreiðslu í ríkinu. 

Annars er pabbi minn búinn að sætta sig við það núna að ég drekki, hann fer núna í ríkið fyrir mig, mér finnst það mjög gott.  Ég hætti þá að drekka sterk vín, hann kaupir fyrir mig léttvín og bjór.  Mér finnst hann hafa kennt mér að drekka.  Núna vil ég bara góð vín, áður keypti ég bara það sem var ódýrast og sterkast,” segir ein þeirra.

,,Foreldrar mínir komust að því að ég drekk og buðust þá til að fara í ríkið fyrir mig, í stað þess að ég væri að drekka landa.  En svo þegar ég bið þau þá segja þau bara nei,” segir annar.  Ég kaupi helst það sem er sterkast, vodka eða Sambucca . Við förum svona 4-5 sinnum á fyllerí í mánuði.  Það fer eftir því hvað er að gerast, stundum er fullt af partýum að fara í á sumrin fer maður meira niður í bæ og svo er líka hægt að fara í félagsmiðstöðvar en þó er best að vera bara einhversstaðar í heimahúsi.

Við byrjuðum öll að reykja hass í 9. bekk það var eitthvað spennandi,  öðruvísi víma.  Svo er það ekkert svo hættulegt segja þau.  Við vitum þó að áhrifin geta komið í ljós mörgum árum seinna, en hvað erum við að pæla í því núna.  Hassvíman er svo þægileg.  Maður er svo afslappaðu , hlær voða mikið.  Við reykjum frekar hass þegar við erum með vinum okkar að slaka á.  Við blöndum því sjaldnast saman, víninu og hassinu.  Það fer líka eftir því hvað við eigum mikinn  pening. 

Grammið af hassi kostar 1000-2000 kr. Það fer eftir því hvar maður kaupir það.  Ef maður á mikinn pening borgar það sig að kaupa slatta og selja þá vinum sínum.  En venjulega á maður bara fyrir einu grammi.  Og kaupir það með vinum sínum, þá er það bara 500 kall á mann.  Við reykjum það svona tvisvar til þrisvar í mánuði.  Það er mjög auðvelt að verða sér úti um það, maður hringir bara í símboða eða þekkir einhvern sem þekkir einhvern annan. 

Þegar maður er að drekka getur maður gert það heima hjá sér, það er annað með hassið af því að lyktin er svo sterk og auðþekkjanleg.  Þá erum við úti í bílskúr eða einhversstaðar þar sem foreldrarnir eru ekki heima.

Við fáum vasapeninga og svo bíópening  og svona.  En svo smyr maður sér nesti og fer ekkert í bíó, þá reddast þetta.

En við erum ákveðin í því að fara ekki lengra, við höfum aldrei tekið töflur, spítt eða alsælu.  Það er hættulegt, það vitum við og svo er það svo dýrt, 5000-6000 kr. Samt þekkjum við krakka sem taka spítt.  Þau safna sér pening í svona mánuð, og drekka þá þess á milli. Þessar staðreyndir eru í heimi unglinga í 10.bekk grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Ég  bið þó alla foreldra sem nú grípa andann á lofti að rjúka ekki upp til handa og fóta heldur minnast þess að af fullorðnum læra börn sem fyrir þeim er haft. Þeim liggur á að kynnast heimi fullorðna og skaðsemi og áhrifum áfengis og fíkniefna fræddu barnið þitt áður enn það verður of seint.


Það er til lausn

Spilafíkn er ekki einungis slæmur ávani, heldur mjög erfiður og skæður sjúkdómur. Á svipaðan hátt og fólk verður háð áfengi eða fíkniefnum verða spilafíklar haldnir óstjórnlegri löngun til að leggja undir fé í ýmis konar fjárhættuspilum. Fjárhættuspil snúast um spennuna og hasarinn sem fylgir fjárhættuspilum er eins og að taka róandi lyf eða örvandi til að koma spilarnum í rétta stuðið og líðanina.

Þessi áhrif hverfa svo aftur þegar fjárhættuspilarinn þarf að horfast í augu við raunveruleikann, tapaða peninga og tíma. Eftir sem stressið og álagið eykst finnst fjárhættuspilaranum að hann verði að leita sér fróunar í enn meiri spilamennsku. Afleiðingin verður stigversnandi tilfinningalegt og fjárhagslegt öngþveiti sem getur leitt til hruns bæði fjárhættuspilarans og fjölskyldu hans. Spilafíkn getur þjakað fólk á öllum aldri jafnt unga sem aldna af báðum kynum, sama hver staða þeirra er eða fjárhagsgeta.

Þegar talað er um úrræði við spilafíkn er átt við hvers konar samstarf spilasjúklingsins við einhvern meðferðaraðila, hver svo sem það er. Hentugasta formið er stuðningshópvinna, þar sem spilafíklar vinna saman í hóp undir handleiðslu ráðgjafa. Umræða á stuðningshópfundinum og áætlanir þátttakendanna þurfa að snúast ákveðin verkefni sem við vinnum. Hugsanlegt er að skipuleggja samvinnu í viðtalsmeðferð á þessum grundvelli, en þeir sem reynsluna hafa mæla eindregið með stuðningshópvinnunni.


Einelti og netið

Góð ráð:

• Leggðu áherslu á að barnið þitt gefi ekki hverjum sem er símanúmerið eða aðrar persónulegar upplýsingar, síst af öllu ókunnugum.
• Ekki svara særandi eða illkvittnum skilaboðum – það hvetur aðeins þá sem senda
• Mikilvægt er að ræða strax við barnið ef grunur vaknar um að það hafi orðið fyrir einelti og leita aðstoðar
• Leggðu áherslu á að barnið svari aldrei texta- eða myndskilaboðum sem það hefur ekki óskað eftir og innihalda óviðeigandi efni.
• Geymdu særandi textaskilaboð og myndir. Það getur verið mikilvægt sönnunargagn komi til lögreglurannsóknar
• Ræddu við barnið um mikilvægi þess að það láti þig vita ef það verður fyrir einhverskonar ónæði eða áreiti af völdum SMS, mynd-eða textaskilaboða, hvort sem það er frá einhverjum sem það þekkir eða ókunnugum.
• Leggðu áherslu á það við barnið þitt, að sömu sömu reglur gildi um samskipti í netinu og í daglegu lífi. Einelti er aldrei ásættanlegt.
• Skoðaðu heimasíðu barnsins þíns og athugaðu sérstaklega hvað er verið að skrifa í gestabókina en þar koma oft ljótar athugasemdir til barnsins ef það er lagt í einelti.
• Skoðaðu tengiliði barnsins þíns á msn, ef mikið er um „blokkeraða“ tengiliði (contact) getur það verið merki um samantekin ráð um að útiloka barnið þitt frá msn skilaboðum. Fáðu leyfi barnsins þíns til að vista msn söguna og með því getur þú fylgst með hvaða skilaboð það er að fá.

Að fikta við vímuefni

Þær breytingar sem verða á hegðun og mörgum hreyfingum hjá unglingi ætti að vera foreldrum vísir að því að hann sé farinn að nota vímuefni. Það er ekki auðvelt að átta sig á því þegar börn og unglingar fara að fikta við vímuefni. Einkennin eru nefnilega oft mjög lík eða mjög svipuð einkennum sem tengjast unglingsárunum, gelgjunni. Það að um líkt sé að ræða, má ekki verða til þess að foreldrar eða ættingjar unglingsins loki augunum og bregðist ekki við breyttri hegðun eða atferli og hugsi sem svo, að einungis sé um dæmigerð einkenni gelgju unglingsins að ræða.

Þegar upp er kominn grunur foreldra, sem er í raun vantraust, vegna breytts ástands, þá á þessi grunur oft við rök að styðjast. Því er nauðsynlegt að tengsl og traust sé á milli foreldra og barna, og foreldrar þekki venjur og áhugamál þeirra. Þá ættu allar grunsemdir foreldra ef upp koma, við rök að styðjast. Foreldrar sem eru vissir í framangreindu geta þá gripið inn í og fiktið verður ekki að fíkn.

Einkenni eða breytt hegðunarmynstur unglinga og stundum barna eru eftirfarandi, og öllum foreldrum ráðlagt að skoða og bregðast við þeim á réttan hátt ef upp koma.

Skyndilegur og breyttur lífsstíll, t.d. á fatnaði, breytt viðhorfi til lífsins, kunningja hópur breytist, og oft tónlist svo eitthvað sé nefnt.


Breyting verður á skapi, mikil reiði.
Lystarleysi kemur upp, hugsi,( þögull) drungi, og syfja.
Góð tengsl við foreldra rofnar, áhugi á fjölskyldunni minnkar, heimboð hunsuð.
Áhugaleysi á því sem var þeim kært að stunda, íþróttir, nám og þau forðast góða vini.
Unglingurinn verður áhugalaus, t.d. á lærdómi og árangur í skóla versnar, og hann finnur sér nýjan kunningjahóp.


Viðkomandi stundar illa vinnu, boðar oft forföll, ástæður vegna fjarvista verða skröksögur.
Sjálfsvirðing dvínar vegna neyslunnar og engin áhugi er á, að þrífa sig, né umhverfi sitt.
Öfgakennd viðbrögð og viðkomandi tekur öllum afskiptum af sínum málum mjög illa.
Staðinn að lygi og oft er um laumulegt hátterni að ræða.Foreldrar gefi vísbendingum gaum.
Þjófnaðir, peningar fjölskyldunnar hverfa, unglingurinn er staðinn að svikum og falsi.
Lögregla þarf oft að hafa afskipti af unglingnum, vegna óreglu eða afbrota.

 

                           Hvað á ég að gera, ef unglingur, barnið mitt lendir í vanda?

Ef þig fer að gruna að unglingur noti vímuefni, er mikilvægt að þú bregðast rétt við. Að finna til vanmáttarkenndar og hræðslu er eðlilegt, en í fæstum tilfellum er barnið í bráðri lífshættu.
Ekki ráðast á barnið með ásökunum, því þá missir þú traust þess. Sýndu umfram allt stillingu.
Ekki ásaka sjálf þig. En neytandinn/unglingurinn, mun ásaka þig, því það er eitt af einkennum/afleiðingum neyslunnar.


Það er hægt að fá upplýsingar um vímuefni á heilsugæslustöðvum, hjá læknum, skólum og á bókasöfnum, forvarnarfélögum og víða á Netinu.
Þekktu vini eða kunningjahópinn og þeirra áhugmál, þannig aukast líkur á því að þú þekkir til, ef um vímuefnamisnotkun er að ræða.
Þú skalt alltaf reyna að þekkja foreldra vina barna þinna. Talaðu við foreldra í svipaðri stöðu ef þú grunar unglinginn/barnið um neyslu á vímuefnum. Reynsla annarra foreldra getur hjálpað þér mikið.

Fræðsla. Þekktar verkanir.

Vímuefni verka með einum eða öðrum hætti á miðtaugakerfið og starfsemi þess. Áhrif vímuefna á það, má rekja til truflunar á starfsemi taugungamóta og efna sem bera boð til tauga, sem stjórna viðbrögðum einstakra líffæra. Þetta veldur því að neysla vímuefna raskar og truflar starfsemi líffæra. Þetta skýrir m.a. breytingar á skynjun, tilfinningum og skapferli.


Þau áhrif sem vímuefni hafa á líkamsstarfsemi og andlega og líkamlega færni, geta haft mikil áhrif. Þunglyndi sem hrjáir oft neytendur ecstacy, er til komið af þessum sökum. Annað dæmi eru áhrif kannabisefna á nýminni og þar með námshæfni. Einnig má nefna heilaskemmdir, sem verða vegna þess að öndun hefur stöðvast um hríð og heilinn ekki fengið nauðsynlegt súrefni í lengri eða skemmri tíma. Þetta er t.d. þekkt í tengslum við sniff.

Neyslan getur því leitt til mikilla og afdrifaríkra breytinga á lífsvenjum, sem rekja má til skertrar getu til þess að takast á við viðfangsefni lífsins og njóta lífshamingju. Þunglyndi er erfitt að fást við, skert námsgeta takmarkar möguleika fólks til þess að nýta sér hæfileika sína, varanlegar heilaskemmdir útiloka fólk nánast frá þátttöku í samfélaginu, o.s.frv.


Ýmis áhrif vímuefna á líkamsstarfsemina geta verið varanleg og lagast ekki þó að neyslunni sé hætt.

 


Af hverju byrjar ungt fólk að nota áfengi eða fíkniefni ?

Af hverju byrjar ungt fólk að nota áfengi eða fíkniefni ?

,,Mér leið illa í skólanum , varð fyrir einelti og kveið fyrir hverjum degi"

,,Mér varð bara rétt pípa í partýi og ég prufaði " 

,,Mér var sagt að hass hefði róandi áhrif á mann"

,,Fannst það ,,cool”

,,Vildi bara vera eins og eldri krakkar”

,,Veit það ekki ,vildi vera með ,

,,Var í hópi með eldri krökkum og "

,,Ætli það hafi ekki bara verið einhver þrýstingur”

,,það var svo töff “

Þetta eru svör nokkurra unglinga sem voru í meðferð til þess að hætta neyslu á vímuefnum 2003.Víst er að sú barátta verður löng og erfið og skilur eftir sig ör alla ævi.   Öll neyttu þau fíkniefna í fyrsta skipti í heimahúsi hjá ,,kunningja” og stóðu venjulega  frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um það fyrirvaralaust um hvort þau ætluðu að prófa.  Öll féllu þau á þessu prófi. 

Þau áttu það öll sameiginlegt að þau eyddu litlum tíma með foreldrum sínum á unglingsárunum......Að vera í góðum tengslum við barnið er eitt það mikilvægasta sem foreldrar geta lagt af mörkum til að hjálpa barninu sínu að forðast neyslu á áfengi og fíkniefnum..
 

Leitaðu aðstoðar ef grunsemdir vakna, það er styrkur , ekki veikleiki


Þú ættir að hætta maður !!

En hvað er drykkjuskapur?

Hvernig gat staðið á því að ég skyldi demba mér útí drykkjuskap þótt rakið sé að ég vildi það alls ekki?

Ég skyldi þó aldrei hafa verið beittur göldrum?

Varla
Eitthvað hefur samt gerst því sjálfur ætti ég best að vita að ég ætlaði aldrei að verða fyllibytta.  En ég varð fyllibytta – og hananú.
Það tók mig mörg ár já mörg ár eftir að ég hætti að drekka að komast til botns í þessu máli, að átta mig á því hvers vegna svona margar fyllibyttur eru fyllibyttur þótt enginn vilji vera fyllibytta.  Við slógum skyldustörfum á frest og misbuðum siðvenjum heimilis og þjóðfélags aðeins vegna þess að tíminn sem ætlaður var til starfa, hvíldar og þátttöku í félagslífi heimilisins fór í ýmiskonar stúss, sem meira og minna var bundið áfengisnotkun,  ég þarf ekki að segja þér að ofdrykkja sé óæskilegt ástand.  Þú veist það. 

Og að yfirlögðu ráði drakkst þú þessi vandræði ekki yfir þig.  Það væri ódrengilegt að ætla þér það.  Við hljótum því báðir að vita hversu mikils virði það er að reyna að opna augu þeirra sem eru að hrapa út úr stigvaxandi tækifærisdrykkju yfir á ofdrykkjusviðið.  Fásinna væri að ætla að þeir héldu sig vera eitthvað meiri menn en við, en þeir haga sér bara þannig.  Þetta vitum við .
Við vorum heldur ekki viðtals.

Vitað er að með elju og skynsemi hefur margur maðurinn búið sér og sínum góð lífsskilyrði, en skynsemin og dugnaðurinn hefur samt ekki dugað til að hamla í móti þeim alkóhólisma sem leyndist í tækifærisdrykkjunni. Í andvaraleysi rúlla þessir ágætu menn yfir hin óþekktu mörk milli tækifærisdrykkju og ofdrykkju og mjakast svo smám saman yfir á svið alkóhólisma án þess að gera sér nokkra hugmynd um hvað er að gerast.  Ég drakk oftar og meira en skynsemi mín sagði að mér væri hollt, og oft drakk ég þegar ég ætlaði mér ekki að gera það og gera frekar eitthvað annað allt annað. 

Þetta er að vera drykkjumaður, verandi eða verðandi alkóhólisti.  Drekki maður við vinnu sem maður þiggur laun fyrir, drekki maður þær stundir sem maður er búinn að selja öðrum, þá byggist sú drykkja á rugli sem kalla má virkan alkóhólisma, því ólíklegt er að vinnuveitanda þyki réttlætanlegt að starfsmaðurinn sé undir áhrifum við störf sín.  Að vísu vitum við að drukkinn maður gerir sér ekki ljósa fötlun sína.  En í því felst engin afsökun, nema ef vera skyldi að hann hafi verið drukkinn þegar hann réði sig til vinnu en þá mætti skipta sökinni á milli verktaka og verksala.  Að líða

síafréttan eða síþunnan mann innan um annað starfsfólk á vinnustað er flónska.  Jafnvel meira en flónska því með þessum misskilningi á bróðurkærleika hefur mönnum oft verið hjálpað inn í þá erfiðleika sem ekki varð ratað út úr hjálparlaust svo ekki sé nú talað um þá lítilsvirðingu sem samstarfsfólki er sýnd með þessu.  Rætur alkóhólisma standa oft í því að upp tekinn ávani verður að gróinni venju, sem hljóðlaust rennur yfir í ástríðu.  Þetta er samt langt frá því að vera eina orsök alkóhólisma en algeng er hún. 

Ekki áttaði ég mig á þróuninni frá sopa til sopa yfir í flösku til flösku og of oft taldi ég hvert fyllerí heyra til undantekninga þótt í verunni væru þau hvert um sig hlekkur í staðlaðri keðju.  Helgarfyllerí getur ekki talist slysafyllerí þegar svo er komið að þurr helgi heyrir til undantekninga.  Virkur alkóhólisti sniðgengur staðreyndir í öllu sem snert getur drykkjusiði eða drykkjuskap hans sjálfs.  Hinir sem drekka en bera gæfu til að halda athygli og skynsemi vakandi gagnvart hugsanlegu niðurbroti á hverju sem gengur og haga sér í samræmi við það, lenda aldrei inn á þessu Alkóhólista sviði þeir eru einhvernvegin öðruvísi en við hinir. 

Þeir haga sér bara öðruvísi.  Alkóhólisti sem veit hvað alkóhólismi er á ekki að þurfa að gera tilraun með brennivín á sjálfum sér eða tilraun með sjálfan sig í brennivíni.  Ef þú ert enn á báðum áttum góði, þá er þetta  lykillinn: enga tilraun. Það eru nógu margir búnir að gera þessa tilraun.  Annaðhvort sættir maður sig við að vera alkóhólisti og drekkur ekki – eða maður sættir sig ekki við það og drekkur.  Algáði alkóhólistinn afturbatabyttan sem er mitt eigið gælunafn á sjáfum mér þegar vel liggur á mér, gerir sér ljóst hvað alkóhólismi er og jafnframt það að hann er alkóhólisti og má ekki smakka vín og gerir það því ekki. 

En gleymi hann sjálfum sér , gleymi því að hann er alkóhólisti  eða telji sig trú um að hann sé bara pínulítill alkóhólisti þá snarast fljótt yfirum.  Þá verður hann á stundinni virkur semsagt stigin eru aðeins tvö ,,virkur” og ,,óvirkur”.  Sennilega er hægt að margfalda það með 5 ef það á að finna það hversu margir þjást vegna ofdrykkju hvers drykkjumanns.  Að nokkur skuli geta sagt að drykkjuskapurinn komi drykkjumanninum einum við er alveg furðulegt.  Drykkjumaðurinn lýgur að því er virðist af lífsnauðsýn. 

Aðstandandinn lýgur á misvíxl allt eftir því hvernig vindurinn blæs í það skiptið.  Oftar er logið í sjálfsvörn, sjaldnar af kvikindisskap.  En þú veist það vinur að í þynnkunni þráum við sannleikann og ekkert nema sannleikann en komum honum ekki frá okkur og viljum ekki hlusta.  Hinir luma líka á sannleika en loka hann inni koma honum ekki frá sér nema í skömmum eða ergelsi en þá er ekki tekið mark á þeim.  Þú þarft því ekkert að vera hissa á því að ég haldi uppá timburmennina, því á því skeiði má nálgast forhertustu fyllibyttur með sannleikann einan að vopni. 

En það er ekki sama hvernig á vopnum er haldið og hvorugur má þykjast hinum stærri virðulegri eða vitrari.  Jafnrétti verður að ríkja.  Annars byrjar leikurinn – þykjustuleikurinn – blekkingar og bull.  En það er ekki nóg að þú vitir þetta vinur.  Hinir þurfa líka að vita þetta en blessaður varaðu þá við að gefa þér sjúss eða pillu, því þá er hreinskilnin rokin ú í veður og vind.  Reyndu að koma þessu til skila til þeirra sem ekki drekka.  Einhverra sem áhuga hafa á þessum málum og geta ekki sætt sig við allt þetta leynimakk sem umlykur drykkjuskapinn. 

Sjálfur á drykkjumaðurinn svo óskaplega erfitt með að brjóta ísinn og leita sér hjálpar ófullur.  Hann er svo barnalega hræddur við puttann sem e.t.v. kynni að verða beint að honum.  Reyndin er nefnilega sú að manni finnst maður vera ræfill, og býst ekki við neinu öðru en fordæmingum á drykkjuskap sinn.  Þess vegna er drykkjumanni svo tamt að segja " ég veit það" ef á drykkjuskap hans er minnst. " ég veit það”."ég veit það".


Reykingar og fyrirmyndir

Reykingar og fyrirmyndir

Flestir unglingar halda að þeir séu ódauðlegir og lifa sínu lífi eins og ekkert geti nokkurn tíma komið fyrir þá og byrja jafnvel að reykja þrátt fyrir að hafa margoft heyrt staðreyndir og reynslusögur um skaðsemi reykinga.
Fæstir ætla að verða reykingarmenn og flestir sem byrja að fikta við að reykja halda að þeir geti haft stjórn á reykingunum.  Þeir komast fljótt að því að svo er ekki.
Þeir sem byrja ungir að reykja eru líklegri til að reykja meira á fullorðinsárum en þeir sem byrja seinna.

Reykingar geta valdið getuleysi hjá mönnum á besta aldri.  Við reykingar minnkar blóðflæði um líkamann og þar af leiðandi einnig í getnaðarliminn. 
Íþróttamenn sem vilja ná árangri reykja venjulega ekki.  Þeir sem reykja ná yfirleitt ekki sama árangri (ekki halda að þú sért undantekning frá reglunni!)

Á heimilum sem báðir foreldrar reykja anda börn að sér tóbaksreyk sem jafngildir því að þau reyki allt að 150 sígarettum á ári.
Börn reykingarmæðra eru yfirleitt smávaxnari við fæðingu og í meiri hættu að fæðast fyrir tímann en önnur börn.  Vöggudauði er að minnsta kosti tvisvar sinnum algengari meðal þeirra sem búa hjá foreldrum sem reykja en barna foreldra sem ekki reykja.

Fáir geta hætt að reykja án þess að finna til óþæginda.  Fyrir flesta er það mjög erfitt og kostar svita og tár.  Góður undirbúningur eykur líkurnar á að þú standist erfiðleikana.  Einna mikilvægast er að gera sér góða grein fyrir því hvers vegna þú ætlar að hætta, svo góða að það komi ósjálfrátt upp í hugann þegar freistingin er að verða þér um megn.

  

18 ára strákur segir frá:  

,,Ef manni finnst töff að reykja, töff að
Nota dóp, töff að lemja fólk, töff að leggja í einelti,
 þá er eitthvað að hjá manni sjálfum.
 Mér fannst þetta töff og mínum vinahópi.
 Við erum allir á leið í fangelsi, í felum eða
 með handrukkara á eftir okkur í dag.” 

 

Reyklaus fyrirmynd

Reynslan sýnir að takist að halda börnum og unglingum frá tóbaksnotkun minnka líkurnar á því til muna að þau byrji að reykja síðar á ævinni.  Því fyrr sem unglingar byrja að reykja þeim mun meira verður líkamlegt tjón þeirra.  Rannsóknir meðal þeirra reykingarmanna sem greinast hafa með lungnakrabbamein sýna að skemmdir í erfðarefni lungnafruma eru mun meiri hjá þeim sem byrjuðu ungir að reykja.  Forvarnir í grunnskólum hafa skilað miklum árangri kannanir sem gerðar hafa verið sýna að árið 2000 reyktu undir 25% fullorðinna íslendinga daglega ( 18-69 ára ) og aldrei hafa færri unglingar reykt hér á landi en það ár.

 

Foreldrar / forráðamenn.

Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn átti sig á því að þeir eru börnum sínum fyrirmynd og geta lagt þeim lið á margan hátt.  Rannsóknir sýna að reykingar og viðhorf nánustu fjölskyldumeðlima hafa áhrif á unglinginn.  En þó að foreldri reyki er ekki þar með sagt að barnið byrji að reykja.  Sýnt hefur verið fram á sterkt samband milli uppeldisaðferða og reykinga.  Foreldrar sem halda aga en útskýra málin um leið fyrir börnunum sínum eru yfirleitt í nánara sambandi við unglinginn en þeir sem beita öðrum uppeldisaðferðum.  Því meiri tíma sem barn ver með foreldrum sínum og í íþrótta- eða tómstundastarf því minni líkur eru á því að það verði fíkni – eða ávanaefnum að bráð.

 

Hér og nú

Nútíðin skiptir unglinga mestu máli.  Framtíðin er ekki á dagskrá ennþá að minnsta kosti.  Þess vegna er mikilvægt að ræða við unglinginn um afleiðingar tóbaksneyslu hér og nú.  Foreldrar geta stutt unglinginn sinn með því að kynna sér það forvarnarefni sem í boði er um reykingar.  Ef unglingurinn er byrjaður að fikta er hægt að ræða við hann og jafnvel koma í viðtal við sérfræðinga.  Um 83% þeirra unglinga sem reykja vilja hætta því og 89% þykir reykingar sóðalegur ávani.  Flestir unglingar gera sér grein fyrir því að það getur verið mjög erfitt að hætta að reykja.  Það skiptir máli að foreldrar og forráðamenn sýni börnum og unglingum stuðning með því að hjálpa þeim að velja reyklaust líf sem vitaskuld er ekki fórn heldur frelsi.

Ást er það ekki bara þriggja stafa orð notað í skáldsögum ?

Ástin skiptist í nokkur svið og til þess að þú fáir sem mest út úr ástarsambandi þurfa öll sviðin að vera virk. Lestu eftirfarandi og athugaðu hvort þér finnist eitthvað vanta upp á hjá þér.

Fyrsta sviðið: Kynlíf

Sama hvað hver segir þá er þetta einn almikilvægasti hluturinn í ástarsambandi. Kynhvötin er ein af frumhvötum mannsins og ef þú ert ekki að sinna manninum þínum, þá gerir bara einhver önnur það. Þetta er kaldur sannleikurinn. Kynlíf gerir ykkur nánari og sambandið tryggara en kynlífið er vinna sem þarf að sinna. Það er svo auðvelt þegar þið eruð þreytt á kvöldin eftir langan vinnudag að sofna fyrir framan sjónvarpið eða inni í rúmi og sleppa kynlífinu. Hugsa, æ ég geri það bara á morgun. Dagar verða að vikum og fyrr en varir koma jólin oftar! Pör sem hætta að lifa kynlífi fjarlægjast hvort annað og verða skilningslaus á þarfir makans. Bryddaðu upp á nýjungum og fáðu sem mest út úr kynlífinu og það mun gefa ástinni mikinn styrk.

Annað sviðið: Vinátta

Hver myndi vilja eiga maka sem er ekki jafnframt þinn besti vinur og félagi sem þú deilir flestu/öllu með. Það er þó nokkuð algengt að pör líti á sig sem par en ekki vini. Þegar á móti blæs er það þó oft vináttan sem heldur fólki saman. Þegar þú ert þreytt og úfin heima í jogginggallanum, þá er það vináttan sem heldur ykkur saman en ekki ástríðan. Maðurinn þinn þarf að vera sá sem þér finnst þú ávallt geta leitað til og treyst og þú verið viss um að hann styðji þig og hvetji þig áfram.

Þriðja sviðið: Rómantík

Ef þú þarft að hugsa þig lengur um en eina mínútu ef ég spyr þig, hvenær áttir þú síðast rómantíska stund með manninum þínum, skaltu athuga málið og gera eitthvað í því. Hvernig var rómantíkin þegar að þið voruð í tilhugalífinu. Þú þarft kannski að rifja það upp og brydda líka upp á nýjungum. Oft nægir ein rós, falleg skilaboð, út að borða 2 ein, helgarferð innan- eða utanlands, kertaljós og notaleg kvöldstund. Rómantík viðheldur ástríðu í hjónabandinu og kemur í veg fyrir að þið séuð eins og systkini eða góðir vinir.

Fjórða sviðið: Fjármál

Nú kanntu að spyrja, hafa fjármál eitthvað með ástina að gera. Já, svo sannarlega. Helsta ástæða fyrir því að fólk fer að rífast er vegna fjármála. Það er því mikilvægt að þið séuð á sömu skoðun um hvernig eigi að fara með peninga og hvernig eigi að ráðstafa tekjum heimilisins. Jafnframt þó mörgum finnist fáranlegt að tala um fjármál í sömu andrá og ástina, þá er það bara svo stór hluti af okkar lífi og gott að hafa á hreinu frá upphafi.

Fimmta sviðið: Skoðanir

Ef þú og maki þinn hafa svipað lífsviðhorf og skoðanir er líklegra að samband ykkar endist. Smá skoðanamunur er þó í góðu lagi, en við erum að tala um svona stærri mál eins og barneignir, trúmál, hjónaband, fjármál o.fl.

Sjötta sviðið: Áhugamál

Þið þurfið alls ekki að eiga sömu áhugamál og í raun er það bara gott mál ef þið eigið ykkar eigin áhugamál fyrir ykkur. Það sem er nauðsynlegt er að þið hafið skilning á áhugamálum hvors annars og styðjið hvort annað. Einnig er gott að eiga einhver sameiginleg áhugamál, jafnvel eitthvað sem allir fjölskyldumeðlimir geta gert saman. Reyndu að sýna áhuga á hans starfi og áhugamálum því þá ert þú á sama tíma að sýna honum virðingu. Þú skalt einnig óska eftir áhuga hans á þínu starfi og málefnum. Vinna okkar er svo stór hluti af okkar lífi að við verðum að sýna hvort öðru áhuga á þessu sviði, annað er virðingaleysi.

Sjöunda sviðið: Markmið

Mikilvægt er að þið séuð með sama markmið í huga varðandi samband ykkar. Ef þú ert ekki viss um markmið hans með sambandinu getur það skapað óöryggi hjá þér og þú getur ekki gert áætlanir fram í tímann. Heiðarleiki er lykillinn og þú þarft að geta rætt þetta við hann.


Sjálfsvíg

Sjálfsvíg!

Ástæða þess að einhver er í sjálfsvígshættu er oftast flókið samspil margra þátta. Við getum sagt að einhver sé í meiri hættu ef ákveðnir áhættuþættir eru til staðar en ef þeir eru það ekki. Það er því mjög mikilvægt að þekkja þessa áhættuþætti svo við getum betur gert okkur grein fyrir því hverjir eru í hættu og þá hve mikilli. Eftirfarandi þættir geta verið áhættuþættir hvað varðar sjálfsvígsatferli.

Þunglyndi
Þunglyndi getur verið stór áhrifaþáttur þess að viðkomandi sé hættara við sjálfsvígsatferli en ella. Niðurstöður fjölda rannsókna sýna mikla fylgni milli þunglyndiseinkenna og sjálfsvíga, þó að það geti verið nokkuð breytilegt eftir rannsóknum. Það er mikilvægt að taka tillit til þessa, sérstaklega þar sem oft er erfitt að greina þunglyndi hjá ungu fólki. Fagfólk þarf að þekkja einkenni þunglyndis mjög vel og stéttir sem vinna mikið með ungu fólki, eins og kennarar, þurfa að kynna sér þunglyndiseinkenni vel. Foreldrar þurfa að hafa aðgang að fræðslu um þunglyndi meðal barna og unglinga til þess að þeir geti þekkt einkennin. Þótt þunglyndi sé miklivægur áhrifaþáttur sýna ekki næstum allir sem eru haldnir þunglyndi sjálfsvígsatferli. Hafa ber í huga að þunglyndi er algengt og er langoftast læknanlegt með viðtalsmeðferð og lyfjameðferð.

Áfengis- og fíkniefnanotkun
Rannsóknir hafa sýnt að misnotkun áfengis og fíkniefnanotkun eru afgerandi áhættuþættir. Í rannsókn á sjálfsvígum á Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu 1984 - 1991 (óbirt rannsókn á vegum Landlæknisembættisins, Wilhelm Norðfjörð) kemur fram að margir af þeim sem sviptu sig lífi byrjuðu ungir að drekka áfengi. Einnig kemur fram að þeir áttu erfitt með neyslu áfengis, þar sem þeir urðu gjarnan daprari og þyngri af neyslunni en gengur og gerist eða þá árásargjarnari.

Félagsleg sefjun/smit
Þegar keðjusjálfsvíg fara í gang má segja að félgagsleg sefjun sé að hluta til áhrifavaldur. Í áðurnefndri rannsókn Landlæknisembættisins voru borin saman sjálfsvíg sem áttu sér stað á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1984 til 1991.

Í rannsókninni koma fram áberandi meiri sefjunareinkenni á Austurlandi en á höfðurborgarsvæðinu. Á Austurlandi þekkti helmingur þeirra sem svipt hafði sig lífi einhvern sem hafði gert það sama áður, hlutfallið var mun lægra á höfuðborgarsvæðinu. Því má segja að sjálfsvígsyfirfærslan hafi verið orðin mjög mikil í unglingamenningunni á Austurlandi.

Ýmsar skýringar kunna að vera á því. Ef einhver sviptir sig lífi í fámennu samfélagi, eins og á Austurlandi, eru meiri líkur á því að fólk þekki til viðkomandi. Það virðist vera að meiri samgangur sé á milli unglinga sem búa á fámennari stöðum. Á tiltölulega skömmum tíma urðu sjálfsvíg að "ásættanlegri" lausn við fjölmörgum vandamálum. Sjálfsvíg urðu smám saman hluti af þeim lausnum ,sem hægt var að grípa til í unglingamenningu Austfjarða.

Þegar áhættuþættir sjálfsvíga leggjast allir á sama aðila er viðkomandi að sjálfssögðu mun hættara til að líta á sjálfsvíg sem lausn en ella. Ungur þunglyndur karlmaður sem misnotar áfengi og þekkir eða þekkti einhvern sem svipt hefur sig lífi býr yfir þremur áhrifamestu áhættuþáttum sjálfsvíga. Hann er því í mun meiri sjálfsvígshættu heldur en aðrir ungir karlmenn.
Hér á eftir koma fram ýmsir þættir er hafa áhrif á sjálfsvígsatferli, í mismunandi mæli eftir tilfellum.

Erfið tilfinningaleg líðan
Alvarleg kvíðaeinkenni og ofsakvíðaköst (panic attacks) geta haft áhrif á sjálfsvígsatferli. Einnig geta geðsjúkdómar eins og geðklofi leitt til sjálfsvígsatferlis. Persónuleikatruflanir sem leiða af sér langvarandi samskiptaerfiðleika við umhverfi og fjölskyldu eru oft mikilvægur áhrifaþáttur. Oft tengjast þessir erfiðleikar þunglyndi og áfengis- og vímuefnamisnotkun.

Félagslegir erfiðleikar og uppeldislegur arfur
Uppvöxtur hefur verið þyrnum stráður, miklir erfiðleikar foreldra, áfengismisnotkun, kynferðilsleg valdbeiting, andleg og líkamlega valdníðsla og félagslegir erfiðleikar í jafningjahópi eins og einelti og félagsleg einangrun. Allt þetta getur aukið hættuna á sjálfsvígstilraunum.

Erfiðleikar við að átta sig á kynhlutverki sínu
Fyrir marga er erfitt að átta sig á kynhlutverki sína og finna út úr því hvort þeir séu samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir. Þetta virðist vera enn erfiðara fyrir drengi en stúlkur. Rannsóknir sýna að sjálfsvíg eru algengari hjá hommum og lesbíum en hjá gagnkynhneigðum. Fyrir homma og lesbíur býður flóknari og erfiðari lífsbarátta, m.a. vegna almennra vanþekkingar og fordóma gagnvart stöðu þeirra í samfélaginu. Öll barátta gegn þeim fordómum og vanþekkingu getur haft fyrirbyggjandi gildi gagnvart sjálfsvígsatferli.

Áföll og hremmingar
Slys, dauðsföll og atburðir sem hafa mikla erfiðleika í för með sér og marka stór spor í líf viðkomandi, t.d. nauðgun, auka líkur á sjálfsvígsatferli. Áhrif þessara atburða geta blossað upp þegar aðrir erfiðleikar eiga sér stað, sérstaklega ef ekki hefur verið unnið úr atburðinum.

Árekstrar við umhverfi/ frelsissvipting
Hefðbundin íslensk "brennivínsafbrot" eins og að aka drukkinn, missa prófið, skemma eignir eða meiða fólk getur verið mjög erfitt fyrir marga. Rannsóknir sýna að sjálfsvíg eru algengari í fangelsum en fyrir utan veggja þeirra.

Niðurlæging
Það sem einstaklingur upplifir sem mikla alvarlega niðurlægingu getur stundum verið kornið sem fyllir mælinn.

Afburðahæfileikar
Þeir sem búa yfir afburðahæfileikum, t.d. í námi eða íþróttum, finnst stundum þeir fyrst og fremst metnir af afrekum sínum en ekki af þeim sjálfum sem persónum. Þetta getur meðal annars stafað af því að þeir eiga erfitt með að meta sjáfa sig nema í gegnum afrek sín. Það sem einhverjum öðrum finnst smávægileg mistök getur orðið óyfirstíganleg hindrun fyrir þann sem býr yfir afburðahæfileikum. Ályktanir fólks með afburðahæfileika eru stundum þráhyggjukenndar. Sé niðurstaðan sem fólk kemst stundum að sú að það eigi ekki skilið að lifa lífinu vegna þess að það hafi brugðist getur það endað með sjálfsvígi.

Ýmsir þættir
Námserfiðleikar eru algengir og sumir þeirra sem eru að takast á við námserfiðleika árum saman missa sjálfsálitið hægt og sígandi nema þeir fái sérstakan stuðning til að takast á við þá. Stundum býður sjálfsálitið upp á sjálfsvígsatferli. Að verða barnshafandi er stundum mikið áfall fyrir ungt fólk og þá sérstaklega stúlkur sem getur orðið þeim ofviða að takast á við.

Þeim getur fundist eins og þær séu komnar í öngstræti og að engin leið sé fær önnur en að svipta sig lífi. Einstaklingur sem er með mörg þessara einkenna í miklum mæli er hugsanalega í alvarlegri þróun sjálfsvígsatferlis og getur verið í sjálfsvígshættu. Hann ætti því að leita aðstoðar sérfræðings, vina og fjölskyldu.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Almennar fyrirbyggjandi aðgerðir
Hér er átt við allt sem lýtur að heilbrigði og bættri líðan og gerir fólk hæfara til að takast á við það sem mætir því í lífinu. Nefna má áherslu á íþróttir. Rannsóknir sýna að íþróttafólk er síður í sjálfsvígshættu. Það þarf að styðja og hjálpa íþróttahreyfingunni til að leggja í auknum mæli áherslu á íþróttir fyrir alla en einblína ekki á keppnisíþróttir.

Uppeldi er auðvitað mikilvægur þáttur fyrir alla. Skapa þarf hinni íslensku fjölskyldu meira svigrúm til að sinna því flókna uppeldi sem nútíma samfélag krefst. Samfélagið ætti í auknum mæli að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir foreldra að kynna sér kenningar í uppeldi. Foreldrum þarf að kenna en ekki kenna um. Þar sem samvera foreldra og barna virðist oft vera í minna mæli en foreldrar svo gjarnan vildu liggur mikið við að samskipti þeirra á milli séu góð.

Flestar stofnanir geta lagt sitt af mörkum. Heilsugæslustöðvar, sem liggja eins og net í kringum landið, geta aukið sinn þátt í fyrirbyggjadi starfi, t.d. með margvíslegri fræðslu varðandi mataræði, fatlanir, sjúkdóma, slökun, áföll og áfallahjálp svo eitthvað sé nefnt. Sama má segja um skóla. Hér gæti verið um að ræða úrræði eins og ný 2 ára skólabraut fyrir nemendur sem hentar ekki fjögura ára námbraut og hefðu annars heltst úr lestinni í hugsanlegri uppgjöf. Vímuvarnarsamþætt námsefni, áfallaráð, fræðsluámskeið fyrir nemendur og starfsmenn skóla, samningur um þjónustu frá heilsugæslustöð, sérstakt kerfi er tryggir vissa nánd við nemendur, og samstarf við íþróttafélög og sveitastjórnir.

Hvað hentar hverjum og einum sér til heilla er sjálfsagt eins mismunandi og einstaklingarnir eru margir. Það er því mikilvægt að framboð hinna ýmsu tilboða í formi heilsuræktar, sjálfsskoðunar og tómstundaiðkunar sé fjölbreytilegt og mikið.

Fyrirbyggjandi aðgerðir beinast að því að finna einstaklinga sem sýna sjálfsvígsatferli og tryggja þeim leiðir til að komast úr erfiðleikum sínum.

Einn mikilvægasti þátturinn hér er endurmenntun fagfólks í sjálfsvígsfræðum og skyldum greinum. Norðmenn settu heildarstefnu varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir um sjálfsvíg árið 1993. Þar er mikil áhersla löggð á endurmenntun, m.a. vegna takmarkaðrar þekkingar fagfólks á efninu sem stafaði af því að fræðsla um sjálfsvíg var mjög lítil í hefðbundnu háskólanámi. Norðmenn settu á fót fyrsta sjálfsvígsforvarnasetrið 1996 með þremur útibúum úti á landi.

Fagfólk þarf að læra að þekkja einkennin , spyrja réttra spurninga og kunna að hlusta og sýna skilning.
Mjög mikilvægt er að tryggja starfsfólki skóla fræðslu um það sama. Viss lágmarksfræðsla þarf að vera aðgengileg fyrir nemendur og foreldra til að koma í veg fyrir vanþekkingu og fordóma í tengslum við sjálfsvíg. Gera þarf hér sterkan greinarmun á nytsamlegri fræðslu og þeirri hættu að verið sé að velta sér upp úr efninu.

Umfjöllun um sjálfsvíg getur verið mjög vandasöm, meðal annars af vissri sefjunarhættu, þess vegna er það góð regla að "rómantísera" eða ofgera aldrei sjálfsvígsumræðu og sjálfsvígsandlát á að fá sömu viðhöfn og önnur andlát. Ákveðin hætta er á að sjálfsvígsdauðdagi sé "rómantíseraður", sem getur aukið líkur á keðjusjálfsvígum.

Ungt fólk þarf að vita að það á að leita eftir hjálp þegar vinur eða vinkona talar um sjálfsvíg. Það þarf vissa undirstöðuþekkingu á sjálfsvígum en ekki síður þarf ungt fólk að þekkja þunglyndiseinkenni og vita hvað það er að líða mjög illa. Ungt fólk þarf að vita að það er hægt að fá hjálp og þunglyndi er hægt að meðhöndla og lækna.
Flest ungmenni eru að biðja um hjálp þegar þau segja vini frá sjálfsvígsáformum sínum.

Þau eru að biðja um hjálp þar sem þeim finnst þau ekki geta leyst vandamál sín lengur og þau geta heldur ekki lengur hlaupið frá þeim. Þau telja að þessi ódrepandi sársauki hverfi aldrei og sé eilífur. Það er algengt að þeir sem eru í djúpri geðlægð telji sig ekki lengur geta upplifað þennan dapurleika og þá getur verið að þau sjái sjálfsvígið sem flóttaleið.

Mikilvægt er að starfmenn skóla og nemendur geri sér grein fyrir að eftirfarandi hegðunareinkenni geta verið vísbendingar um sjáfsvígshættu:
·         Sjálfsvígshugsanir
·         Sjálfsvígstjáning
·         Áberandi breyting á hegðun í tiltölulega langan tíma
·         Vinur verður fyrir miklum missi
·         Vinur gefur frá sér vissar eigur og hegðar sér líka eins og hann sé að klára ákveðin mál sem hugsanlega lengi hefur staðið til að gera
·         Sjálfseyðileggjandi hegðun
·         Mikið mótlæti og reiði
·         Lélegt sjálfsmat

Fyrirbyggjandi aðgerðir eftir sjálfsvíg
Af ýmsum ástæðum sem ekki verða raktar hér var farið mjög seint að skrifa um reynslu aðstandenda þeirra er höfðu misst einhvern vegna sjálfsvígs Fyrsta bókin um þetta efni kom út 1972 og hún féll eiginlega í gleymsku. Það er því ekki fyrr en um og eftir 1980 sem farið var að skrifa um og rannsaka hvað gerist eftir sjálfsvíg. Einn af brautryðendunum er E. Betsy Ross sem skrifaði bók um sína reynslu er hún missti maka sinn vegna sjálfsvígs.

Ágrip af bókinni komu út 1980 en í heild kom bókin út 1986 og heitir Life after suicide. A ray of hope for those left behind (1997). Betsy tók þátt í stuðningshópi fólks er bjó yfir þessari sömu reynslu, að hafa misst einhvern nákomin vegna sjálfsvígs. Hún tók svo þátt í að stofna samtök sem héldu fyrstu alþjóðlegu ráðstefnuna 1980 um þetta málefni.

Betsy Ross telur að það sé lykilatriði að aðstandendur fái sjálfsvígseftirmeðferð (suicide postvention). "Sjálfsvígseftirmeðferð byggist upp af margvíslegri meðferðalegri, menntunarlegri og skipulagslegri virkni, í því umfangi afleiðinga sjálfsvígs eða sjálfsvígstilraunar með það fyrir augum að hún dragi úr tilfinningalegu álagi og vanlíðan einstaklingsins og dragi úr hættu á frekari sjálfsvígum". Að mati höfundar þessa kafla væri eftirfarandi fyrirbyggjandi aðgerðir mikilvægar fyrir þá sem misst hafa einhvern vegna sjálfsvígs.

1. Sjálfsvíginu lýkur ekki við verknaðinn sjálfan heldur lifir það áfram í þeim sem eftir lifa, oft með mikilli þjáningu. Hér er í flestum tilfellum um flókna sorg að ræða þannig að erfitt er fyrir aðstandendur að vinna sig í gegnum sorgina með þeim björgum sem fjölskylda þess látna býr yfir. Hefðbundnar sorgarathafnir kirkju duga skammt þegar um sjálfsvíg er að ræða. Rannsóknir sýna að mikil vanlíðan getur fylgt í kjölfarið árum saman, líkamleg veikindi aukast og þunglyndi er algengur fylgifiskur.

Hér þarf því að koma til sorgarráðgjöf og í mörgum tilfellum sorgarmeðferð. Með endurmenntun getur starfsfólk heilsugæslustöðva veitt sorgarráðgjöf og vísað þeim skjólstæðingum í sorgarmeðferð sem því þykir að þurfi þess. Bjóða mætti aðstandendum eftirfylgd í ár eftir atburðinn á heilsugæslustöð. Gott væri ef samvinna væri með presti viðkomandi fjölskyldu.

2. Stofna þyrfti sorgarsamtök þeirra sem misst hafa einhvern vegna sjálfsvígs. Sorgarvinnan er svo ólík allri annari að fólk finnur sig ekki í hefðbundnum sorgarsamtökum. Slík sorgarsamtök gæti verið opin þeim sem hafa áhuga á málefninu. Slík sorgarsamtök gætu veitt syrgjendum mikinn stuðning.

3. Aðferðir er beinast að því að draga úr hættunni á keðjusjálfsvígum, félagslegri sefjun. Hér er um að ræða samruna tveggja aðferða, þ.a.s. sorgarúrvinnslu og áfallahjálpar. Ef sá látni er nemandi í skóla þá færi áfallahjálp í gang innan 3 sólarhringa frá andláti. Nauðsynlegt er að skólar hafi áfallaráð og séu búnir að skipuleggja viðbrög sín áður en áfallið gerist. Þeir sem tengjast þeim látna mest fá svo sorgarráðgjöf og sorgarmeðferð ef þurfa þykir.
Hversu mikil fræðsla og umræða um sjálfsvígsmál á að koma inn í skólanna er mikið álitamál. Mörg lönd hafa sett fræðsluefni inn í grunnskóla sína og framhaldsskóla (mörg fylki í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu).

Sannleikurinn er sá að þettta er mjög vandmeðfarið. Í tímaritinu Crisis sem er gefið út af alþjóðlegum samtökum um fyrirbyggjandi aðferðir gegn sjálfsvígum (IASP, International, Association for Suicide Prevention) var til að mynda fjallað um hættuna af of mikilli sjálfsvígsumræðu inn í skólum.

Mjög erfitt er að sýna fram á jákvæðan árangur af sjálfsvígsumræðu í skólum með þeirri aðferðafræði sem er nauðsynleg í rannsóknum eins og reyndar hefur líka verið erfitt með áfallahjálp. Það þarf því vandaða fagmennsku og trausta þekkingu til að þessi fyrirbyggjandi úrræði snúist ekki í höndunum á okkur.

Hvað geta aðstandendur gert?

·         Gerðu þér far um að koma í kistulagningu og í jarðaförin. Áfallið, afneitunin og erfiðleikarnir að horfast í augu við sjálfsvígið er yfirþyrmandi fyrir þá sem eftir lifa. Þeir þurfa ALLAN þann stuðning sem þeir geta fengið.
·         Hegðaðu þér eins og þú ert vön/vanur þegar þú ferð í kistulagninguna eða jarðaförina. Þetta er ekki auðvelt þar sem þig langar sérstaklega mikið til að votta samúð en þú veist ekki hvað á að segja. Fá orð duga best. "Mig tekur þetta svo sárt. Ég veit ekki hvað ég á að segja við þig því ég þekki ekki hvernig þetta er sem þú ert að fara í gegnum". Taktu í hendina á þeim, fyrir alla muni taktu utan um þá og ekki finnast að þú þurfir endilega að segja neitt.
·         Ekki finnast erfitt að gráta í augsýn annarra ef sá látni stóð þér nær. Oft eru það eftirlifendirnir sem reyna að hugga þig en á sama tíma skilja þeir tárin þín og finna að þeir eru ekki einir í sorginni.
·         Sektarkennd eftirlifenda sjálfsvíga gerir það að verkum að þeir eiga á hættu að vera næmari en aðrir sem syrgja fyrir því hverjir sýna stuðning og hverjir ekki. Þess vegna er mikilvægt að koma í heimsókn, senda kveðju og sýna umhyggjuna á þann hátt á næstu vikum eða mánuðum.
·         Vertu meðvitaður um að sársauki eftirlifenda sjálfsvíga er svo mikill að oft er auðveldara að fara í afneitun. Vertu skilningsrík(ur) og þolinmóð(ur). Stundum gefur afneitunin smá tækifæri til að átta sig á áfallinu áður en meðvitundin um það skellur á aftur.
·         Komdu til þeirra sem eftir lifa sem vinur án fordóma og hindurvitna. Sýndu áhuga og hlustaðu. Eftirlifendur eiga það til að segja ekkesens vitleysu, rugla og endurtaka sig. Þú getur þurft að hlusta á það sama aftur og aftur. Og allt í lagi með það.
·         Vertu vinur sem hægt er að tala við og hægt er að vera afslappaður með. Vertu til taks til að eyða tíma með þeim sem á þér þurfa að halda. Flestir upplifa að besta leiðin til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar er að tala við þá sem þeir geta treyst. Með því að tala áttar fólk sig oft sjálft á líðan sinni og hugsunum og finnur eigin lausnir.
·         Vertu þolinmóður. Oft eru þeir sem eiga erfitt fyrstir til að átta sig á að þeir eru ekki auðveldir í samskiptum en þeir þarfnast þess að fólk umberi þá þangað til að sorgin mýkist.
·         Eftirlifendur sjálfsvíga hafa allan rétt á að vera viðkvæmir. Sumt fólk reynir markvisst að forðast þá. Þeir fara yfir götuna eða láta sem þeir sjá ekki eftirlifendurna. Þetta eykur á sektarkennd þeirra. Slík hegðun annarra stafar ekki af illgirni heldur frekar af óöryggi um hvað viðkomandi eigi að segja.
·         Hvettu eftirlifendur til að tala. Það er ekki gagnlegt að segja "Vertu ekkert að tala um þetta". Leyfðu þeim að hella úr sér.
·         Vertu einlægur þegar þú spyrð: "Hvernig gengur þér" og hlustaðu á viðbrögðin. EKKI koma í veg fyrir að hinn tali, ganga í burtu eða eyða samræðunum ef hinn raunverulega byrjar að tala.
·         Eftir því sem tíminn líður er allt í lagi að segja hve leiður þú sért og að minnast á sjálfsvígið. Það er huggun fyrir eftirlifendurna að ástvinur þeirra sé ekki gleymdur og að fólk hugsi enn til þeirra í sorginni.


Netfikn

Netnotkun á íslandi er einhver mesta í heiminum.  Rúmlega 70% íslendinga hafa nú aðgang að tölvu sem tengd er netinu og sækja þangað reglulega.  Fólk notar netið til ýmissa hluta, allt frá því að kynna sér ýmis efni yfir í það að eiga í samskiptum við fjarlæga vini og ættingja.  Margir láta sér nægja að gægjast á Netið einu sinni í viku meðan aðrir eru friðlausir ef ADSL tengingin þeirra dettur niður.  Fyrir marga er Netið frístundagaman líkt og að lesa góða bók en fyrir aðra er Netið atvinnutæki.  Ráðamenn hvetja fólk til að sækja Netið kynna sér það og nýta kosti þess og fullyrða að Netið verði okkar helsta tól í framtíðinni.  Hvenær er þá hægt að segja að netnotkun sé orðið að vandamáli, jafnvel fíkn.

Netfíkn er mjög ungt hugtak og eru rannsóknir á þessu fyrirbæri mjög fáar og erfitt að draga af þeim ákveðnar niðurstöður.  Netfíkn er ekki skilgreind sem geðræn röskun samkvæmt nýjustu útgáfu greiningarkerfis bandarísku geðlæknasamtakanna frá 1994.  óhætt er því að fullyrða að umræðan sem á sér stað í dag á eftir að mótast eftir því sem lengra líður og fleiri rannsóknir og meiri reynsla eiga eftir að varpa mun betra ljósi á netfíknina.

Ef þig grunar að ekki sé allt með felldu með netnotkun þína eða einhver þér nákominn reynir að benda þér á tölvunotkun þín sé meiri en góðu hófi gegnir, ættir þú að athuga hvort einhver fótur sé fyrir grunsemdum og aðdróttunum í þinn garð.  Það má finna próf á netinu sem þú getur tekið og leiði prófið í ljós að þú sért í áhættuhópi skaltu leita ráða hjá fagaðila meðferð er til staðar fyrir netfíkla og hún byggist á hugrænni meðferð, fjölskyldumeðferð og þjálfun í félagslegri færni. Í meðferð beinist einkum athyglin að því að kenna netnotandanum að ná stjórn á hegðun sinni.  Þessi meðferðarform geta ekki komið í veg fyrir að hegðunin taki sig upp aftur en gerir notandanum kleift að kljást við hvatir sínar og ná meiri færni í að stjórna þeim.

 

Margir telja að netfíkn geti greinst í undirflokka sem ræðst af því hvað það er sem fólk sækir helst á Netið.

  • kynlífsfíkn sem skiptist í netkynlífs (Cyber Sex) og netklámfíkn.
  • Sambandsfíkn ( cyber relationships )
  • Tölvupóstfíkn (eMail)
  • Verðbréfabrask á Netinu fíkn ( online stocking trading )
  • Netspilafíkn ( online Gambling )
  • Netuppboðsfíkn ( online Auctioning )
  • Upplýsingarfíkn ( information surfing )
  • Leikjafíkn ( computer games )

Netfíkill segir frá:

Þegar ég eignaðist fyrstu tölvuna mína og komst í samband við Netið átti ég það til að vaka langt fram eftir og stundum fram á morgun.  Enda þótt ég vissi að vinna biði mín og áhrif svefnleysis þá hundsaði ég það.  Þegar vika var liðin með tilheyrandi vitleysu og trekktum taugum( sem voru óhjákvæmilegur fylgifiskur aukinnar kaffineyslu  ) fann ég að ég var kominn á hálan ís.  Morgun einn leit ég upp frá lyklaborðinu og horfði umhverfis mig.  Það var full nauðsyn að fara út með ruslið.  Óhreinn þvottur flæddi út úr þvottakörfunni og helgin hafði liðið án þess að ég tæki eftir því.  Íbúðin mín var í einu orði sagt ruslahaugur.  Um leið uppgötvaði ég að maturinn hafði breyst í næringarsnautt ruslfæði og ég borðaði minna.  Að lokum kom að því að ég ákvað að taka mér tak og byrjaði að þrífa íbúðina mína og gerði það sem ég þurfti að gera.  Ég  mun aldrei gleyma því í hverju ég lenti.

 

Það eina sem hægt er að fullyrða er að Netfíkn virðist leggjast helst á ungt fólk, og frekar stráka en stelpur.  Það má í þessu sambandi benda á að stærstur hópur netnotanda er ungt fólk.  Á þessu stigi er ekkert hægt að fullyrða um orsök netfíknar.

Aðstandandi segir frá:

Þessi saga er ekki af mér heldur konunni minni.  Hún viðurkennir ekki að hún sé háð spjallrásum á Netinu. Fíkn hennar hefur skemmt hjónaband okkar það mikið að erfitt er að sjá fyrir endann á því.  Fyrir nokkrum mánuðum hóf hún að sækja “Ancient Sites” spjallrásina.  Hún byrjaði að því að eyða nokkrum tímum á viku á henni sem nú eru orðnir milli 18 og 20 tímar á dag, sjö daga vikunnar.  Hún sagðist vera að leita að gáfulegum samræðum.  Þvílíkt rangnefni það eru ekki mikið um gáfur á spjallrásum vefsins.  Hún er viðkvæm fyrir skjalli karlmanna sem leituðu kynlífs.  Síðustu 8-10 mánuði hefur hún haldið framhjá mér í huganum á spjallrásum og síðan í beinu framhaldi í síma með að minnsta kosti sex mönnum.  Nýlega keypti hún sér flugmiða til að hitta einn elskhuga sinn af Netinu og innsiglaði framhjáhaldið líkamlega.  Við eigum tvö börn 4ára dreng og 2ára stúlku.  Konan mín sinnir ekki heimilisstörfum , hún eldar ekki mat, svarar ekki símtölum nema þau séu frá netvinum hennar, viðurkennir að það sem hún gerir sé rangt.  En virðist vera tilbúin að fórna börnunum sínum fyrir það að sitja fyrir framan tölvuskjá við það eitt að skoða þrjár eða fjórar spjallrásir í einu með fimm eða sex manns í hverri.  Ég er viss um að þetta er meira en fíkn, þetta er geðveila.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband