Spurt og svarað III "Hann vill ekki halda áfram"

Hann vill ekki halda áfram!

 

  
 

 

  

Ég var að lesa spurt og svarað á heimasíðunni ykkar og hafði gagn af. Við eigum í erfiðleikum með 16 ára fósturson okkar sem er nú þegar búinn að viðurkenna að grunur okkar varðandi hassreykingar var á rökum byggður. Hann vill ekki halda áfram slíkri neyslu og hefur verið í viðtölum við sálfræðing til þess að fá stuðning. Út úr þeim viðtölum hefur lítið komið fram því miður og erum við þrátt fyrir þetta enn í lausu lofti varðandi þetta mál.

Hann lýgur að okkur og við finnum að allt traust er farið forgörðum. Tekið hefur verið af honum þvagpróf sem sýndi að ekki var neysla í það skiptið n.b. hann veit að hann getur átt von á slíkum prófum hvenær sem er.

Spurningar hrannast upp eins og t.d.: Erum við að gera rétt með því að taka af honum fasta vasapeninga,( þegar hann hefur sýnt fram á að meira en þúsund krónur í einu eru honum um megn ef farið er fram yfir þá upphæð leiðir það oftast til einhverjar misnotkunar, sígarettur, áfengi eða jafnvel til hassneyslu)?

Hann leggur það á borð fyrir okkur að sígarettureykingar heyri fortíðinni til en í gær var hann hankaður á því að vera að kveikja sér í sígarettu úti á götu, hafði sér ekkert til varnar. Hann hefur ekki kveikt á gsm. símanum sínu til þess að ekki náist í hann og segir ekki frá eins og málin eru núna að hann hefur glatað símanum sínum (þetta er þriðji síminn sem hann á) fékk símann í jólagjöf og fannst það ekki vera jólagjöf sem hafði eitthvert gildi fyrir hann, átti sennilega bara að fá símann aukreitis en ekki sem, gjöf.

Honum eru settar þröngar skorður varðandi útivistartíma á virkum dögum á hann að vera kominn inn fyrir kl. 23.30 og um helgar í síðastalagi kl. 1.00 að miðnætti er þetta sanngjarnt?

Þakka fyrir Kæra foreldri

Það er gott að heyra að þú hafðir gagn af spurt og svarað hjá okkur. Hvað fósturson ykkar áhrærir, þá heyrist mér þið vera í nokkuð slæmum vanda. Ég hef þó ýmsar spurningar sem mér finnst mikilvægt að vita svörin við.

Er drengurinn í skóla eða vinnu?

Mætir hann þar og stendur sig?

Ef svo er, þá skiptir það miklu máli og er jákvætt. Stendur hann við útivistartímann? Ef svo er, þá skiptir það líka miklu máli og er líka jákvætt.

Þriðja spurningin sem ég hef er um hvað sé aðalmálið, sígarettureykingarnar, áfengisdrykkjan eða hassreykingarnar?

Auðvitað erum við öll sammála um að unglingar eigi ekki að reykja sígarettur eða drekka áfengi. En ég held líka að þegar maður stendur í ykkar sporum, þá hljóti hassreykingarnar að vera aðalvandamálið og það sem þið eruð hræddust við. Þessar spurningar allar lúta að því hvernig þið getið byggt upp traust að nýju. Það verður að vera alveg ljóst, bæði fyrir ykkur og hann hvernig hann á að fara að því. Máli skiptir að einbeita sér að því sem máli skiptir til að minnka líkurnar á því að honum finnist hann þurfa að ljúga að ykkur eða fara á bak við ykkur.

Eins og staðan er núna, þá hlýtur fyrsta skilyrðið fyrir því að byggja upp traust að vera að hann mælist ekki í neinni neyslu á hassi. Hann þarf að fara í próf reglulega og þau þurfa að vera óvænt. Það þarf að standa yfir honum á klósettinu og passa að hann geti ekki sett neitt út í þvagið eða notað þvag úr öðrum.

Ef hann mætir í skóla eða vinnu og þið fylgist með því a.m.k. einu sinni í viku að hann sé í alvöru að mæta, þá er hann líka að vinna sér inn punkta. Ef hann stendur við útivistartíma gildir það sama. Hvað vasapeninga áhrærir, þá er mjög erfitt að taka alla vasapeninga af krökkum í dag. Betra er að það sé ljóst hvað hann á að fá og hvenær. Ef hann höndlar ekki stórar upphæðir í einu, skiptið því þá niður og látið hann hafa peninga 2svar eða 3svar í viku. Það á að vera alveg ákveðið hvaða fjárhæð hann fær og hvað hann á að sjá um að greiða sjálfur með því (símakort, sælgæti, gos, bíóferðir, skólaskemmtanir o.s.frv.

ljóst er að ef hann á að borga mat í skóla, þá þarf hann meira). Einnig þarf að vera ljóst hvað er ekki innifalið í vasapeningnum (föt, matur í skóla, bíóferðir, skólaskemmtanir o.s.frv.) Í ykkar sporum mundi ég jafnvel sleppa því að gera mál úr því hvort hann eyðir í sígarettur eða ekki. Ljóst er þó að hann hefur ekki ykkar leyfi til að reykja og gerir það ekki heima eða fyrir framan ykkur, en að öðru leyti mundi ég láta það kyrrt liggja. Það að byggja upp brotið traust er alltaf erfitt. Það er einstigi sem þarf að feta með varúð.

Hvorki má setja of ströng skilyrði, of óljós, né of algild (t.d. að "vera almennilegur"). Það þarf líka að vera ljóst hvað það felur í sér ef hann stendur sig. Fær hann þá t.d. lengri útivistartíma um helgar? Þarf hann þá ekki lengur að taka hasspróf, eða bara sjaldnar? Fær hann þá meiri vasapeninga aftur? Getur hann þá unnið sér inn fyrir nýjum síma? Allt þetta og meira getur komið í kjölfar þess að hann standi sig. Mikilvægt er að hann og þið séuð í sameiningu að vinna að því að byggja upp traustið og að öllum sé ljóst hvernig staðan er.

Ég legg til að þið farið yfir stöðuna einu sinni eða tvisvar í viku til að allir séu með á nótunum hvað er að ganga vel og hvað þarf til að gera betur eða ná tilætluðum árangri. Það er nauðsynlegt fyrir hann að vita hvernig hann á að fara að því að mæta kröfum ykkar og hvað felst í því, því annars gefst hann bara upp og telur að það sé ómögulegt fyrir sig að ná nokkurn tíma trausti ykkar á ný fyrst það brotnaði yfir höfuð.

Ég vona að þessar ráðleggingar hjálpi ykkur, en bendi ykkur einnig á að þið getið sótt ykkur aðstoð fyrir ykkur, ef þið viljið, eða son ykkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband