Færsluflokkur: forvarnir og fræðsla

Neikvæð reynsla í æsku

Neikvæð reynsla í æsku

Rannsóknir benda til þess að þeim sem hafa orðið fyrir neikvæðri reynslu í æsku svo sem misnotkun, ofbeldi eða vanrækslu er mun hættara að fá alvarlega sjúkdóma síðar á ævinni en öðrum. Þeim mun alvarlegri sem þessi reynsla er þeim mun meiri líkur eru á sjúkdómum síðar á ævinni. Og þeim mun yngri sem einstaklingurinn er þeim mun alvarlegri áhrif hlýtur reynslan að hafa á tilveru hans. Við vitum að neikvæð reynsla í æsku hefur áhrif á heilsu okkar en við þurfum að rannsaka betur hvaða áhrif tiltekin reynsla hefur og hvernig.

Ég tel að til að geta náð þessu markmiði þurfum við að reyna að skilja einstaklinginn út frá allri reynslu hans og sögu. Það nægir ekki að rannsaka rafboð í heila barns til að draga ályktanir um hvaða áhrif tiltekin reynsla sem barnið hefur í gegnum hefur haft. Börn sem alast upp við erfiðar aðstæður, svo sem misnotkun, ofbeldi eða þurfa að horfa á aðra beitta ofbeldi oft búa við algert virðingarleysi. Þau kunni því hvorki að bera virðingu fyrir sjálfum sér né að krefjast þess að aðrir beri virðingu fyrir sjálfum sér þegar þau vaxa úr grasi.

Þannig eiga þessir einstaklingar oft erfiðara með að setja mörk, gangvart sjálfum sér og öðrum. Þetta getur leitt til hegðunar sem ber þessu virðingarleysi glögglega merki og er oft kölluð áhættuhegðun. Þess konar hegðun einkennast af misnotkun áfengis eða vímuefna eða glæfralegri hegðun í kynferðismálum. Þetta getur síðar leitt til sjúkdóma, slysa og ótímabærs dauða viðkomandi og getur því að mínu mati verið kallað sjálfseyðandi hegðun.

Niðurstöðurnar súna meðal annars fram á að sambandið milli neikvæðrar reynslu á æskuárum og sjálfsmorðs er afar sterkt og að því verri sem reynsla fólks er í uppvextinum því meiri líkur er að sjálfsmorð verði reynt. Ef við yfirfærum niðurstöður þessara rannsóknar yfir á Bandaríkin öll þá getum við ályktað sem svo að um 80% sjálfsmorða í Bandaríkjunum megi rekja til neikvæðrar reynslu í æsku.


Börn alkóhólista

Barnið í fjölskyldu alkóhólista!

Í bók sinni "Börn alkóhólista - hin gleymdu börn", sem kom út á íslensku
árið 1979, segir R. Margaret Cork frá könnun sem hún gerði á 115 10-16 ára börnum alkóhólista. Hún lýsir þar m.a. aðstæðum og líðan barnanna
og byggir á viðtölum við börnin. Hér á eftir er stuðst við frásögn hennar.

"Ég fer ekkert með vinum mínum og foreldrum þeirra af því að ég get aldrei farið neitt með þá í staðinn"
Flest barnanna í könnun Cork sögðust eiga leikfélaga og kunningja en aðeins fá sögðust eiga svo góða vini að þeim fyndist þeir geta sagt þeim allt af létta um fjölskylduhagi sína. Flest börn frá venjulegum fjölskyldum eiga a.m.k. einn vin svo náinn að þeir geta sagt honum hvað sem er, m.a. frá vanköntum foreldra sinna. Börn alkóhólista reyna aftur á móti að leyna framferði foreldra sinna fyrir öllum öðrum börnum. Þess vegna er vinátta þeirra ekki eins einlæg og hún hefði annars getað verið og mörg bamanna sögðu að þeim liði illa með félögum sínum af þeirri ástæðu. Mörg þeirra eru hreinlega vinalaus alla ævi.

Börnin koma yfirleitt ekki með félaga sína heim af ótta við að þeir verði vitni að drykkju foreldris síns eða rifrildi. Sum sögðu frá því að vinir þeirra hefðu orðið fyrir móðgunum heima hjá sér. Mörgum barnanna fannst þau undirstrika sérstöðu sína með því að vera öllum stundum inni á heimilum vina sinna og kusu því frekar að leika sér á götunni.

Mörg barnanna höfðu engan tíma til að leika sér eða vera með félögum þar sem þau þurftu að sinna heimilisstörfum af einhverju tagi eða fengu einfaldlega ekki að vera með öðrum börnum. Á heimilum þar sem aðeins er eitt foreldri hvílir þetta ennþá þyngra á börnunum.

Af þessu má sjá að á því tímabili ævinnar þegar flest börn eru að mynda og styrkja vináttu við aðra virðast samskipti barnanna í könnun Cork einkennast af öryggisleysi, hræðslu og vantrausti. Einmitt á því skeiði, sem þeim er nauðsynlegast að öðlast viðurkenningu annarra, fóru þau á mis við hana. Þau lærðu að vera á varðbergi gagnvart öðrum og halda aftur af eðlilegri tjáningu og kærleika. Í lífi flestra þessara barna var lítið um félagsskap, sem sérfræðingar álíta svo nauðsynlegan fyrir heilbrigðan þroska og grundvöll fyrir farsælli vináttu síðar á lífsleiðinni.

"Allir heima eru alltaf reiðir"

Samskipti systkina einkenndust af spennu og töluverðri samkeppni, ekki samkeppni eins og hjá venjulegum fjölskyldum, heldur fremur baráttu. Þessu fylgdu rifrildi meira en gengur og gerist á milli systkina. Eldri systkini voru oft í "foreldrahlutverki" gagnvart þeim yngri sem þoldu það illa. Hjá eldri börnunum var jafnvel um að ræða þörf fyrir að ráða yfir þeim yngri sem e.t.v. stafar af árásarhneigð eða mótlæti.

Eldri börnin voru viðkvæmari en eðlilegt mátti teljast fyrir því hvort foreldrarnir tækju þau yngri fram yfir þau sjálf og töluðu um að foreldrunum þætti aðeins vænt um yngri börnin.

Barn eða börn sem eru "í miðið", þ.e. eiga bæði eldri og yngri systkini, eru oft einangruð en þau börn í fjölskyldum alkóhólista líða ennþá meira fyrir það. Mörg þeirra sögðust alltaf vera nauðbeygð til að halda með öðru hvoru foreldrinu og fannst þetta stuðla að því að systkinin fjarlægðust hvort annað.

Af þessu má sjá að ágreiningur og ósamheldni milli systkina er óeðlilega mikill. Þau sýna hvort öðru sjaldan hlýju og ástúð. Þess í stað gætti ófriðar og gremju sem var enn tilfinnanlegri fyrir þær sakir að börnin áttu ekki vini og neyddust því til að umgangast hvert annað þrátt fyrir að þau virtust ekki hafa af því nokkra ánægju.

"Allan skóladaginn hef ég áhyggjur af því hvernig ástandið muni vera þegar ég kem heim"
Mörgum yngri börnunum þótti gaman í skólanum og stóðu sig tiltölulega vel. Þetta virtist ekki fyrst og fremst vera vegna áhuga á náminu heldur frekar vegna þess að í skólanum var ró og næði. Ekki voru þó öll börnin sama sinnis. Sum sögðust eiga erfitt með að einbeita sér við námið. Einkum voru það "miðbörnin" sem áttu í erfiðleikum og varð það til að auka enn á vanmátt þeirra. Kennarar eiga erfitt með að nálgast börnin og stundum er eins og þau heyri ekki hvað við þau er sagt. Þá dregur það úr möguleikum kennara til að koma börnunum til hjálpar að fæstir þeirra þekkja helstu einkenni í fari og hegðun barna alkóhólista.

Metnaður eldri barnanna gagnvart skóla og námi var yfirleitt lítill. Sum töldu sig alls ekki geta lært vegna aðstæðna heima fyrir og önnur misstu áhuga á skólanum af því að þeim fannst þörf á að fara að vinna til að hjálpa til fjárhagslega. Skólinn var því aðeins eitthvað sem þau urðu að sætta sig við.

"Allir krakkarnir í skólanum tala um hvað það er gaman að vera með fjölskyldu sinni. Þá finnst mér ég vera útundan"
Bömin báru heimili sín saman við heimili annarra barna þar sem foreldramir léku við bömin eða sinntu þeim. Flest þeirra sögðu að heima væri ekkert tækifæri til að hafa gaman af neinu. "Ef við förum í einhvern leik við pabba verður hann alltaf að vinna annars verður hann vondur", sagði eitt barnið. Af þessu er ljóst að börnin höfðu fá tækifæri til glens og gamans, sem er þeim svo nauðsynlegt.

"Mér líður ver af því að ég á engin systkini"
Tengsl barna við foreldra kunna að hafa þýðingarmeiri áhrif á þroska þeirra heldur en tengsl við systkini, en því er samt haldið fram að það hjálpi börnum að semja sig að öðru fólki og þroska persónuleikann þegar önnur börn eru innan fjölskyldunnar.

Einbirni í drykkjusjúkri fjölskyldu finnur sérstaklega mikið til einangrunar. Einsamalt verður það að horfa upp á foreldra sína drekka og rífast. Það hefur engan innan fjölskyldunnar, sem það getur rætt um tilfinningar sínar við, né neinn sem það getur látið reiði sína bitna á. Börnin töluðu einnig um að þau væru alltaf á milli foreldranna og vissu ekki með hvoru þau ættu að standa. Einkabarn er venjulega eigingjarnara en barn úr systkinahópi og er líklegt að þessi skapgerðareinkenni aukist enn á heimilum drykkjusjúkra.

"Ég get tekið því þegar annað þeirra drekkur en þegar þau byrja bæði þá verð ég hræddur"
Börn foreldra, sem báðir eru drykkjusjúkir, eiga við sérstök vandamál að stríða. Foreldrarnir skiptast á svo að aldrei er hlé. Mörgum börnum, sem búa við þetta, finnst þau vera hlaðin ábyrgð. Þau geta yfir höfuð engu treyst því að sjaldan kemur fyrir að báðir foreldrar séu allsgáðir.

"Það gengur betur þegar pabbi er farinn í burtu en mamma virðist einmana. Mér þætti gaman að vita hvernig pabba gengur einum"
Flestum börnunum, sem áttu foreldra sem bjuggu ekki saman, fannst ganga heldur betur þegar hinn drykkjusjúki var farinn að heiman. Foreldrið, sem eftir var, róaðist við það og sinnti börnunum betur.

Mörg barnanna óttuðust stöðugt að til skilnaðar kæmi hjá foreldrunum og báru því m.a. við að þau vissu ekki hjá voru þeirra þau ættu að vera og sögðu t.d. að einhver yrði að vera hjá því foreldrinum sem færi.

"Hvernig getur maður orðið fullorðinn þegar þau koma alltaf fram við mann eins og smábarn"
Venjulegu barni eru unglingsárin skeið mikilla líkamlegra, andlegra og tilfinningalegra breytinga. Á því tímabili eflist barátta barnsins til að verða sjálfstæð persóna og liður í því er að komast undan áhrifum foreldra sinna. Það fer að uppgötva ýmsa eiginleika sína og öðlast nýtt sjálfsmat. Það fer að taka ýmsar afdrifaríkar ákvarðanir sjálft og reynir að ná sem mestu valdi á umhverfi sínu. Þessu fylgja að sjálfsögðu ýmis vandamál og vonbrigði en smám saman lærir það að standast mótlætið og getur sætt sig við að þurfa að bíða eftir því að fá umbun gerða sinna. Það kynnist heiminum í víðara samhengi en fyrr og tekur á sig nýjar skyldur. Þá fara ýmsar væntingar til lífsins og framtíðarinnar að mótast og metnaður fer að þróast.

Á unglingsárunum erum við ákaflega móttækileg fyrir nýjum hugmyndum og verðum gagnrýnin á þær gömlu. Þessu kynnast foreldrar vel. Unglingurinn lærir nýjar leiðir til að verja frístundum sínum. Hann fær áhuga á gagnstæða kyninu og fer að treysta meira á félagana en foreldrana. Hann tekst á við ný líffræðileg, tilfinningaleg og félagsleg viðfangsefni, leggur nýtt mat á hlutina og myndar sér lífsskoðun.

Unglingsárunum fylgja margs konar flækjur, kvíði og öryggisleysi. Skapferli unglings er mjög breytilegt. Stundum vill hann helst vera einn með dagdrauma sína um framtíðina á sama tíma og hann hefur þörf fyrir að tilheyra bæði fjölskyldu sinni og hópi jafnaldra. Hann getur reiðst ef fundið er að við hann og orðið hræddur ef honum er hafnað. Hann getur gagnrýnt opinskátt sitt eigið heimili og foreldra og borið saman við aðra foreldra og heimili á kostnað síns eigin. Ef samskipti hans við foreldrana hafa verið góð á fyrri árum þá bera flestir unglingar þó traust til foreldra sinna og vitneskjan um að þeim þyki vænt um þá hjálpar unglingunum þessi erfiðu ár. Þegar allt kemur til alls þykir unglingum vænt um foreldra sína og myndu ekki vilja skipta á fjölskyldu sinni og nokkurri annarri.

Það er því ljóst að foreldrar eiga mikinn þátt í því hvernig börnum tekst að komast í gegnum unglingsárin. Foreldrar verða alltaf fyrirmynd hvort sem þeir kæra sig um eða ekki. Meðan barnið er að þroskast og verða sjálfstæðara verður það að finna að það fái fullan stuðning foreldra sinna.

Þessar aðstæður eru fjarri börnum alkóhólista. Þeim finnst oft að þau séu byrði á foreldrunum og séu þeim einskis virði nema til að ráðskast með. Í eftirfarandi orðum barnasálfræðingsins A.T. Jersild felst mikil viðvörun: fjöldi barna og unglinga, sem ekki njóta umhyggju og eru vanrækt af foreldrum sínum, eiga mjög erfitt nema þeir finni einhvern sem kemur í stað foreldra eða njóti umhyggju og kærleiks utan heimilisins. Flest börn sem verða fyrir þessu geta ekki á eðlilegan hátt komist í gegnum unglingsárin til fullorðinsára. Iðulega festast þau svo rækilega í ákveðinni hegðun, sem tilheyrir síðbernskuskeiði, að þau vaxa aldrei upp úr því.


Að viðbættum erfiðleikum heima fyrir verða börn alkóhólista oft fyrir mótlæti í skólanum. Mörgum finnst þau ekki vera gædd námshæfileikum. Fjölskyldur drykkjusjúkra flytja oft búferlum og verða unglingarnir því oft að aðlagast nýjum skóla, nýjum bekkjarsystkinum og nýjum nágrönnum á þeim tíma sem þau þurfa á festu að halda.

Börn alkóhólista hafa væntingar og dreymir um framtíðina eins og önnur börn. Þau eru hins vegar vön því að óskum og draumum sé skotið á frest og læra smám saman að draumar rætast sjaldnast. Því miður hafa þau lítið tækifæri til að láta drauma sína rætast án þess að fá hjálp til þess. Flest börnin í könnun Cork höfðu lítinn metnað og lifðu frá degi til dags. Þau virtust full vonleysis um framtíðina. Sagt er að vonin sé dýrmætasti þáttur í lífi allra manna en fyrir unglinga er vonin sérstaklega mikilvæg.

Fá barnanna voru meðlimir í félögum eða samtökum sem bjóða upp á viðfangsefni sem víkka sjóndeildarhring unglinga. Mjög fá fengust við skapandi viðfangsefni, eins og leiklist, listmálun eða hljóðfæraleik og tóku lítinn þátt í íþróttum. Þau höfðu fengið sig fullsödd af ábyrgð og vildu komast sem mest hjá henni.

Það er algengt að þrjóska og fjandskapur komi fram hjá unglingum gagnvart foreldrum sínum en hjá börnum alkóhólista kemur þetta fram miklu fyrr en hjá öðrum bömum. Flest þeirra hafa neikvæðar tilfinningar gagnvart foreldrum sínum þegar þau fara að hafa vit á drykkjuvandamálum heimilisins.

"Barn getur verið líkamlega of lítið til að skerast í leikinn en þó nógu þroskað til að finna vanmátt sinn"
Það er sérstaklega erfitt fyrir ungling að horfa upp á að móður hans sé hótað eða hún beitt líkamlegu ofbeldi. Barn getur verið líkamlega of lítið til að skerast í leikinn en þó nógu þroskað til að finna vanmátt sinn. Það veit ekki hverjar skyldur þess eru og á í innri baráttu. Líklegt er að barnið verði biturt, óákveðið og fullt haturs á foreldrum sínum eða allri fjölskyldunni.

Af því sem sagt hefur verið hér á undan má gera ráð fyrir að börn alkóhólista gangi út í lífið óöruggari og hafi minna traust á sjálfum sér og öðrum en börn frá venjulegum heimilum. Viðhorf þeirra til lífsins er afskræmt sökum áhrifa frá foreldrunum. Sem dæmi eru viðbrögð gagnvart yfirvöldum; ef skortir á traust og ef foreldrar beita valdi á óviturlegan hátt verður barnið andsnúið yfirráðum hvers konar sem endist því til fullorðinsáranna. Gremja gagnvart yfirvaldi eða vanhæfni til að sætta sig við það er samkvæmt rannsóknum eitt af aðalskapgerðareinkennum fullorðins drykkjusjúklings.

Börnin í könnun Cork höfðu auðsjáanlega svo mörg vandamál við að stríða að þau höfðu lítið þol eftir til að skilja eða takast á við tilfinningalega erfiðleika sína og það var enginn í þeirra umhverfi til að hjálpa þeim. Aðeins fá þeirra töluðu um náið samband við fullorðið fólk utan fjölskyldu þeirra eða að þau hefðu nokkurn til að tala við í trúnaði. Flest virtust halda að fullorðið fólk mundi ekki hafa skilning á vandamálum þeirra. Af því að þau fundu engan grundvöll fyrir því að treysta foreldrum sínum héldu þau að fullorðnu fólki væri yfirleitt ekki treystandi. Í öllu falli voru þau treg til að tala um erfiðleika sína við fólk utan fjölskyldunnar og venjulega fengu þau skammir fyrir það hjá því foreldri sem ekki var drykkjusjúkt.

Þessi einangrun er sérstaklega mikilvæg þar sem við vitum hve nauðsynlegt er fyrir barn frá fjölskyldu, sem er sneydd fjölskylduböndum, að hafa sterk jákvæð tengsl og samband við annað fullorðið fólk svo sem skilningsríkan kennara eða umhyggjusaman ættingja, sem gæti látið í té eitthvað af þeirri hlýju sem það þarfnast. Slík reynsla er mikilvæg fyrir barnið ef hjálpa á því við að ráða fram úr vandamálum þess. Án hennar er líklegt að barnið byrgi þau inni eða láti þau í Ijós í andfélagslegu atferli. Það er einnig líklegt að það ali með sér haturstilfinningu gagnvart foreldrum og öllum öðrum í umhverfi sínu. Það getur jafnvel verið sannfært um að allur heimurinn sé fjandsamlegur og ógnvekjandi.


Víman er ekki töff

Hvernig stendur á því að íslenskir unglingar sækjast eftir vímu og eiturlyfjum? Höfum við nokkurn tíma velt því fyrir okkur í alvöru af hverju við, þegar við erum ung, viljum sækjast eftir því að komast í annarlegt ástand - og þar með að verða í raun öðru vísi en okkur er eiginlegt?

Við vitum að það er ungu fólki eiginlegt að vilja prófa sig áfram, fara sínar eigin leiðir, taka með fyrirvara það sem fullorðna fólkið segir, og umfram allt skella skollaeyrum við hvers konar predikunum. Og líta þá gjarnan á viðvaranir sem predikanir og tuð.

Ég ætla samt að biðja ykkur að lesa áfram.

Ég á við ykkur erindi sem mér finnst brýnt.

Vímuefni breyta okkur

Þótt ég skilji vel löngun til þess að prófa eitthvað nýtt og reyna sjálfur að átta sig á mörkum þess sem er hættulegt, þá eru samt til þau fyrirbæri sem eru einfaldlega of hættuleg. Fíkniefni, eiturlyf, eru af þessu tagi, og áfengi sömuleiðis, í mörgum tilvikum að minnsta kosti. Vímuefni breyta okkur. Víman sljóvgar okkur, svæfir dómgreind og fær okkur til að gera eitt og annað sem við myndum ekki gera allsgáð. Og ekki einungis vímuefni, þótt þau séu hættulegust. Þegar ég byrjaði að reykja 15 ára gamall, þá vissi ég ekki hversu skaðlegar reykingar eru. En nú vita þetta allir. Sá sem byrjar að reykja í dag, veit að hann er að skaða heilsu sína, fækka ævidögum sínum. Af hverju þá að byrja? Er það af því að dauðinn er okkur svo fjarlægur þegar við erum ung?

Við byrjum ekki að nota vímuefni af því að við höfum þörf fyrir þau. Þörfin verður fyrst til við notkun. Víman kann að skapa ákveðna vellíðan, og við sjáum engan skaða í því. Þetta er bara gaman. En stundum fer gamanið af, og alvaran sem fylgir getur orðið skelfileg.

Það ætlar sér enginn að verða ósjálfbjarga eiturlyfjafíkill, sem hefur misst alla stjórn á lífi sínu. Það byrjar enginn á því að sprauta amfetamíni, kókaíni eða heróíni í æð. Þetta gerist stig af stigi, stundum hægt, stundum fljótar. Fyrirfram veit enginn hvernig fara muni. Sem betur fer átta sig ýmsir áður en það er um seinan og snúa við, grípa í taumana, hætta. Þeir eru heppnir og mega vera þakklátir raunsæi sínu og veruleikaskyni. Aðrir eru ekki eins heppnir. Ég tala af ákveðinni og sárri reynslu.

Sonur minn ánetjaðist ungur eiturlyfjum. Það hefur kostað hann meira en 20 ára þrældóm og óhamingju, og alvarlega sköddun. Ég veit ekki hvort til eru mörg verri hlutskipti en að lenda í þvílíkum hremmingum. Um þá löngu sögu höfum við skrifað tvær bækur, Ekkert mál og Eftirmál.

Fyrsta skrefið

Sá sem byrjar að fikta við fíkniefni stígur örlagaríkt skref, sem hann veit ekki hvert muni leiða hann. Þetta fyrsta skref byrjar nefnilega strax að breyta honum, þótt hann geri sér ekki grein fyrir því sjálfur, enda mun honum tæpast finnast það mikilsvert. Sá sem neytir fíkniefna í fyrsta sinn mun varla játa það fyrir fjölskyldu sinni. Þar með er hann farinn að fela hluta af sjálfum sér fyrir öðrum. Ef slíkt er borið upp á hann, mun hann trúlega neita. Þar með er hann farinn að ljúga að öðrum.

Ef hann heldur áfram, mun hann finna sjálfur að ekki er allt sem skyldi, en hann mun samt réttlæta það fyrir sjálfum sér. "Þetta er ekki svo slæmt. Ég hef alveg vald á þessu. Ég get hætt ef ég vil." Þar með er hann farinn að ljúga að sjálfum sér. Og þar með er hann ekki lengur heill, heldur klofinn. Hann sýnir öðrum hluta af sjálfum sér en felur annan hluta fyrir öðrum - og fyrir sjálfum sér. Sjálfsblekkingin er komin til sögunnar, og hún er ötull fylgismaður þess sjúkdóms sem nú er að byrja að herja á unglinginn.

 

Inn fyrir ósýnileg landamæri

Ef unglingurinn heldur enn áfram að nota fíkniefni, breytist fiktið í alvöru og um leið koma til sögunnar aðrar breytingar. Þegar áhrif efnanna hverfa, taka við fráhvarfseinkenni sem valda mikilli vanlíðan, og líkaminn heimtar meiri efni. Þessi vanlíðan er svo mikil að hún yfirskyggir allt. Viljinn ræður ekki við hana. Þar með rennur upp örlagastund sem breytir öllu. Það verður að ná í meiri efni.

Sá sem býður unglingi fíkniefni er að skaða hann. Sumir eiturlyfjasalar hafa ánetjaða unglinga á sínum snærum til að bjóða öðrum og festa þannig í net sitt. Þegar fráhvörfin eru orðin óbærileg, er unglingurinn flæktur í netinu. Hann er kominn inn fyrir landamæri sem sjást ekki utan að. En innan frá rísa þau eins og ókleifur veggur, eins konar fangelsismúrar.

Nú er allt breytt. Tímaskynið breytist. Markmiðið verður að ná í efni, hvað sem það kostar. Lengra er ekki hugsað. Regluleg neysla kostar mikla peninga. Hvernig á að afla þeirra? Oftast er fyrst farið að stela frá mömmu og pabba. En það hrekkur skammt og kemst áreiðanlega upp. Örvæntingin eykst, og þar með örþrifaráð. Nú breytist siðferðiskenndin. Þá fer unglingurinn að gera það sem hann hefði aldrei áður látið sér detta í hug, hvað þá meir.

Það verður að ná í peninga til að ná í efni. Nú er engum gefið neitt. Unglingurinn er orðinn skaddaður á líkama og sál. Það sem byrjaði sem saklaust fikt og skemmtun er orðin skelfileg kvöl. Kvölin er deyfð með vímu, víman kallar fram fráhvörf, fráhvörfin heimta meiri efni. Vítahringnum er lokað. Það er ekki auðvelt að komast aftur út úr honum til eðlilegs lífs á ný.

Enginn á líf sitt einn

Eiturlyfjasjúklingurinn skaðar ekki aðeins sjálfan sig. Enginn á líf sitt einn, það tengist einnig öðrum. Sjúkdómur unglingsins mun einnig bitna á fjölskyldu hans og valda mikilli sorg og vanlíðan nánustu ættmenna. Það er ekki viljandi gert, en hjá því verður ekki komist. Nema með aðgát. Þess vegna bið ég íslenska unglinga að hafa sérstaka aðgát. Látið ekki leiða ykkur afvega með gylliboðum. Þeir félagar ykkar sem vilja að þið takið þátt í fíkniefnafikti, eru ekki vinir ykkar.

Þá ber að forðast. Það eru ekki þeir sem eiga að útiloka ykkur, þið eigið að útiloka þá. Það er ekki töff að reykja hass og gleypa e-töflur. Það er ekki töff að sprauta sig með eitri. Það er aumkunarvert og sorglegt. Til þess er lífið of dýrmætt. Til þess er kærleikur ykkar nánustu of dýrmætur. Njótið þess kærleika og njótið lífsins. Forðist það sem er andstætt lífinu.

Munið að það er á ykkar valdi að sigrast á vímuefnavandanum. Ef þið hafnið vímuefnum, verða þau brátt úr sögunni. Það yrði ykkur mikill og veglegur sigur, og allrar þjóðarinnar. Þið getið bjargað henni frá þessum skelfilega vanda.

Verið sönn og heil. Gæfan fylgi ykkur.

 

Þessi grein er eftir Njörð P. Njarðvík


Áfengisneysla sem vandamál

Áfengisneysla sem vandamál

Skilningur á umfangi og eðli vandamál vegna neyslu áfengis fer eftir því hvaða mælikvarðar eru notaðir. Mælikvarði alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er heilsutjón vegna áfengisneyslu og þann mælikvarða miða flestar þjóðir við a.m.k. vestrænar.

Annar mælikvarði á vandamál vegna neyslu áfengis eru félagsleg vandamál t.d. upplausn fjölskyldna atvinnumissir o.s.frv. Í reynd skarast þessir mælikvarðar mjög mikið og því erfitt að flokka vandmál vegna áfengisneyslu annað hvort sem hrein heilbrigðisvandamál eða á hinn bóginn sem hrein félagsleg vandamá. Þá vefjast einnig fyrir nákvæmar skilgreiningar á því hvað teljist vera heilbrigðisvandamál og hvað ekki. Skilgreining WHO á hugtakinu heilbrigði er sú sem stuðst er við en er þó svo rúm að hún leyfir töluverðan meiningarmun. Þar segir að heilbrigði sé ,,fullkomið líkamlegt, andlegt og félagslegt velferli en ekki einungis firrð sjúkdóma og vanheilsu”.

Þessi skilgreining rúmar því nánast allt sem við kemur vellíðan og velferð mannskepnunnar. Skilningur okkar á heilbrigði verður þó ávallt að taka mið af líffræðilegum möguleikum og ýmsum skilyrðum náttúrunnar. Þannig má reikna með því að t.d. sjötugur einstaklingur hafi verri sjón og heyrn en tvítugur en geti engu að síður talist heilbrigður.En hvað sem líður nákvæmri skilgreiningu á hugtakinu heilbrigði er nú orðið almennur skilningur á því að hafa má áhrif á heilbrigði einstaklinga, hópa og þjóða með ýmsum hætti. Almennt er nú viðurkennt að mataræði, líkamsþjálfun, notkun ýmissa efna og lífsviðhorf getur haft mikil áhrif á heilbrigði, bæði til þess að komast hjá sjúkdómnum.

Í þessu ljósi er nú almennur skilningur ríkjandi á áhrifum áfengis á heilbrigði þó að margt sé vitaskuld enn óljóst. Sú niðurstaða WHO að því minni sem heildarneysla áfengis sé hjá þjóðum þeim mun minna sé umfang vandamála tengdra neyslunni, á almennu fylgi að fagna meðal stjórnvalda í heiminum.Því hafa stjórnvöld margra ríkja samþykkt stefnumörkun sem miðar að því að draga úr neyslu áfengis meðal þegnanna. Framkvæmd slíkrar stefnu hefur að vísu oft verið býsna skrykkjótt meðal annars vegna fjárhagslegrar hagsmuna framleiðenda og seljanda áfengis sem beitt hafa þrýstingi til þess að tryggja vöru sinni leið að neytendum.

Tilraunir hafa verið gerðar víða um heim til þess að meta vandamál eða öllu heldur kostnað þjóðfélagsins vegna áfengisneyslu.Eina heildartilraunin sem gerð hefur verið til þess hér á landi var gerð af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands 1991. Í Svíþjóð hafa verið gerðar slíkar rannsóknir sem sýna mun hærri þjóðfélagslegan kostnað en til að mynda athugun Hagfræðistofnunar. Munurinn felst einkum í aðferðafræðilegum mun við útreikninga og því að framleiðslukostnaður áfengis er reiknaður með í Sænsku rannsóknunum, sem og þeirri staðreynd að áfengisneysla Svía er meiri en Íslendinga.

Í mati sem gert var í Kanada árið 1981 og í Bretlandi árið 1987 voru kostnaðartölur aftur á móti lægri en þær íslensku. Margar skýringar má finna á þessum mun en verða ekki raktar hér.

Birt með leyfi höfundar
Höfundur er Árni Einarsson
  


Fullorðin börn alkóhólista

Fullorðin börn alkóhólista
- fengum aldrei tækifæri til að njóta.
1986 voru stofnuð samtökin Fullorðin börn alkóhólista (FBA) hér á landi. Tilvist þeirra hefur ekki farið hátt en það segir ekki allt um starfið og árangur þess. Til þess að kynnast dálítið þessum samtökum og starfi þeirra fengum við tvær konur, sem þekkja þau vel, til að upplýsa okkur um þau. Þær óskuðu báðar eftir því að nöfn þeirra kæmu ekki fram og því skýrum við þær upp okkur til hægðarauka með nöfnum sem hafa enga skírskotun til þeirra eiginlegu nafna.

Köllum aðra Björgu. Hún er búin að vera gift alkóhólista í fjórtán ár og er barnlaus. Maður hennar er búinn að vera óvirkur alkóhólisti í átta ár. Hún er barn alkóhólista en ekki alkóhólisti sjálf.

Köllum hina Önnu. Hún er líka barn alkóhólista en drykkjan var vandlega falin í fjölskyldunni. Hún er gift og á þrjú börn.

En látum þær stöllur hafa orðið.

BJÖRG: Samtökin Fullorðin börn alkóhólista voru stofnuð 3. september 1986. Fyrsti fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 11.

ANNA: Aðdragandi stofnunar þeirra var sá að fólk sem hafði starfað í AA og AI-Anon sameinaðist um stofnun sérstaks félags fyrir fullorðin börn alkóhólista.

BJÖRG: Það vantaði samkenndina við það að vera fullorðið barn. Þegar ég var búin að vera í Al-Anon þá fór ég að hugsa meira um mína bernsku og fann að það vantaði einhvers konar samtök fyrir þá, sem alast upp við alkóhólisma, en búa ekki lengur við það ástand. Ég hafði heyrt af slíkum samtökum í Bandaríkjunum og að þau væru mjög öflug. Vinur minn færði mér síðan ýmis gögn þaðan. Sumt af því var þýtt og gefið út hér. Eftir það var stofnuð deild og var mikil gróska þegar við fórum af stað. Deildunum hefur fækkað nokkuð síðan þá en starfið er samt mikið. Núna eru starfandi þrjár deildir í Reykjavík og deild á Akureyri. Það hafa einnig verið deildir víðar úti um land.

ANNA: Deildirnar eru sjálfshjálparhópar, sambærilegir við AA og AI-Anon, og byggjast á tólf reynslusporum og tólf erfðavenjum. Hver deild er sjálfstæð nema í málum sem varða samtökin í heild. Þjónustunefnd er skipuð tveimur einstaklingum, sem sjá um að halda utan um fundina í u.þ.b. einn mánuð í senn. Samstarfsnefnd kemur saman einu sinni í mánuði og samhæfir innra starf og annast útgáfu. Í henni sitja tveir fulltrúar frá hverri deild, en annars er hún opin öllum sem vilja starfa í henni.

BJÖRG: Þessi samtök, FBA, eru mjög öflug t.d. í Bandaríkjunum og starfandi víða um heim. Við tilheyrum því alheimssamtökum. Þaðan fáum við upplýsingar um hvað er að gerast. Í Bandaríkjunum koma mánaðarlega út tímarit og bækur, sem mikið er til af.

Samtökin eru ekki aðeins ætluð börnum alkóhólista heldur einnig fullorðnum börnum, sem koma úr tilfinningalega vanhæfum fjölskyldum. Allt okkar starf byggist á því sem felst í orðunum: Talaðu, treystu og finndu. Við höfum lært það í uppeldinu að tala ekki, treysta ekki öðrum og bæla tilfinningar okkar þannig að sjálfsmynd okkar er oft mjög skert og við höfum lært að lifa í hlutverkum. Á þessu erum við að reyna að sigrast á fundunum; að tala um okkur sjálf, treysta öðrum og leyfa okkur að hafa tilfinningar...

ANNA: ... og deila tilfinningum með öðru fólki og upplifa að það er í lagi. Það er nýtt fyrir okkur, sem höfum alist upp við rugluð skilaboð og þögn, að það skuli vera til fullt af fólki sem líður eins. Þetta er fyrst og fremst tilfinningavinna, losa um reiði, losa um höfnun...

BJÖRG: ...og gangast við barninu í sér sem er megin lykillinn. Við erum svo hrædd við tilfinningar okkar, ekki síst þegar kemur að tilfinningum sem við erum búin að segja okkur sjálfum lengi að séu ekki í lagi. Með því að tjá okkur á fundunum kemur bernskureynslan fram og tilfinningar sem við höfum bælt. Við það verða margir hræddir og treysta sér ekki til að halda áfram þessari sjálfsvinnu. En fari maður að tala, treysta og finna þá byggir maður upp sterkari sjálfsmynd og verður hæfari í samskiptum við aðra. Það eru samt engar kvaðir á fólk um að tala og tjá sig. Það er líka hægt að koma og hlusta. Það er enginn sem pressar þig til eins eða neins. Allt sem þú gerir á fundunum er á þína eigin ábyrgð. Þú getur treyst því að fullur trúnaður og alger nafnleynd ríki.

Á fundum FBA liggja frammi ýmsar upplýsingar sem fólk getur tekið með sér heim og kynnt sér bæði um félagsskapinn og ýmislegt sem felst í því að vera fullorðið barn alkóhólista. Allir nýliðar fá bæklinginn "Leiðin til bata", sem er ætlað að hvetja fólk til að koma aftur á fund og taka á sínum málum.

ANNA: Ég vildi gjarnan að starfið væri öflugra. Mér finnst að við ættum að vera meira inni í SÁÁ kerfinu og að þar væri FBA sérfræðingur starfandi. Mér finnst líka að við ættum að tengjast heilbrigðiskerfinu þannig að fólk þar benti á okkur. Við höfum gert veggspjald sem við sendum til heilsugæslustöðva og skóla. Við fengum nokkra svörun við því. Um tíma kynntum við FBA á mánaðarlegum fundum á fjölskyldunámskeiðum SÁÁ, en það féll svo niður.

BJÖRG: Tilvist þessara samtaka erlendis a.m.k. hefur orðið til þess að það er farið að líta öðruvísi og breiðara á alkóhólismann. FBA hefur vakið fólk ofsalega mikið upp.

"Fullorðin börn alkhóhólista (FBA) eru samtök karla og kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa fæðst eða verið alin upp við heimilisaðstæður þar sem vímuefnaneysla var fyrir hendi. Þó um sé að ræða aðgreind samtök ættum við ævinlega að eiga samstarf við AA samtökin og AI-Anon."
 

Baráttan gegn fíkninni

Á Íslandi er lögð áhersla á baráttuna gegn fíkninni. Eiturlyf eru flest ólögleg og stefnu yfirvalda í verðlagningu áfengis og tóbaks er ætlað að koma í veg fyrir að einstaklingurinn verði fíkninni að bráð. Ein er þó sú fíkn sem þrífst í skjóli yfirvalda.Fjárhættuspil viðgangast í stórum mæli á Íslandi. Spilafíkn hefur ef til vill ekki sömu hrikalegu áhrifin á heilsu fólks og eiturlyfin en hún getur leitt til þess að fólk missir allt sitt, bæði eignir og fjölskyldu. Spilafíkn var skilgreind sem sjúkdómur í Bandaríkjunum árið 1980 og verið er að rannsaka hvort hægt sé að stjórna henni með lyfi sem tekið er inn daglega.


Á Íslandi er hins vegar ekki sama viðhorfið til spilafíknar og til dæmis áfengissýki. Hér er fjárhættuspil tekjulind ýmissa stofnana sem allajafna njóta mikillar virðingar í samfélaginu. Undir merkjum Íslandsspils reka SÁÁ, Rauði kross Íslands og Landsbjörg spilakassa um allt land og slíkt hið sama gerir Happdrætti Háskólans í þágu Háskóla Íslands. Yrðu ugglaust margir undrandi ef þessi samtök tækju upp á því að fjármagna reksturinn með sölu tóbaks eða áfengis.

Í umfjöllun Skapta Hallgrímssonar um spilafíkn í Morgunblaðinu í gær er rætt við Ólaf M. Ólafsson, sem tapaði öllum eigum sínum vegna þess að náinn venslamaður hans ánetjaðist spilafíkn. Ólafur lítur svo á að spilakassar á borð við þá sem Íslandsspil reka séu fjárhættuspil og starfsemin því bönnuð að landslögum. Ólafur bendir á að í 183. grein hegningarlaga segi að hver sá sem geri "sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim [skuli] sæta sektum...eða fangelsi allt að einu ári, ef miklar eru". Hann segir margar mótsagnir í núverandi kerfi. Til dæmis megi spila fjárhættuspilið 21 í spilakössum en ekki sé langt síðan menn voru dæmdir fyrir að láta spila 21 upp á peninga við borð og hann spyr hver munurinn sé.

Ekki er kyn þótt hann spyrji. Þræta má um það hvort peningaspilin séu fjárhættuspil en staðreyndirnar tala sínu máli. Sveinbjörn Kr. Þorkelsson, ráðgjafi á göngudeild Vogs, segir í grein Skapta að þess séu dæmi að spilafíklar á Íslandi eyði meira en einni milljón króna á mánuði í spil. 100 manns hafi verið í viðtalsmeðferð á deildinni vegna spilafíknar á þessu ári, en hann sé sannfærður um að spilafíklarnir séu miklu fleiri og bendir því til stuðnings á að í könnun, sem gerð var fyrir nokkrum árum, hafi 0,6% þjóðarinnar reynst spilafíklar og 0,7% átt í töluverðum vanda eða eitthvað á fjórða þúsund manns.

Það er ljóst að þetta fólk fær ekki stóra vinninginn. Hins vegar hefur komið fram á Alþingi að árið 2002 hafi hreinn hagnaður af söfnunarkössum og happdrættisvélum numið tæpum 1,4 milljörðum króna. Hagnaðist Íslandsspil um 940 milljónir og Happdrætti Háskólans um 450 milljónir. Það er ljóst að þessar stofnanir og samtök geta illa verið án slíkra fjárhæða en sú siðferðislega spurning er áleitin hvernig hægt er að réttlæta það að byggja rekstur þeirra á starfsemi sem getur lagt líf fólks í rúst. Í þjóðfélagi allsnægta hljóta að vera til aðrar leiðir til fjármagna slíka grundvallarstarfsemi.


Falin reiði !!

Falin reiði

Könnunarlisti fyrir einkenni falinnar gremju / reiði.
  1. Frestun á settum verkefnum og ábyrgð ýtt yfir á aðra
  2. Endurtekin og vanabundin óstundvísi og gleymska ákveðinna stefnumóta.
  3. Hneigð til að hafa ánægju af háði og kaldhæðnislegum aðhlátri á kostnað náungans.
  4. Fyrirlitningarháð, samúðarleysi eða útúrsnúningar í samræðum.
  5. Ofurkurteisi, stöðug gleðilæti, að grínast og umbera allt.
  6. Tíð andvörp
  7. Brosað í þjáningu.
  8. Tíðir truflandi og ógnvekjandi draumar.
  9. Óöguð röggsemi og raddblær.
  10. Erfiðleikar við að sofna eða að ná óslitnum svefni alla nóttina.
  11. Leiðindi, sinnuleysi, áhugaleysi um efni sem áður vöktu áhuga.
  12. Hreyfingar verða hægari.
  13. Þreyta sækir á af minna tilefni en venjulega og óþarfa skapstyggð gerir vart við sig útaf litlu.
  14. Syfju og svefnhöfgi sækja á, á öðrum tímum en vant er.
  15. Sofið er meir en venjulega – jafnvel 12-24 tíma á sólarhring, viðkomandi vaknar þreyttur fremur en hvíldur og endurnærðu taugaástandi.
  16. Samanbitnir kjálkar – sérstaklega í svefni.  Tönnunum bitið saman – einkum þegar sofið er.
  17. Andlitskippir, krampakenndar fótahreyfingar, vanabundin krepping hnefa, eða hnefanna og svipaðar endurteknar ómeðvitaðar líkamshreyfingar.
  18. Háls verður þrálátt stífur eða sár.
  19. Endurtekið þunglyndi – lengri tímabil þunglyndisástands án þekktra orsaka.

Áhrifavaldar

Áhrifavaldar
 

  Hvað stjórnar okkur? Það er stór spurning, það er margt sem hefur áhrif á okkur í lífinu. Hópþrýstingur er dæmi um mjög sterkt afl, ef við hleypum honum að, það getur verið erfitt að brjótast á móti straumnum. Hópþrýstingur snýst ekki bara um áfengi og reykingar hann getur birst í ótal myndum og verið býsna miskunnarlaus.Nú á tímum tækniþróunar eru margar leiðir til að nánast gera útaf við einstakling, með bloggi, sms-sendingum og gemsum svo eitthvað sé nefnt. Það er erfitt að neita því að vinir hafi áhrif á okkur, því öll höfum við hæfileikann til að aðlagast og í því fellst að við venjumst umhverfinu í kringum okkur og lögum okkur að öðrum.

Gott er að vera á verði, við sjálf verðum að hafa kveikt á perunni og grípa í taumana ef hópurinn í kringum okkur er  t.d. að verða of neikvæður eða of hrifinn af fíkniefnum. Þá er oft nauðsynlegt að skipta hreinlega um hóp! Þú ert það sem þú hugsar og ætlar, þú verður að því sem þú hugsar.Aðalmálið er: Að standa með sinni skoðun og ekki gera neitt sem maður er ekki sannfærð/ur um að sé rétt að gera.  Hætta er á að við gerum eitthvað bara til að þóknast öðrum. Það er ok að geta sagt það sem maður vill segja. samt má ekki gleyma að hópar geta líka verið til góðs og stuðlað að góðum verkum.

Góð og jákvæð sjálfsmynd hjálpar til að geta sagt nei þegar það á við. Það veitir ánægjutilfinningu sem er sæt og góð. Sjálfsmynd segir til um það álit sem þú hefur á sjálfum þér og sú sýn getur haft mikil áhrif á farsæld þína í lífinu.


Þegar nemandinn er reiðubúinn, þá birtist meistarinn.

Þegar nemandinn er reiðubúinn,

þá birtist meistarinn.

 Þegar ég er ekki reiðubúinn geta allir kennarar jarðarinnar birst.  Ég mun ekki heyra neitt, ekki læra neitt, ef ég ekki hef þá löngun sem þarf til að meðtaka boðskapinn.

Mjög margt er sameiginlegt með hinum ýmsu yoga aðferðunum til að ná vitundarsambandi við Æðri mátt og leiðum AA samtakanna.  Þetta á sérstaklega við um kennslumátann.  Í AA samtökunum eru engir sérstakir kennarar heldur gegna allir félagarnir þessu hlutverki og fellst kennslan aðallega í fordæminu.

 

Þegar grannt er skoðað, verður allt sem fram kemur á AA fundum annað hvort að leiðsögn eða viðvörun.  Þegar við förum að skynja þetta verður allt sem fram kemur á AA fundum til gagns.  Ekki eru heldur lagðar fram neinar sannannir á AA fundum, né nein próf tekin í fræðunum.  Prófsteinninn og sannanirnar felast í stöðu okkar og árangri til breytinga, sem tengist því hvað við náum að hlusta vel á fundunum og vinna úr því sem fram kemur. 

Hér er hollt að minnast ábendingar yogafræðanna; minnstu þess maður að þú fæddist einn og þú munt deyja einn, og eini vinurinn sem þú munt eignast á milli þessara tveggja áfangastaða er sá sem elskar þig nægilega mikið til að segja þér sannleikann um sjálfan þig.  Spurningin er hvort þú sért hæfur til að taka við honum.  Í AA samtökunum segja menn hver öðrum sannleikann hver um annan með því að segja hann um sjálfan sig. 

 


Að horfast í augu við fíknina

Að horfast í augu við fíknina er auðveldara en að

afneita henni.

 Foreldrar sem ég tala við, láta nær undantekningarlaust í ljós þá eðlilegu von að barnið sé bara að ,,fara í gegnum svona tímabil”, drykkjan sé bara afleiðing einhverskonar ,,unglingaveiki” allt frekar en að sjá að brjálsemin er bein afleiðing drykkju og vímuefnaneyslu.  Það er miklu einfaldara að vona að ástandið sé ,,bara tímabundið” þannig er hægt að afskrifa vandann og vona að hann líð hjá. Þegar foreldrar segja mér að nú sé barnið að taka sig á, neyslan sé nær engin og lífið gangi sinn vanagang þá hika ég alltaf andartak áður en ég minni þau á þá staðreynd að nítíu prósent tilfella er verið að eiga við sjúkdóm sem ekki ,,bara hverfur.”

Ég hika vegna þess að ég veit hver viðbrögðin verða.  Skilningsleysi og undrun endurspeglast í andlitinu og augun verða tárvot.  Móðirin lítur undan eitt, tvö andartök í ólýsanlegri skelfingu, síðan strýkur hún hendinni yfir andlitið, eins og til að bursta af sér þá hugmynd sem hverja aðra óværu.  Síðan skiptir hún um umræðuefni Ég veit að sem ráðgjafi, verð ég að benda foreldrum á allar staðreyndir málsins.  En ég finn innilega til með þeim. ,,þetta hefur verið nærri óbærilegt”  segja þau, ,,Hversvegna að minnast á þetta aftur?” Segi ég ekki frá staðreyndum er ég óheiðarlegur. 

Þegi ég stuðla ég að þeim falsvonum foreldranna að þar sem drykkjan liggi niðri núna komi hún ekki til með að taka sig upp seinna.  En í flestum tilfellum byrjar drykkjan aftur.  Ef ég læt sem allt verði í lagi og kem þar með þeirri ranghugmynd á framfæri verður afneitunin langvinnari og sársauki foreldranna enn meiri og lengri þegar alkóhólisminn skýtur upp kollinum á nýjan leik.          


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband