Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
Neikvæð reynsla í æsku
5.10.2010 | 15:12
Neikvæð reynsla í æsku
Rannsóknir benda til þess að þeim sem hafa orðið fyrir neikvæðri reynslu í æsku svo sem misnotkun, ofbeldi eða vanrækslu er mun hættara að fá alvarlega sjúkdóma síðar á ævinni en öðrum. Þeim mun alvarlegri sem þessi reynsla er þeim mun meiri líkur eru á sjúkdómum síðar á ævinni. Og þeim mun yngri sem einstaklingurinn er þeim mun alvarlegri áhrif hlýtur reynslan að hafa á tilveru hans. Við vitum að neikvæð reynsla í æsku hefur áhrif á heilsu okkar en við þurfum að rannsaka betur hvaða áhrif tiltekin reynsla hefur og hvernig.
Ég tel að til að geta náð þessu markmiði þurfum við að reyna að skilja einstaklinginn út frá allri reynslu hans og sögu. Það nægir ekki að rannsaka rafboð í heila barns til að draga ályktanir um hvaða áhrif tiltekin reynsla sem barnið hefur í gegnum hefur haft. Börn sem alast upp við erfiðar aðstæður, svo sem misnotkun, ofbeldi eða þurfa að horfa á aðra beitta ofbeldi oft búa við algert virðingarleysi. Þau kunni því hvorki að bera virðingu fyrir sjálfum sér né að krefjast þess að aðrir beri virðingu fyrir sjálfum sér þegar þau vaxa úr grasi.
Þannig eiga þessir einstaklingar oft erfiðara með að setja mörk, gangvart sjálfum sér og öðrum. Þetta getur leitt til hegðunar sem ber þessu virðingarleysi glögglega merki og er oft kölluð áhættuhegðun. Þess konar hegðun einkennast af misnotkun áfengis eða vímuefna eða glæfralegri hegðun í kynferðismálum. Þetta getur síðar leitt til sjúkdóma, slysa og ótímabærs dauða viðkomandi og getur því að mínu mati verið kallað sjálfseyðandi hegðun.
Niðurstöðurnar súna meðal annars fram á að sambandið milli neikvæðrar reynslu á æskuárum og sjálfsmorðs er afar sterkt og að því verri sem reynsla fólks er í uppvextinum því meiri líkur er að sjálfsmorð verði reynt. Ef við yfirfærum niðurstöður þessara rannsóknar yfir á Bandaríkin öll þá getum við ályktað sem svo að um 80% sjálfsmorða í Bandaríkjunum megi rekja til neikvæðrar reynslu í æsku.
Helvíti líkast
5.10.2010 | 15:09
Reynslusaga um átröskun
Anna byrjaði að fá átköst þegar hún var einungis ellefu ára gömul. Hún var einkabarn og því var afar erfitt fyrir hana að fela þetta fyrir foreldrum sínum en það tókst henni nú samt. Hún lifði samt sem áður í stöðugum ótta við að foreldrar hennar kæmust að því hvernig henni leið og hún gat ekki hætt því hún varð háð átköstunum. Hún komst upp með þetta öll sín unglingsár og hún var sátt við þetta því hún hafði stjórn á þessu og þetta var hennar leyndarmál.
Þegar hún fór í framhaldsskóla fékk hún hálsbólgu og gat ekkert borðað í nokkra daga og eftir það einbeitti hún sér að því að svelta sig og tók þá við barátta við lystarstol. Hún einbeitti sér að því að halda flötum maganum sem hún hafði fengið í kjölfar veikindanna. Hún hætti að hafa áhyggjur af tímum og því að passa inn í hópinn.
Hún var oft send á spítala vegna næringarskorts eða of mikils þyngdartaps. Svo um þrítugt fékk hún lotugræðgi. Næstu átta árin voru helvíti líkust og stundum gekk þetta svo langt að ælan lak af olnbogunum hennar. Þegar hún varð 38 ára hafði hún misst vinnuna sína og allt samband við vini sína.
Hún skráði sig svo að lokum á sjúkrahús en læknarinir þar unni ekkert með henni að sálrænu hliðinni. Hún gafst að lokum upp og ákvað að fyrirfara sér en tveir lögreglumenn komu í veg fyrir það og þá uppgötvaði hún að batinn fólst í því að líða vel innra með sér og að hún þyrfti að ganga í gegnum erfiðið sjálf, enginn annar gæti gert það fyrir hana.
Hún hefur verið laus við átröskunina í 13 ár núna og ráðleggur nú þeim sem eiga enn í sinni baráttu við átröskunarpúkann. Hún setti upp meðferðarstofnun sem bæði fékkst við
mataræðið sem og sálræna þáttinn.
Munum að við sjálf erum þau einu sem getum breytt ástandi okkar. Við verðum að leita eftir hjálp og þiggja hana.
Bestu kveðjur,
Burt með einelti!!
5.10.2010 | 08:01
Til er að einstaklingar leggist þannig á aðra einstaklinga, án stuðnings annarra í hópnum, en þá er ekki talað um einelti í sama skilningi, þar sem fórnarlambið upplifir sig ekki einangrað og útilokað á sama hátt og getur varið sig með því að líta á ofsækjandann sem veikan eða vondan. Einelti felur í sér að fórnarlambið upplifir alla eða flestalla í hópnum á móti sér, þó svo að í langflestum tilvikum sé meirihlutinn óvirkur í stuðningi sínum við eineltið. Aðeins lítill hluti hópsins er yfirleitt virkur, en nýtur stuðnings hins hlutans í gegnum aðgerðarleysi hans, en flestir þeirra líta svo á að hættulegt sé að taka upp hanskann fyrir fórnarlambið. Það gæti leitt til þess að þeir sjálfir verði lagðir í einelti.
Einelti er félagslegt fyrirbæriEinelti er þannig félagslegt fyrirbæri. Það tengist alltaf hópi fólks og valdabaráttu einstaklinga innan hópsins og óöryggi þeirra um stöðu sína innan hans. Það er því ekki einangrað samspil á milli tveggja einstaklinga. Slík samskipti eru ekki kölluð einelti. Það er því nauðsynlegt að stjórnendur hópa, hvort sem það eru stjórnendur á vinnustað, kennarar, skátaforingjar eða aðrir leiðtogar hópa, geri sér grein fyrir því hvort um er að ræða einelti, sem er félagslegt fyrirbæri innan hóps, eða deilur og ágreining milli tveggja einstaklinga. Viðbrögð þeirra eiga að stjórnast af því.Einelti myndast aðeins í hóp, þar sem einhvers konar vanlíðan er til staðar. Líði öllum einstaklingum vel í hópnum, finnist allir meira eða minna jafnir, finni að allir njóti þokkalega jafnrar virðingar, finni að allir hafi eitthvað að segja og að hlustað sé jafnt á alla, myndast ekki einelti í hópnum. Sé hins vegar ríkjandi ójöfnuður í hópnum, hlustað sé á suma en aðra ekki og mikill munur á virðingu milli einstaklinga, myndast vanlíðan í hópnum. Fyrri hópurinn hefur flatan valdapíramída eða goggunarröð, þar sem jöfnuður og vellíðan ríkir og sátt er um forystuna.Síðari hópurinn hefur brattan valdapíramída eða goggunarröð, þar sem ríkir ójöfnuður, vanlíðan og valdabarátta. Það er einungis í síðari hópnum sem einelti getur myndast og alltaf sem hluti af valdabaráttunni, sem á sér stað í hópnum. Sú valdabarátta er ekki einungis á efstu þrepunum, vegna þess að í slíkum hópi ríkir mikið óöryggi um stöðu sína hvar sem er í goggunarröðinni og því myndast þörf hjá öllum fyrir að klifra ofar og þá gjarnan á kostnað þeirra, sem neðar eru.
Öryggi í stað vellíðunarSé ríkjandi vanlíðan og óöryggi í hóp og valdapíramídi hans brattur leita allir einstaklingar hópsins eftir einhvers konar stöðugleika og öryggi. Það er hins vegar ekki endilega leitað eftir vellíðan, því vellíðan er aftar í þarfaforgangsröð einstaklinga en öryggi. Í slíkum hóp lítur alltaf út fyrir að mesta öryggið um stöðu sína sé á efstu þrepum hans, sérstaklega vegna þess að svo virðist sem þar sé mesta virðingin, áhrifin og völdin. Þess vegna leita einstaklingarnir upp goggunarröðina með því að koma öðrum í henni niður fyrir sig.Það er hægt að gera með því að smjaðra fyrir forystunni, leggja henni lið eða sýna henni fram á hollustu á ýmsan hátt t.d. með því að andmæla henni ekki, hlægja að uppátækjum hennar eða örva hana til dáða á annan óbeinan hátt. Eftir því sem ofar dregur í goggunarröðinni kemur þó fram nýtt óöryggi hjá einstaklingunum í hópnum, sem felst í aukinni hættu á að falla (aftur) neðar í goggunarröð hópsins eða, fyrir þá sem efstir eru, að missa völd sín, ef tekið er feilspor. Þannig verða meðlimir hópsins að viðhalda völdum sínum eða klifri upp á við og hópurinn er fastur í neti óöryggis og vanlíðunar.
Í hópnum myndast síðan hópbundnar hegðunarreglur (norm), sem halda honum enn fastar í þessum viðjum og að lokum er það einungis utanaðkomandi stjórnun eða aðstoð, sem getur hjálpað honum út úr þessum vítahring. Allir meðlimir hópsins eru fastir í netinu og það að gera tilraun til að brjótast út úr því eykur hættuna á að falla niður goggunarröðina og þá jafnvel lenda neðst í henni og eiga þar með á hættu að verða veikastur í hópnum. Allir skynja hættuna af þeirri stöðu við þessar aðstæður og forðast hana eins og heitan eldinn.
ValdabaráttaÞegar þannig er komið fyrir hópi, er mikil hætta á að einelti myndist í honum. Valdabaráttan og þörfin fyrir að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra leggur grunninn að því. Fórnarlambið er þá ætíð valið úr neðstu þrepum goggunarraðarinnar. Fyrir kemur að fórnarlambið ber yfirmannstitil, en þá er um að ræða yfirmann, sem hefur í raun engin völd í hópnum, er neðst í goggunarröðinni og ræður ekki við yfirmannstitil sinn. Hópurinn finnur eitthvað við fórnarlambið og notar það til að benda á að viðkomandi eigi ekki heima í hópnum. Það getur verið eitthvað við útlit einstaklingsins eða hegðun hans eða aðstæður.Eina leiðin er því að fórnarlambið hafi ekki styrk til að verja sig og að hægt sé að koma fram við það með hegðun sem segir: Þú ert öðruvísi en við og átt því ekki heima með okkur. Einelti byggist þannig á vissan hátt á því að styrkja hópinn innbyrðis með því að halda þeirri skoðun á lofti að um sé að ræða okkur og þig. Þrennt græðist á þessu fyrir meirihlutann. Í fyrsta lagi gerir það þeim sem ofar eru í goggunarröðinni kleyft að komast enn ofar með því að ýta fórnarlambinu niður hana og raða öðrum hópmeðlimum á milli sín og fórnarlambsins.
Í öðru lagi verður til ákveðin (sjálfs)blekking um samstöðu og öryggi innan hópsins, a.m.k í efstu þrepum goggunarraðarinnar. Í þriðja lagi styrkir slíkt athæfi stöðu og styrk þeirra sem í efstu þrepunum eru, þar sem þetta bendir öðrum en fórnarlambinu á hvað bíði þeirra, ef þeir halda sig ekki á mottunni.
Stjórnunarstíll ræður úrslitumAf framanskráðu sést að einelti er félagslegt fyrirbæri, sem stjórnast af því að um vanlíðan er að ræða í hópnum. Það orsakast ekki af því að einstaklingar séu vondir eða veikir og eina leiðin til að bregðast við því er að takast á við stjórnun hópsins. Það er eitt meginhlutverk stjórnanda að stjórna þannig að í hópnum ríki vellíðan. Þannig skapar hann mest öryggi og ánægju í hópnum og nær hámarksafköstum hjá honum. Ef einelti kemur upp í hópi, og einungis er tekið á málinu út frá einstaklingunum, geranda og/eða fórnarlambi, leiðir það ekki til breytinga á stjórnun hópsins eða hópgerðinni og hættan á að aðrir fari inn í hlutverk þessara einstaklinga og sagan endurtaki sig er ákaflega mikil. Þó er ekki hægt að útiloka að hópgerðin breytist óvart við slíkar aðgerðir. Þá er það og augljóst að sé fórnarlambið tekið út úr hópnum og flutt í annan hóp, fer það eftir því hvort í nýja hópnum ríkir vellíðan eða vanlíðan, hvernig fórnarlambinu reiðir af þar. Nýliði er alltaf veikasti einstaklingurinn í hópnum og getur því auðveldlega aftur lent í fórnarlambshlutverkinu í nýja hópnum, sé þörf fyrir einelti í þeim hópi.Það er undir stjórnanda hóps, leiðtoga hans eða kennara komið, hvort í hópnum ríkir vellíðan eða vanlíðan. Það er stjórnandans að stjórna með þeim hætti að vellíðan ríki og það er hans að bregðast þannig við, ef upp kemur vanlíðan, t.d. vegna utanaðkomandi áhrifa, að hópurinn nái aftur jafnvægi og vellíðan. Stjórnanda ber að stjórna hópi þannig að ekki myndist í honum þörf fyrir einelti. Það er ekki nóg fyrir hann að velta fyrir sér viðbrögðunum við einelti þegar það er komið í fullan gang.(Grein þessi er lítið breytt frá því að hún birtist í tímariti Bókagerðarmanna árið 2000.) Ýmsar greinar um eineltiHvað er einelti?,,Einelti er langvarandi ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einum, sem ekki kemur vörnum við. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi þar sem gerandinn beitir hótunum og vill ráða yfir þolandanum.
Þessa skilgreiningu er að finna í bókinni Gegn einelti Handbók fyrir skóla sem Æskan gaf út 2000. Síðar í sömu bók stendur: Einelti getur verið mjög dulið. Þegar gerandi eða gerendur hafa náð tökum á þolanda má segja að n.k. eineltissamband hafi myndast. Eftir að slíkt samband hefur orðið til getur eitt augnatillit frá geranda verið nóg til að þolanda sé ógnað og að hann finni til hræðslu og óöryggis.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki prófa!!
4.10.2010 | 22:36
Ekki prófa!!
Mig langar að hvetja alla 10. bekkinga og foreldra þeirra að vera nú meðvituð um þessar staðreyndir og þá óheillavænlegu breytingu sem getur átt sér stað við þessi tímamót. Það er varasamt að fikta við reykingar eða prófa áhrif áfengis, því fiktið getur á skömmum tíma snúist upp í óviðráðanlega fíkn.
Reynsla allra, sem prófað hafa, er að fíkn er erfitt að losna undan, jafnvel þótt viljinn til þess sé til staðar. Nýlegar tölur sýna að 66% þeirra sem reykja eru alvarlega að hugsa um að hætta að reykja. Best er því að byrja alls ekki. Árið 2004 var gerð könnun meðal nemenda í 10. bekk og síðan aftur meðal sama árgangs eftir að hann var kominn í fyrsta bekk í framhaldsskóla. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að hlutfall þeirra sem reyktu daglega jókst úr 11,7% yfir í 15,1% við það að skipta um skólastig.
Sama rannsókn sýndi einnig að hlutfall nemenda sem höfðu orðið ölvaðir síðustu 30 daga jókst úr 26,0% í 53,4% við það að fara úr 10. bekk yfir í framhaldsskóla. Þetta eru gríðarlegar breytingar á skömmum tíma og ættu því að vera alvarleg áminning fyrir alla sem hlut eiga að máli. Áfengi er heldur ekki nein venjuleg neysluvara og það liggur fyrir að því seinna sem einstaklingar hefja neyslu áfengis, þeim mun minni líkur eru á misnotkun þess.
Óhófleg notkun áfengis hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar, m.a. auknar líkur á ofbeldi og óábyrgu kynlífi þar sem varnir gegn ótímabærum þungunum og/eða kynsjúkdómum gleymast. Ég hvet 10. bekkinga og foreldra til að sofna ekki á verðinum og vera áfram flott án fíknar.
Lífsýn fræðsla og forvarnir
reynslusaga fíkils
4.10.2010 | 20:02
Þegar ég loks fór að gera eitthvað í mínum málum átti ég að baki 25 ára hjónaband og eftir það 6 ára sambúð sem ég var í en var líka um það bil að ljúka.
En af hverju??
Ég var fínn strákur (að eigin áliti) en þarna var bara svo komið að ég var komin niður í mjög djúpan dimman dal örvæntingar, kvíða og ótta sem eg sá enga leið út úr. Hvað átti eg að gera! Þá var það einmitt sambýliskona mín sem benti mér á hópastarf sem kallaði sig Tólf spora hópar.
Viðkunnaleg rödd í símanum sem ég upplifði sem englarödd tjáði mér að hún skyldi sjá hvað hún gætti gert fyrir mig því það væri búið að loka hópunum og starfið byrjað.
Hvað var nú til ráða? Og aftur tóku kvíðinn og óttinn völdin. En vegna þess að Guð var komin inn í málið samþykkti hópurinn sem þá var byrjaður að starfa að taka mig inn í hópinn.
Þvílík blessun að komast að raun um að til var fólk sem var svipað ástatt fyrir og mér sjálfum. Að heyra að öðrum leið eins og mér - þvílíkur léttir - en nú var mikil vinna framundan, vinna við að rannsaka og skoða sjálfan sig.
Það var alveg með ólíkindum hvað maður áttaði sig á mörgu sem miður hafði farið bæði í uppvexti sem barn og á unglingsárunum og svo á fullorðinsárum. Hvernig ég reyndi að hafa stjórn á öllu í kringum mig, ef það tókst ekki þá fór ég bara í fýlu og reyndi þannig að hafa áhrif á umhverfið! Og það sem verra var, fjölskylduna mína og ef það tókst ekki með fýlunni þá var nú alltaf sá möguleiki eftir að einangra sig frá öllum í fýlu þannig að allir í kringum mann voru á tánum.
Að uppgötva að ég hafði reynt að stjórna umhverfi mínu með andlegu ofbeldi - því að það er það sem það heitir - var mjög sársaukafullt og mjög erfitt að horfa í spegil í langan tíma.
Í síðara skiptið var þetta allt vegna þess að ég gaf mér ekki tíma til að athuga hvað það var sem hafði farið úrskeiðis í hjónabandinu mínu heldur æddi í næsta samband af því ég átti svo óskaplega bágt og gat ekki verið einn (það heitir sjálfsvorkunn).
Betra hefði verið að gefa sér meiri tíma eftir skilnaðinn því þá væri ég ef til vill enn með þessari yndislegu konu sem vísaði mér á Tólf spora hópinn og stuðlaði þannig að bata mínum vegna þess að henni þótti vænt um mig - henni var ekki sama.
Núna eftir fjögur ár í Tólf spora starfinu hef ég öðlast sjáftraustið mitt aftur, ég er sáttur við sjálfan mig, ég get staðið á eigin fótum, er bjartsýnn aftur og elska lífið á ný og það er svo ekki lítið - en nákvæmlega þetta hef ég öðlast við að vera með Guði og góðum vinum í Tólf spora starfinu.
Reynslusögur | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lífsleikni
4.10.2010 | 16:52
Lífsleikni
Lífsleikni er stór þáttur í prógrammi hjá Lífsýn og tengist hún beint þeirri hugmyndafræði sem við styðjumst við.
Markmiðið með lífsleikniprógrammi er að einstaklingarnir öðlist betra sjálfsmat, læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu.
Með því er þeim hjálpað að nálgast, skilja og tjá tilfinningar sínar í gegn um tómstundir, tónlist og önnur áhugamál á jákvæðan hátt.
Lífsleikniprógrammið hjá Lífsýn byggist upp á tveim smiðjum. Listasmiðju og tónlistarsmiðju ásamt því að vera með sérsniðið sjálfstyrkingar prógramm fyrir börn og unglinga sem heitir TST
Listasmiðja: Í listasmiðjunni gefst nemum tækifæri á kennslu í fjölbreyttum listgreinum. Teiknun, málun, leirmótun, föndur, skartgripagerð ofl.
Tónlistarsmiðja : Í tónlistarsmiðjunni geta nemarnir lagt stund á hljóðfæraleik og söng. Við leiðbeinum á helstu hljóðfæri eins og t.d. Rafmagnsgítar, trommur, bassa, hljómborð búa til hljómsveitir, kóra, setja saman krakka sem eru ein að pukra heima í hljóðfæraleik og söng og setja þau saman og búa til eitthvað lifandi og skemmtilegt
T.S.T: Er sjálfstyrkingarnámskeið sem við bjóðum uppá fyrir börn og unglinga á öllum aldri allt frá 6-16 ára aldri Markmið okkar er að mæta þörfum ungmennanna með því að tengja saman Tónlist , sjálfstyrkingu, Tómstundir, leiki, föndur ofl.: efla félagsleg tengsl og gagnkvæma virðingu
efla sjálfstraust, sjálfsstjórn, samvinnu og tillitssemi
hvetja til sjálfstæðra vinnubragða
hvetja til þátttöku í félagsstörfum, tónlist, söng og öðrum tómstundum
bjóða uppá fræðslu, umræður og forvarnir af ýmsu tagi
Um okkur | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vandamálatréð
4.10.2010 | 14:08
Smiðurinn sem ég réð til að hjálpa mér að gera upp gamalt sveitabýli, hafði nýlokið erfiðum fyrsta degi í vinnunni. Hann var klukkutíma of seinn í vinnuna vegna þess að það sprakk dekk á bílnum, rafmagnssögin hans gafst upp, og nú neitaði forni pallbíllinn hans að fara í gang. Meðan ég keyrði hann heim, sat hann við hlið mér í steingerfðri þögn. Þegar við vorum komnir, bauð hann mér inn til að hitta fjölskylduna. Þar sem við gengum að útidyrunum, stoppaði hann stuttlega við lítið tré og snerti trjágreinarnar með báðum höndum.Eftir að hann opnaði hurðina, varð á honum undursamleg breyting. Sólbrúnt andlit hans rifnaði í brosi og hann faðmaði börnin sín tvö og kyssti konuna sína. Seinna gekk hann með mér að bílnum mínum.
Við gengum framhjá trénu og forvitnin náði tökum á mér. Ég spurði hann um það sem ég hafði séð hann gera fyrr um kvöldið. "Æ, þetta er vandamálatréð mitt," svaraði hann. "Ég veit að ég kemst ekki hjá vandamálum í vinnunni, en það er eitt sem víst er, að þau eiga ekki heima á heimili mínu hjá konu minni og börnum. Þannig að ég hengi þau á tréð þegar ég kem heim á kvöldin. Síðan tek ég þau aftur af trénu á morgnana." "Það skrýtna er," sagði hann og brosti, "að þegar ég kem út á morgnana og tek þau upp, þá eru þau ekki næstum eins mörg og mig minnti að ég hefði hengt upp kvöldið áður."
konfekt | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er ég fíkill ?
4.10.2010 | 11:21
Einungis þú getur svarað þessari spurningu.
Þetta getur verið allt annað en auðvelt. Gegnum alla neyslu okkar, sögðum við sjálfum okkur: Ég höndla þetta. Í upphafi var það kannski rétt, en svo er ekki í dag. Fíkniefnin höndluðu okkur. Við lifðum til að nota og notuðum til að lifa. Í sem fæstum orðum; fíkill er manneskja sem stjórnast af fíkniefnum.
Jafnvel getur verið að þú viðurkennir vanda þinn gagnvart fíkniefnum, en teljir þig þó ekki vera fíkil. Öll höfum við myndað okkur fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvað fíkill er. Það er ekkert skammarlegt við það að vera fíkill, þegar þú á annað borð hefur tekið uppbyggilega stefnu. Ef þú samhæfir með vandamálum okkar, má vera að þú samhæfir einnig með lausn okkar. Eftirfarandi spurningar voru ritaðar af fíklum á batavegi, innan Narcotics Anonymous. Ef þú ert í vafa um hvort þú ert fíkill eða ekki, gefðu þér þá smávægilegan tíma til að lesa spurningarnar, sem hér fara fyrir neðan og svaraðu þeim eins heiðarlega og þér er unnt að gera.
- Notar þú einhvern tíma í einrúmi?
- Hefur þú skipt út einu efni fyrir annað, í þeirri trú að eitt sérstakt efni væri vandamálið?
- Hefur þú snúið á, eða logið að lækni til að verða þér úti um lyfseðilskyld fíkniefni?
- Hefur þú stolið fíkniefnum, eða stolið til að afla þér fíkniefna?
- Hefur þú notað fíkniefni þegar þú ert að vakna eða þegar þú ert að fara að sofa?
- Hefur þú notað eina tegund fíkniefna til að draga úr áhrifum annarra tegunda fíkniefna?
- Forðast þú fólk eða staði þar sem neysla þín á fíkniefnum er ekki liðin?
- Hefur þú notað fíkniefni án þess að vita hvað það í raun var eða hvaða áhrif það myndi hafa á þig?
- Hefur frammistöðu þinni í skóla eða vinnu hrakað vegna fíkniefnaneyslu þinnar?
- Hefur þú verið handtekinn vegna þess að þú varst að nota fíkniefni?
- Hefur þú logið til um tegundir eða magn þeirra fíkniefna sem þú notar?
- Setur þú öflun fíkniefna fram yfir fjárhagslega ábyrgð þína?
- Hefur þú reynt að stöðva eða stjórna neyslu þinni?
- Hefur þú setið í fangelsi, legið á spítala eða farið í meðferð vegna notkunar þinnar?
- Hefur neysla þín áhrif á matar- eða svefnvenjur þínar?
- Verður þú skelfingu lostinn við tilhugsunina um að verða uppskroppa með fíkniefni?
- Finnst þér ómögulegt að lifa án fíkniefna?
- Hefur þú efast um geðheilsu þína?
- Hefur fíkniefnaneysla þín valdið óhamingju heima fyrir?
- Hefur þér fundist að þú gætir ekki aðlagast eða skemmt þér án þess að nota fíkniefni?
- Hefur þú brugðist við í vörn, fundið til sektar eða skammast þín vegna neyslu þinnar?
- Hugsar þú mikið um fíkniefni?
- Hefur þú upplifað óraunhæfan eða óskilgreindan ótta?
- Hefur notkun þín haft áhrif á kynferðisleg sambönd þín?
- Hefur þú notað fíkniefni sem höfðuðu ekki til þín?
- Hefur þú notað fíkniefni vegna tilfinningalegrar spennu eða streitu?
- Hefur þú tekið of stóran skammt af fíkniefnum?
- Heldur þú áfram neyslu þinni þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar?
- Telur þú þig eiga við fíkniefnavanda að stríða?
Sumar þessara spurninga minnast ekki einu sinni á fíkniefni. Þetta er vegna þess að fíkn er lævís sjúkdómur sem hefur áhrif á öll svið lífs okkar â jafnvel þau svið sem virðast við fyrstu sýn, hafa lítið með fíkniefni að gera. Fjölbreytni tegunda þeirra fíkniefna sem við neyttum var ekki jafn mikilvæg og ástæða fyrir notkun okkar á þeim ásamt þeim áhrifum sem þau höfðu á okkur.
Þegar við lásum þessar spurningar í fyrsta sinn, skelfdi sú tilhugsun okkur að við gætum verið fíklar. Sum okkar reyndu að bægja þessum hugsunum frá með því að segja:
Ó, en það er ekkert vit í þessum spurningum,
Eða:
Ég er öðruvísi. Ég veit alveg að ég nota fíkniefni, en ég er ekki fíkill. Ég á í raunverulegum tilfinninga/fjölskyldu/vinnutengdum erfiðleikum.
Eða:
Ég á bara erfitt með að halda öllu saman í augnablikinu.
Eða:
Ég get ekki hætt fyrr en ég finn réttu manneskjuna/starfið o.sv.frv.
Ef þú ert fíkill, verður þú fyrst að viðurkenna að þú eigir í vanda með fíkniefni áður en nokkur árangur á batavegi getur orðið. Með því að svara þessum spurningum heiðarlega, getur þú öðlast vitneskju um hversu stjórnlaust líf þitt hefur orðið af völdum fíkniefna. Fíkn er sjúkdómur sem, þegar bati næst ekki, endar í fangelsum, stofnunum og með dauða. Mörg okkar komu til Narcotics Anonymous vegna þess að fíkniefnin voru hætt að gera það sem við þurftum á að halda. Fíkn sviptir okkur stolti, sjálfsvirðingu, fjölskyldunni, ástvinum og jafnvel löngun okkar til að lifa. Ef fíkn þín hefur ekki enn náð þessu stigi, þarftu ekki að lenda í því. Við vitum nú að helvíti var það ástand sem ríkti innra með okkur. Ef þú vilt hjálp, getur þú fundið hana í félagsskap Narcotics Anonymous.
Við vorum að leita svara þegar teygðum okkur út og fundum félagsskap Narcotics Anonymous. Við komum til fyrsta N.A. fundar okkar gersigruð og vissum ekki hvers var að vænta. Eftir að hafa setið fund, eða marga fundi, fór okkur að finnast sem fólki væri ekki sama og vildi hjálpa. Jafnvel þó í hugum okkar, við værum sannfærð um að okkur myndi aldrei takast þetta, gaf fólkið í félagsskapnum okkur von með því einu að krefjast þess að við næðum bata. Umkringd fíklum eins og okkur, varð okkur ljóst að við vorum ekki ein lengur. Bati er það sem gerist á fundum okkar. Líf okkar eru í húfi. Okkur lærðist einnig að með því að setja batann í fyrsta sæti, fór prógrammið að virka. Við horfðumst nú í augu við þrjár erfiðar staðreyndir:
- Við erum vanmáttug gagnvart fíkn okkar og að líf okkar eru stjórnlaus;
- Þó við séum ekki ábyrg fyrir sjúkdómi okkar, erum við ábyrgð fyrir batanum;
- Við getum ekki lengur kennt fólki, stöðum og hlutum um fíkn okkar. Við verðum að horfast í augu við vandamál okkar og eigin tilfinningar.
Sjálfsvíg og ungt fólk
4.10.2010 | 11:11
Sjálfsvíg og ungt fólk
ÞAÐ eru ekki mörg ár síðan bandaríska geðlæknafélagið skilgreindi þunglyndi barna og unglinga sem veikindi sem er stór áhrifaþáttur í sjálfsvígum og því mikilvægt að það uppgötvist ef það er farið að hrjá barn eða ungling. Oft tengist þunglyndið áfengis- og vímuefnamisnotkun einnig hefur ástvinamissir, skilnaður foreldra, verða fyrir slysi, atvinnuleysi, langvarandi samskiptaerfiðleikar áhrif. Atburðir sem valda viðkomandi niðurlægingu eða áfalli, til dæmis andlegt og líkamlegt ofbeldi, nauðgun, afbrot og lítið sjálfsálit er líka oft ástæða.
Sjálfsvíg er sjaldnast stundarákvörðun hér og nú. Dagana fyrir atburðin hefur viðkomandi eitthvað sem bendir til að þessi hugsun leiti á hann, rannsóknir sýna að meira en 75% allra þeirrar sem fremja sjálfsvíg sýna einhverja hegðun á undanförnum vikum eða mánuðum sem gaf til kynna að viðkomandi væri að hugsa um að svipta sig lífi. Mundu að hegðun sem bendir til sjálfsvígs er ákall á hjálp en hafa ber í huga að ákveðin hætta er á því að sjálfsvígsdauði sé "rómantíseraður", sem getur aukið líkur á keðjusjálfsvígum.
Til að hindra sjálfsvíg ættingja eða vinar ber að hafa eftirfarandi í huga: - Vera vakandi fyrir hættumerkjum og taka þeim alvarlega - Ekki gefa loforð um þagmælsku. - Hlustaðu, láttu viðkomandi tala um líðan sína, virtu tilfinningar hans, ekki fordæma eða vera með prédikun. - Sparaðu umvandanir og góð ráð. - Bentu á að hin vonda líðan geti tekið enda og að það er möguleiki á að fá hjálp. - Fjarlægðu vopn og hættuleg lyf. - Útvegaðu faglega aðstoð.
Sjálfsvígshugsanir
Sjálfsvígshugsanir eru mjög ólíkar hugsunum um dauðann og lífið sem fólk veltir oft fyrir sér, eins og t.d. hvaða lög eigi að leika í jarðarförinni o.s.frv. Þessar hugsanir dúndrast inn í höfuð viðkomandi og láta hann ekki í friði. Þær koma þegar viðkomandi slakar á að kvöldi, í erfiðri kennslustund í skóla og þegar verið er að horfa á sjónvarp.
Það er eins og heimur unglingsins þrengist og þrengist þannig að ekki er möguleiki á að sjá aðrar lausnir en þessa einu og sjálfsvígið er flóttaleið. Algengara er að unglingur segi vini eða vinkonu frá heldur en foreldrum. Sundum tjáir unglingurinn sig mjög nákvæmlega um áform sín en oft er tjáning tiltölulega óljós eins og "ég vildi óska þess að ég væri dauður", "heimurinn væri betri án mín", bráðum heyrist ekkert í mínu herbergi".
Tölfræðin-
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru skráð 324 sjálfsvíg á árunum 1980-1990 en á sama tíma voru skráð dauðsföll vegna umferðarslysa 247. - Þó að flestir sem eru þunglyndir séu ekki í sjálfsvígshugleiðingum þjást flestir þeir sem fremja sjálfsmorð (2/3) af þunglyndi. - 30% allra þunglyndissjúklinga reyna sjálfsvíg og helmingi þeirra tekst ætlunarverk sitt. - Þunglyndi er helmingi algengara hjá körlum en konum. -
Þess má geta að sjálfsvíg er önnur algengasta dánarorsök ungra íslenskra karla. - Sjálfsvígstilraunir eru algengari meðal kvenna en karla. - Sjálfsvígstilraunir eru taldar vera um 450 á ári hér á Íslandi. Sá sem einu sinni hefur gert tilraun er í meiri sjálfsvígshættu en sá sem ekki hefur gert tilraun.
Hvað er hægt að gera?
Heilsugæslustöðvar og skólar sem liggja eins og net í kringum landið geta aukið sinn þátt í fyrirbyggjandi starfi, t.d. með margvíslegri fræðslu varðandi mataræði, fatlanir, sjúkdóma, slökun, áföll og áfallahjálp svo eitthvað sé nefnt. Ungt fólk þarf að þekkja þunglyndiseinkennin og vita að það er hægt að fá hjálp og lækna það. Með lyfjameðferð er leitast við að létta á geðlægð sjúklingsins og þá er oft hættan mest á sjálfsvígi, þegar þunganum er að létta af honum, hann verður meira vakandi fyrir umhverfi sínu og finnur sárar til ástands síns.
Hann verður virkari í hugsun og athöfnum og því líklegri til að grípa til örþrifaráðs eins og sjálfsvígs. Þess vegna þarf að hafa vakandi auga fyrir ástandi sjúklings sem eru á leið upp úr sínu þunglyndi og styðja þá. Hafa ber í huga að þunglyndi er algengt og er langoftast læknanlegt með viðtalsmeðferð og lyfjameðferð. Allir geta lagt sitt af mörkum, foreldrar, vinir og félagar. Foreldrar með því að þekkja vel líðan barna sinna og að kunna að hlusta á þau og sýna líðan þeirra skilning. Vinur eða vinkona með því að fá vin sinn til að leita aðstoðar þegar hann tjáir sig um að hann vilji binda enda á líf sitt.
Ef það dugar ekki ætti vinur eða félagi að rjúfa trúnað og leita til fullorðins, t.d. foreldris, kennara, námsráðgjafa, sálfræðings eða einhvers sem þú treystir. Það á að rjúfa trúnað þegar líf liggur við. Sú staðreynd að einstaklingurinn sé enn á lífi er nægileg sönnun þess að hluti hans vill lifa. Fólk sem íhugar sjálfsvíg er í mikilli innri baráttu, hluti þeirra vill lifa en hluti hans vill einnig deyja, það vill losna undan einhverjum þjáningum.
Það er sá partur einstaklingsins sem vill lifa sem segir "ég er að hugsa um að drepa mig", hafa verður þó í huga að hvert sjálfsvíg er einstakt og á sér sínar orsakir sem ekki er alltaf auðvelt að ráða í.
Hvert get ég leitað?
Til bráðaþjónustu sjúkrahúsa. - Til heilsugæslustöðva. - Til vinalínu Rauða krossins.- Sókn gegn sjálfsvígum. - Á höfuðborgarsvæðinu er alltaf vakt á geðdeild sjúkrahúsanna sem hægt er að leita til allan sólarhringinn. - Ef viðkomandi er yngri en 18 ára er hægt að leita til barna- og unglingageðdeildar á Dalbraut. - Þá er hægt að leita aðstoðar í neyðarlínuna 112 allan sólarhringinn.
Lokaorð
Mikilvægt er að hafa í huga að sjálfsvíg lýkur ekki við atburðinn. Áfall aðstandenda, fjölskyldu og vina er svo mikið að það kemur fram í mjög erfiðri sorgarúrvinnslu, stundum geðrænum erfiðleikum og líkamlegum veikindum í auknum mæli. Aðstandendur þurfa mikinn stuðning frá sínum nánustu og ekki síður frá sérfræðingum.
forvarnir og fræðsla | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forvarnarstarf fyrir börn og ungling
3.10.2010 | 20:46
TST
Tómstundir - Sjálfstyrking - Tónlist
Er barna og unglingastarf Lífsýn fyrir börn og ungling 6-16 ára og eru hóparnir okkar aldursskiptir þar sem við tvinnum saman tómstundir, sjálfstyrkingu og Tónlist.
Stefna okkar með þessu starfi er að efla stjálfstraust barna og ungmenna. Byggja þannig upp sterka forvörn fyrir framtíðina.
Leiðarljós TST
Við virðum stundvísi
Við virðum hvort annað og sýnum góða framkomu
Við reykjum ekki né neitum annarra vímuefna
Við erum snyrtileg til fara
Við tökum virkan þátt í starfinu
Með hugmynd okkar er áherslan lögð á að mæta einstaklingnum þar sem hann er og vinna út frá því í átt að betri lífsstefnu.
Við erum mjög sveigjanleg að þörfum hvers einsstaklings/hóp og munum aðlaga starfið að hópunum. Langar þig að spila á hljóðfæri, syngja, mála, dansa, föndra, búa til listaverk, hópeflisleikir, fræðsla, forvarnir ofl.
Eflum félagsleg tengsl og sýnum gagnkvæma virðingu.
Eflum sjálfstraust, sjálfsstjórn, samvinnu og tillitssemi.
Hvetjum til sjálfstæðra vinnubragða.
Hvetjum til þátttöku í félagsstörfum, tónlist, söng og öðrum tómstundum.
Bjóðum uppá fræðslu, umræður og forvarnir af ýmsu tagi.
Lífsýn fræðsla og forvarnir sími 771-4474
forvarnir og fræðsla | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)